Íbúahreyfingin stóð í stórræðum í bæjarstjórn í vikunni eftir að ljóst varð hvað Mosfellsbær lætur árlega lítið af hendi rakna til fjölskylduþjónustunnar í formi styrkja. Á fundi bæjarstjórnar hafði bæjarfulltrúi Íbúahreyfingarinnar þetta um málið að segja:
“Séu styrkveitingar á sviði fjölskylduþjónustu til dæmis bornar saman við styrkveitingar í öðrum nefndum verður ljóst að verkefni á sviði fjölskylduþjónustu eru afar lítils metin, sé tekið mið af upphæðum, – og styrkir heldur ekki í neinum samræmi við vægi málefnis eða þá þjónustu sem umsækjendur veita Mosfellsbæ.”
Tillaga M- lista Íbúahreyfingarinnar um hækkun á ráðstöfunarfé fjölskyldusviðs til að veita styrki
Bæjarfulltrúi Íbúahreyfingarinnar fer þess á leit að heildarupphæð ráðstöfunarfjár til styrkja á sviði fjölskyldumála verði hækkuð úr kr. 300 þúsund í kr. 600 þúsund á fjárhagsárinu 2015 og leggur til að málinu verði vísað til bæjarráðs sem fái það hlutverk að endurskoða áður áætlaðar styrkveitingar. Bæjarráð getur í þessu sambandi nýtt sér þá heimild í lögum að gera viðauka við fjárhagsáætlun til að tryggja lögmæti breytinganna. Eins og staðan er í dag er heildarupphæð ráðstöfunarfjár sviðsins alltof lág, þ.e. hlutfallslega álíka há á íbúa og Garðabær veitir einungis Kvennaathvarfinu árlega.
Fulltrúar D- og V-lista felldu tillöguna.