Íbúahreyfingin í Mosfellsbæ þakkar stuðninginn sem framboðið fékk í sveitarstjórnarkosningum. Einn fulltrúi er nú í bæjarstjórn og Íbúahreyfingin er annað stærsta stjórnmálaaflið í Mosfellsbæ, aðeins um mánuði eftir að stofnað var til framboðsins.
Það er athyglisvert að kjörsókn í Mosfellsbæ var aðeins 68% og að í raun kusu aðeins 31.45% kosningabærs fólks Sjálfstæðisflokkinn, sem nú fer með meirihlutavald í bæjarstjórn.
Varla er hægt að ímynda sér erfiðara hlutverk en að vera í hagsmunagæslu fyrir bæjarbúa undir þeim kringumstæðum sem þessi kosningaúrslit færðu okkur íbúunum. Það er þó verkefnið og því munum við sinna og vonandi með hjálp bæjarbúa.
Íbúahreyfingin lítur á það sem sitt helsta verkefni að virkja íbúa Mosfellsbæjar til þátttöku í mótun samfélagsins, með þau verkfræri sem við höfum, og býður alla sem áhuga hafa á lýðræðisumbótum, jafnrétti og jöfnuði til samstarfs.
Íbúahreyfingin mun beita sér fyrir lýðræðislegum stjórnarháttum og þar sem hinir flokkarnir lögðu líka áherslu á lýðræðisumbætur ættu að vera hæg heimatökin að fylgja því fast eftir.