Íbúahreyfingin átti fulltrúa í bæjarstjórn Mosfellsbæjar 2010 til 2018 og bauð fram undir listabókstafnum M. Í sveitarstjórnarkosningum 2018 bauð Íbúahreyfingin fram sameiginlegan lista með Pírötum undir listabókstafnum Í. Framboðið náði ekki inn manni.
Íbúahreyfingin er ung stjórnmálahreyfing sem stofnuð var í maí 2010 skömmu eftir að Rannsóknarskýrsla Alþingis um íslenska efnahagshrunið kom út. Skýrslan er ófagur vitnisburður um sérhagsmunagæslu bankamanna, óábyrga stjórnmálamenn og vanmáttuga stjórnsýslu. Við Hrunið var eins og íslensk þjóð vaknaði af löngum dvala. Fólk safnaðist saman og bauð fram krafta sína til að endurreisa Ísland. Samtakamátturinn var einstakur. Almenningur kallaði eftir breytingum og vildi fá að taka þátt í uppbyggingunni. Stjórnmálastéttin missti tiltrú og ríkisstjórnin var hrakin frá völdum. Á vettvangi stjórnmálanna var og er endurnýjunar og úrbóta þörf og á það jafnt við um þingið og sveitarstjórnirnar.
Íbúahreyfingin spratt upp úr þessu andrúmslofti og bauð fyrst fram í sveitarstjórnarkosningum í Mosfellsbæ 2010 og fékk einn fulltrúa kjörinn í bæjarstjórn. Í kosningunum 2014 náði hreyfingin aftur inn manni og hefur hún því átt fulltrúa í bæjarstjórn Mosfellsbæjar frá stofnun hennar.
Frá fyrsta degi hefur Íbúahreyfingin lagt áherslu á að heiðarleiki, fagmennska, gegnsæi og jafnræði sé grundvöllur allra stjórnmála, að það sé einungis á þeim grunni sem hægt sé að byggja upp samfélag þar sem lýðræði stendur undir nafni. En hvað þarf til? Fyrsta skrefið á vettvangi sveitarstjórnarmála hlýtur að vera að smíða stjórntæki sem gera almenningi kleift að taka þátt í og fylgjast með störfum sveitarstjórna.
Íbúahreyfingin vill í því sambandi:
- að öll meðferð fjár sé gegnsæ
- stuðla að faglegri og vandaðri stjórnsýslu
- ræða pólitísk álitamál fyrir opnum tjöldum á fundum bæjarstjórnar
- efna til íbúakosningar ef 10% íbúa óska þess
- birta í fundargerðum á vef öll fylgiskjöl sem skv. lögum eru ekki trúnaðarmál
- að íbúar séu upplýstir um tildrög og niðurstöður mála í fundargerðum
- að dregin sé skýr lína í stjórnsýslunni milli fagvinnu og vinnu í þágu pólitískra hagsmuna stjórnmálaafla í meirihluta
- að íbúar hafi beinni aðkomu að gerð fjárhagsáætlunar
- að mál sem varða mikla hagsmuni almennings séu sett í íbúakosningu
- beita sér fyrir félagslegu réttlæti, jafnræði og mannúð
Um Pírata – Ágrip í tengslum við sameiginlegt framboð 2018
Píratar á Íslandi voru stofnaðir þann 24. nóvember 2012. Þeir byggja á hugmyndafræði Piratpartiet frá Svíþjóð sem Richard Falkvinge setti á fót þann í janúar 2006 vegna aðkallandi þarfar á lagaramma utan um höfundarrétt á Internetinu. Nú starfa Píratahreyfingar í meira en sextíu löndum. Áherslur eru mismunandi eftir þjóðum en ákall Pírata um gegnsæi í stjórnsýslu og verndun og eflingu borgaralegra réttinda er undirstaða Pírata um allan heim.
Píratar buðu fram í þingkosningum á Íslandi árið 2013 og fengu 5% fylgi. Þrír Píratar tóku þá sæti á Alþingi; Helgi Hrafn Gunnarsson, Birgitta Jónsdóttir og Jón Þór Ólafsson. Jón Þór steig til hliðar árið 2015 og tók Ásta Guðrún Helgadóttir við hans í stað. Píratar á þingi skipta með sér ábyrgðarhlutverkum og sinna á víxl hlutverki þingflokksformanns.
Árið 2014 tóku Píratar þátt í sveitarstjórnakosningum víða um land og fékkst einn kjörinn fulltrúi í Reykjavík. Þar hafa Píratar haldið uppi öflugu starfi og nú þegar haft umtalsverð áhrif á þróun og stöðu upplýsingamála og mótun þjónustustefnu borgarinnar.
Nýtt aðildarfélaga Pírata í Mosfellsbæ var stofnað á Bókasafni Mosfellsbæjar 10. mars 2018. Fundurinn var afar vel sóttur en milli 25 – 30 manns tóku þátt í honum. Kosin var þriggja manna stjórn félagsins og lög hins nýstofnaða aðildarfélags samþykkt. Stjórnarmenn voru kjörin þau Sigrún Guðmundsdóttir, Kristján Ingi Jónsson og Einar Bogi Sigurðsson.
Á heimasíðu Pírata má finna grunnstefnu Pírata og annað ítarefni.