Nú í vor lagði ég á hest og fór með franskan vin minn sem er í heimsókn á landinu til að sýna honum eina af útivistarparadísum okkar Mosfellinga, Leiruvoginn. Við riðum niður Mosfellsdalinn niður að hesthúsahverfinu í átt að Korpuósum í blíðskaparveðri. Náttúran skartaði sínu fegursta. Síðan var riðið í Gunnunes og litið yfir eyjarnar. Þar var áð og hlustað á hinn erlenda gest dást að fegurðinni. Úr Gunnunesi var riðið í Víðines og þaðan tekin stefna á Langatanga.
„En bíðum nú við! Hvað er þetta?“ spurði gesturinn. Mig setti hljóðan þegar ég leit á læk eigi svo fagran og illa lyktandi sem streymdi úr skólpröri miðja vegu á milli Víðiness og Langatanga. Var mér illa brugðið við þessa upplifun í miðri útivistarparadísinni og Fransmaðurinn leit til fjalla. Eftir þetta duttu nokkuð niður umræður um fegurð íslenskrar náttúru og umhverfisgæði og var slegið í fáka til að forða sér frá frekari skaða.
Þegar heim var komið hafði ég samband við vin minn sem vinnur hjá Mosfellsbæ og spurði hverju þetta sætti. Jú, hann kannaðist við málið og sagði að bæjarstjórn og umhverfisnefnd gerðu það líka. Nokkrar götur í Mosfellsbæ væru vitlaust tengdar við veitukerfið og ekki hefði verið ráðist í úrbætur á því.
Það skýtur óneitanlega skökku við að þar sem umhverfismál í Mosfellsbæ hafa verið í höndum Vinstri grænna undanfarin átta ár að metnaðurinn sé ekki meiri en þessar lýsingar úr Leiruvoginum, sem er á náttúruminjaskrá, segja til um.
Nú hafa Vinstri grænir verið í hjónabandi með Sjálfstæðiflokknum í átta ár og er demantshringurinn kominn á loft fyrir næstu fjögur. Öðru vísi mér áður brá þegar Tommi Lár, Fróði Jó, Jón Gunnar, Alla á Reykjalundi, Gísli Snorra og fleiri voru í forystu fyrir vinstrimenn í Mosfellsbæ. Í þá daga var málefnalegur ágreiningur á milli vinstri manna og Sjálfstæðisflokks. Í dag er því ekki fyrir að fara en hjónabandssælan alger.
Ég skora á alla vinstrimenn í Mosfellsbæ að segja skilið við hjónabandssælu Vinstri (?) grænna og Sjálfstæðisflokks.
Kjósum ekki vinstrimenn sem ganga bundnir Sjálfstæðisflokknum til kosninga, kjósum X-M. Gleðilegt sumar!
Rock on!
Jón Jóhannsson
Greinin birtist í Mosfellingi 22. maí 2014.