by ibuahreyfingin | 17 Jun, 2010 | Fréttir
Bókun fulltrúa M lista varðandi ráðningu bæjarstjóra Mosfellsbæjar á fundi bæjarstjórnar þann 16. júní 2010
Eftirfarandi má lesa á heimasíðu Mosfellsbæjar um stefnur gildi og framtíðarsýn: „Þegar Haraldur Sverrisson tók við sem bæjarstjóri haustið 2007 var eitt hans fyrsta verkefni að leggja til við bæjarráð að hafin yrði vinna við stefnumótun hjá Mosfellsbæ með það að markmiði að gera gott bæjarfélag enn betra enda sé það frumskylda bæjaryfirvalda hverju sinni að spyrja spurninga um það hvort unnið sé í samræmi við stefnu sem stuðlar að bættum hag og velferð bæjarbúa.“
Í þessum anda var mannauðsstefna Mosfellsbæjar skrifuð síðar. Í henni segir: „Starfsmenn Mosfellsbæjar eru ráðnir á grundvelli reynslu, hæfni, menntunar og hæfileika til að takast á við starfið. Laus störf skulu auglýst á opinberum vettvangi og til að tryggja sanngirni og fagmennsku skulu allar ráðningar hjá Mosfellsbæ byggjast á samræmdu ráðningarferli. Kjör starfsmanna taka mið af kjarasamningum viðkomandi stéttarfélaga.”
Með vísan til mannauðsstefnu Mosfellsbæjar var lögð fram tillaga á fundi bæjarstjórnar um að staða bæjarstjóra yrði auglýst og starfskjör endurskoðuð. Því miður fór svo fyrir tillögunni að henni var hafnað af sitjandi meirihluta. Ætlun meirihlutans að ráða bæjarstjóra á pólitískum forsendum, án auglýsingar, gengur þvert gegn mannauðsstefnu Mosfellsbæjar. Það er slæmt fordæmi og vanvirðing við faglega stjórnsýslu.
Þórður Björn Sigurðsson
by ibuahreyfingin | 17 Jun, 2010 | Greinar
Við skoðun á ársreikningi Mosfellsbæjar 2009 kemur í ljós að sveitarfélagið hefur tekist á hendur sjálfskuldarábyrgð vegna 246 milljón króna láns sem Helgafellsbyggingar ehf. tóku á árinu 2009. Á móti sjálfskuldarábyrgðinni hefur sveitarfélagið tekið tryggingu í formi veða í tilteknum lóðum í Helgafellshverfi.
En hvernig gerðist það að Mosfellsbær varð ábyrgur fyrir skuldum einkafyrirtækis? Í svari bæjarstjóra við fyrirspurn undirritaðs kemur fram að í samræmi við samning milli Mosfellsbæjar og Helgafellsbygginga ehf. á félagið að greiða til Mosfellsbæjar fast gjald, 700 þúsund krónur, fyrir hverja skipulagða íbúðarlóð eða íbúð í fjölbýlishúsi. Þó varð að samkomulagi við fyrsta uppgjör félagsins til Mosfellsbæjar vegna seldra íbúða 2007 í Helgafellslandi sem fram fór sumarið 2008, að félagið greiddi upphæðina 240 milljónir króna með þremur víxlum. Sem baktryggingu fyrir greiðslu víxlanna var Mosfellsbæ sett að veði lóðir og fasteign Helgafellsbygginga ehf. Að mati Helgafellsbygginga ehf. var verðmæti veðanna á þessum tíma áætlað um 388 milljónir króna.
Til einföldunar mætti segja að til að geta staðið við umsamdar greiðslur til bæjarins hafi Helgafellsbygginar ehf. tekið lán sem bærinn gekkst í ábyrgð fyrir. Í staðinn tók bærinn veð í lóðum og fasteign Helgafellsbygginga.
Í ljósi þess hversu mikið verðfall hefur átt sér stað á fasteignamarkaði má velta fyrir sér hvort veðin standi undir umræddum lánum. Ekkert mat hefur farið fram á verðmæti veðanna frá því samningurinn var gerður á sínum tíma og mat á veðunum hefur aldrei verið unnið af óháðum aðila.
Að sama skapi verður vart hjá því komist að leiða hugann að því hvort sú nýja hugmyndafræði sem þáverandi formaður bæjarráðs og skipulags- og byggingarnefndar, Haraldur Sverrisson, kynnti til sögunnar í greininni „Uppbygging íbúðarhverfa ný hugmyndafræði í Mosfellsbæ“ sem birtist í Morgunblaðinu þann 7. maí 2006, hafi reynst jafn áhættulaus og fullyrt var:
„Með þessu móti er tryggt að fjármagn fylgir frá landeigendum til að standa undir uppbyggingu á nauðsynlegri þjónustu í hverfunum og sá kostnaður lendir ekki á íbúum sveitarfélagsins. Auk þess fríar bæjarfélagið sig þeirri miklu áhættu sem fylgir uppkaupum. […] Sú leið sem hér hefur verið kynnt um uppbyggingu íbúðahverfa í Mosfellsbæ hefur vakið mikla athygli. Ljóst er að hér er um nýja hugmyndafræði að ræða sem önnur sveitarfélög munu vafalaust nýta sér.“
Getur verið að fjárhagurinn sé ekki jafn traustur í Mosfellsbæ og sumir vilja meina?
Þórður Björn Sigurðsson
varabæjarfulltrúi Íbúahreyfingarinnar í Mosfellsbæ
by ibuahreyfingin | 16 Jun, 2010 | Fréttir
Yfirlýsing frá Íbúahreyfingunni í Mosfellsbæ vegna fréttatilkynningar frá Mosfellsbæ:
Í dag sendi kynningarfulltrúi Mosfellsbæjar út fréttatilkynningu um áframhaldandi meirihlutasamstarf Sjálfstæðisflokks og Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs í Mosfellsbæ. Í tilkynningunni er greint frá hugmyndum meirihlutans um aðkomu minnihlutans að stjórn bæjarins og látið að því liggja að vegna afstöðu Íbúahreyfingarinnar hafi ekki getað orðið af samstarfi.
Hugmyndir meirihlutans fólust meðal annars í því að öll framboð í bæjarstjórn myndu leggja fram sameiginlega fjárhagsáætlun. Íbúahreyfingin tók vel í þá hugmynd og lagði til á grundvelli hennar að mynduð yrði samstjórn allra framboða um rekstur bæjarins því fjárhagsáætlun væri grundvallarplagg hvað varðar stefnumörkun í rekstri sveitarfélagsins. Næðist ekki samstaða um samstjórn lýsti Íbúahreyfingin sig engu að síður jákvæða gagnvart hugmyndum meirihlutans með ákveðnum breytingum. Ekki var tekið vel í hugmyndir Íbúahreyfingarinnar af hálfu Sjálfstæðisflokksins og því strönduðu viðræður um samvinnu.
by ibuahreyfingin | 13 Jun, 2010 | Fréttir
Boðað til fyrsta íbúafundar Íbúahreyfingarinnar á mánudagskvöld, annað kvöld, kl. 20.30 í Brekkunni, Álafosssvegi 27. Fundurinn er öllum opinn og efni fundarins er næsti bæjarstjórnarfundur.
by ibuahreyfingin | 9 Jun, 2010 | Fréttir
Íbúahreyfingin í Mosfellsbæ þakkar stuðninginn sem framboðið fékk í sveitarstjórnarkosningum. Einn fulltrúi er nú í bæjarstjórn og Íbúahreyfingin er annað stærsta stjórnmálaaflið í Mosfellsbæ, aðeins um mánuði eftir að stofnað var til framboðsins.
Það er athyglisvert að kjörsókn í Mosfellsbæ var aðeins 68% og að í raun kusu aðeins 31.45% kosningabærs fólks Sjálfstæðisflokkinn, sem nú fer með meirihlutavald í bæjarstjórn.
Varla er hægt að ímynda sér erfiðara hlutverk en að vera í hagsmunagæslu fyrir bæjarbúa undir þeim kringumstæðum sem þessi kosningaúrslit færðu okkur íbúunum. Það er þó verkefnið og því munum við sinna og vonandi með hjálp bæjarbúa.
Íbúahreyfingin lítur á það sem sitt helsta verkefni að virkja íbúa Mosfellsbæjar til þátttöku í mótun samfélagsins, með þau verkfræri sem við höfum, og býður alla sem áhuga hafa á lýðræðisumbótum, jafnrétti og jöfnuði til samstarfs.
Íbúahreyfingin mun beita sér fyrir lýðræðislegum stjórnarháttum og þar sem hinir flokkarnir lögðu líka áherslu á lýðræðisumbætur ættu að vera hæg heimatökin að fylgja því fast eftir.