Áherslur Íbúahreyfingarinnar í Mosfellsbæ

Íbúahreyfingin í Mosfellsbæ er ákjósanlegur valkostur fyrir Mosfellinga í komandi kosningum.  Íbúahreyfingin mun beita sér fyrir auknu íbúalýðræði og umræðu um málefni bæjarins.  Til að mynda viljum við að tiltekinn hluti íbúa geti kallað fram íbúakosningu um einstök mál að undangenginni hlutlausri og faglegri kynningu.  Ákvörðun um byggingu menningarhúss er gott dæmi um mál sem íbúar ættu að fá að kjósa um.

Íbúahreyfingin hyggst beita sér fyrir faglegri og gegnsærri stjórnsýslu.  Við viljum að skipað verði í nefndir á faglegum forsendum og að virkar siðareglur fyrir kjörna fulltrúa verði viðhafnar.

Íbúahreyfingin í Mosfellsbæ boðar valddreifingu.  Við viljum skilja á milli framkvæmdavalds (bæjarstjóra) og löggjafarvalds (kjörinna fulltrúa).  Á þeim forsendum hugnast okkur að bæjarstjóri verði ráðinn á faglegum forsendum og á hóflegum kjörum fremur en að oddvitar lista séu bæjarstjóraefni.  Að sama skapi þurfa skýrar reglur um verkaskiptingu milli kjörinna fulltrúa og embættismanna að vera til staðar.  Íbúahreyfingin vill ekki að fulltrúar í bæjarstjórn sitji lengur en tvö kjörtímabil.

Íbúahreyfingin boðar ábyrga fjármálastefnu á erfiðum tímum þar sem áhersla á velferð allra íbúa og almannahag verði ávallt í forgangi.

Íbúahreyfingin leggur áherslu á lýðræðislegri Mosfellsbæ og skorar á bæjarbúa að gera slíkt hið sama í sveitarstjórnarkosningunum þann 29. maí næstkomandi.

Þórður Björn Sigurðsson,
íbúi í Mosfellsbæ,
skipar 2. sæti á lista Íbúahreyfingarinnar

Okkar megin áherslur eru:

  • Aukið íbúalýðræði
    • Íbúakosning fari fram um einstök málefni óski 10% kosningabærra íbúa eftir því eða tveir fulltrúar í bæjarstjórn
    • Verði máli vísað í íbúakosningu fari fram hlutlaus og fagleg kynning á því máli sem um ræðir
    • Aukin umræða um málefni bæjarins og hlustað verði á sjónarmið íbúa
    • Íbúar hafi jafnan rétt til áhrifa á umhverfi sitt og skipulagsmál
    • Hagsmunum heildarinnar verði ekki fórnað fyrir sérhagsmuni
  • Fagleg, heiðarleg og gegnsæ stjórnsýsla
    • Skipað verði í nefndir á faglegum forsendum
    • Virkar siðareglur fyrir kjörna fulltrúa
    • Aðgengileg heimasíða og virk upplýsingagjöf
    • Íbúar hafi aðgang að öllum samningum sem bærinn gerir
    • Fundir nefnda, bæjarráðs og bæjarstjórnar verði sendir út á netinu og hljóðskrár aðgengilegar á netinu.
    • Öllum erindum til bæjarins verði svarað
    • Íbúar geti lagt mat á stjórnsýslu
  • Valddreifing
    • Skilja á milli framkvæmadavalds (bæjarstjóra) og löggjafarvalds (kjörinna fulltrúa)
    • Efsti maður á lista er ekki bæjastjóraefni
    • Fagleg ráðning bæjarstjóra á hóflegum kjörum
    • Skýrar reglur um verkaskiptingu kjörinna fulltrúa og embættismanna
    • Reglur verði settar um að fulltrúar í bæjarstjórn sitji ekki lengur en tvö kjörtímabil
  • Ábyrg fjármálastefna
    • Skýr og skynsöm forgangsröðun
    • Grunnþjónusta við íbúa í fyrsta sæti
    • Hófleg gjaldtaka
    • Bæjarfélagið beiti sér í baráttunni við skuldavanda heimila og fyrirtækja
  • Réttlæti og jafnrétti
    • Sérstaklega verði hugað að stöðu atvinnuleitenda og tekjulægri hópa
    • Menntun og velferð allra barna tryggð
    • Hvers kyns mismunun hafnað
    • Grundvallarmannréttindi tryggð

Pin It on Pinterest