IMG_1997Ræða um vatnsvernd í landi Selholts á Mosfellsheiði í bæjarstjórn Mosfellsbæjar 18. nóvember 2015.

Þarna er verið breyta aðal- og deiliskipulagi og hluti af því svæði er vatnsverndarsvæði upp á Mosfellsheiði við Leirtjörn. Það er fyrirtækið Stórsaga sem á að fá þar leyfi til að reisa víkingaþorp með 15 byggingum. Áætlanir gera ráð fyrir mikilli umferð rútubíla og stóru malbikuðu bílastæði, auk annarrar starfsemi við tjörnina en athafnasvæðið er innan vatnsverndarsvæðis Mosfellinga í Laxnesdýjum. Sú starfsemi sem skipulagsbreytingin tekur til, á lögum skv., ekki heima á grannsvæði vatnsverndar. Hún á heldur ekki heima á fjarsvæði vatnsverndar en Laxnesdý eru í næsta nágrenni við Leirtjörn.
Íbúahreyfingin furðar sig á forgangsröðuninni sem hér birtist. Fyrst á að breyta aðalskipulagi sem leyfir starfsemi sem brýtur í bága við þær umhverfiskröfur sem gilda um vatnsverndarsvæði og leita síðan að nýju vatnsbóli fyrir Mosfellinga sem á að taka við af vatnsbólinu í Laxnesdýjum.
Eðlileg meðferð málsins hefði verið að taka enga áhættu, heldur finna fyrst vatnsbólið og gera síðan aðalskipulagsbreytingu sem tæki mið af niðurstöðum þeirra borana sem fyrirhugaðar eru, en ekki öfugt eins og nú er gert.

Rökin sem færð eru fyrir þessum breytingum nú koma frá verkfræðistofunni Vatnaskilum en verkfræðingar hennar halda því fram að hægt sé með smávægilegri tilfærslu á afrennsli yfirborðsvatns að flokka svæðið áfram sem fjarsvæði brunnsvæðisins í Laxnesdýjum (í stað grannsvæðis eins og vatnasvæðisnefnd sambands sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu lagði til og bæjarstjórn frestaði að tæki gildi í upphafi þessa kjörtímabils).
Ég sakna þess að þessi skýrsla skuli ekki hafa verið send til umsagnar til þess bærra aðila áður en vinna hófst við aðalskipulagsbreytinguna. Það hefði verið góð stjórnsýsla. Ég geri líka verulega athugasemd við að þetta stóra umhverfisverndarmál skuli ekki hafa verið borið undir umhverfisnefnd Mosfellsbæjar. Það finnst mér reyndar óforsvaranlegt.

Ræða á fundi bæjarstjórnar 18. nóvember 2015

Tillaga M-lista Íbúahreyfingarinnar
Bæjarfulltrúi Íbúahreyfingarinnar leggur til að bæjarstjórn fresti afgreiðslu á tillögu um breytingar á aðalskipulagi í landi Selholts þar til í ljós kemur hvort leit að nýju brunnsvæði, í stað brunnsvæðisins í Laxnesdýjum, skilar árangri. Eins og staðan er nú er um að ræða helsta vatnsverndarsvæði sveitarfélagsins og miklir hagsmunir í húfi fyrir landbúnaðarstarfsemi í Mosfellsdal og Mosfellinga alla til langrar framtíðar.
Íbúahreyfingin leggur einnig til að skýrsla verkfræðistofunnar Vatnaskila verði send til umsagnar hjá til þess bærum aðilum og stofnunum á sviði umhverfis- og heilbrigðismála. Auk þess verði fyrirliggjandi aðal- og deiliskipulagsbreyting borin undir umhverfisnefnd Mosfellsbæjar áður en hún kemur til afgreiðslu í bæjarstjórn.

Sigrún H Pálsdóttir

sigrunhpalsdottir@gmail.com

Pin It on Pinterest

Share This