Hljóðupptökur bannaðar í Mosfellsbæ! – Fréttatilkynning
Á fundi 539. fundi bæjarstjórnar Mosfellsbæjar 30.06.2010 bannaði forseti bæjarstjórnar og oddviti VG áheyranda á vegum Íbúahreyfingarinnar í Mosfellsbæ að hljóðrita fundinn. Forsetinn sagðist ekki þurfa að rökstyðja þá ákvörðun sína en hljóðritun var leyfð á 538. fundi 16.06.2010.
Íbúahreyfingin í Mosfellsbæ var með á dagskrá fundarins að ræða pólitíska fréttatilkynningu sem samin var af VG og sjálfstæðismönnum eftir kosningar og send út í nafni bæjarins til allra fjölmiðla, allra starfsmanna Mosfellsbæjar auk fjölda íbúa, en þar voru hafðar uppi pólitískar yfirlýsingar og rangfærslur um afstöðu Íbúahreyfingarinnar til samstarfs. Fréttatilkynningin var send út af kynningarfulltrúa Mosfellsbæjar sem yfirlýsing frá bæjarfélaginu, en ekki hinu pólitísku flokkum, að beiðni Haraldar Sverrissonar bæjarstjóra sem jafnframt er oddviti sjálfstæðismanna í bæjarstjórn.
Íbúahreyfingin í Mosfellsbæ gerði athugasemd við að starfsmanni bæjarins væri falið að sinna pólitísku erindi stjórnmálaflokka og að ekki eru skýrar línur milli pólitísks flokkastarfs sitjandi meirihluta í bæjarstjórn og stjórnsýslunnar. Farið var fram á að send yrði út leiðrétting til þeirra fjölmiðla, íbúa og starfsmanna sem fengu hina pólitísku yfirlýsingu í hendur frá bænum, en við þeirri beiðni hefur ekki orðið.
Íbúahreyfingin í Mosfellsbæ harmar slík vinnubrögð og lýsir furðu sinni á þeirri órökstuddu ákvörðun forseta bæjarstjórnar að banna hljóðritun bæjarstjórnarfundar sem á að vera öllum bæjarbúum opinn og aðgengilegur.
Nánari upplýsingar veitir Ólafur Ragnarsson í síma 8965112.