Vöndum til verka í Sunnukrika og höfum íbúa með í ráðum
Beiðni verktakafyrirtækis um “Samstarf um þróun og uppbyggingu lóða við Sunnukrika 3-9” var á dagskrá fundar bæjarráðs 8. september sl. Afgreiðslunni var frestað þar sem fleiri hafa sýnt lóðunum áhuga. Fulltrúi Íbúahreyfingarinnar kynnti samt afstöðu sína til málsins og óskaði jafnframt eftir upplýsingum um hvernig Mosfellsbær hefur staðið að því að auglýsa lóðirnar.
Samráð við íbúa og hugmyndavinna
Til að gera langa sögu stutta er afstaða Íbúahreyfingarinnar sú að réttast sé að Mosfellsbær efni til íbúafundar áður en bæjarráð tekur afstöðu til hugmynda verktakanna um nýtingu lóðanna en þær tilheyra miðbænum. Í kjölfarið yrði efnt til hugmyndasamkeppni meðal arkitekta um þróun svæðisins. Hlutverk Mosfellsbæjar yrði síðan að efna til útboðs á grundvelli vinningstillögunnar.
Þessi nálgun er öfug á við þá sem rædd var á bæjarráðsfundi 8. september en henni er ætlað að tryggja fagmennsku; velta hverjum steini áður en ákvörðun er tekin. Þetta er nú einu sinni miðbærinn okkar.
Ástæða þess að Íbúahreyfingin leggur til að þessi leið verði farin er að hugmyndir eru uppi um að gera Sunnukrikann að ferðaþjónustusvæði en það hefur ekki verið inn í myndinni fyrr en nú og þarfnast umræðu í bæjarfélaginu. Að mati Íbúahreyfingarinnar er ekki nóg að fyrir liggi sú skilgreining í skipulagi að Sunnukriki sé atvinnu- og þjónustusvæði. Ferðaþjónusta með hótelrekstri svo nær skóla og íbúabyggð er eitthvað sem þarf að ræða. Það má vel vera að þær tillögur sem uppi eru séu góðar en vöndum til verka og höfum íbúa með í ráðum.
Söluverð lóða þarfnast endurmats
Önnur ástæða er sú að byggingarmarkaðurinn er að glæðast og því ávinningur af því fyrir bæjarsjóð að auglýsa lóðirnar að nýju og selja á markaðsvirði en ekki með þeim afslætti sem Mosfellsbær freistaðist til að bjóða upp á þegar byggingariðnaðurinn var í sem mestri lægð árið 2012. Í ljósi breyttra aðstæðna á markaði og hækkandi lóðaverðs á höfuðborgarsvæðinu telur Íbúahreyfingin ekki lengur verjandi að selja lóðirnar með afslætti á forsendum efnahagshruns.
En það er annar vinkill á þessu máli. Mosfellingar eru ekki í neinu tímahraki. Í framtíðinni eiga lóðirnar eftir að hækka í verði enda fyrirsjáanlegur skortur á lóðum á höfuðborgarsvæðinu, sbr. spár um fólksfjölgun.
Lóðirnar þurfa betri auglýsingu
Á fundi bæjarráðs óskaði Íbúahreyfingin eftir upplýsingum um hvort og hvernig lóðirnar hafa verið auglýstar. Ef marka má leitarvélar samtímans hafa þær hlotið litla almenna kynningu, nema helst innanbæjar, frá því að Mosfellsbær efndi til blaðamannafundar til að auglýsa lækkun lóðaverðs í lok árs 2012 og auglýsingaritinu, Möguleikar í Mosfellsbæ, var dreift með Morgunblaðinu vorið 2013.
Í stuttu máli felur tillaga Íbúahreyfingarinnar í sér að lóðir við Sunnukrika 3-9 verði auglýstar að nýju á markaðsvirði að undangengnu samráði við íbúa og fagfólk um þróun byggðar.
Sigrún H Pálsdóttir, bæjarfulltrúi
Hægt er að skoða tillögur um þróun og uppbyggingu lóða í Sunnukrika á vef Mosfellsbæjar undir fundargerð bæjarráðs nr. 1272: Vefur Mosfellsbæjar