Fátt er okkur mikilvægara en að börnin okkar njóti góðrar menntunar og að þeim líði vel í skólanum en skólar í Mosfellsbæ njóta almennt virðingar. Leikskólarnir eru orðnir sjö, grunnskólarnir eru þrír og sá fjórði í byggingu í Helgafellslandi. Ör og óreglulegur vöxtur sveitarfélagsins hefur gert það að verkum að erfitt hefur reynst að áætla fjölda nemenda fyrirfram.
Varmárskóli er sá skóli sem liggur landfræðilega næst hverfunum sem eru í uppbyggingu. Fyrir vikið er Varmárskóli nú einn fjölmennasti grunnskóli landsins og stefnir fjöldinn hraðbyr í yfir níuhundruð nemendur. Mjög hefur þrengt að skólastarfinu og hafa foreldrar lýst yfir áhyggjum sínum og kallað eftir fundum með skólastjórnendum og bæjaryfirvöldum.
Fyrir utan fjölda nemenda eru aðrir þættir sem þarf að taka á. Skólinn hef- ur mælst undir landsmeðaltali í samræmdum prófum í stöku greinum og aldurshópum og kvartað hefur verið undan agaleysi og einelti. Skortur er einnig á sérfræðiaðstoð og stoðkennslu fyrir börn með sérþarfir. Þessi atriði þarf að taka föstum tökum. Húsnæði skólans er komið til ára sinna og hefur heyrst að úttekt verkfræðistofu, sem ekki hefur skilað sér til fræðslu- nefndar, bendi til þess að mögulega þurfi að gera umfangsmiklar viðgerðir á skólabyggingum. Frekari skoðunar er þörf á aðbúnaði í Varmárskóla og býður það verkefni nýrrar bæjarstjórnar.
Fleira hefur sett svip sinn á skólastarf í Mosfellsbæ. Borið hefur á því að líðan barna og ungmenna fari versnandi í grunnskólum. Skólar í Mosfellsbæ hafa einnig komið misjafnlega vel út í könnunum PISA. Stærri sveitarfélög eins og Reykjavík hafa leitað eftir aðstoð erlendra sérfræðinga og mennta- vísindasviðs Háskóla Íslands í þeim tilgangi að kryfja orsakir versnandi gengis grunnskóla á Íslandi í PISA og móta nýja menntastefnu. En ekkert verður gert án kennara! Óánægja grunnskólakennara með kjarasamninga, sem nú eru aftur opnir, leiddi til þess að skólar á landsvísu ákváðu að gera könnun á starfsumhverfi kennara, ásamt aðgerðaráætlun, svokallaðan Vegvísi. Sú vinna er ennþá í fullum gangi og mikið í húfi að vel takist til því atgervisflótti er í kennarastétt og lítil nýliðun í kennaranámi.
Í Mosfellsbæ er nauðsynlegt að endurskoða skólastefnu og gera áætlanir um uppbyggingu og viðhald skólamannvirkja og takast á við við þau vandamál sem nú eru til staðar. Okkur er ekki til setunnar boðið. Íbúahreyfingin og Píratar munu beita sér fyrir endurbótum á nýju kjörtímabili fái framboðið umboð kjósenda til að sitja áfram í bæjarstjórn.