Nýlega fékk undirrituð tölvupóst frá undirmanni bæjarstjóra Mosfellsbæjar með ýmsum ávirðingum sem ýmist voru órökstuddar eða beinlínis rangar. Mátti skilja á póstinum að starfsfólk hefði óljósar hugmyndir um hvort því bæri yfirhöfuð skylda til að aðstoða kjörna fulltrúa við gagnaöflun vegna funda o.fl. Þeir væru allir af vilja gerðir en vissu nú ekki hvernig þeir ættu að snúa sér.

Það er mat kjörinna fulltrúa í Íbúahreyfingunni að Haraldur Sverrisson bæjarstjóri eigi stóran þátt í því að svo er komið að stjórnsýslan hikar við að veita upplýsingar og sinna erindum kjörinna fulltrúa án hans milligöngu. Á kjörtímabilinu hefur hann gert skýlausa kröfu um að blanda sér í samskipti kjörinna fulltrúa og stjórnsýslu, eins og póstsamskipti við starfsfólk staðfesta. Í lýðræðissamfélagi hlýtur það að orka tvímælis að pólitískur bæjarstjóri hafi ávallt slíka milligöngu enda byði það heim hættunni á að bæjarstjóri út frá pólitískum hagsmunum freistist til að tefja mál og takmarka upplýsingagjöf.

Það verður seint sagt um bæjarstjórann og félaga hans í Sjálfstæðisflokknum og Vinstri grænum að þeir hafi látið sér annt um góð samskipti kjörinna fulltrúa við stjórnsýslu. Fund eftir fund hafa þau stigið í pontu á opnum fundum bæjarstjórnar og látið að því liggja að í tillögum Íbúahreyfingarinnar um umbætur í hinum og þessum málaflokkum felist gagnrýni á störf starfsmanna. Þetta hefur verið mjög ógeðfellt og til þess fallið að spilla samskiptum við starfsmenn. Á tímabili kvað svo rammt að þessu að fulltrúar Samfylkingarinnar sáu sig knúna til að taka sérstaklega fram að í tillögum þeirra fælist ekki gagnrýni á starfsfólk.

Það er ekki að ófyrirsynju að Íbúahreyfingin lætur sig stjórnarhætti í Mosfellsbæ varða. Hér er eitthvað mikið að. Bæjarstjóri Haraldur Sverrisson herðir sífellt tökin og ef fram heldur sem horfir er stutt í að í Mosfellsbæ líði lýðræðið undir lok.

Á fundi bæjarráðs í morgun bar undirrituð upp tillögu sem bæjarstjóri vildi hafna og forseti bæjarstjórnar vísa frá. Lyktir urðu svo þær að afgreiðslu var frestað. Tilgangur tillögunnar var og er að skýra hlutverk stjórnsýslunnar gagnvart kjörnum fulltrúum. Ekki vegna þess að við teljum að stjórnsýslunni sé ekki kunnugt um hlutverk sitt, heldur til að skýra þessi réttindi kjörinna fulltrúa fyrir bæjarstjóranum og félögum hans.

Tillaga Íbúahreyfingarinnar hljóðar svo: 

Bæjarráð felur bæjarstjóra að gera starfsmönnum grein fyrir hlutverki þeirra gagnvart kjörnum fulltrúum með hliðsjón af sveitarstjórnarlögum, stjórnsýslulögum, upplýsingalögum og samþykkt um stjórn Mosfellsbæjar.

Kjörnir fulltrúar eiga allt sitt undir lipri þjónustu starfsmanna og góðu aðgengi að gögnum í vörslu bæjarins. Skv. lögum á það að vera hluti af daglegum störfum stjórnsýslunnar að þjóna kjörnum fulltrúum með því að afhenda þeim skjöl úr gagnasöfnum, afla gagna og greina upplýsingar sem auðvelda þeim að taka ákvarðanir, undirbúa fundi og sinna eftirlits- og stefnumótunarhlutverki sínu í sveitarstjórn.

Skv. 20. gr. samþykktar um stjórn Mosfellsbæjar á aðgangur kjörinna fulltrúa að stofnunum og fyrirtækjum Mosfellsbæjar í tengslum við upplýsingaöflun að vera óhindraður hvenær sem er á opnunartíma. Feli óskir kjörinna fulltrúa í sér mikið vinnuframlag starfsmanna hafa beiðnir að sjálfsögðu farið í gengum bæjarstjóra sem er framkvæmdastjóri bæjarins. Á þessu hefur þó verið sú undantekning að kjörnir fulltrúar snúa sér beint til formanna nefnda, sviðsstjóra og fulltrúa þeirra þegar um er að ræða óskir um mál á dagskrá og öflun, greiningu og samantekt á upplýsingum.

Bæjarfulltrúi Íbúahreyfingarinnar telur að núgildandi fyrirkomulag sé ágætt eins og það er og sér ekki ástæðu til að bæjarstjóri hafi frekari milligöngu um samskipti kjörinna fulltrúa í nefndum við stjórnsýslu en hefð er fyrir. Það má jafnvel færa rök fyrir því að milliganga bæjarstjóra stangist á við það markmið upplýsingalaga að auðvelda aðgengi að upplýsingum í opinberri stjórnsýslu. Undirbúningstími fyrir fundi er oft naumur og breyting til þess fallin að tefja og jafnvel takmarka aðgang kjörinna fulltrúa að upplýsingum.

Vald er vandmeðfarin auðlind. Bæjarfulltrúar eru allir jafnir fyrir lögum og eiga rétt á sömu þjónustu. Það er mikilvægt að á því leiki enginn vafi.

Sigrún H Pálsdóttir, bæjarfulltrúi Íbúahreyfingarinnar
S. 866 9376

Viðbót til frekari skýringar 9. apríl 2018.

Skv. frétt á visir.is svaraði Umboðsmaður Alþingis nýverið kvörtun tveggja bankaráðsmanna yfir nýjum starfsreglum Seðlabankans sem þeir telja að takmarki svigrúm ráðsins til að gegna lögbundnu eftirlitshlutverki sínu.

Svar umboðsmanns alþingis styrkir það álit bæjarfulltrúa Íbúahreyfingarinnar að ekki standist skoðun að bæjarstjóri Mosfellsbæjar hafi milligöngu um upplýsingaöflun bæjarfulltrúa innan stjórnsýslunnar.

“Í fyrsta lagi var í kvörtuninni gerð athugasemd við þá lagatúlkun Seðlabankans að bankaráðið gæti ekki kallað eftir upplýsingum frá starfsmönnum bankans, milliliðalaust, nema með samþykki og aðkomu seðlabankastjóra.”

Í bréfi umboðsmanns Alþingis er umrætt eftirlitshlutverk bankaráðs tíundað og tekið fram að ganga verði út frá því að ráðið „geti kallað eftir hverjum þeim upplýsingum og skýringum um starfsemi bankans sem það telur þörf á til að rækja lögbundið hlutverk sitt“.

http://www.visir.is/g/2018180409715

Pin It on Pinterest

Share This