by admin42 | 4 Dec, 2015 | Fréttir
Mig langar að byrja á því að þakka bæjarstjóra yfirferðina og starfsmönnum bæjarins fyrir þá miklu vinnu sem þeir hafa lagt á sig við undirbúning fjárhagsáætlunar.
Það er ljóst að fjöldi sveitarfélaga á við fjárhagsvanda að etja. Haraldur Sverrisson ætlar þó að skila 192 milljón kr. hagnaði. Það stóð líka til á árunum 2014 og 2015 en það gekk ekki eftir. Áætlunin gengur þó vonandi eftir þannig að hagnaðurinn geti nýst til að vega upp á móti neikvæðri rekstrarniðurstöðu undangenginna ára.
Íbúahreyfingin fagnar því að tillaga um að auka svigrúm fjölskyldunefndar til styrkveitinga hafi fengið hljómgrunn og vonast til að Kvennathvarfið, sem veitir íbúum Mosfellsbæjar mikla og góða þjónustu, fái m.a. að njóta þess.
Einnig lýsir Íbúahreyfingin ánægju sinni með að gjaldskrá leikskóla skuli ekki hækka og að til standi að gera samninga við leikskóla utan sveitarfélagsins um vistun barna undir tveggja ára aldri.
Verklag í tengslum við fjárhagsáætlun
Eitt af því sem verulegu máli skiptir við gerð fjárhagsáætlunar er hvernig að undirbúningi hennar er staðið eða eins og spakir menn og konur hafa haldið fram er:
“Besta aðferðin til að sjá fyrir um framtíðina að skipuleggja hana” og sjá til þess að forsendur séu skýrar og samráð við alla hlutaðeigandi aðila eftir því sem best verður á kosið.
Íbúahreyfingin telur að mest sé um vert að þær upplýsingarnar sem bæjarfulltrúar fá til að átta sig á fjárhagsáætlun sveitarfélagsins séu gagnsæjar. Tölur á blaði segja okkur lítið, það er það sem er á bak við tölurnar sem skiptir höfuðmáli. Þau gögn sem bæjarráð og nefndirnar fengu í hendur í því kynningarferli sem staðið hefur yfir nú í nóvember einskorðuðust við tölur. Bæjarráð fékk að vísu greinargerðir sviðanna afhentar fyrir viku sem er alltof seint.
Íbúahreyfingin lagði fram tillögu þess efnis að endurskoða vinnubrögð við 1. umræðu. Tillagan fól í sér að funda með framkvæmdastjórum sviða, yfirmönnum undirstofnana og íbúum, auk þess að senda fjárhagsáætlun til umsagnar í nefndum fyrir 1. umræðu til að tryggja að öll gögn og óskir lægjur fyrir þegar umræðan hæfist. Einnig var sú ósk ítrekuð að yfirmönnum yrði falið að vinna starfsáætlanir, í takt við leiðbeiningar Sambands íslenskra sveitarfélaga. Íbúahreyfingin lagði tillöguna fyrst fram í umræðum um fjárhagsáætlun í lok ágúst þar sem henni var hafnað af fulltrúum D-, S- og V-lista með frávísun. Tillögunni nú var vísað inn í framtíðina, til fjárhagsáætlunar næsta árs. Það er deginum ljósara að núverandi verklag stenst ekki gæðakröfur. Að mínu viti er ekki um annað að ræða en að breyta því. Mér er reyndar með öllu óskiljanlegt að svona vinnubrögð skuli almennt vera liðin.
Það eru starfsáætlanir sem varpa mestu ljósi á það sem er á bak við tölurnar. Þær greinargerðir sem lagðar eru fram til 2. umræðu eru einungis stuttar samantektir. Það þykja sjálfsögð vinnubrögð að gera starfsáætlanir þar sem stjórnsýsla er vönduð. Það er t.d. lögbundið í skólunum.
Kjarasamningar og launajöfnuður
Hjá Mosfellsbæ starfar mikill fjöldi fólks, á 6. hundrað, ef ég man rétt. Nú standa kjarasamningar fyrir dyrum og ljóst að það þarf að bæta kjör hinna lægst launuðu umtalsvert. Það er ekki okkar ríku þjóð sæmandi að vinnandi fólk skuli ekki geta framfleytt fjölskyldum sínum. Það er ósk Íbúahreyfingarinnar að Mosfellsbær standi að baki sínum starfsmönnum í þeim viðræðum og sjái til þess að enginn starfsmaður sveitarfélagsins þurfi að lifa við hungurmörk að þeim samningum loknum.
Íbúahreyfingin telur mikilvægt að kjör starfsmanna hjá Mosfellsbæ séu sem jöfnust. Mosfellsbær er vinnustaður í eigu bæjarbúa og það skiptir máli að hafa jöfnuð að leiðarljósi þegar launakjör eru ákveðin á þannig vinnustað.
Mikil yfirvinna og háir bílastyrkir
Það er eitt og annað sem vekur athygli þegar fjárhagsáætlun er skoðuð. Í ákveðnum deildum sveitarfélagsins er mikil yfirvinna og bílastyrkir háir. Í sumum tilvikum er helmingur af launakostnaði skilgreindur sem yfirvinna. Í heild er kostnaður vegna bílastyrkja nálægt 50 milljónum á ári.
Í gamni reiknaði Íbúahreyfingin út hvað hægt væri að keyra marga km fyrir þessa peninga. Viðmiðið var bíll sem notar 8 l á hundraðið. Niðurstaðan var um 3.000.000 km, það er ca 4 sinnum fram og tilbaka til tunglsins. Á 10 árum slagar kostnaður Mosfellsbæjar vegna bílastyrkja upp í hálfan milljarð.
Íbúahreyfingin spyr sig samt hvort ekki sé hagstæðara að sveitarfélagið sjálft reki bílana. En dæmið er auðvitað ekki svo einfalt. Á bak við þessar tölur eru m.a. kjarabætur.
Umhverfisverkefni
Eitt af því sem vert er að vekja athygli á er að ýmis verkefni sem búið er að gefa vilyrði fyrir hafa þann “tendence” að týnast. Eitt slíkt verkefni er lúpínuverkefnið. Landgræðslan fékk í fyrrasumar það verkefni að kortleggja útbreiðslu lúpínu í Mosfellsbæ. (Innskot: Landgræðslan komst að því að 5,8% af landi Mosfellsbæjar er þakið lúpínu.) Og hvað er gert með þær upplýsingar? Ég verð að segja að mér líður stundum eins og ég sé stödd í “slow motion” kvikmynd. Af hverju er ekki gert ráð fyrir þessu verkefni í fjárhagsáætlun? Þetta mál er búið að fara í hringi í nefndum síðan 2011.
Að lokum
Íbúahreyfingin lagði fram 4 tillögur í 1. umræðu og 1 tillögu á milli umræðna. Ég geri ég ráð fyrir að farið verði yfir þær í umræðum hér á eftir.
***************
Tillögur fulltrúa M-lista við fjárhagsáætlun sem fram komu við fyrri umræðu um fjárhagsáætlun 4. nóvember sl. og vísað var til seinni umræðu um fjárhagsáætlun:
Tillaga M-lista Íbúahreyfingarinnar um hækkun framlags til Kvennaathvarfsins:
Bæjarfulltrúi Íbúahreyfingarinnar leggur til að framlag Mosfellsbæjar til Kvennaathvarfsins verði kr. 243.000 á fjárhagsárinu 2016. Tilefnið er að efla aðgerðir gegn heimilisofbeldi sem jafnframt er liður í samstarfsverkefni sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu við lögreglustjóraembættið og hrundið var af stað í upphafi árs.
Lagt er til að tillögunni verði vísað til fjölskyldunefndar í tengslum við úthlutun styrkja.
Tillagan er samþykkt með níu atkvæðum.
Tillaga M-lista Íbúahreyfingarinnar um að auka svigrúm fjölskyldusviðs og fjölskyldunefndar til styrkveitinga:
Bæjarfulltrúi Íbúahreyfingarinnar leggur til að svigrúm fjölskyldusviðs og fjölskyldunefndar til styrkveitinga verði tvöfaldað á þessu ári og síðan stig af stigi næstu ár. Tilgangurinn er að styðja við bakið á hjálparsamtökum en sú staða er uppi í íslensku samfélagi að slík samtök sinna mikilvægri grunnþjónustu í þágu almannaheilla sem engin önnur stofnun hjá ríki og sveitarfélögum sér um.
Í tillögu að fjárhagsáætlun fyrir árið 2016 er gert ráð fyrir að umrætt framlag verði tvöfaldað. Tillagan er því lögð fram.
Tillaga M-lista Íbúahreyfingarinnar um stofnun umhverfisverkefnasjóðs:
Bæjarfulltrúi Íbúahreyfingarinnar gerir að tillögu sinni að stofnaður verði umhverfisverkefnasjóður á borð við listasjóð Mosfellsbæjar. Verkefni eins og skógrækt, uppgræðsla lands, hefting ágengra tegunda, endurheimt lífríkis og umhverfisfræðsla ættu skjól í þessum sjóði.
Lagt er til að tillögunni verði vísað til umsagnar framkvæmdastjóra umhverfissviðs og umhverfisstjóra og að umsögnin berist bæjarráði.
Tillagan er samþykkt með níu atkvæðum.
Tillaga M-lista Íbúahreyfingarinnar sem fram kom á 1237. fundi bæjarráðs 26. nóvember sl. og vísað var til seinni umræðu bæjarstjórnar um fjárhagsáætlun:
Bæjarfulltrúi Íbúahreyfingarinnar gerir að tillögu sinni að Mosfellsbær bjóði framvegis upp á jafnréttisfræðslu í efri deildum í öllum grunnskólum sveitarfélagsins. Niðurstöður rannsókna á vegum Velferðarráðuneytisins sýna að mjög hallar á konur í íslensku samfélagi. Besta leiðin til að taka á því er að hefja fyrirbyggjandi aðgerðir.
Íbúahreyfingin telur brýnt að hefja jafnréttiskennslu strax á fyrstu árum grunnskóla og leggur til að fræðslusviði, í samstarfi við fjölskyldusvið sem fer með málaflokkinn, verði falið að leggja drög að því verkefni.
Lagt er til að tillagan verði send til umsagnar jafnréttisfulltrúa og framkvæmdastjóra fræðslusvið sérstaklega m.t.t. að greina hvað af því sem fram kemur í tillögunni sé þegar sinnt.
Tillagan er samþykkt með níu atkvæðum.
Þessari tillögu var vísað til vinnu við gerð fjárhagsáætlunar næsta árs við 1. umræðu 4. nóvember:
Tillaga M-lista Íbúahreyfingarinnar um gagnaöflun í aðdraganda fyrri umræðu fjárhagsáætlunar
Bæjarfulltrúi Íbúahreyfingarinnar gerir að tillögu sinni að bæjarráð breyti vinnulagi við gerð fjárhagsáætlunar á þann veg að ráðið fundi með framkvæmdastjórum sviða og yfirmönnum stofnana áður en til fyrri umræða kemur í bæjarstjórn. Einnig óski bæjarráð eftir umsögnum frá fagnefndum og fundi með íbúum í aðdraganda fyrri umræðu.
Tilgangur tillögunnar er að gera umræðurnar markvissari og fjárhagsáætlunargerðina betri.
Sú hefð hefur ekki skapast hjá Mosfellsbæ að framkvæmdastjórar sviða skili bæjarráði starfsáætlunum í aðdraganda fjárhagsáætlunargerðar. Íbúahreyfingin telur það þó stuðla að innihaldsríkari umræðu og meira gagnsæi og leggur til að bæjarráð beiti sér fyrir því.
Samþykkt með níu atkvæðum að vísa 1. tillögu til vinnu við gerð fjárhagsáætlunar 2017.
Sjá á YouTube 2. umræðu fjárhagsáætlunar í bæjarstjórn Mosfellsbæjar :
Sigrún H Pálsdóttir, bæjarfulltrúi
by admin42 | 4 Nov, 2015 | Fréttir
Nú er 1. umræðu um fjárhagsáætlun Mosfellsbæjar 2016-2019 lokið. Íbúahreyfingin hafði þetta fram að færa að því tilefni:
Forseti, ágætu bæjarfulltrúar og aðrir fundargestir
Mig langar að byrja á því að þakka Aldísi Stefánsdóttur sem er staðgengill bæjarstjóra fyrir greinargóða yfirferð á fjárhagsáætlun og starfsmönnum fyrir þeirra hlutdeild í herlegheitunum en hún er ekki lítil.
Forsendur fjárhagsáætlunar – Gagnaöflun í aðdraganda 1. umræðu
Þetta er í annað skiptið sem ég tek þátt í 1. umræðu um fjárhagsáætlun í þessari bæjarstjórn. Ég verð að viðurkenna að það fór svolítið um mig í fyrsta skiptið. Mér fannst ég ekki hafa næga yfirsýn og ákvað að bíða með allan tillöguflutning þar til bæjarráð væri búið að fara yfir helstu þætti í starfsemi sviða og stofnana með stjórnendum og starfsmönnum sveitarfélagsins. Sá háttur að heimsækja þessar stofnanir bæjarins er til fyrirmyndar og reyndist koma að miklu gagni fyrir mig sem bæjarfulltrúa.
Við erum nú að hefja 1. umræðu um fjárhagsáætlun og illu heilli eigum við þessar heimsóknir eftir. Reynslunni ríkari frá því í fyrra tel ég að heppilegra hefði verið að hefja ekki umræðuna fyrr en að loknum þessum heimsóknum.
Fyrir hönd Íbúahreyfingarinnar langar mig því að leggja til að hér eftir eigi bæjarráð þetta samtal við stjórnendur og starfsmenn áður en gengið er til 1. umræðu. Það væri líka mjög gagnlegt að nefndirnar fengju fjárhagsáætlunina til umsagnar fyrir 1. umræðu en ekki eftir að búið er að ljúka áætlunargerð, eins og nú er gert. Það að vera búinn að heimsækja stofnanir og bera fjárhagsáætlun undir fagnefndir áður en til 1. umræðu kemur telur Íbúahreyfingin líklegt til að skila bestu mögulegu fjárhagsáætluninni.
Íbúahreyfingin telur líka að bæjarstjórn þurfi að tileinka sér þau vinnubrögð að byggja ekki umræðu um fjárhagsáætlun á áætlunum einum, heldur fái bæjarráð og bæjarstjórn í hendur rauntölur, ásamt áætlunum fyrir komandi ár. Til að meta árangur þarf við 1. umræðu að vera ljóst að hve miklu leyti fjárhagsáætlun ársins hefur gengið eftir.
Einnig væri akkur í því að fá starfsáætlanir, ásamt tölulegum forsendum fjárhagsáætlunar fyrirfram frá formönnum nefnda og framkvæmdastjórum sviða. Greinargerðir frá sviðunum þurfa líka að vera klárar öðruvísi er ekki raunhæft að hefja umræðuna.
Íbúahreyfingin hefur lengi látið sig dreyma um að íbúar fái meiri hlutdeild í gerð fjárhagsáætlunar. Það þyrfti því að funda með þeim áður en 1. umræða um fjárhagsáætlun fer fram.
Tillaga Íbúahreyfingarinnar snýst í raun um að auka gegnsæi í ákvarðanatöku með því að safna saman sem víðtækustu upplýsingum frá yfirstjórn, stofnunum, fagnefndum og íbúum áður en umræðan hefst.
Ég veit að vinna við fjárhagsáætlun er styttra á veg komin nú en oft áður vegna kjarasamninga o.fl. Þær breytingar á vinnuferlinu sem Íbúahreyfingin er að leggja til eru því verkefni næsta árs og jafnvel næstu ára.
Sjá tillögu 1 hér að neðan.
Fyrirhugaðar fjárfestingar
Samkvæmt fjárhagsáætlun ársins er Mosfellsbæ þröngur stakkur búinn. Rekstrarniðurstaða stefnir í að verða neikvæð, eins og raunin varð á þessu ári, þvert á áætlanir. Þegar kemur að liðnum fyrirhugaðar fjárfestingar er ekki mikið til skiptanna. Mestur hluti þess fjár fer í uppbyggingu skóla- og íþróttamannvirkja. Sá vandi er uppsafnaður og svigrúmið til fjárfestinga í öðru því næsta lítið. Þegar svo illa árar skiptir miklu hvernig forgangsröðun er háttað. Að mati Íbúahreyfingarinnar ættu verkefni sem styrkja grunnþjónustu við íbúa að vera fremst í röðinni þegar uppbyggingu skóla- og íþróttamannvirkja sleppir.
Við búum í sveitarfélagi sem kennir sig við heilsueflingu. Þegar fjárhagsáætlun er skoðuð fer lítið fyrir fjármunum í stígagerð. Fátt er þó meira heilsueflandi fyrir hinn almenna íbúa en hreyfing og því mikilvægt að þeir hafi gott aðgengi að stígum og að þeim sé vel við haldið.
Í Mosfellsbæ eru ýmis brýn verkefni sem lengi hafa setið á hakanum. Árum saman hefur göngustígurinn meðfram Varmánni verið í niðurníðslu. Stígurinn þarfnast varanlegra viðgerða og svo er um fleiri verkefni sem snerta almenna umhirðu opinna svæða í sveitarfélaginu s.s. að hefta útbreiðslu lúpínu og skógarkerfils sem er liður í sjálfbærri þróun vistkerfisins. Ég sé ekki að í þessari fjárhagsáætlun sé gert ráð fyrir neinum peningum í þessi verkefni sem þó þjóna miklum almannahagsmunum.
Það verður ekki betur séð en þeim litlu peningum sem til skiptanna eru (þegar skólum og íþróttamannvirkjum sleppir) sé ráðstafað í gæluverkefni og ber þar hæst golfið og ævintýragarður neðan Vesturlandsvegar.
Þessi verkefni eru tekin fram yfir gangfæra göngustíga og skátaheimili. Skátarnir eru gamalgróið félag hér í Mosfellsbæ sem rekið er á ársgrundvelli. Félagið vinnur ómetanlegt starf. Skátarnir hafa lengi verið á hrakhólum með húsnæði og því nær að taka byggingu skátaheimilis fram yfir golfhöll. Fá ungmenni stunda golf í Mosfellsbæ á ársgrundvelli. Stór hluti félaga í klúbbnum er utanbæjarfólk og fjárráða karlmenn. Skátaheimili ætti því að vera mun framar í goggunarröðinni.
Ég minntist á ævintýragarðurinn. Hann verður einn góðan veðurdag eflaust fallegur. Það er hins vegar ekki brýn þörf sem ræður þeim fjárútlátum og því telur Íbúahreyfingin að hér sé ekki um forgangsverkefni að ræða, heldur miklu frekar að verið sé að streða við að láta kosningaloforð VG ganga eftir, sama hvernig árar.
Gagnsætt fyrirkomulag styrkveitinga
Þegar farið er yfir fjárhagsáætlun sést að gert er ráð fyrir styrkveitingum hér og hvar í stjórnkerfinu. Þegar saman safnast geta þetta orðið álitlegar fjárhæðir. Það er skoðun Íbúahreyfingarinnar að setja þurfi styrkveitingar undir einn lið og búa þeim umgjörð sem tryggir öllum jafnan aðgang að styrktarfé. Algjört gagnsæi þarf að ríkja um hverja einustu styrkveitingu og ættu þær allar að fara í gegnum nefndirnar og upplýsingar um þær að birtast með skýrum hætti á vefsíðu bæjarins. Í sumum tilvikum er vísir að umgjörð en það er alls ekki alltaf. Eins og staðan er í dag er ekki nógu vel að þessu staðið og telur Íbúahreyfingin brýnt að bæta úr því.
Það hefur líka vakið athygli Íbúahreyfingarinnar að styrktarfé sviðanna er mismunandi eftir málaflokkum. Þess ber að geta að hér er ekki átt við þá lögbundnu þjónustu sem sveitarfélög veita, s.s. félagsþjónustu, heldur styrki sem veittir eru til samfélagsverkefna og koma sveitarfélaginu, samtökum í almannaþjónustu, íbúum og fyrirtækjum til góða.
Þegar fjárhagsáætlun er skoðuð fær fjölskyldusvið til dæmis einungis 300 þúsund kr. til ráðstöfunar, á meðan þróunar- og ferðamálanefnd og íþrótta- og tómstundanefnd hafa mun meira fé úr að spila. Til fjölskyldusviðs leita m.a. hjálparsamtök sem vinna í þágu almannaheilla og hlúa að fólki í neyð, s.s. samtök eins og Kvennaathvarfið sem þjónar konum og börnum sem þurfa að flýja heimili sín vegna ofbeldis.
Endurskoðun framlags til Kvennaathvarfs í tilefni samstarfs við lögreglustjóra
Til skamms tíma styrkti Mosfellsbær Kvennaathvarfið einungis um 50 þúsund kr. á ári. Sú upphæð var þó hækkuð upp í 100 þúsund kr. á þessu ári og hækkaði framlag Mosfellsbæjar til samtakanna því úr 5,5 kr. í 11 kr. á íbúa. Á sama tíma greiðir Reykjavík 91 kr., Kópavogur 28 kr., Garðabær 26 kr. og Hafnarfjörður 26 kr. á íbúa. Eitt ríkasta sveitarfélag landsins, Seltjarnarnes er þó á svipuðu róli og Mosfellsbær nú.
Konur og börn úr Mosfellsbæ hafa dvalið langdvölum í Kvennaathvarfinu. Nú þegar Mosfellsbær hefur hafið samstarf við lögreglustjórann á höfuðborgarsvæðinu um aðgerðir gegn heimilisofbeldi gefst gott tilefni til að hækka styrkinn. Til að standa jafnfætis þeim sveitarfélögum sem hér hafa verið talin upp er hæfilegt að Mosfellsbær greiði kr. 243 þúsund árlega til athvarfsins og er það hér með lagt til.
Í það heila telur Íbúahreyfingin að auka þurfi upphæð styrktarfjár fjölskyldusviðs til muna, – eins og við lögðum til í fjölskyldunefnd fyrr á árinu og var vísað til fjárhagsáætlunar 2016.
Sjá tillögur 2 og 3 hér að neðan.
Styrkir til umhverfisverkefna útundan
Styrkjaumhverfi Mosfellsbæjar tekur ekki til umhverfisverndar og -fræðsluverkefna en þau þarf að skilgreina og leggur Íbúahreyfingin til að stofnaður verði sérstakur umhverfisverkefnasjóður á borð við listasjóð Mosfellsbæjar. Verkefni eins og skógrækt, uppgræðsla lands, hefting ágengra tegunda, endurheimt lífríkis og umhverfisfræðsla ættu skjól í þessum sjóði.
Sjá tillögu nr. 4.
Fyrirspurn um launakostnað á bæjarskrifstofu
Eitt af því sem ég varð áskynja við skoðun fjárhagsáætlunar var hár launakostnaður á skrifstofum bæjarfélagsins og einstöku sviðum. Íbúahreyfingin hefur óskað eftir upplýsingum frá bæjarstjóra um fjölda stöðugilda og sundurliðun á launum eftir launabilum, s.s. laun undir 400 þúsund, laun á bilinu 400 og 600 þúsund og þar fram eftir götum. Það skal tekið fram að það er ekki verið að óska eftir persónugreinanlegum upplýsingum. Ég hef ekki enn fengið svar frá bæjarstjóra, Haraldi Sverrissyni, enda einungis 2 dagar síðan ég sendi fyrirspurnina. Ég hef því litlar forsendur til að tjá mig frekar um málið.
Skv. upplýsingum á vef Hagstofunnar eru yfirstjórnendur og starfsmenn sveitarfélaga á Íslandi lægst launaða starfsfólkið á atvinnumarkaði. (Innskot: Yfirstjórnendur þó ýfið hærri en aðrir starfsmenn). Það er hins vegar almenn sanngirniskrafa að jafnræðis sé gætt þeirra í milli og að laun æðstu stjórnenda séu í takt við laun annarra starfsmanna (Innskot: að teknu tilliti til menntunar og ábyrgðar). Verði sú niðurstaða að mikils ójafnræðis gæti í launakjörum þessara hópa hjá Mosfellsbæ telur Íbúahreyfingin brýnt að málið verði skoðað á milli 1. og 2. umræðu um fjárhagsáætlun Mosfellsbæjar 2016-2019.
Mosfellsbær er stór vinnustaður sem verður að sjá til þess að öllum starfsmönnum líði vel og þess sé gætt að enginn þurfi að búa við hungurmörk. Kjarasamningar eru framundan og vonast Íbúahreyfingin til að Mosfellsbær leggi sitt á vogarskálarnar í að leiðrétta þeirra kjör.
Ég vonast eftir efnislegri og góðri umræðu um tillögur Íbúahreyfingarinnar og læt þetta nægja í bili. Ég hlakka til heimsóknanna framundan og vona að allir leggist á eitt við að gera fjárhagsáætlun 2016-2019 sem best úr garði.
Tillögur Íbúahreyfingarinnar við 1. umræðu fjárhagsáætlunar 2016-2019
1. Tillaga M-lista Íbúahreyfingarinnar um gagnaöflun í aðdraganda fyrri umræðu fjárhagsáætlunar
Bæjarfulltrúi Íbúahreyfingarinnar gerir að tillögu sinni að bæjarráð breyti vinnulagi við gerð fjárhagsáætlunar á þann veg að ráðið fundi með framkvæmdastjórum sviða og yfirmönnum stofnana áður en til fyrri umræða kemur í bæjarstjórn. Einnig óski bæjarráð eftir umsögnum frá fagnefndum og fundi með íbúum í aðdraganda fyrri umræðu.
Tilgangur tillögunnar er að gera umræðurnar markvissari og fjárhagsáætlunargerðina betri.
Sú hefð hefur ekki skapast hjá Mosfellsbæ að framkvæmdastjórar sviða skili bæjarráði starfsáætlunum í aðdraganda fjárhagsáætlunargerðar. Íbúahreyfingin telur það þó stuðla að innihaldsríkari umræðu og meira gagnsæi og leggur til að bæjarráð beiti sér fyrir því.
Vísað til fjárhagsáætlunar 2017
2. Tillaga M-lista Íbúahreyfingarinnar um hækkun framlags til Kvennaathvarfsins
Bæjarfulltrúi Íbúahreyfingarinnar leggur til að framlag Mosfellsbæjar til Kvennaathvarfsins verði kr. 243.000 á fjárhagsárinu 2016. Tilefnið er að efla aðgerðir gegn heimilisofbeldi sem jafnframt er liður í samstarfsverkefni sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu við lögreglustjóraembættið og hrundið var af stað í upphafi árs.
Vísað til síðari umræðu um fjárhagsáætlun 2016-2019
3. Tillaga M-lista Íbúahreyfingarinnar um að auka svigrúm fjölskyldusviðs og fjölskyldunefndar til styrkveitinga
Bæjarfulltrúi Íbúahreyfingarinnar leggur til að svigrúm fjölskyldusviðs og fjölskyldunefndar til styrkveitinga verði tvöfaldað á þessu ári og síðan stig af stigi næstu ár. Tilgangurinn er að styðja við bakið á hjálparsamtökum en sú staða er uppi í íslensku samfélagi að slík samtök sinna mikilvægri grunnþjónustu í þágu almannaheilla sem engin önnur stofnun hjá ríki og sveitarfélögum sér um.
Vísað til síðari umræðu um fjárhagsáætlun 2016-2019.
4. Tillaga M-lista Íbúahreyfingarinnar um stofnun umhverfisverkefnasjóðs
Bæjarfulltrúi Íbúahreyfingarinnar gerir að tillögu sinni að stofnaður verði umhverfisverkefnasjóður á borð við listasjóð Mosfellsbæjar. Verkefni eins og skógrækt, uppgræðsla lands, hefting ágengra tegunda, endurheimt lífríkis og umhverfisfræðsla ættu skjól í þessum sjóði.
Vísað til síðari umræðu um fjárhagsáætlun 2016-2019
Til upplýsingar
Á árunum 2013 og 2014 dvöldu samanlagt 11 konur úr Mosfellsbæ, ásamt 10 börnum sínum í Kvennaathvarfinu. Samanlagt dvöldu konur héðan í 310 daga á þessu tímabili (allt frá 4 dögum til 106 daga) og börnin í samanlagt 426 (líka frá fjórum dögum og upp í 106 daga).
Á þessum árum virðast 12 konur úr Mos hafa komið í viðtöl (auk þeirra sem dvöldu í athvarfinu). Samtals 55 viðtöl. Konurnar komu í allt frá 1 viðtali og upp í 22 á tímabilinu.