Landsnet fundar um styrkingu Brennimelslínu í Mosfellsbæ

Landsnet fundar um styrkingu Brennimelslínu í Mosfellsbæ

Screen Shot 2017-01-19 at 12.19.43Hér á eftir fer gróf lýsing á því sem fram kom á fundi bæjaryfirvalda í Mosfellsbæ með Landsneti 18. janúar sl.
Landsnet hyggst auka flutningsgetu Brennimelslínu 1 og hafa fulltrúar fyrirtækisins nú kynnt hugmyndir sínar fyrir bæjaryfirvöldum. Fundurinn var liður í undirbúningi verkefnisins en línulagnir geta haft víðtæk áhrif á landslag og ásýnd svæða, virði lands, fuglalíf, vatnsból og annað lífríki. Náið samráð er því mikilvægt við þau sveitarfélög sem línan fer um.
Fyrirhuguð lína, Brennimelslína, mun liggja í um 40 m fjarlægð frá eldri og aflminni línu sem tekin verður niður og nefnist Brennimelslína 1. Möstur nýju línunnar eru allt að 4 m hærri en gömlu línunnar, auk þess sem haftið á möstrunum víkkar í allt að 36 m. Á móti kemur að möstrum fækkar þar sem vegalengd milli þeirra lengist. Flutningsgeta línunnar verður 400 kV í stað 220 kV áður. 
Brennimelslína mun liggja frá tengivirki við Lyklafell í landi Mosfellsbæjar, um Mosfellsheiði austan Grímannsfells, niður Kjósarskarð, yfir Hvalfjörð að Þyrli og þaðan að Brennimel í Hvalfirði þar sem hún tengist Sultartangalínu 3. Á sömu slóðum eru stóriðjufyrirtæki á Grundartanga.
Screen Shot 2017-01-19 at 12.22.40
Tilgangur verkefnisins er að sögn fulltrúa Landsnets að gera raforkukerfið á suðvesturhorninu afkastameira og tryggara. Einnig að tengja vestari hluta landsins betur við rafmagn.
Landsnet mun bera saman 3 valkosti:
A. Gömlu Brennimelslínuna sem liggur frá Geithálsi framhjá Hafravatni og þaðan áfram um Mosfellsheiði í Hvalfjörð en fyrirhugað er að taka þá línu niður ef nýja Brennimelslínan  (valkostur C) verður ofan á. Gamla línan er merkt með hvítum lit og liggur að stórum hluta samhliða rauðu línunni. Satt best að segja væri góður kostur fyrir Mosfellinga að losna við Geithálstengingu Brennimelslínu úr bæjarlandinu.
B. Jarðstrengur um Mosfellsbæ, Kjalarnes og Hvalfjörð. Blár litur.
C. Aflmeiri Brennimelslína sem lýst er hér að ofan. Rauður litur. Hún liggur ekki að Geithálsi.
Umræður á fundinum
Nú er ljóst að stóriðjufyrirtæki nota um 80% af því rafmagni sem framleitt er á Íslandi, heimilin um 6-10%. Fulltrúi Íbúahreyfingarinnar spurði því hvort fyrirhugað kísilver á Grundartanga kallaði á meiri flutningsgetu kerfisins, þ.e. þessa aukningu. Svarið var já og nei en einnig eitthvað á þá leið að þar sem jarðskjálftar eru tíðir væri líka nauðsynlegt að rafmagn gæti borist eftir fleiri en einni leið hvert svo sem það færi. Eins og sjá má á meðfylgjandi mynd mynda Sultartangalína 3, Búrfellslína 3 og Brennimelslína 1 hringekju, þ.e. ef Sultartangalína 3 dettur út fær suðvesturhornið og Vesturland rafmagn í gegnum Búrfellslínu 3 og Brennimelslínu eða öfugt.
Í ljósi þess hvað stóriðjan er stór notandi spurði Íbúahreyfingin einnig hver kostnaðarhlutdeild hennar væri í svo dýru verkefni. Það svar fékkst að hún greiðir fyrir rafmagn aðeins sem notandi, þ.e. stórnotandi en þeir greiða lægra verð en önnur fyrirtæki og heimili í landinu.
Fleiri fundir sveitarstjórnarfólks í Mosfellsbæ verða með Landsneti um Brennimelslínu. Einnig tengivirki við Lyklafell þar sem Brennimelslína, Búrfellslína 3 og Sandskeiðslína 2 (sem er hluti af Suðvesturlínu) mætast. Sá fundur er fyrirhugaður 31. janúar.
Gagnlegt væri að fá að vita hvað þið, Mosfellingar góðir, hafið um þessi mál að segja.
Tölvupóstur Íbúahreyfingarinnar er ibuahreyfingin@ibuahreyfingin.is
Sigrún H Pálsdóttir, bæjarfulltrúi
—————————
Hér til viðbótar ein mynd sem sýnir gömlu Brennimelslínu, valkost A, sem er hvítur  og nýju, valkost C, sem er rauður.
Valkostir A og C
Myndirnar eru í fylgigögnum Landnets.
Opinn fundur um Þingvallaveg – gróf samantekt

Opinn fundur um Þingvallaveg – gróf samantekt

Screen Shot 2017-01-16 at 19.42.05Umferðarhraði á Þingvallavegi í Mosfellsdal hefur lengi verið til umræðu í Mosfellsbæ. Íbúar í dalnum hafa verið uggandi og heitar umræður verið um hvernig draga megi úr umferðarhraða. Í dag, mánudaginn 16. janúar, hélt Mosfellsbær, opinn fund með íbúum um deiliskipulag vegarins sem  nú er í auglýsingu. Tillagan gengur út á að gera tvö hringtorg, eitt við Æsustaðaafleggjara og hitt við Helgadalsveg. Lega beggja hringtorga er umdeild og komu íbúar athugasemdum sínum á framfæri á fundinum.

Fulltrúi Íbúahreyfingarinnar gerði grófa samantekt á umræðum á fundinum og er öllum frjálst að bæta við hafi eitthvað gleymst sem mikilvægt er að komi fram.

Glósur opinn fundur um Þingvallaveg á Bókasafni Mosfellsbæjar kl. 17.00 mánudaginn 16. janúar 2017

Upphaf fundar, formaður skipulagsnefndar: 
Það er skoðun bæjarstjórnar að ástandið á Þingvallavegi í Mosfellsdal sé óásættanlegt. Vegagerðin er tilbúin til að bæta úr því. Engar hugmyndir eru uppi um tvíbreiðan veg. Málið snýst um öryggi. Haft hefur verið samband við hagsmunaaðila og vitað að það eru skiptar skoðanir.
28. janúar rennur út frestur til að skila inn athugasemdum. Mjög mikilvægt að þær berist á réttum tíma. Annars gerist ekkert. Senda á: olafurm@mos.is
Íbúi 1: Engin tenging við Gljúfrastein.  Mikilvægt að það sé ljóst segir Ragnheiður Ríkharðsdóttir.
Bryndís, formaður sk.nefndar: Verður leyst innan þess deiliskipulags sem gert verður í kringum Gljúfrastein. Möguleg aðkoma frá Helgadalsvegi.
Íbúi 2: Æsustaðaafleggjari mjög óheppilegur fyrir hringtorg. Virðist sem stuðst hafi verið við úrelt rammaskipulag. Stórt hús í veginum við Æsustaðaafleggjara. Komin stór bygging þar sem Björk var áður. Upphaflegar tillögur skynsamlegri en þeim hefur verið breytt.
Íbúi 3: Var það kirkjan sem breytti upphaflegum áætlunum? Er vilji hjá Mosfellsbæ til að breyta skipulaginu?
Bryndís, formaður sknefndar: Rétt að staðsetning var önnur á upphaflegum teikningum. Kirkjan var ósátt. Mos ekki á móti breytingum en umferðaröryggi í forgang.
Íbúi 3: Hver eru rök kirkjunnar? Vorum sátt við upphaflegar tillögur en allt í einu breyttist þetta. …
Íbúi 4: Þarf að færa hringtorgið upp fyrir brekkuna á heiðinni á móts við Grænuborg. Nægir ekki að hafa hringtorg fyrir neðan brekkuna. Mikill ökuhraði í brekkunni. Þarf að hægja á fyrr.
Íbúi 5: Umferð eykst til muna á Æsustaðavegi ef hringtorgið verður staðsett á afleggjaranum. Mikið af börnum býr við Æsustaðaveg og hætta samfara hringtorgi þarna.
Íbúi 6: Mikilvægt að setja undirgang eða brú yfir Þingvallaveg á þessum slóðum. Mikill samgangur í dalnum.
Íbúi 7: Er ekki ástæða til að færa Þingvallaveg annað? Verið að eyðileggja það sem íbúarnir í Mosfellsdal hafa varið árum í að byggja upp. Önnur leið fær. Vegstæði gamla Þingvallavegarins. 17 km leið þar sem fyrir er undirlag.
Bryndís, formaður sk.nefndar svarar því til að ekki sé verið að eyðileggja neitt. Bæjaryfirvöld séu að hugsa um öryggi vegfarenda.
Íbúi 8: Af hverju eru ekki allir tengdir hringtorgum. Ótal stútar/afleggjarar við veginn beggja vegna hringtorga. …
Sigrún Páls spyr af hverju vegakerfið í dalnum sé ekki skipulagt sem ein heild? Ekki ólíklegt að vegtengingar innansveitar eigi eftir að hafa áhrif á staðsetningu hringtorga. Því mikilvægt að skoða heildarmyndina. Óskynsamlegt að staðsetja hringtorgin án tillits til framtíðarskipulags. Íbúar líka uggandi um framhaldið.
Stútarnir líklegir til að stórauka slysahættu, sbr. slysið sem varð nýverið á Grindavíkurafleggjara við stútinn að Bláa lóninu.
Bryndís, formaður sk.nefndar: Vegagerðin telur að stútarnir auki ekki slysahættu. Það gæti tafið framkvæmdir að skipuleggja allar vegtengingar innansveitar. Ríður á að hefja framkvæmdir sem fyrst til að tryggja öryggi.
Að lokum! Er einhver á móti upphaflega skipulaginu spyr Bryndís?
Íbúar: Enginn andmæli. Allir sammála um að upphaflega skipulagið sé best, þ.e. hringtorg miðju vegar milli Æsustaðaafleggjara og Reykjahlíðarafleggjara.
Fundurinn var haldinn í bókasafninu og var hann fjölmennur. Fram koma að fulltrúar Vegagerðarinnar og kirkjunnar sáu sér ekki fært að mæta í dag. Annar fundur um sama efni verður haldinn á morgun 17. janúar og hafa fulltrúar kirkjunnar boðað komu sína á þann fund en kirkjan á land sem liggur að veginum í Mosfellsdal og er því hagsmunaaðili.
Sigrún P

Pin It on Pinterest