Hugmyndum Íbúahreyfingarinnar í Mosfellsbæ um samstjórn var hafnað

Yfirlýsing frá Íbúahreyfingunni í Mosfellsbæ vegna fréttatilkynningar frá Mosfellsbæ:

Í dag sendi kynningarfulltrúi Mosfellsbæjar út fréttatilkynningu um áframhaldandi meirihlutasamstarf Sjálfstæðisflokks og Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs í Mosfellsbæ.  Í tilkynningunni er greint frá hugmyndum meirihlutans um aðkomu minnihlutans að stjórn bæjarins og látið að því liggja að vegna afstöðu Íbúahreyfingarinnar hafi ekki getað orðið af samstarfi.
Hugmyndir meirihlutans fólust meðal annars í því að öll framboð í bæjarstjórn myndu leggja fram sameiginlega fjárhagsáætlun.  Íbúahreyfingin tók vel í þá hugmynd og lagði til á grundvelli hennar að mynduð yrði samstjórn allra framboða um rekstur bæjarins því fjárhagsáætlun væri grundvallarplagg hvað varðar stefnumörkun í rekstri sveitarfélagsins.  Næðist ekki samstaða um samstjórn lýsti Íbúahreyfingin sig engu að síður jákvæða gagnvart hugmyndum meirihlutans með ákveðnum breytingum.  Ekki var tekið vel í hugmyndir Íbúahreyfingarinnar af hálfu Sjálfstæðisflokksins og því strönduðu viðræður um samvinnu.

Íbúafundur

Boðað til fyrsta íbúafundar Íbúahreyfingarinnar á mánudagskvöld, annað kvöld, kl. 20.30 í Brekkunni, Álafosssvegi 27.  Fundurinn er öllum opinn og efni fundarins er næsti bæjarstjórnarfundur.

Takk fyrir stuðninginn!

Íbúahreyfingin í Mosfellsbæ þakkar stuðninginn sem framboðið fékk í sveitarstjórnarkosningum. Einn fulltrúi er nú í bæjarstjórn og Íbúahreyfingin er annað stærsta stjórnmálaaflið í Mosfellsbæ, aðeins um mánuði eftir að stofnað var til framboðsins.
Það er athyglisvert að kjörsókn í Mosfellsbæ var aðeins 68% og að í raun kusu aðeins 31.45% kosningabærs fólks Sjálfstæðisflokkinn, sem nú fer með meirihlutavald í bæjarstjórn.
Varla er hægt að ímynda sér erfiðara hlutverk en að vera í hagsmunagæslu fyrir bæjarbúa undir þeim kringumstæðum sem þessi kosningaúrslit færðu okkur íbúunum. Það er þó verkefnið og því munum við sinna og vonandi með hjálp bæjarbúa.
Íbúahreyfingin lítur á það sem sitt helsta verkefni að virkja íbúa Mosfellsbæjar til þátttöku í mótun samfélagsins, með þau verkfræri sem við höfum, og býður alla sem áhuga hafa á lýðræðisumbótum, jafnrétti og jöfnuði til samstarfs.
Íbúahreyfingin mun beita sér fyrir lýðræðislegum stjórnarháttum og þar sem hinir flokkarnir lögðu líka áherslu á lýðræðisumbætur ættu að vera hæg heimatökin að fylgja því fast eftir.

Pin It on Pinterest