Að gefnu tilefni vill Íbúahreyfingin koma því á framfæri að þann 13. maí 2014, þ.e. stuttu áður en kjósendur gengu að kjörborði í sveitarstjórnarkosningum, sagði Jón Jósef Bjarnason, annar maður á lista framboðsins, sig frá öllu samstarfi við Íbúahreyfinguna í pósti sem hann sendi á stjórnarmennina Birtu Jóhannesdóttur og Þórð Björn Sigurðsson. Í póstinum segir: „samstarfi okkar er lokið […] næsti maður hlýtur að leysa mig af ef við náum 2 sætum“. Þessa ákvörðun ítrekaði Jón opinberlega í hádegisfréttum RÚV þann 20. maí. Í fréttinni kom fram að hann teldi sér „ekki sætt“ og ætlaði „ekki að taka þátt í starfinu á vettvangi bæjarstjórnar ef sú staða kæmi upp.“ Því miður var of seint að breyta framboðslista Íbúahreyfingarinnar þegar þessi staða varð ljós, en Íbúahreyfingin lét á það reyna með erindi til kjörstjórnar.
Í ljósi þessa hefur Íbúahreyfingin litið svo á að Hildur Margrétardóttir, þriðji maður á lista, sé í raun varamaður Sigrúnar Pálsdóttur bæjarfulltrúa Íbúahreyfingarinnar.
Það kemur félögum Íbúahreyfingarinnar á óvart að Jón Jósef sækist eftir því að sinna varafulltrúaverkefnum á vettvangi bæjarstjórnar. Ef hann kýs að gera það þá er ljóst að það starf er ekki á vegum Íbúahreyfingarinnar.
Hlusta má á upptöku af frétt RÚV á FB-síðu Íbúahreyfingarinnar.
Í frétt á síðu RÚV er fréttin svona:
„Yfirkjörstjórn hefur hafnað beiðni Íbúahreyfingarinnar í Mosfellsbæ um að fá að taka Jón Jósef Bjarnason, fyrrverandi oddvita hreyfingarinnar, af listanum. Hann skipar annað sæti listans. Jón vildi fara af listanum þar sem hann er óánægður með stefnu hreyfingarinnar.
Jón Jósef hefur verið bæjarfulltrúi Íbúahreyfingarinnar frá 2010. Sigrún Pálsdóttir leiðir listann núna og átti Jón Jósef að vera í öðru sæti. Jón sagðist í samtali við fréttastofu hafa beðið um að nafn hans yrði tekið af listanum áður en þeir voru sendir inn. Það hafi ekki verið gert.
Jón segir þetta ekki óþægilega stöðu fyrir sig – hann ætli að kjósa Íbúahreyfinguna í kosningunum í vor en ætlar ekki að taka þátt í starfinu á vettvangi bæjarstjórnar ef sú staða kæmi upp.
Hann segist vera verulega ósáttur við þá stefnu sem Íbúahreyfingin hafi tekið – það sé ástæðan fyrir því að hann vilji ekki vera með á listanum núna.
ATH: Birta Jóhannesdóttir, sem skipar fjórða sæti á lista Íbúahreyfingarinnar, segir það ekki rétt að Jón hafi beðið um að láta taka sig af listanum áður en þeir voru sendir inn. Hann hafi skrifað undir yfirlýsingu um framboð 8.maí og framboðslistum hafi síðan verið skilað 10.maí. Ósk Jóns um að hætta við að taka sæti á lista hafi komið fram 14.maí.“