Hljóðupptökur bannaðar í Mosfellsbæ! – Fréttatilkynning

Á fundi 539. fundi bæjarstjórnar Mosfellsbæjar 30.06.2010 bannaði forseti bæjarstjórnar og oddviti VG áheyranda á vegum Íbúahreyfingarinnar í Mosfellsbæ að hljóðrita fundinn.  Forsetinn sagðist ekki þurfa að rökstyðja þá ákvörðun sína en hljóðritun var leyfð á 538. fundi 16.06.2010.

Íbúahreyfingin í Mosfellsbæ var með á dagskrá fundarins að ræða pólitíska fréttatilkynningu sem samin var af VG og sjálfstæðismönnum eftir kosningar og send út í nafni bæjarins til allra fjölmiðla, allra starfsmanna Mosfellsbæjar auk fjölda íbúa, en þar voru hafðar uppi pólitískar yfirlýsingar og rangfærslur um afstöðu Íbúahreyfingarinnar til samstarfs. Fréttatilkynningin var send út af kynningarfulltrúa Mosfellsbæjar sem yfirlýsing frá bæjarfélaginu, en ekki hinu pólitísku flokkum, að beiðni Haraldar Sverrissonar bæjarstjóra sem jafnframt er oddviti sjálfstæðismanna í bæjarstjórn.

Íbúahreyfingin í Mosfellsbæ gerði athugasemd við að starfsmanni bæjarins væri falið að sinna pólitísku erindi stjórnmálaflokka og að ekki eru skýrar línur milli pólitísks flokkastarfs sitjandi meirihluta í bæjarstjórn og stjórnsýslunnar.  Farið var fram á að send yrði út leiðrétting til þeirra fjölmiðla, íbúa og starfsmanna sem fengu hina pólitísku yfirlýsingu í hendur frá bænum, en við þeirri beiðni hefur ekki orðið.

Íbúahreyfingin í Mosfellsbæ harmar slík vinnubrögð og lýsir furðu sinni á þeirri órökstuddu ákvörðun forseta bæjarstjórnar að banna hljóðritun bæjarstjórnarfundar sem á að vera öllum bæjarbúum opinn og aðgengilegur. 

Nánari upplýsingar veitir Ólafur Ragnarsson í síma 8965112.

Ráðning bæjarstjóra – Fréttatilkynning

Þann 16. júní var haldinn fyrsti fundur nýrrar bæjarstjórnar í Mosfellsbæ. Íbúahreyfingin í Mosfellsbæ, sem nú er næst stærsta stjórnmálaaflið í bænum, gerðu að tillögu sinni að fylgt yrði mannauðsstefnu Mosfellsbæjar við ráðningu bæjarstjóra og að starfskjör hans yrðu einnig endurskoðuð. Þessi tillaga var felld af meirihluta Sjálfstæðismanna og Vinstri hreyfingarinnar, græns framboðs sem lögðu til að Haraldur Sverrisson yrði ráðinn bæjarstjóri.

Íbúahreyfingin lagði fram bókun sem hægt er að lesa í heild á heimasíðu Íbúahreyfingarinnar en þar er vísað í mannauðstefnuna en í henni segir: „Starfsmenn Mosfellsbæjar eru ráðnir á grundvelli reynslu, hæfni, menntunar og hæfileika til að takast á við starfið.  Laus störf skulu auglýst á opinberum vettvangi og til að tryggja sanngirni og fagmennsku skulu allar ráðningar hjá Mosfellsbæ byggjast á samræmdu ráðningarferli.  Kjör starfsmanna taka mið af kjarasamningum viðkomandi stéttarfélaga.“

Í bókuninni kemur einnig fram að: „Ætlun meirihlutans að ráða bæjarstjóra á pólitískum forsendum, án auglýsingar, gengur þvert gegn mannauðsstefnu Mosfellsbæjar.  Það er slæmt fordæmi og vanvirðing við faglega stjórnsýslu.“

Ein af megin áherslum Íbúahreyfingarinnar fyrir kosningar var krafan um aukið gagnsæi og að „fundir nefnda, bæjarráðs og bæjarstjórnar verði sendir út á netinu og hljóðskrár aðgengilegar á netinu.“ Í samræmi við þessar áherslur réðst Íbúahreyfingin í þá nýbreytni að taka upp fund bæjarstjórnar og hefur nú birt hljóðskrár fundarins á heimasíðu sinni.

Nánari upplýsingar hjá Birtu Jóhannesdóttur, 865 6321, og Þórði B. Sigurðssyni, 862 2575.

Fyrsti fundur bæjarstjórnar á hljóðskrám

Íbúahreyfingin tók upp fyrsta fund bæjarstjórnar Mosfellsbæjar á nýhöfnu kjörtímabili, eftir að það hafði verið leyft með kosningu. Hér má hlusta á hljóðskrár fundarins.
1. – Kosning forseta bæjarstjóra, kosning 1. og 2. varaforseta bæjarstjórnar. Kosning í bæjarráð, kosning í ráð og nefndir sbr. bæjarmálasamþykkt. Hlusta.
2. – Ráðning bæjarstjóra, bókanir M-lista, S-lista og D og V lista. Hlusta.
3. – Endurskoðun á samþykkt um stjórn og fundarsköp bæjarstjórnar Mosfellsbæjar. Hlusta.
4. – Heilbrigðiseftirlit Kjósarsvæðis fundargerð 3. fundar, Sorpa bs. fundargerð 274. fundar, 140. fundar, 141. fundar og fundar 142. Hlusta.
5. – Varðandi fréttatilkynningu frá Mosfellsbæ, aukaliður að ósk Þórðar B. Sigurðssonar bæjarfulltrúa M-lista. Hlusta.

Auglýst eftir fulltrúum í nefndir

Langar þig að hafa áhrif á gang mála í Mosfellsbæ?

Íbúahreyfingin í Mosfellsbæ leggur áherslu á að skipað verði í nefndir á faglegum forsendum.  Því auglýsir Íbúahreyfingin eftir aðal- og varafulltrúum í eftirtaldar nefndir:

Fræðuslunefnd
Íþrótta og tómstundanefnd
Menningarmálanefnd

Íbúahreyfingin leitar eftir fólki sem hefur menntun, reynslu og/eða mikinn áhuga á málefnum þeirrar nefndar sem sótt er um starf í. Umsækjendur eru beðnir að senda inn rökstudda umsókn ásamt ferilskrá á netfangið ibuahreyfingin@ibuahreyfingin.is fyrir mánudaginn 28. júní 2010.

Íbúahreyfingin vill taka fram að það er engin hindrun að umsækjendur starfi, eða hafi starfað, með öðrum stjórnmálasamtökum.  Íbúahreyfingin gerir þá kröfu til umsækjenda að þeir séu reiðubúnir að starfa af heilindum fyrir íbúa Mosfellsbæjar og hafi áhuga á þeim áherslum sem Íbúahreyfingin leggur upp með.

Nánari upplýsingar veitir Kristín I. Pálsdóttir í síma 893 9327.

Bókun M lista um ráðningu bæjarstjóra

Bókun fulltrúa M lista varðandi ráðningu bæjarstjóra Mosfellsbæjar á fundi bæjarstjórnar þann 16. júní 2010
Eftirfarandi má lesa á heimasíðu Mosfellsbæjar um stefnur gildi og framtíðarsýn:  „Þegar Haraldur Sverrisson tók við sem bæjarstjóri haustið 2007 var eitt hans fyrsta verkefni að leggja til við bæjarráð að hafin yrði vinna við stefnumótun hjá Mosfellsbæ með það að markmiði að gera gott bæjarfélag enn betra enda sé það frumskylda bæjaryfirvalda hverju sinni að spyrja spurninga um það hvort unnið sé í samræmi við stefnu sem stuðlar að bættum hag og velferð bæjarbúa.“
Í þessum anda var mannauðsstefna Mosfellsbæjar skrifuð síðar.  Í henni segir: „Starfsmenn Mosfellsbæjar eru ráðnir á grundvelli reynslu, hæfni, menntunar og hæfileika til að takast á við starfið.  Laus störf skulu auglýst á opinberum vettvangi og til að tryggja sanngirni og fagmennsku skulu allar ráðningar hjá Mosfellsbæ byggjast á samræmdu ráðningarferli.  Kjör starfsmanna taka mið af kjarasamningum viðkomandi stéttarfélaga.”
Með vísan til mannauðsstefnu Mosfellsbæjar var lögð fram tillaga á fundi bæjarstjórnar um að staða bæjarstjóra yrði auglýst og starfskjör endurskoðuð.  Því miður fór svo fyrir tillögunni að henni var hafnað af sitjandi meirihluta.  Ætlun meirihlutans að ráða bæjarstjóra á pólitískum forsendum, án auglýsingar, gengur þvert gegn mannauðsstefnu Mosfellsbæjar.  Það er slæmt fordæmi og vanvirðing við faglega stjórnsýslu.

Þórður Björn Sigurðsson

Pin It on Pinterest