gognavefNýverið tók bæjarráð Mosfellsbæjar aðra umræðu um birtingu gagna með fundargerðum á vef. Eins og áður hefur komið fram er gleðiefni að rafræn birting fundargagna skuli vera komin á framkvæmdastig því henni fylgir mikið hagræði fyrir almenning sem getur framvegis sótt þau gögn sem hann vanhagar um á vefinn. Með því að veita rafrænan aðgang að fundargögnum er einnig verið að draga úr álagi á stjórnsýsluna sem hingað til hefur afgreitt gögn eftir beiðni.
Í málum sem þessu hefur framkvæmdin mikla þýðingu. Íbúahreyfingin hefur því gert við hana athugasemdir sem fallið hafa í grýttan jarðveg hjá hinum framboðunum.
Tillaga Íbúahreyfingarinnar gengur út á að birting gagna á vef taki í einu og öllu mið af upplýsingalögum sem þýðir að öll gögn sem almenningur á rétt á að fá aðgang að skuli birt á vefnum. Það að birta sumt og annað ekki er líklegt til að valda tortryggni, auk þess sem það gefur tilefni til óöryggis um hvort gögn á vef gefa tæmandi upplýsingar um þau mál sem um ræðir sem aftur þýðir óþægindi fyrir þá sem eru að kynna sér mál og aukið álag á stjórnsýsluna o.fl..
Annar og ekki síður mikilvægur þáttur varðar úrvinnsluna. Þegar reglur um birtingu voru kynntar í bæjarstjórn voru það formenn nefnda, þ.e. fulltrúar meirihlutans sem áttu að gegna því embætti að velja gögn til birtingar á vef. Íbúahreyfingin gerði verulegar athugasemdir við þessa ráðstöfun því þar með væri málið sett í farveg sem væri enn og aftur til þess fallinn að vekja efasemdir um faglega framkvæmd og ala á tortryggni. Af umræðum á fundinum í morgun mátti ráða að fulltrúar í bæjarráði telja sig upp til hópa þess umkomna að meta gögn til birtingar. Samt er löggjöf um upplýsingamál flókin og  ljóst að kjörnir fulltrúar hafa ekki endilega þá sérþekkingu sem þarf til að meta hvað skuli birta og hvað ekki. Það hefur hins vegar fagleg og til þess bær stjórnsýsla.
Þrátt fyrir að nú sé búið að samþykkja reglurnar er framkvæmdin enn óljós. Upp komu hugmyndir um að formenn legðu ákvarðanir um birtingu gagna í dóm nefndanna og í tilteknum málum yrði þá leitað aðstoðar lögmanns bæjarins. Eftir umræðuna á fundinum í morgun verður ekki hjá því komist að álykta að málið sé ekki nógu vel undirbúið. Að mati Íbúahreyfingarinnar ætti hlutverkaskiptingin milli stjórnsýslu og kjörinna fulltrúa að vera skýr og málsmeðferðin hafin yfir allan vafa um hentistefnu og fálmkennd vinnubrögð. Kjörnir fulltrúar hafa í nægu að snúast og óþarfi að þeir séu að vasast í málum sem beinlínis kalla á sérfræðiþekkingu og geta varðað refsingu.
Í þessu máli felst gullið tækifæri til að efla stjórnsýslu Mosfellsbæjar og feta enn frekar inn á braut vandaðrar stjórnarhátta. Af hverju ekki að nýta það í stað þess að skilja annars gott framtak eftir í pólitískum átakafarvegi?
Þess ber að lokum að geta að Íbúahreyfingin er ekki að leggja til að gögn séu birt sem eðli málsins samkvæmt eru trúnaðargögn og varða persónulega hagi einstaklinga eða hafa að geyma viðkvæmar upplýsingar sem geta beinlínis skaðað hagsmuni fólks og fyrirtækja.
Bókun Íbúahreyfingarinnar á 1212. fundi bæjarráðs 13. maí 2015:
“Fulltrúi Íbúahreyfingarinnar leggur áherslu á að farið sé í einu og öllu að upplýsingalögum þegar ákvarðanir eru teknar um birtingu fundargagna á vef Mosfellsbæjar og jafnframt að ákvarðanir um birtingu gagna verði í höndum fagfólks í stjórnsýslu sveitarfélagsins.
Að öðru leyti fagnar Íbúahreyfingin því framfaraskrefi sem í því felst að hefja birtingu fundargagna á vef bæjarins.”

Pin It on Pinterest

Share This