Bæjarstjóri svarar gagnrýni með breyttum úthlutunarreglum

Bæjarstjóri svarar gagnrýni með breyttum úthlutunarreglum

Í morgun samþykkti bæjarráð Mosfellsbæjar erindi bæjarstjóra þess efnis að breyta reglum um úthlutun leigulóða. Það vekur athygli að ákvæði sem fjallar um að umsækjandi um lóð skuli sýna fram á að geta staðið undir áætlaðri fjárfestingu hefur verið breytt á þann veg að nú getur pólitískt skipað bæjarráð sett viðmið um skil fjármálaupplýsinga í hvert skipti sem það úthlutar lóð. Með því að breyta umræddu ákvæði er oddviti D-lista með stuðningi fulltrúa S-lista ekki einungis að treysta vald sitt, heldur líka að skjóta sér undan gagnrýni Íbúahreyfingarinnar vegna úthlutunar lóðar undir einkasjúkrahús fyrir erlenda auðkýfinga þar sem ekki var farið eftir reglunum.

Í núgildandi reglum um úthlutun lóða segir í grein 2.2.3:

“Einstaklingur sem umsækjandi um lóð skal leggja fram greiðslumat frá viðskiptabanka eða fjármálastofnun og skal greiðslumatið uppfylla þær kröfur er íbúðalánasjóður/ viðskiptabankarnir gera til lántakenda sinna, greiðslumatið skal bera það með sér að umsækjandi geti staðið undir þeirri fjárfestingu sem áætluð er og tilgreind í auglýsingu. Lögaðili sem umsækjandi um lóð skal leggja fram mat frá viðskiptabanka eða fjármálastofnun ásamt greinargerð umsækjanda sjálfs um að viðkomandi geti staðið undir þeirri fjárfestingu sem áætluð er og tilgreind í auglýsingu. “

Í nýju reglunum er þessu ákvæði breytt á eftirfarandi veg:

“Umsækjendur skulu geta sýnt fram á að þeir hafi fjárhagslega getu til að standa undir kostnaði við öflun lóðar og byggingu mannvirkja í samræmi við þau viðmið sem bæjarráð setur hverju sinni í úthlutnarskilmála.”

Með því að breyta lóðaúthlutunarreglunum er oddvitinn, eins og áður segir, ekki einungis að treysta vald sitt, heldur að skjóta sér undan gagnrýni. Íbúahreyfingin hefur ítrekað bent á að bæjarráð braut reglurnar þegar það úthlutaði skúffufyrirtæki í Hollandi lóð undir einkasjúkrahús fyrir erlenda auðkýfinga í júlí í fyrra. Reglurnar sem fara átti eftir kváðu á um að greiðslumat frá viðskiptabanka eða fjármálastofnun þyrfti að liggja fyrir þegar lóð væri úthlutað en ekki eftirá eins og raun varð á. Lóðarleigu- og kaupréttarsamningar voru þess í stað undirritaðir án nokkurra upplýsinga um fjárhagslegan bakgrunn Hendriks E. Middeldorps og Gunnars Ármannssonar og þeim veittur eins og hálfs árs frestur til að skila þeim en þess má geta að annar samningsaðilinn, Gunnar Ármannsson, hafi áður gert slíkan samning við Mosfellsbæ í nafni Primacare sem ekkert varð úr.

Skv. nýju reglunum er bæjarráði gefið svigrúm til að setja “viðmið” um fjármálaupplýsingar í útboðsskilmála “hverju sinni”. Í reynd verður það því þannig að tekin verður pólitísk ákvörðun um hvernig upplýsingum umsækjendur skuli skila í hvert skipti sem sótt er um tiltekna lóð. Ferlið er því orðið ógegnsætt og háð geðþóttaákvörðunum atkvæðisbærra fulltrúa D- og S-lista í bæjarráði.

Þess má geta að Úthlutunarreglur Mosfellsbæjar voru upphaflega settar í kjölfar gagnrýni frá félagsmálaráðuneytinu og Umboðsmanni alþingis í byrjun aldarinnar. Í þessari breytingu felst að mati Íbúahreyfingarinnar afturför til þess tíma.

Bókun M-lista Íbúahreyfingarinnar í bæjarráði 11. maí 2017
Bæjarfulltrúi Íbúahreyfingarinnar telur að breytingar á úthlutunarreglum frá 2011 gefi bæjarráði of mikið svigrúm til að úthluta lóðum eftir hentugleikum og auki ógagnsæi um úthlutun og mun því ekki greiða atkvæði með þeim.

Sjúkrahúsmál aftur á dagskrá bæjarráðs

Sjúkrahúsmál aftur á dagskrá bæjarráðs

Einkasjúkrahús var aftur til umræðu á fundi bæjarráðs Mosfellsbæjar í dag. Á fundi bæjarstjórnar 17. ágúst sl. hafði fulltrúi Íbúahreyfingarinnar gagnrýnt ákvörðun fulltrúa D- og S-lista í bæjarráði um að úthluta huldumönnum lóð undir sjúkrahúsið án þess að afla nauðsynlegra upplýsinga um getu þeirra og hæfi til að ráða við slíkt verkefni. Frá athugasemdum Íbúahreyfingarinnar var greint í öllum helstu fjölmiðlum landsins. Nú virðist sem fulltrúar S-lista hafi séð að sér og tillaga þeirra þess efnis að “ábyrgur aðili s.s. endurskoðandi bæjarins” verði fenginn til að kanna stöðu og fjárfestingasögu þeirra aðila sem hyggjast standa fyrir byggingu einkasjúkrahúss og hótels í Mosfellsbæ var tekin fyrir á fundinum í morgun.

Bæjarstjóri hefur núþegar undirritað samninginn og telur Íbúahreyfingin að skaðinn sé því skeður, eins og fram kemur í eftirfarandi bókun:

“Bæjarfulltrúi Íbúahreyfingarinnar furðar sig á að fulltrúi S-lista skuli á fundi bæjarráðs 21. júlí hafa gefið samþykki sitt fyrir úthlutun lóðar undir einkasjúkrahús í Mosfellsbæ, án þess að fyrir ráðinu lægi áreiðanleikakönnun á hæfi og fjárhagslegum burðum umsækjenda. Tillaga um að kanna stöðu þeirra og fjárfestingarsögu nú er of seint fram komin þar sem bæjarstjóri hefur núþegar gengið frá samningi um úthlutun lóðanna. 

Íbúahreyfingin telur að skaðinn sé núþegar skeður og eðlilegasta framhald þessa máls að bæjarráð taki vinnubrögð sín við úthlutun lóða sveitarfélagsins til skoðunar.”

Pin It on Pinterest