Sent Mosfellsbæ, 26. apríl 2021

Efni: Umsögn um auglýsta tillögu að breytingu á deiliskipulagi við Bjarkarholt 4-5 í miðbæ Mosfellsbæjar og skort á forsendum slíkra breytinga, þ.e. sjálfu deiliskipulagi miðbæjarins.

Í dag [26. april] rann út frestur til að skila athugasemdum við tillögu að breytingu á deiliskipulagi við Bjarkarholt 4-5 í miðbæ Mosfellsbæjar. Á lóðinni stendur til að byggja þjónustuíbúðir fyrir aldraða og tengja þær við hjúkrunarheimilið Eir við Hlaðhamra.

Stjórn Íbúahreyfingarinnar telur að skipulagsyfirvöld í Mosfellsbæ þurfi að útfæra tillöguna betur og þá sér í lagi með lífsgæði verðandi íbúa að leiðarljósi. 

Stjórn Íbúahreyfingarinnar telur jafnframt að skipulagslegar forsendur fyrir tillögunni skorti. Gamla heildstæða deiliskipulagið frá 2010 eru rústir einar eftir deiliskipulagsbreytingar undanfarinna ára og aðkallandi að gera heildarendurskoðun á deiliskipulagi miðbæjarins með tilheyrandi greinargerð þar sem markmiðum þess og helstu þáttum er lýst.  

Umsögninni er skipt í tvo kafla. Annars vegar (1) sértæka umsögn um fyrirliggjandi tillögu að deiliskipulagsbreytingu og hins vegar (2) almenna umsögn um mikilvægi þess að deiliskipuleggja miðbæinn sem eina heild og skýra markmið skipulagsins og helstu þætti í ítarlegri greinargerð.

(1) Umsögn um breytingar á deiliskipulagi við Bjarkarholt 4-5

Undirrituð fara þess á leit að bæjarstjórn Mosfellsbæjar endurskoði tillögu um deiliskipulagsbreytingu við Bjarkarholt 4-5 með lífsgæði íbúa í þjónustuíbúðum og áhrif breytinganna á umhverfi miðbæjarins að leiðarljósi. 

Lagt er til að byggingarmagn verði minnkað til muna. Samkvæmt breytingatillögunni á það að vera rösklega fimmfalt á við það magn sem deiliskipulag miðbæjarins frá árinu 2010 gerir ráð fyrir. Íbúðum fjölgar úr 19 í 108 á byggingarreit sem einungis er 5069 m2. 

Gæði húsnæðis og aðstaða á lóð.

Þegar byggðar eru þjónustuíbúðir fyrir eldri borgara er mikilvægt að huga sérstaklega vel að gæðum húsnæðis og lóðinni við húsið við hönnun. Góð birta þarf að vera í íbúðum og aðlaðandi svæði til útiveru á lóðinni. Birtan af því að eldri borgarar eyða meiri tíma í íbúðum sínum en fólk og fjölskyldur á vinnumarkaði. Garðurinn til að fá hreyfingu og viðhalda og efla heilsu. 

Íbúar þurfa að geta gengið um, tyllt sér á bekki og tekið tal saman við aðra íbúa á lóðinni við húsið. Fyrir aldraða íbúa sem ekki treysta sér í lengri gönguferðir hefur slík aðstaða mikla þýðingu, sbr. Sléttuvegurinn í Fossvogi, Hrafnista í Laugarneshverfi í Reykjavík og víðar.

Fyrirliggjandi uppdrættir.

Tillögum að deiliskipulagsbreytingunni fylgja myndir og uppdrættir. Sýnd er þrívíddarmynd af húsunum sem mynda eins konar þröngt U sem opnast mót suðri. Skugginn sem sýndur er er mjög blekkjandi; sýnir morgunsól í ca. 60° hæð í austri, sem er óhugsandi, en þá er sól ca. 30° á lofti um sumarsólstöður en lægra allan annan tíma. 

Nær væri að byggja í L, og opna fyrir suður- og vestursól, auk þess sem álman sem liggur meðfram Langatanga verður fyrir ónæði af umferð og býður uppá miður skemmtilegt útsýni yfir malbikshaf með bensínstöð og dekkjaverkstæði 

Fjölgun íbúða á þessum litla reit úr 19 í 108 er alltof mikil miðað við stærð lóðarinnar. Flestar íbúðir verða í skugga stóran hluta dagsins, auk þess sem útisvæði er alltof lítið til að byggja upp góða aðstöðu utanhúss. 

Útsýni er líka mjög takmarkað úr flestum íbúðum. Í ljósi þess hve náttúrulegt umhverfi Mosfellsbæjar er fjölbreytt og fallegt er synd að það skuli ekki vera nýtt fyrir eldri borgara bæjarins. Samkvæmt tillögunni er gert ráð fyrir að sá mikli gróður sem er á lóðinni, þar á meðal nánast allar bjarkirnar sem Bjarkarholt heitir eftir, sé fjarlægður. Þar er illa farið með verðmæti.

Kynning á deiliskipulagsuppdrætti

Mikilvægt er að kynna breytingar á deiliskipulagi þannig að heildarsýn yfir nærliggjandi skipulagsheild fáist, en hér er notast við gamalt og löngu úrelt deiliskipulag miðbæjarins frá 2010. Uppdrátturinn gefur því ekki rétta mynd af skipulagi miðbæjarins og nánasta umhverfi fyrirhugaðra bygginga. 

Upplýsingar um stærðir íbúða, stærð sameignar, skuggavarp og aðstöðu vantar í kynninguna.

Bílastæði

Alls fylgja 108 bílastæði byggingunni, þar af 92 í bílakjallara. Á lóðinni milli bygginganna er síðan gert ráð fyrir 16 bílastæðum sem skerða það litla útisvæði sem þó fylgir lóðinni. Þau ætti að færa annað þannig að græna svæðið njóti sín, og að það sé ekki undirlagt af bílum með öllum þeim hávaða, ónæði og ólofti sem þeim fylgja.

Stefna Mosfellsbæjar

En hver skyldi stefna Mosfellbæjar vera í málefnum eldri borgara?

“Mosfellsbær er fjölskylduvænt, heilsueflandi og framsækið bæjarfélag sem setur umhverfið í öndvegi og hefur þarfir og velferð íbúa að leiðarljósi.”
(Stefna Mosfellsbæjar í málefnum eldri borgara 2020-2027.)

Þessi stefna er ansi skýr og ættu eldri borgarar við Bjarkarholt að fá að njóta hennar til fulls. Til hvers er hún annars? 

Samningur við Eir

Í Bjarkarholti 4-5 er um að ræða uppbyggingu sem grundvallast á samningi við Eir, hjúkrunarheimili, sbr. netkynningarfund skipulagsfulltrúa og Guðjóns Magnússonar arkitekts 17. mars. Samningur Eirar tekur þó til fleiri lóða. Bjarkarholt 4-5 er einungis 1. áfanginn. Í ljósi stærðar verkefnisins vekur furðu að ekki skuli hafa verið efnt til samkeppni meðal arkitekta um breytingarnar því þær hafa mikil áhrif á deiliskipulag miðbæjarins í heild sinni.

2. Miðbærinn sem ein heild

Undirrituð telja að forsendur vanti til að gera breytingar á umræddum deiliskipulagsreit innan skipulagssvæðis miðbæjarins. Heildardeiluskipulag, ásamt greinargerð um helstu þætti þess, hefur enn ekki verið unnið. Deiliskipulag miðbæjarsins frá 2010 hefur enga þýðingu lengur. Nær ekkert stendur eftir af þeirri miklu vinnu og því ekki hægt að byggja á því. Þar af leiðir að Mosfellsbær þarf að leggjast í ítarlega skipulagsvinnu þar sem gerð er grein fyrir helstu þáttum miðbæjarskipulags og markmiðum þess í uppdráttum og greinargerð.

Samkeppni og samráð

Það er eðli góðrar skipulagsvinnu og húsagerðar að keppt sé um tillögur. Líka að íbúar séu hafðir með í ráðum. Skaðinn sem af því hlýst að hunsa lýðræðislega ferlið getur orðið bæjarfélaginu dýrkeyptur enda afleiðingar þannig vinnubragða oftast á kostnað þeirra sem síst skyldi, það er bæjarbúa.

Bútasaumur í skipulagi

Í tengslum við þá uppbyggingu sem nú stendur yfir í miðbænum er miður að sú leið skuli hafa verið valin að búta fyrirliggjandi miðbæjarskipulag niður í smærri einingar og breyta því lóð fyrir lóð án undangengis samráðs við íbúa og faglegrar undirbúningsvinnu. Við gerð deiliskipulags 2010 var þess þó gætt. 

Lýðræðislegum verkferlum í skipulagsmálum er ætlað að tryggja gæði. Í Mosfellsbæ hefur orðið afturför í lýðræðisþróun. Með hverri deiliskipulagsbreytingunni af annarri verður hún sýnilegri. Heildarsýn hefur tapast og bæjarbúar eru ekki lengur þátttakendur í ferlinu. Með öllu er óljóst hvert þeir sem vinna að tillögum og jafnvel framkvæmdum sækja umboð sitt. Þannig vinnubrögðum liggur hvorki virðing fyrir gegnsæi né lýðræði að baki.

Fjölbreytileiki í íbúasamsetningu versus einsleitni 

Við skoðun á fyrirliggjandi tillögu að deiliskipulagsbreytingu hafa ýmsar spurningar vaknað, m.a. hvort bærinn hafi leitað sér nægilegrar ráðgjafar hjá sérfræðingum. Er yfirhöfuð ráðlegt eða eru fordæmi fyrir því að svo stór hluti skipulagssvæðis í miðbæ sé einskorðaður við einn aldurshóp. Getur verið að slík einsleitni hafi til dæmis áhrif á framboð á þjónustu í miðbænum? 

Kunnir arkitektar mæla með fjölbreytileika í íbúasamsetningu, ekki einsleitni og á það ekki síst við um miðbæi.

Fleiri spurningum er ósvarað. Var tekið tillit til smæðar Mosfellsbæjar þegar þessi samþjöppun eins aldurshóps á tiltekið svæði í miðbæ Mosfellsbæjar var ákveðin? Hefur þörfin fyrir þjónustuíbúðir yfirhöfuð verið greind? Hefur grunnvinnan verið unnin, þ.e. stefna um uppbyggingu húsnæðis fyrir eldri borgara? Sá hópur er fjölbreyttur og þarf fjölbreytt úrræði.

Krafa um faglega og lýðræðislega skipulagsvinnu

Stjórn Íbúahreyfingarinnar hvetur bæjaryfirvöld til að endurskoða verkferla í skipulagsmálum og efna til samkeppni meðal arkitekta og samráðs við íbúa um skipulag miðbæjarins sem heild og miðju fjölbreytileika og gefandi mannlífs í Mosfellsbæ. 

Skipulagsvinnan þarf að byrja á réttum enda. Fyrst kemur deiliskipulagning miðbæjarins í heild og síðan úrvinnsla skipulags við Bjarkarholt 4-5 með hliðsjón af stefnunni sem kveðið verður á um í ítarlegri greinargerð með deiliskipulagi miðbæjarins. Undirrituð telja að faglega unnin greinargerð um helstu þætti skipulagsins og áhrif þess á birtustig í íbúðum, skuggavarp bygginga, útsýni, hljóð- og loftgæði, svæði til útiveru o.s.frv. sé lykilforsenda frekari uppbyggingar.

Stjórn Íbúahreyfingarinnar
Netfang: ibuahreyfingin@gmail.com

Pin It on Pinterest

Share This