Svör Mosfellsbæjar um villidýrasafn
Þann 4. október sendu fulltrúar Íbúahreyfingarinnar spurningar varðandi villidýrasafn til bæjarráðs Mosfellsbæjar. Í dag bárust eftirfarandi svör:
1. Hvaða skuldbindingu hefur undirritun viljayfirlýsingarinnar í för með sér fyrir Mosfellsbæ?
Engar aðrar en fram koma í viljayfirlýsingunni.
2. Var haft samráð við Náttúruminjasafn Íslands, sem er höfuðsafn á sviði náttúrufræða samkvæmt safnalögum nr. 106 frá 31. maí 2001, Safnaráð eða aðra sérfræðinga á sviði safnamála þegar ákvörðun var tekin um stofnun safnsins, og þá hverja?
Ekki hefur verið tekin ákvörðun um stofnun safns og því ekki haft samráð við neinn lögformlegan aðila vegna þess.
3. Er ætlunin að reka hér safn í skilningi safnalaga? Í 4. gr. þeirra segir m.a: „Safn er samkvæmt lögum þessum stofnun, opin almenningi, sem hefur það hlutverk að safna heimildum um manninn, sögu hans, umhverfi og náttúru landsins, standa vörð um þær, rannsaka, miðla upplýsingum og hafa þær til sýnis svo að þær megi nýtast til rannsókna, fræðslu og skemmtunar.“?
Ekki hefur verið tekin ákvörðun um stofnun safns og því ekki haft samráð við neinn lögformlegan aðila vegna þess. Ekki eru forsendur til að svara því hvort hér verði um safn í skilningi safnalaga eða einhvers konar sýningu. En það má þó nokkuð skýrt lesa út úr viljayfirlýsingunni að stefnt er að því að gefa almenning kost á að njóta væntanlegra náttúrugripa, sér til ánægju og fróðleiks. Það liggur þó á engan hátt fyrir á þessu stigi máls, hvernig verður best staðið að þessu.
4. Hafa verið gerðar áætlanir varðandi kostnað við uppbyggingu og rekstur safnsins og hefur markaður fyrir slíkt safn verið kannaður? Benda má á safn á líku sviði á Stokkseyri, sérstaða og rannsóknarhluti þess safns felst þó í byssusafni.
Ekki hafa verið gerðar áætlanir varðandi kostnað, en það er gert ráð fyrir að það verði hluti af fyrstu athugun á hugmyndinni.
5. Telur bæjarráð að stofnun safnsins samræmist drögum að menningarstefnu Mosfellsbæjar? Í drögunum er lögð áhersla á framsækni menningarstofnana, samráð við íbúa um viðhorf þeirra og óskir, og að menningarstofnanir stuðli að varðveislu menningararfleifðar í Mosfellsbæ.
Veldur hver á heldur, og að sjálfsögðu er það hugmynd Mosfellsbæjar að þessi hugmynd þróist yfir í að verða framsækið verkefni og verði þannig í fallegri hrynjandi með menningarstefnu Mosfellsbæjar. Benda má á að komi safnið eða sýningin til að þjóna yngstu aldurshópunum, þá er almennt talið innan ferðaþjónustu að vöntun sé á söfnum eða sýningum sem sniðin eru fyrir börn og ungmenni eða barnafjölskyldur. Umræður um verkefnið í nefndum bæjarins hefur enn ekki farið fram og ekki hefur verið ákveðið með hvaða hætti verkefni sem þetta verði gert að almenningseign, hvorki með umræðum eða könnunum. En ef vitnað er í menningarstefnu þá fellur safn eða sýning að ofangreindum toga einna helst undir eftirfarandi meginmarkmið: „Mosfellsbær leggi áherslu á að nýta menningu til tengsla og samskipta við umheiminn og leiti skapandi strauma til eflingar samfélagi og atvinnulífi.”
6. Uppfylla gripirnir sem rætt er um í viljayfirlýsingunni skilyrði siðareglna Alþjóðaráðs safna (ICOM)? Í siðareglunum eru t.d. ítarleg ákvæði um hvernig safngripa er aflað, fylgja t.d. einhver vottorð með gripunum, og þá hver?
Samkvæmt upplýsingum frá Kristjáni Vídalín liggja fyrir öll tilskilin vottorð með hverjum og einum grip, hvar þeirra er aflað og með hvaða hætti. En þetta er eitt af þeim atriðum sem skoðað verði af þeim fagaðilum sem meta með og fyrir okkur verkefnið.
7. Er fyrirhugað að þetta mál fái málefnalega og lýðræðislega meðferð í nefndum bæjarins?
Já – geri ekki ráð fyrir öðru, en þó er það mat undirritaðs að heppilegra sé að verkefnið sé lengra gengið fram, hlutverk Mosfellsbæjar skýrar o.s.frv. svo það veki ekki fleiri spurningar en það geti svarað. Því verður hins vegar ekki neitað að gagnlegt er að fá erindi af þessu tagi sem hér er verið að svara, frá nefndarmönnum á fræðslu- og menningarsviði, þar sem settar eru fram gagnlegar spurningar um eðli og tilgang verkefnisins. Sé þeim svarað hér á þessu stigi máls af einhverjum vanbúnaði, þá verður örugglega bætt um betur þegar málin fá umfjöllun í nefnd.
8. Hafa aðrir samningar eða skjöl önnur en viljayfirlýsingin verið undirrituð í tengslum við málið? Eru aðrir samningar við Kristján Vídalín Óskarsson eða félög honum tengd í ferli hjá Mosfellsbæ?
Ekkert annað plagg, skjöl eða samþykktir en lagðar hafa verið fram með viljayfirlýsingunni hafa verið lagðar fram, enda sést á svörum hér að framan, að verkefni þetta er enn hugmynd og ef þannig má að orði komast: enn í fæðingu.
Hér má sjá bréfið frá Mosfellsbæ í heild: VillidyrasafnSvarMosfellsbaear