skolpÁ fundi bæjarstjórnar Mosfellsbæjar 25. mars var ársskýrsla umhverfissviðs til umfjöllunar og lagði  Íbúahreyfingin til breytingar á efnistökum í kaflanum um fráveitu. Í orðaskaki á fundinum lét bæjarstjóri í veðri vaka að Íbúahreyfingin væri að níða niður skóinn af starfsmönnum sveitarfélagsins. Svo er þó alls ekki. Íbúahreyfingin metur starfsmenn Mosfellsbæjar mikils. Það sem fulltrúa Íbúahreyfingarinnar gekk til var að auka upplýsingagildi skýrslunnar. Tilefnið var því ekki að vega að starfsheiðri starfsmanna, heldur að upplýsa íbúa og kjörna fulltrúa um skólpmengun í ám og lækjum í Mosfellsbæ.

Það er óskemmtilegt að þurfa að sitja undir því þegar lögð er fram tillaga um breytt verklag að verið sé að smána starfsmenn. Hvað vakir fyrir bæjarstjóranum skal ósagt látið en ljóst að tilhæfulausar aðdróttanir af þessu tagi eru til þess fallnar að ala á tortryggni sem bæjarstjórinn telur að gagnist sér í pólitískri refskák því þær eru endurtekið efni í málflutningi hans og reyndar fleiri í hans flokki.

En  svo hljóðar tillaga Íbúahreyfingarinnar um breytt efnistök í ársskýrslu:

“Fulltrúi Íbúahreyfingarinnar gerir að tillögu sinni að efnistök í ársskýrslum sviða Mosfellsbæjar verði tekin til endurskoðunar. Í nýútkominni ársskýrslu umhverfissviðs er einungis fjallað um fráveitumál á almennum nótum og verkefnin ekki tilgreind. Í þeim málaflokki er því lítið á skýrslunni að græða. Sveitarfélag er ekki fyrirtæki á hlutabréfamarkaði sem á allt sitt undir því að laða að fjárfesta. Ársskýrsla sveitarfélags þjónar öðrum tilgangi. Hún er mikilvægt vinnugagn fyrir kjörna fulltrúa, starfsmenn sveitarfélaga, lánardrottna o.fl. sem þýðir að í henni þarf að vera greinargott yfirlit yfir þau verkefni sem hafa verið unnin eða verið er að vinna, ekki síst þegar um skólpmengun er að ræða.”

Tillagan var felld með átta atkvæðum D-, S- og V-lista.

Pin It on Pinterest

Share This