Fjöldi leiguíbúða á vegum sveitarfélaga er hvergi minni en í Mosfellsbæ að Garðabæ frátöldum. Varasjóður húsnæðismála og Velferðarráðuneytið hefur gefið út skýrslu um ástandið. Þar kemur fram að Mosfellsbær leigir út 0,31 íbúð á 100 íbúa. Til samanburðar eru íbúðirnar 1,99 í Reykjavík. Í skýrslunni eru margvíslegar upplýsingar og veitir hún góða innsýn í stöðuna hér. Mosfellsbær leigir, ásamt Garðabæ, Seltjarnarnesi og Hveragerði, fæstar íbúðir til efnaminni hópa. D-listi er við völd í öllum þessum sveitarfélögum og eru tölurnar sláandi.
Í umræðum um félagslegar íbúðir vísa fulltrúar D-lista í Mosfellsbæ gjarnan til þess að það sé stefnan að sveitarfélagið taki frekar íbúðir á leigu til að leigja út en byggja eða kaupa sjálft húsnæði. Gott og vel. Stefnan hefur þó hvergi leyst vandann því lítið sem ekkert framboð hefur verið á leiguhúsnæði á frjálsum markaði. Mosfellsbær hefur því lengi vel ekki getað tekið íbúðir á leigu til að svara þörfinni. Fyrrgreind stefna hefur því frekar verið skálkaskjól en úrræði fyrir íbúa í vanda en þeim fjölgaði til muna tímabundið í kjölfar Hrunsins.
Vegir ójöfnuðar eru margvíslegir og engu líkara en að fyrrgreind sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu nýti sér nálægðina við höfuðborgina og reyni með afar rýru framboði á félagslegu leiguhúsnæði að takmarka aðflutning og búsetu efnaminni. Þau lækka jafnvel útsvarið frekar en að bæta þessa oft tímabundnu þjónustu við íbúana. Afleiðingin er að íbúar sem þarfnast stuðnings þurfa að flytja annað og önnur sveitarfélög að greiða götu þeirra.
Í Mosfellsbæ hefur framboð á íbúðum á almennum markaði verið að glæðast og verður forvitnilegt að fylgjast með því hvaða áhrif það hefur á framboð á leiguíbúðum sveitarfélagsins. Þess má geta að nýverið tók Mosfellsbær 4 íbúðir á leigu til viðbótar þeim 30 sem fyrir eru þannig að hlutfall leiguíbúða er aðeins hærra en í skýrslunni. Íbúum hefur á sama tíma fjölgað og hefur það því lítil áhrif á tölfræðina.
Skýrslur sem fela í sér samanburð sem þennan eru mjög fræðandi fyrir sveitarstjórnarfulltrúa og aðra íbúa og ber að þakka Varasjóði húsnæðismála og Velferðarráðuneytinu fyrir að hafa lagt í þessa vinnu.