Aðalfundur Íbúahreyfingarinnar

Aðalfundur Íbúahreyfingarinnar verður haldinn í Brekkunni, Álafossvegi 27, þriðjudaginn 25. september kl. 17.30.

Á dagskrá eru venjuleg aðalfundarstörf.

Allir eru velkomnir á aðalfundinn!

Mosfellingum allar bjargir bannaðar gegn spilltri klíku – Fréttatilkynning

Á bæjarráðsfundi nýverið ákvað bæjarráð að veita bæjarstjóra leyfi til þess að ganga til samninga við Landsbanka Íslands vegna kröfu hans um lúkningu á sjálfskuldarábyrgð bæjarfélagsins á skuldabréfi Helgafellsbygginga ehf.

Sjálfskuldarábyrgðin er ólögleg samkvæmt sveitarstjórnarlögum, en skuldabréfið var gefið út vegna vangoldinna víxla Helgafellsbygginga ehf., viðtaka sveitarfélagsins á víxlunum var einnig ólögleg samkvæmt sveitarstjórnarlögum. Þær lagagreinar sem banna viðskipti af þessu tagi eru settar til að sporna gegn spillingu og til varnar íbúum sveitarfélaga.

Samkvæmt sveitarstjórnarlögum er bæjarráði óheimilt að fullafgreiða mál sem varðar framsal eigna og réttinda sveitarfélagsins, enda er bæjarráð skipað 3 mönnum með atkvæðisrétt og fundir þess lokaðir almenningi á meðan bæjarstjórnarfundir eru opnir almenningi og skipað sjö fulltrúum með atkvæðisrétt. Ákvæðin sem takmarka vald bæjarráðs með þessum hætti eru sett til þess að sporna gegn spillingu og til varnar íbúum sveitarfélaga. Bæjarráð hafði atkvæðisrétt af fjórum bæjarfulltrúum, málfrelsi af tveimur eða þeim sem ekki sitja í bæjarráði og kom í veg fyrir að fundarefnið væri rætt á opnum fundi eins og lög kveða á um.

Málsmeðferðin var kærð af bæjarfulltrúa Íbúahreyfingarinnar til Innanríkisráðuneytisins sem vísaði málinu frá á grundvelli þess að bæjarfulltrúi væri ekki aðili að málinu; það varði ekki réttindi hans og skyldur. Hverjir ætli séu aðilar að málsmeðferðinni að mati Innanríkisráðuneytisins ef ekki bæjarfulltrúar?

Niðurstöðu ráðuneytisins verður vísað til Umboðsmanns Alþingis.

Jón Jósef Bjarnason
Íbúahreyfingin í Mosfellsbæ

Fréttatilkynning frá Íbúahreyfingunni í Mosfellsbæ vegna Helgafellsbyggingamálsins

Í gær samþykkti bæjarráð Mosfellsbæjar með þremur samhljóða atkvæðum að heimila bæjarstjóra að ganga frá samningi við Landsbankann um uppgjör ábyrgðar bæjarins á láni Helgafellsbygginga ehf. Fulltrúi Íbúahreyfingarinnar, Jón Jósef Bjarnason, sem nú hefur stöðu áheyrnarfulltrúa í bæjarráði, lagði fram svohljóðandi bókun við afgreiðslu málsins:

„Með fullnaðarafgreiðslu á samkomulagi sem samþykkt var að fela bæjarstóra að ganga frá við Landsbankann er brotin 58. grein og 35 gr. sveitarstjórnarlaga, þar kemur fram að bæjarráð hafi ekki heimild til fullnaðarafgreiðslu þrátt fyrir afgreiðslu bæjarstjórnar um að veita bæjarráði fullnaðarafgreiðslurétt.

Tillaga um að fresta málinu þar sem gögn vantaði, var felld, en íbúahreyfingin benti á að nauðsynleg gögn vantar með málinu og gögn sem fylgdu voru send seinna en fundarboðið.
Íbúahreyfingin telur bæjarstjóra brjóta 55. gr. 6.kafla 3.mgr. sveitarstjórnarlaga.

Dagskrárliðurinn ber nafnið “uppgjör lóða”, en fjallar um innheimtu Landsbankans vegna sjálfskuldarábyrgðar, tillaga um að setja lýsandi titil var felld.

Bæjarráð er með gjörningnum að afhenda lóðir gegn ólögmætri sjálfskuldarábyrgð. Hagsmunum Mosfellsbæjar væri best borgið með því að fara eftir lögfræðiáliti lögfræðings bæjarins og gangast ekki við sjálfskuldarábyrgðinni.

Íbúahreyfingin mun kanna hvaða leiðir eru færar til þess að verja hagsmuni Mosfellsbæjar í þessu máli.“

Þann 6. júní bárust svör frá Mosfellsbæ við fyrirspurn Jóns Jósefs um stöðu málsins. Í svari bæjarins kom fram að bærinn vissi ekki betur en að lánið væri í vanskilum. Mosfellsbær lét þó hjá líða í framhaldi að upplýsa Jón Jósef um innheimtubréf Landsbankans sem dagsett er 8. júní fyrr en á fundi bæjarráðs í gær. Því er ljóst að hægt hefði verið að fjalla um málið á fundi bæjarráðs þann 14. júní, eða á fundi bæjarstjórnar þann 20. júní, hvar Jón Jósef hefði haft atkvæðisrétt við afgreiðslu þess. Svo virðist sem bæjaryfirvöld séu að skipuleggja sig framhjá allri mótstöðu við málið og haldi upplýsingum almenningi og kjörunum fulltrúum. Ef Jón Jósef hefði haft atkvæði á fundi bæjarráðs í gær hefði það nægt til að fella málið samkvæmt 35. gr. sveitarstjórnarlaga. En greinin felur bæjarráði heimild til fullnaðarákvörðun mála sé eigi ágreiningur innan ráðsins um ákvörðunina.

Í gær hafði Þórður Björn Sigurðsson, varabæjarfulltrúi Íbúahreyfingarinnar samband við bankastjóra Landsbankans og upplýsti hann um að stórlega mætti draga í efa að Mosfellsbæ væri stætt á að undirrita þau drög að uppgjöri sem lögð voru fyrir bæjarráð í gær því þau stangist á við niðurstöður minnisblaðs sem Mosfellsbær lét lögfræðistofuna LEX vinna um málið.

Þar sem uppgjörsdrögin voru lögð fram sem trúnaðarmál fór varabæjarfulltrúi Íbúahreyfingarinnar fram á það við bæjarstjóra í gær að trúnaði yrði nú þegar aflétt af skjalinu en efni skjalsins á fullt erindi við almenning.

Svo virðist sem bæjaryfirvöld séu að skipuleggja sig framhjá allri mótstöðu við málið og haldi upplýsingum frá almenningi og kjörunum fulltrúum. Einnig að umboðsmaður Alþingis hafi vísað málinu frá sér þegar til hans var leitað vegna tafa á afgreiðslu málsins af hálfu Innanríkisráðuneytisins á þeim grundvelli að íbúinn hefði ekki aðild að málinu.

Virðingarfyllst,
f.h. Íbúahreyfingarinnar í Mosfellsbæ
Þórður Björn Sigurðsson

Nánari upplýsingar veitir: Jón Jósef Bjarnason, bæjarfulltrúi í síma 897 9858

Bókun vegna ársreiknings Mosfellsbæjar 2011

Bókun á bæjarstjórnarfundiÍbúahreyfingin lagði fram eftirfarandi bókun við ársreikning Mosfellsbæjar 2011 á fundi bæjarstjórnar hinn 11. apríl.
Fundargerðina má sjá hér: http://mos.is/Stjornsysla/Lydraedi/Fundargerdir/

„Bæjarfulltrúi Íbúahreyfingarinnar óskar bókað:
Mosfellsbær gefur út eina fjárhagsáætlun á ári, tilgangur fjárhagsáætlunar er greinilega misskilinn af meirihlutanum, henni er ætlað að marka rekstur ársins og eftir henni á að fara nema sérstakar ástæður koma upp.
Ársreikningur á m.a. skv. lögum að sýna hversu vel bæjarfélagið hefur staðist þá fjárhagsáætlun sem formlega var gefin út fyrir árið.
Þetta gerir ársreikningur 2011 ekki, hann er borinn saman við síðustu endurskoðuðu fjárhagsáætlun. Sú áætlun lýtur ekki þeim reglum sem formleg fjárhagsáætlun gerir, hún er nauðsynlegt innanhúsplagg en nær ekki lengra en það. Með því að nota hana í samanburði við rauntölur í ársreikningi er verið að fela frávik 9 mánaða á árinu frá gildandi fjárhagsáætlun.
Íbúahreyfingin lagði til í bæjarráði að framsetning ársreikningsins yrði löguð en það var fellt af meirihlutanum og úr bókun þeirra má lesa óábyrga afstöðu þeirra til málsins.

Nokkur dæmi:
Ársreikningur sýnir 1,17% frávik í skatttekjum en mismunurinn er í raun 8,87%.
Ársreikningur sýnir 7,57% frávik í framlögum úr jöfnunarsjóði en er í raun 24,70%.
Ársreikningur sýnir 6,43% frávik í öðrum tekjum sem í raun var 7,52%.
Tekjur eru sagðar með 3,29% fráviki sem er í raun 11.06%.

Frávik launa og launatengdra gjalda eru sögð vanáætluð um 1,65% en voru í raun vanáætluð um 8,92% en frávikið milli rauntalna og áætlunar er einna minnst þar.
Annar rekstrarkostnaður er sagður fara 13,87% fram yfir áætlun en fór í raun 22,88% framyfir.
Fjármagnsliðir eru vanáætlaðir um 45,06% en eru sagðir vanáætlaðir um -1,7% sem er gríðarlegur munur.
Íbúahreyfingin leggur til við bæjarstjórn að samanburður í ársreikningi miðist við við fjárhagsáætlun bæjarins, eins og lög kveða á um, en að endurskoðaðrar fjárhagsáætlunar sé getið í skýringum sé þess þörf.

Sveitastjórnarlög 61. gr. Ársreikningur.
Gera skal ársreikning fyrir sveitarsjóð, stofnanir sveitarfélagsins og fyrirtæki þess. Jafnframt skal gera samstæðureikning fyrir sveitarfélagið, þ.e. sveitarsjóð, stofnanir þess og fyrirtæki með sjálfstætt reikningshald, sbr. 60. gr. Ársreikningur skal gerður samkvæmt lögum um ársreikninga, reglum settum samkvæmt þeim lögum og lögum þessum, sem og góðri reikningsskilavenju.
Í ársreikningi skal koma fram samanburður við:
a. ársreikning undanfarins árs,
b. upphaflega fjárhagsáætlun ársins,
c. fjárhagsáætlun ársins ásamt viðaukum.

Vegna Helgafellsbygginga ehf.
Íbúahreyfingin vekur athygli á að ólöglegt er fyrir sveitarfélag að ganga í sjálfskuldarábyrgð fyrir skuldum einkaaðila skv. 69. gr. sveitarstjórnarlaga. Í 72. gr. sömu laga segir í 3ju málsgrein: „Endurskoðandi sveitarfélags skal jafnframt kanna hvort fullnægjandi heimildir hafi verið fyrir útgjöldum og hvort almenn stjórnsýsla sveitarfélags og einstakar ákvarðanir af hálfu þess eru í samræmi við reglur um fjármál sveitarfélags, ábyrga fjármálastjórn og upplýsingaskyldu sveitarfélaga.“
Reynist hér um lögbrot að ræða er það ekki í samræmi við reglur um fjármál, ábyrga fjármálastjórn né upplýsingaskyldu sveitarfélagsins.
Endurskoðanda ber því lagalega skyldu til þess að benda á þetta í ársreikningi.
Jafnframt bendir Íbúahreyfingin á að umrædd veð eru og hafa frá upphafi verið skráð á Mosfellsbæ og að verðmæti þeirra séu auk þess stórlega ofmetin.
Íbúahreyfingin lýsir ánægju með að endurskoðandi bæjarins skuli nú nefna „fasteign“ sem veð en ekki „fasteignir“ líkt og gert var í síðasta ársreikningi og Íbúahreyfingin benti árangurslaust á.“

Lýðræði í kreppu – birtingarmyndir í Mosfellsbæ

Í Kastljósi í liðinni viku var umfjöllun sem kallaðist „Lýðræði í kreppu“. Þar kom fram hvernig traust á stjórnmálamönnum hrundi með fjármálaloftköstulunum árið 2008. Í þættinum voru birtar myndir af kynningarfundi lýðræðisnefndar Mosfellsbæjar sem haldinn var á dögunum og einnig var talað við kynningarstjóra bæjarins. Kynningarstjórinn útlistaði í löngu máli hversu erfitt væri að fá fólk til að taka þátt í þeim viðburðum sem bærinn stendur að í nafni lýðræðisvæðingar.
Svo skemmtilega vildi til að ég var stödd á þessum fundi lýðræðisnefndar og eftir fundinn skrifaði ég athugasemd sem ég sendi á lýðræðisnefnd og birti líka sem grein á vefritinu Smugan.is. Nafn greinarinnar er „Af hverju nennir fólk ekki að mæta á fundi?“. Hún er aðgengileg á www.ibuahreyfingin.is og fjallar um tilgangsleysi þess að halda fundi þar sem vandlega er passað upp á að lýðræðisleg umræða komist ekki á flug og að ekki falli skuggi á skoðanir þeirra sem valdið hafa.
í Kastljósþáttunum varpar fréttamaðurinn fram spurningunni: „Er fólk ekki bara komið með upp í kok af því að stjórnmálamennirnir virðast, sama hvað tautar og raular, alltaf eiga síðasta orðið?“ Gerry Stoker, breskur stjórnmálafræðiprófessor, svaraði því til að það væri raunin, fólk nennir ekki að taka þátt í lýðræðisferlum þar sem lokaniðurstaðan er algjörlega í höndum stjórnmálamanna.
Ég hef nokkuð oft mætt á fundi sem haldnir eru í nafni lýðræðis hjá bænum og svo virðist sem þeir sem standa að þessum fundum haldi sjálfir að þeir séu framlag til lýðræðisvæðingar. Það er hins vegar ekki sú tilfinning sem ég og mjög margir aðrir hafa af þessum viðburðum.
Fyrir kosningar var haldinn fundur þar sem meirihlutinn neitaði að svara fyrirspurnum. Í október 2010 var haldinn íbúafundur um fjárhagsáætlun Mosfellsbæjar. Íbúar áttu þar að koma með tillögur að breytingum á fjárhagsáætlun án þess að hafa nein gögn í höndunum til að gera það mögulegt að koma með vitrænar tillögur. Afar óljóst úrvinnsluferli kórónaði svo þessa „lýðræðisaðgerð“.
Lýðræðisnefnd hefur nú lokið störfum. Íbúakosningar verða ekki bindandi og 20% íbúa þarf til að kalla eftir íbúakosningu. Hægt hefði veið að ganga miklu lengra í því að færa valdið aftur til fólksins en lýðræðisnefnd, að undanskildum fulltrúa Íbúahreyfingarinnar, kaus að nota ekki tækifærið. Þessar niðurstöður segja mér að fólk í nefndinni hafi gleymt því hvert það sækir valdið, þ.e. til almennings.
Íbúalýðræði felst ekki eingöngu í íbúakosningum en þær eru þó mikilvægt verkfæri fyrir íbúa til að grípa inni í aðgerðir stjórnvalda. Ein rök fyrir því að ekki var lengra gengið eru þau að við búum við fulltrúalýðræði og virðast þau rök byggja á þeim misskilningi að það sé ósamrýmanlegt íbúalýðræði.
Oft heyrist í umræðum að vandamál íslenskra stjórnmála sé vöntun á sterkum leiðtogum. Ég tel að þetta sé „rangur misskilningur“. Mín heitasta ósk varðandi stjórnmál á Íslandi er að almenningur hætti að bíða eftir misvitrum leiðtogum og axli sjálfur ábyrgð á lýðræðinu með þátttöku og málefnalegum skoðanaskiptum.
Þær misheppnuðu uppfærslur á lýðræðinu sem ég hef orðið vitni að í Mosfellsbæ eru hins vegar ekki vörður á vegi hins nýja lýðræðis.

Kristín I. Pálsdóttir

Greinin birtist í Mosfellingi 10. nóvember 2011.

Pin It on Pinterest