Umhverfisvernd og náttúruvernd eru ekki sama hugtakið. Umhverfið er allt það sem er umhverfis okkur, bæði manngert og náttúrulegt. Náttúran hins vegar hefur sín eigin lögmál, óháð mönnum. Þannig að þegar við tölum um náttúruvernd þá þýðir það að vernda svæði sem eru mest upprunaleg og urðu til án afskipta manna. Slík svæði eru orðin fágæt því í gegnum tímans tönn höfum við alltaf viljað breyta, bæta og nýta. Mýrlendi til dæmis hafa þótt einskis virði og voru þurrkuð upp í stórum stíl með skurðgreftri. Fuglategundir sem lifðu þar þurftu að finna önnur vistsvæði. En slíkur hugsunarháttur er sem betur fer að breytast. Nú vitum við að mýrarnar geyma kolefnisforða sem fer ekki út í andrúmsloftið á meðan þær haldast blautar. Við uppþornun losna gróðurhúsalofttegundir sem hafa áhrif á hlýnun jarðar og þar með á framtíðarhorfur okkar allra hér á jörðu. Mýrar okkar í Mosfellssveit eru búsvæði margra fuglategunda og eru náttúruleg vistkerfi sem ber að vernda samkvæmt lögum.

Skóglendi er einnig verðmætt. Víkingunum sem settust að hér á landi tókst að eyða að mestu náttúrulegum birkiskógi sem fyrirfannst við landnám. Í byrjun 20. aldar voru einungis örfá skógar- og kjarrsvæði. En á rúmlega 100 árum hefur nær gerst kraftaverk. Menn byrjuðu að rækta skóg og friða birkikjarr fyrir sauðfjárbeit þannig að skógurinn sótti aftur á. Náttúran er sterk og nær sér fljótt á strik þegar hún fær að vera í friði. Í dag eru flestir á einu máli um að skóglendi geri okkur gott og veiti margskonar vistfræðilega þjónustu: Binda kolefni, jafna vatnsrennsli og draga þar með úr flóðum, veita skjól, hvetja til útivistar og vellíðunar, framleiða næringar- og byggingarefni og margt fleira.

Hér í Mosfellsbænum hafa áhugasamir íbúar ræktað skóg í rúmlega 60 ár í sjálfboðavinnu. Þrátt fyrir að flestir skógar í bæjarlandinu séu manngerðir komast þeir sumstaðar mjög nálægt því að vera upprunaleg náttúra. Eldri skógarsvæðin þar sem trén eru farin að mynda fræ gætu þroskast og dreift sér á eigin forsendum ef það er leyft. En hér í þessu manngerða umhverfi viljum við auðvitað stýra því hvernig skógurinn vex, hvar hann vex og hvernig hann á að líta út.

Skógrækt í þéttbýli þarf að skipuleggja vel og vandlega. Sum svæði ættu að vera áfram opin og leyfa útsýni á fjöll, vötn og sjó. En annarsstaðar viljum við skjól og tækifæri til hreyfingar og leikja. Og varla er til betra svæði en skóglendi til að fullnægja þessum þörfum. Okkar elstu skógarsvæði draga að fjölmenni og búið er að opna fallegar leiðir með grisjun og stígagerð. Hægt væri að gera enn betur með því að búa til einföld leiktæki og hlaupabrautir úr því efni sem fellur til í skóginum til að hvetja til hollrar og skemmtilegrar hreyfingar. En þetta kostar vinnu og fjármagn. Vonandi er að næsta bæjarstjórn – hvernig sem hún verður skipuð –  hlúi að og styrki skógræktina með myndarlegum framlögum.

Úrsúla Jünemann er í 6. sæti á Í-lista Íbúahreyfingarinnar og Pírata

Pin It on Pinterest

Share This