mosoTillögur Íbúahreyfingarinnar í tengslum við fjárhagsáætlun 2015-2018. Íbúahreyfingin hefur nú lagt fram tillögur í bæjarráði að verkefnum sem hreyfingin telur brýnt að ráðast í eða hefja undirbúning að á næsta fjárhagsári 2015. Af nægu er að taka en að þessu sinni lúta verkefnin að því að styrkja innviði sveitarfélagsins, s.s. að uppbyggingu samgöngu-, skóla- og íþróttamannvirkja, bættri aðstöðu til almenningsíþrótta og um leið heilsueflingar, almennri umhirðu á útisvæðum í bæjarfélaginu og náttúruvernd.

Allar tillögurnar taka mið af áður fram komnum óskum íbúa og starfsmanna sveitarfélagsins. Sumar voru samþykktar í nefndum og ráðum á síðasta kjörtímabili en hafa einhverra hluta vegna ekki komið til framkvæmda. Allt eru þetta brýn verkefni sem væri til mikils sóma fyrir sveitarfélagið að ráðast í. Tillögunum hefur verið vísað til umfjöllunar í bæjarstjórn Mosfellsbæjar 3. desember nk.

Tillögurnar eru í 6 liðum og hljóma svo:

1. Mötuneyti við Varmárskóla

Bygging mötuneytis og kaup á kælibúnaði – 2 ár

a. Reist verði viðbygging fyrir mötuneyti við efri deild Varmárskóla. Undirbúningur og teikningar verði unnar á fjárhagsárinu 2015 og hafist handa við bygginguna árið 2016. Mötuneyti sem annað gæti 7-800 nemendum hæfi rekstur að hausti 2016. Hönnun hússins taki mið af þeim varanlegu byggingum sem eru við skólann. Þar sem útsýni er einstakt (sérstaklega frá vestari enda skólans) mætti hugsa sér að viðbyggingin væri að miklum hluta úr gleri. Sú útfærsla fæli einnig í sér sparnað.

Þessa tillögu mætti útvíkka með fleiri þarfir í huga en mikil hörgull er á viðunandi húsnæði fyrir mynd- og verkmenntagreinar og lúðrasveit, – svo eitthvað sé nefnt.

b. Keyptur verði kælir fyrir matvæli í mötuneyti Varmárskóla í byrjun árs 2015 til viðbótar við þá útigeymslu sem nú er verið að endurbyggja. Um er að ræða kælibúnað fyrir innra rými. Að sögn starfsmanna leiðir aðstöðuleysið til mikillar sóunar á matvælum.

Verkefnið er liður í að bæta aðstöðu nemenda skólans og starfsfólks mötuneytisins.

2. Íþróttamannvirki í Mosfellsbæ

Langtímaáætlun um uppbyggingu íþróttamannvirkja í takt við íbúafjölgun – ½ ár

Ráðast þyrfti í það brýna verkefni á fjárhagsárinu 2015 að gera langtímaáætlun um uppbyggingu íþróttamannvirkja í Mosfellsbæ þar sem tekið er mið af áætlaðri fjölgun íbúa en hún er sögð verða um 10% á næstu fjórum árum.

Verkefnið er í þágu betri yfirsýnar í fjármálum sveitarfélagsins á komandi árum.

3. Almenningsíþróttir á útisvæðum

Æfingatæki og bekkir á göngu- og hjólaleiðum – 6 ár

Hafist verði handa við að bæta aðstöðu til almenningsíþrótta, sem ekki krefjast greiðslu félagsgjalda, með því að koma fyrir bekkjum og æfingatækjum á vinsælum göngu-, hlaupa- og hjólaleiðum.

Verkefnið er í þágu almennrar heilsueflingar.

4. Göngu- og hjólastígar

Tenging göngu- og hjólastíga við biðskýli strætó – 3 ár

Hafist verði handa við að hanna og leggja göngu- og hjólastíg frá (1) Reykjum í Reykjahverfi að endastöð strætó við Reykjaveg og (2) frá Reykjalundi að stíg í útjaðri iðnaðarhverfis á Teigum.

Í verkefninu felst nauðsynleg samgöngubót.

5. Fráveita

Leit að uppsprettum saurgerlamengunar í ám, sjó og vötnum – 1 ár

Gerð verði gangskör að því brýna lýðheilsuverkefni að leita uppi uppsprettur saurgerlamengunar í ám, sjó og vötnum í Mosfellsbæ. Beina þarf sjónum sérstaklega að rangtengingum frárennslis frá íbúðarhúsum og atvinnustarfsemi austan Vesturlandsvegar og í Töngum. Einnig verði girt fyrir að affallsvatns frá atvinnustarfsemi renni í ræsi og þaðan óhreinsað í viðtaka.

Þar sem þekking er fyrir hendi á því hvert mengunin berst er brýnt að hefja markvissa leit að því hvar hún á upptök sín á árinu 2015.

Verkefnið er liður í að skapa heilnæmt umhverfi og stuðla að framgangi sjálfbærrar þróunar í Mosfellsbæ.

6. Umhirða á útisvæðum og náttúruvernd

a. Eyðing ágengra framandi plantna – 10 ár

Hafist verði handa í byrjun sumars 2015 við að eyða ágengum framandi tegundum s.s. lúpínu, skógarkerfli og fleiri plöntum sem draga úr líffræðilegri fjölbreytni í náttúru Mosfellsbæjar. Árbakkar njóti forgangs þar sem fallvötn eiga stóran þátt í útbreiðslunni.

Um er að ræða langtímaverkefni sem nauðsynlegt er að fá íbúa í bænum og nágrannasveitarfélög til að taka þátt í.

Skurður á lúpínu gæti hentað unglingum í vinnuskóla Mosfellsbæjar og skátunum.

Verkefnið er liður í að vernda líffræðilegan fjölbreytileika.

b. Bakkaviðgerðir og umhirða stíga við Varmá – 5 ár

Viðgerðir hefjist á syðri bakka Varmár frá Reykjalundarvegi að Blómvangi á fjárhagsárinu 2015. Samhliða verði malarstígurinn meðfram ánni lagfærður með efni sem hæfir ljósum grágrýtisgrunninum í og við ána.

Um er að ræða fyrsti áfanga fimm ára verkefnis sem tekur til Varmársvæðisins frá friðlýstum ósum að Húsadal. Vinna þarf verkið í samráði við sérfræðinga í bakkaviðgerðum á Veiðimálastofnun.

Verkefnið er liður í bættri umhirðu náttúrusvæða í Mosfellsbæ.

c. Náttúruverndaráætlun – 1/2 ár

Hafin verði vinna við gerð náttúruverndaráætlunar fyrir Mosfellsbæ sem verði hluti af svæðis- og aðalskipulagi. Áætlunin er liður í að efla umhverfisvitund í tengslum við skipulag og framkvæmdir og stuðla þannig að því að áætlanir og umgengni taki mið af gæðum náttúru og sé í anda sjálfbærrar þróunar.

Þungamiðjan í verkefninu er að kortleggja lífríki og náttúrufar í Mosfellsbæ, s.s. búsvæði fugla- og fiska, gróður, landslag, votlendi, jarðhitasvæði, uppsprettur ferskvatns o.fl. Einnig að semja reglur um umgengni framkvæmdaaðila á náttúrusvæðum og fá til þess leiðsögn til þess bærrar stofnunar.

Umhverfisnefnd hefði umsjón með verkefninu og spurning hvort hægt væri að útvista verkefninu til nemenda í umhverfis- og náttúrufræðum í FaMos, LbhÍ eða HÍ.

Verkefnið er liður í að bæta skipulagsgerð og umgengni við náttúruperlur sveitarfélagsins.

d. Umhverfisfræðsla – 2 ár

1. Á fjárhagsárinu 2015 verði hafist handa við undirbúning fræðsluskilta um fuglalíf, leirur og fjörugróður á gönguleiðinni meðfram Leiruvogi. Undirbúningsvinna sérfræðinga færi fram á fjárhagsárinu 2015, hönnun og uppsetning vorið 2016.

2. Fræðslukvöld um náttúru og dýralíf að vori og hausti væru einnig tilvalin leið til að efla umhverfisvitund.

Verkefnið er liður í að bæta umhverfisvitund og auka ánægju íbúa og annarra vegfarenda af útivist í Mosfellsbæ.

e. Vöktun friðlýstra svæða – langtímaverkefni

Ráðast þyrfti í reglubundna vöktun friðlýstra svæða í Mosfellsbæ. Einnig þarf að bæta aðgengi og umhirðu þeirra. Dæmi: Tungufoss og Álafoss.

Verkefnið er í þágu náttúruverndar og góðrar umhirðu.

 

Pin It on Pinterest

Share This