Mosfellsbær í ábyrgð fyrir skuldum einkafyrirtækis

Við skoðun á ársreikningi Mosfellsbæjar 2009 kemur í ljós að sveitarfélagið hefur tekist á hendur sjálfskuldarábyrgð vegna 246 milljón króna láns sem Helgafellsbyggingar ehf. tóku á árinu 2009.  Á móti sjálfskuldarábyrgðinni hefur sveitarfélagið tekið tryggingu í formi veða í tilteknum lóðum í Helgafellshverfi.

En hvernig gerðist það að Mosfellsbær varð ábyrgur fyrir skuldum einkafyrirtækis?  Í svari bæjarstjóra við fyrirspurn undirritaðs kemur fram að í samræmi við samning milli Mosfellsbæjar og Helgafellsbygginga ehf. á félagið að greiða til Mosfellsbæjar fast gjald, 700 þúsund krónur, fyrir hverja skipulagða íbúðarlóð eða íbúð í fjölbýlishúsi.  Þó varð að samkomulagi við fyrsta uppgjör félagsins til Mosfellsbæjar vegna seldra íbúða 2007 í Helgafellslandi sem fram fór sumarið 2008, að félagið greiddi upphæðina 240 milljónir króna með þremur víxlum.  Sem baktryggingu fyrir greiðslu víxlanna var Mosfellsbæ sett að veði lóðir og fasteign Helgafellsbygginga ehf.  Að mati Helgafellsbygginga ehf. var verðmæti veðanna á þessum tíma áætlað um 388 milljónir króna.

Til einföldunar mætti segja að til að geta staðið við umsamdar greiðslur til bæjarins hafi Helgafellsbygginar ehf. tekið lán sem bærinn gekkst í ábyrgð fyrir.  Í staðinn tók bærinn veð í lóðum og fasteign Helgafellsbygginga.

Í ljósi þess hversu mikið verðfall hefur átt sér stað á fasteignamarkaði má velta fyrir sér hvort veðin standi undir umræddum lánum.  Ekkert mat hefur farið fram á verðmæti veðanna frá því samningurinn var gerður á sínum tíma og mat á veðunum hefur aldrei verið unnið af óháðum aðila.

Að sama skapi verður vart hjá því komist að leiða hugann að því hvort sú nýja hugmyndafræði sem þáverandi formaður bæjarráðs og skipulags- og byggingarnefndar, Haraldur Sverrisson, kynnti til sögunnar í greininni „Uppbygging íbúðarhverfa ný hugmyndafræði í Mosfellsbæ“ sem birtist í Morgunblaðinu þann 7. maí 2006, hafi reynst jafn áhættulaus og fullyrt var:

„Með þessu móti er tryggt að fjármagn fylgir frá landeigendum til að standa undir uppbyggingu á nauðsynlegri þjónustu í hverfunum og sá kostnaður lendir ekki á íbúum sveitarfélagsins. Auk þess fríar bæjarfélagið sig þeirri miklu áhættu sem fylgir uppkaupum. […] Sú leið sem hér hefur verið kynnt um uppbyggingu íbúðahverfa í Mosfellsbæ hefur vakið mikla athygli. Ljóst er að hér er um nýja hugmyndafræði að ræða sem önnur sveitarfélög munu vafalaust nýta sér.“

Getur verið að fjárhagurinn sé ekki jafn traustur í Mosfellsbæ og sumir vilja meina?

Þórður Björn Sigurðsson
varabæjarfulltrúi Íbúahreyfingarinnar í Mosfellsbæ

Hugmyndum Íbúahreyfingarinnar í Mosfellsbæ um samstjórn var hafnað

Yfirlýsing frá Íbúahreyfingunni í Mosfellsbæ vegna fréttatilkynningar frá Mosfellsbæ:

Í dag sendi kynningarfulltrúi Mosfellsbæjar út fréttatilkynningu um áframhaldandi meirihlutasamstarf Sjálfstæðisflokks og Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs í Mosfellsbæ.  Í tilkynningunni er greint frá hugmyndum meirihlutans um aðkomu minnihlutans að stjórn bæjarins og látið að því liggja að vegna afstöðu Íbúahreyfingarinnar hafi ekki getað orðið af samstarfi.
Hugmyndir meirihlutans fólust meðal annars í því að öll framboð í bæjarstjórn myndu leggja fram sameiginlega fjárhagsáætlun.  Íbúahreyfingin tók vel í þá hugmynd og lagði til á grundvelli hennar að mynduð yrði samstjórn allra framboða um rekstur bæjarins því fjárhagsáætlun væri grundvallarplagg hvað varðar stefnumörkun í rekstri sveitarfélagsins.  Næðist ekki samstaða um samstjórn lýsti Íbúahreyfingin sig engu að síður jákvæða gagnvart hugmyndum meirihlutans með ákveðnum breytingum.  Ekki var tekið vel í hugmyndir Íbúahreyfingarinnar af hálfu Sjálfstæðisflokksins og því strönduðu viðræður um samvinnu.

Íbúafundur

Boðað til fyrsta íbúafundar Íbúahreyfingarinnar á mánudagskvöld, annað kvöld, kl. 20.30 í Brekkunni, Álafosssvegi 27.  Fundurinn er öllum opinn og efni fundarins er næsti bæjarstjórnarfundur.

Takk fyrir stuðninginn!

Íbúahreyfingin í Mosfellsbæ þakkar stuðninginn sem framboðið fékk í sveitarstjórnarkosningum. Einn fulltrúi er nú í bæjarstjórn og Íbúahreyfingin er annað stærsta stjórnmálaaflið í Mosfellsbæ, aðeins um mánuði eftir að stofnað var til framboðsins.
Það er athyglisvert að kjörsókn í Mosfellsbæ var aðeins 68% og að í raun kusu aðeins 31.45% kosningabærs fólks Sjálfstæðisflokkinn, sem nú fer með meirihlutavald í bæjarstjórn.
Varla er hægt að ímynda sér erfiðara hlutverk en að vera í hagsmunagæslu fyrir bæjarbúa undir þeim kringumstæðum sem þessi kosningaúrslit færðu okkur íbúunum. Það er þó verkefnið og því munum við sinna og vonandi með hjálp bæjarbúa.
Íbúahreyfingin lítur á það sem sitt helsta verkefni að virkja íbúa Mosfellsbæjar til þátttöku í mótun samfélagsins, með þau verkfræri sem við höfum, og býður alla sem áhuga hafa á lýðræðisumbótum, jafnrétti og jöfnuði til samstarfs.
Íbúahreyfingin mun beita sér fyrir lýðræðislegum stjórnarháttum og þar sem hinir flokkarnir lögðu líka áherslu á lýðræðisumbætur ættu að vera hæg heimatökin að fylgja því fast eftir.

Mannauður í Mosfellsbæ

Ég starfa við endurhæfingu, heilsueflingu og endurreisn, því er lýðheilsa mér hugleikin. Jákvæð líðan er uppbyggjandi afl, bæði andlega og líkamlega. Samfélag þar sem íbúar eru virkjaðir til samráðs og þátttöku á lýðræðisleg um vettvangi eflir áþreifanlega jákvæðni, samhug og heilsu.  Í gegnum störf mín hef ég kynnst þversniði af íslensku þjóðinni og hinn mikli mannauður sem við eigum í hverjum einstaklingi verður mjög áþreifanlegur á þeim vettvangi.

Í Mosfellsbæ búa um 8500 manns og er ljóst að þar er hin sanna auðlind okkar falin í uppsafnaðri reynslu, þekkingu og menntun. Við hjá Íbúahreyfingunni í Mosfellsbæ höfum það markmið að virkja þann mannauð sem samfélag okkar býr yfir og við teljum að lýðræðisumbætur þær sem gömlu flokkarnir boða með ósannfærandi hætti, muni ekki raunbirtast í náinni framtíð. Virkt lýðræði, samráð og samskipti íbúa er lykillinn að heilbrigðu samfélagi og krafa nútíma þjóðfélags.

Hrun það sem við Íslendingar erum að horfast í augu við er afleiðing úreltra stjórnarhátta. Þessu verðum við að breyta og það gerist ekki nema við sem áður treystum flokksvélunum rísum upp, gefum fortíðinni frí og tökum í taumana. Sjálfstæðisbarátta okkar Íslendinga var og er baráttalýðræðis og sjálfsákvörðunarréttar.

Sjálfstæðisbaráttan í dag er gegn breiskleikum og þrá mannsins í auð og völd sem kristallast í fornum hagsmunavélum sem nú berjast við að halda lífi í sjálfum sér þrátt fyrir að hafa algerlega brugðist og skilið okkur eftir með risa vaxið endurreisnarverkefni til langrar framtíðar.

Ég treysti þeim ekki lengur og tel að hinar gömlu flokksvélar eigi ekki erindi í bæjarmálin. Ég vil virkt lýðræði, samhug og samkennd, ég vil að mannauður okkar verði virkjaður í Mosfellsbæ, ég vil taka þátt í að byggja nýja og betri framtíð, ég vil nýtt Ísland og nýtt Ísland hefst í heimabyggð. Íbúahreyfingin í Mosfellsbæ er ágætis byrjun. x­M

Guðbjörg Pétursdóttir

Pin It on Pinterest