Aðalfundur Íbúahreyfingarinnar

Aðalfundur Íbúahreyfingarinnar

Aðalfundur Íbúahreyfingarinnar í Mosfellsbæ verður haldin 30. des kl 20:00 n.k í Reykjadal, Mosfellsdal.

Dagskrá:

Venjuleg aðalfundastörf.

Uppfært 29. desember 2014. Aðalfundinum hefur verið frestað, nýtt fundarboð verður sent fljótlega.

Kjósendur eiga val

Sigrún H. Pálsdóttir, skipar 1. sæti á lista Íbúahreyfingarinnar.

Sigrún H. Pálsdóttir, skipar 1. sæti á lista Íbúahreyfingarinnar.

Reynslan hefur kennt okkur að loforð stjórnmálaflokka fyrir kosningar gefa litlar vísbendingar um efndir að þeim loknum. Það er því stefna Íbúahreyfingarinnar að lofa engu nema því að vinna af alúð og trúmennsku að lýðræðisumbótum og gegnsæi í stjórnsýslu og nefndarstarfi á komandi kjörtímabili. Við viljum hafa allt upp á borðum því það veitir valdhöfum aðhald sem aftur hefur mikil og jákvæð áhrif á það hvernig fjármunum sveitarfélagsins er ráðstafað.
Áherslur Íbúahreyfingarinnar eru því ekki loforðalisti heldur okkar sýn á verkefni sem stuðla að góðu samfélagi og við viljum vinna að í nánu samstarfi við íbúa.
Íbúahreyfingin gerir kröfu um gott siðferði í stjórnmálum og leggur áherslu á ábyrga fjármálastjórnun. Loftkastalar eru ekki á okkar verkefnalista, heldur raunhæfar aðgerðir sem nýtast þeim sem á þurfa að halda og þjóna hagsmunum samfélagsins. Góð menntun barnanna okkar, trygg afkoma heimilanna, félagslegt réttlæti, góð heilsa og öruggt umhverfi eru okkar leiðarljós. Okkar verkefni er að forgangsraða og tryggja jafnræði við úthlutun fjár.
Það eru gömul sannindi og ný að það er engum stjórnmálaöflum hollt að drottna of lengi því þannig tapast aðhaldið sem er áhrifamesta stjórntæki bæjarbúa. D-listi hefur ráðið lögum og lofum í Mosfellsbæ í tólf ár og tími til kominn að hann fái tækifæri til að endurnýja sig. Þótt ýmislegt hafi verið gott, hefur of margt farið úrskeiðis og efndir oft og tíðum reynst litlar.
Það er fyrir tilstuðlan Íbúahreyfingarinnar að nú má hlusta á hljóðritanir frá bæjarstjórnarfundum. Mörg mál í þágu lýðræðislegra vinnubragða hafa verið reifuð og unnin saman af minnihlutanum í nefndum og bæjarstjórn. Með eftirgangsmunum hefur minnihlutinn þurft að sækja lögvarinn rétt allra stjórnmálaflokka til að fá mál sett á dagskrá funda og í tvígang hefur þurft að hlutast til um málið í bæjarstjórn. Við sem höfum setið í minnihluta undanfarin ár höfum verið minnt á það hvað eftir annað hversu stutt á veg kominn Mosfellsbær er í að innleiða lýðræðislegt verklag og það þrátt fyrir að mótuð hafi verið lýðræðisstefna árið 2011. Í henni er skýrt tekið fram að fundargerðir eigi að vera „lýsandi fyrir efni fundarins og þær ákvarðanir sem þar eru teknar og afstöðu einstakra nefndarmanna í því skyni að tryggja gagnsæi í nefndarstörfum“.
Í stað þess að bregðast við ábendingum hefur meirihlutinn farið í vörn og jafnvel varið gamaldags vinnubrögð við ritun fundargerða hvað ofan í æ. Þetta er slæmt því gegnsæi í nefndarstörfum hefur ríkan lýðræðislegan tilgang, þ.e. „að virkja íbúa til þátttöku í málefnum og stefnumótun sveitarfélagsins og tryggja þannig aukna þátttöku þeirra í ákvarðanatöku og mótun nærumhverfisins.“, segir í lýðræðisstefnunni.
Eins og sést á þessu er stefnumótun eitt og raunveruleiki annað hjá þeim sem ráða í Mosfellsbæ. Það er í raun óskiljanlegt hvað þetta er erfið fæðing því samfélagið kallar á breytt vinnubrögð í pólitík.
Íbúahreyfingin vill að Mosfellsbær sé öðrum sveitarfélögum fyrirmynd í vandaðri og nútímalegri stjórnsýslu. Kjósendur eiga valið. Það er þeirra að sýna aðhaldið og tryggja að unnið sé í þeirra þágu.

Að forgangsraða

Úrsúla Jünemann skipar 7. sæti á lista Íbúahreyfingarinnar.

Úrsúla Jünemann skipar 7. sæti á lista Íbúahreyfingarinnar.

Hildur Margrétardóttir skipar 3. sæti á lista Íbúahreyfingarinnar.

Hildur Margrétardóttir skipar 3. sæti á lista Íbúahreyfingarinnar.

Mosfellsbær er fallegur bær í örum vexti. Meðalaldur íbúa er frekar lágur og barnafjölskyldur virðast sækja hingað. Hér er gott og fjölbreytt umhverfi, þokkaleg þjónusta og öflug félags- og tómstundastarfsemi.
Nú er stutt í kosningar. Þeim flokkum sem bjóða fram hættir að lofa upp í ermina á sér. Svo mun koma tómarúm á eftir og enginn kannast við að hafa verið með fagurgala og fegrunartal í aðdraganda kosninganna.
Sjálfstæðisflokkurinn hefur verið allsráðandi í þrjú kjörtímabil. Á þeim tíma hefur margt gerst og hrunið hefur sjálfsagt sett strik í reikninginn á mörgum sviðum. Þrjú nýbyggingahverfi voru skipulögð á sínum tíma en kapp var meira en forsjá og stórhugurinn allsráðandi. Menn vildu helst – og vilja enn – selja dýrar lóðir undir stór einbýlishús sem fáir hafa efni á. Hvar eru litlu íbúðirnar á viðráðanlegu verði? Hvar er gott framboð á leiguhúsnæði í Mosfellsbænum?
Með ört vaxandi íbúafjölda hafa grunnskólarnir stækkað um of og eru orðnir að hálfgerðum „skrímslum“. Kennt og leiðbeint er í öllum skúmaskotum, á göngunum og í myglusæknum kjöllurum. Mötuneytisaðstæðurnar eru ófullnægjandi, þar er hvorki friður né næði til að borða og hávaðinn þannig að starfsmenn eru sumir með heyrnarhlífar. Heilsueflandi samfélag?
Með þeirri stefnu að hafa skóla án aðgreiningar fáum við nemendur í grunnskólana sem hafa mjög mismunandi getu og þarfir. Eitt barn með hegðunarörðugleika getur sett alla kennslu í fullskipuðum bekk í uppnám. Til þess að hvert barn fái kennslu við sitt hæfi þarf að vera tækifæri til að kenna í ólíkum og misstórum hópum. Þetta krefst meira rýmis, aukins mannskaps og fleiri sérfræðinga í skólana. Og þetta kostar!
Grunnskólamálin í Mosfellsbænum eru svona 10 árum á eftir í þróun. Fyrir löngu hefði átt að byrja á byggingu nýs grunnskóla en yfirvöld hafa sofið á verðinum. Skólamálin þurfa að vera í fyrsta sæti þegar kemur að fjárhagsáætlun, allt of lengi hefur verið sparað í þeim flokki. Allt hjal um gæluverkefni þarf að setja til hliðar. Það þarf að forgangsraða rétt. Hugmyndin um fjölnota íþróttahús sem nú er talað um í aðdraganda kosninganna er góð og gild og spennandi. En á meðan skólamálunum er ekki betur sinnt verða svona framkvæmdir að bíða.

Greinin birtist í blaði Íbúahreyfingarinnar 21. maí 2014

Skipulag geri ráð fyrir fötlun

Sigrún H. Pálsdóttir, skipar 1. sæti á lista Íbúahreyfingarinnar.

Sigrún H. Pálsdóttir, skipar 1. sæti á lista Íbúahreyfingarinnar.

Íbúahreyfingin leggur áherslu á að fatlaðir einstaklingar fái alla þá samfélagsþjónustu sem þeir þurfa til að lifa mannsæmandi, sjálfstæðu og áhyggjulausu lífi. Fatlaðir eiga ekki að þurfa að upplifa þjónustu við sig sem ölmusu heldur á skipulag og innviðir samfélagsins að vera með þeim hætti að fatlaðir séu ekki stöðugt áminntir um fötlun sína. Samfélagið á einfaldlega að tryggja fötluðum jöfn tækifæri og fulla samfélagsþátttöku á við aðra.
Íbúahreyfingin vill leita samráðs við fatlaða um þau mál sem á þeim brenna. Galdurinn í pólitík Íbúahreyfingarinnar er yfirhöfuð samráð. Í þessum málaflokki er það sérstaklega brýnt þar sem fötlun er margvísleg og þarfirnar einstaklingsbundnar. Íbúahreyfingin mun leggja sitt af mörkum til að Samningur SÞ um réttindi fatlaðs fólks verði fullgiltur og úrræði í málefnum fatlaðra löguð að honum.
Mikil vakning hefur orðið í samfélaginu um almenn samskipti við fatlaða og er það ekki síst að þakka öflugri baráttu notenda þjónustunnar sem barist hafa fyrir auknu sjálfsforræði. Við í Íbúahreyfingunni teljum brýnt að vinna gegn fordómum í garð fatlaðra og munum leggja áherslu á það í okkar stjórnmálastarfi.

Greinin birtist í blaði Íbúahreyfingarinnar 21. maí 2014.

Pin It on Pinterest