Fjárhagsáætlun – 2. umræða

Fjárhagsáætlun – 2. umræða

Mig langar að byrja á því að þakka bæjarstjóra yfirferðina og starfsmönnum bæjarins fyrir þá miklu vinnu sem þeir hafa lagt á sig við undirbúning fjárhagsáætlunar.

Það er ljóst að fjöldi sveitarfélaga á við fjárhagsvanda að etja. Haraldur Sverrisson ætlar þó að skila 192 milljón kr. hagnaði. Það stóð líka til á árunum 2014 og 2015 en það gekk ekki eftir. Áætlunin gengur þó vonandi eftir þannig að hagnaðurinn geti nýst til að vega upp á móti neikvæðri rekstrarniðurstöðu undangenginna ára.

Íbúahreyfingin fagnar því að tillaga um að auka svigrúm fjölskyldunefndar til styrkveitinga hafi fengið hljómgrunn og vonast til að Kvennathvarfið, sem veitir íbúum Mosfellsbæjar mikla og góða þjónustu, fái m.a. að njóta þess.

Einnig lýsir Íbúahreyfingin ánægju sinni með að gjaldskrá leikskóla skuli ekki hækka og að til standi að gera samninga við leikskóla utan sveitarfélagsins um vistun barna undir tveggja ára aldri.

Verklag í tengslum við fjárhagsáætlun

Eitt af því sem verulegu máli skiptir við gerð fjárhagsáætlunar er hvernig að undirbúningi hennar er staðið eða eins og spakir menn og konur hafa haldið fram er:

“Besta aðferðin til að sjá fyrir um framtíðina að skipuleggja hana” og sjá til þess að forsendur séu skýrar og samráð við alla hlutaðeigandi aðila eftir því sem best verður á kosið.

Íbúahreyfingin telur að mest sé um vert að þær upplýsingarnar sem bæjarfulltrúar fá til að átta sig á fjárhagsáætlun sveitarfélagsins séu gagnsæjar. Tölur á blaði segja okkur lítið, það er það sem er á bak við tölurnar sem skiptir höfuðmáli.  Þau gögn sem bæjarráð og nefndirnar fengu í hendur í því kynningarferli sem staðið hefur yfir nú í nóvember einskorðuðust við tölur. Bæjarráð fékk að vísu greinargerðir sviðanna afhentar fyrir viku sem er alltof seint.

Íbúahreyfingin lagði fram tillögu þess efnis að endurskoða vinnubrögð við 1. umræðu. Tillagan fól í sér að funda með framkvæmdastjórum sviða, yfirmönnum undirstofnana og íbúum, auk þess að senda fjárhagsáætlun til umsagnar í nefndum fyrir 1. umræðu til að tryggja að öll gögn og óskir lægjur fyrir þegar umræðan hæfist. Einnig var sú ósk ítrekuð að yfirmönnum yrði falið að vinna starfsáætlanir, í takt við leiðbeiningar Sambands íslenskra sveitarfélaga. Íbúahreyfingin lagði tillöguna fyrst fram í umræðum um fjárhagsáætlun í lok ágúst þar sem henni var hafnað af fulltrúum D-, S- og V-lista með frávísun. Tillögunni nú var vísað inn í framtíðina, til fjárhagsáætlunar næsta árs. Það er deginum ljósara að núverandi verklag stenst ekki gæðakröfur. Að mínu viti er ekki um annað að ræða en að breyta því. Mér er reyndar með öllu óskiljanlegt að svona vinnubrögð skuli almennt vera liðin.

Það eru starfsáætlanir sem varpa mestu ljósi á það sem er á bak við tölurnar. Þær greinargerðir sem lagðar eru fram til 2. umræðu eru einungis stuttar samantektir. Það þykja sjálfsögð vinnubrögð að gera starfsáætlanir þar sem stjórnsýsla er vönduð. Það er t.d. lögbundið í skólunum.

Kjarasamningar og launajöfnuður

Hjá Mosfellsbæ starfar mikill fjöldi fólks, á 6. hundrað, ef ég man rétt. Nú standa kjarasamningar fyrir dyrum og ljóst að það þarf að bæta kjör hinna lægst launuðu umtalsvert. Það er ekki okkar ríku þjóð sæmandi að vinnandi fólk  skuli ekki geta framfleytt fjölskyldum sínum. Það er ósk Íbúahreyfingarinnar að Mosfellsbær standi að baki sínum starfsmönnum í þeim viðræðum og sjái til þess að enginn starfsmaður sveitarfélagsins þurfi að lifa við hungurmörk að þeim samningum loknum.

Íbúahreyfingin telur mikilvægt að kjör starfsmanna hjá Mosfellsbæ séu sem jöfnust. Mosfellsbær er vinnustaður í eigu bæjarbúa og það skiptir máli að hafa jöfnuð að leiðarljósi þegar launakjör eru ákveðin á þannig vinnustað.

Mikil yfirvinna og háir bílastyrkir

Það er eitt og annað sem vekur athygli þegar fjárhagsáætlun er skoðuð. Í ákveðnum deildum sveitarfélagsins er mikil yfirvinna og bílastyrkir háir. Í sumum tilvikum er helmingur af launakostnaði skilgreindur sem yfirvinna. Í heild er kostnaður vegna bílastyrkja nálægt 50 milljónum á ári.

Í gamni reiknaði Íbúahreyfingin út hvað hægt væri að keyra marga km fyrir þessa peninga. Viðmiðið var bíll sem notar 8 l á hundraðið. Niðurstaðan var um 3.000.000 km, það er ca 4 sinnum fram og tilbaka til tunglsins. Á 10 árum slagar kostnaður Mosfellsbæjar vegna bílastyrkja upp í hálfan milljarð.

Íbúahreyfingin spyr sig samt hvort ekki sé hagstæðara að sveitarfélagið sjálft reki bílana. En dæmið er auðvitað ekki svo einfalt. Á bak við þessar tölur eru m.a. kjarabætur.

Umhverfisverkefni

Eitt af því sem vert er að vekja athygli á er að ýmis verkefni sem búið er að gefa vilyrði fyrir hafa þann “tendence” að týnast. Eitt slíkt verkefni er lúpínuverkefnið. Landgræðslan fékk í fyrrasumar það verkefni að kortleggja útbreiðslu lúpínu í Mosfellsbæ. (Innskot: Landgræðslan komst að því að 5,8% af landi Mosfellsbæjar er þakið lúpínu.) Og hvað er gert með þær upplýsingar? Ég verð að segja að mér líður stundum eins og ég sé stödd í “slow motion” kvikmynd. Af hverju er ekki gert ráð fyrir þessu verkefni í fjárhagsáætlun? Þetta mál er búið að fara í hringi í nefndum síðan 2011.

Að lokum

Íbúahreyfingin lagði fram 4 tillögur í 1. umræðu og  1 tillögu á milli umræðna. Ég geri ég ráð fyrir að farið verði yfir þær í umræðum hér á eftir.

***************

Tillögur fulltrúa M-lista við fjárhagsáætlun sem fram komu við fyrri umræðu um fjárhagsáætlun 4. nóvember sl. og vísað var til seinni umræðu um fjárhagsáætlun:

Tillaga M-lista Íbúahreyfingarinnar um hækkun framlags til Kvennaathvarfsins:

Bæjarfulltrúi Íbúahreyfingarinnar leggur til að framlag Mosfellsbæjar til Kvennaathvarfsins verði kr. 243.000 á fjárhagsárinu 2016. Tilefnið er að efla aðgerðir gegn heimilisofbeldi sem jafnframt er liður í samstarfsverkefni sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu við lögreglustjóraembættið og hrundið var af stað í upphafi árs.

Lagt er til að tillögunni verði vísað til fjölskyldunefndar í tengslum við úthlutun styrkja.

Tillagan er samþykkt með níu atkvæðum.

Tillaga M-lista Íbúahreyfingarinnar um að auka svigrúm fjölskyldusviðs og fjölskyldunefndar til styrkveitinga:

Bæjarfulltrúi Íbúahreyfingarinnar leggur til að svigrúm fjölskyldusviðs og fjölskyldunefndar til styrkveitinga verði tvöfaldað á þessu ári og síðan stig af stigi næstu ár. Tilgangurinn er að styðja við bakið á hjálparsamtökum en sú staða er uppi í íslensku samfélagi að slík samtök sinna mikilvægri grunnþjónustu í þágu almannaheilla sem engin önnur stofnun hjá ríki og sveitarfélögum sér um.

Í tillögu að fjárhagsáætlun fyrir árið 2016 er gert ráð fyrir að umrætt framlag verði tvöfaldað. Tillagan er því lögð fram.

Tillaga M-lista Íbúahreyfingarinnar um stofnun umhverfisverkefnasjóðs:

Bæjarfulltrúi Íbúahreyfingarinnar gerir að tillögu sinni að stofnaður verði umhverfisverkefnasjóður á borð við listasjóð Mosfellsbæjar. Verkefni eins og skógrækt, uppgræðsla lands, hefting ágengra tegunda, endurheimt lífríkis og umhverfisfræðsla ættu skjól í þessum sjóði.

Lagt er til að tillögunni verði vísað til umsagnar framkvæmdastjóra umhverfissviðs og umhverfisstjóra og að umsögnin berist bæjarráði.

Tillagan er samþykkt með níu atkvæðum.

Tillaga M-lista Íbúahreyfingarinnar sem fram kom á 1237. fundi bæjarráðs 26. nóvember sl. og vísað var til seinni umræðu bæjarstjórnar um fjárhagsáætlun:

Bæjarfulltrúi Íbúahreyfingarinnar gerir að tillögu sinni að Mosfellsbær bjóði framvegis upp á jafnréttisfræðslu í efri deildum í öllum grunnskólum sveitarfélagsins. Niðurstöður rannsókna á vegum Velferðarráðuneytisins sýna að mjög hallar á konur í íslensku samfélagi. Besta leiðin til að taka á því er að hefja fyrirbyggjandi aðgerðir.

Íbúahreyfingin telur brýnt að hefja jafnréttiskennslu strax á fyrstu árum grunnskóla og leggur til að fræðslusviði, í samstarfi við fjölskyldusvið sem fer með málaflokkinn, verði falið að leggja drög að því verkefni.

Lagt er til að tillagan verði send til umsagnar jafnréttisfulltrúa og framkvæmdastjóra fræðslusvið sérstaklega m.t.t. að greina hvað af því sem fram kemur í tillögunni sé þegar sinnt.

Tillagan er samþykkt með níu atkvæðum.

Þessari tillögu var vísað til vinnu við gerð fjárhagsáætlunar næsta árs við 1. umræðu 4. nóvember:

Tillaga M-lista Íbúahreyfingarinnar um gagnaöflun í aðdraganda fyrri umræðu fjárhagsáætlunar

Bæjarfulltrúi Íbúahreyfingarinnar gerir að tillögu sinni að bæjarráð breyti vinnulagi við gerð fjárhagsáætlunar á þann veg að ráðið fundi með framkvæmdastjórum sviða og yfirmönnum stofnana áður en til fyrri umræða kemur í bæjarstjórn. Einnig óski bæjarráð eftir umsögnum frá fagnefndum og fundi með íbúum í aðdraganda fyrri umræðu.

Tilgangur tillögunnar er að gera umræðurnar markvissari og fjárhagsáætlunargerðina betri.

Sú hefð hefur ekki skapast hjá Mosfellsbæ að framkvæmdastjórar sviða skili bæjarráði starfsáætlunum í aðdraganda fjárhagsáætlunargerðar. Íbúahreyfingin telur það þó stuðla að innihaldsríkari umræðu og meira gagnsæi og leggur til að bæjarráð beiti sér fyrir því.

Samþykkt með níu atkvæðum að vísa 1. tillögu til vinnu við gerð fjárhagsáætlunar 2017.

Sjá á YouTube 2. umræðu fjárhagsáætlunar í bæjarstjórn Mosfellsbæjar : 

Sigrún H Pálsdóttir, bæjarfulltrúi

Pin It on Pinterest