Í dag fjölgar íbúum í Mosfellsbæ um tíu. Nýju íbúarnir eru flóttamenn og koma þeir frá Kenía þar sem þeir hafa lifað sem flóttamenn frá Úganda við erfiðar aðstæður í þrjú ár. Það voru fulltrúar Rauða krossins og starfsmenn Mosfellsbæjar sem tóku á móti þeim í Keflavík í morgun.

Á kynningarfundi í Mosfellsbæ um daginn sagði fulltrúi Rauða krossins að hér hjá okkur fengi flóttafólkið loksins tækifæri til að halda áfram með líf sitt. Þau hafi verið í biðstöðu árum saman og ættu enga ósk heitari en að hætta að vera flóttafólk, fara að vinna, mennta sig og lifa lífinu eins og við á eðlilegan hátt, óhrædd og ótrufluð. Við og þau búum svo vel að þau eru enskumælandi þannig að tjáskipti verða auðveld. Fljótlega fara yngstu nýbúarnir svo að tala íslensku og innan tíðar verður íslenska kannski orðin þeirra annað tungumál. 🙂 Einnig er hægt að ímynda sér að krökkunum í Varmárskóla þyki ekki verra að fá að heyra sögur af ljónum, tígrisdýrum, górilluöpum, sebrahestum frá fyrstu hendi.

Það góða við að vera kvótaflóttamaður á Íslandi er að þú færð aðstoð frá ríki og sveitarfélögum við að koma undir þig fótunum. Öllum býðst t.d. húsnæði og að fara á námskeið í íslensku. Velferðarráðuneytið stendur straum af þeim kostnaði sem til fellur fyrsta árið og ef þörf krefur tilteknum útgjöldum annað áriið líka. Vinnumálastofnun og félagsþjónusta Mosfellsbæjar hjálpa fólkimu svo við atvinnuleit og unga fólkið fær skólavist og hjálp stuðningsfulltrúa innan hans til að byrja með.

Eflaust er margt sem á eftir að koma fólkinu og krökkunum spánskt fyrir sjónir á Íslandi. Veðráttan er eflaust númer 1 á þeim lista. Verðlagið á án efa eftir að koma þeim á óvart. Líka hvað við Íslendingar erum góðu vön. Hér fær fólk alls konar þjónustu sem flóttafólkið á ekki að venjast í sínu heimalandi. Hér býðst börnum t.d. ókeypis grunnskólamenntun sem ekki er raunin í Úganda því þar var skólakerfið einkavætt fyrir margt löngu.

Flóttafólkið er frábær viðbót við fjölmenninguna í Mosfellsbæ og ekki úr vegi að stefna að fjölmenningarhátíð þegar daginn fer að lengja.

Sigrún H Pálsdóttir, bæjarfulltrúi

Pin It on Pinterest

Share This