by ibuahreyfingin | 25 May, 2010 | Fréttir
Í grein Kristínar I. Pálsdóttur, ,,Áskorun til sveitarstjórnarfólks í Mosfellsbæ” sem birt var á Smugunni þann 24.5.2010 segir m.a.:
,,Ein af niðurstöðum Rannsóknarskýrslu Alþingis er að spilling sé mun víðtækari en áður hefur verið viðurkennt á Íslandi. Skýrsluhöfundar benda á að sterkasta vopn atvinnulífsins til að hafa áhrif á stjórnmálamenn sé í gegnum fjárveitingar til flokka og einstaklinga innan stjórnmálaflokkanna. Skýrslan fjallar hins vegar ekki sérstaklega um sveitarstjórnarstigið enda ekki viðfangsefni hennar. Hins vegar er ljóst að sveitarstjórnarstigið er mjög viðkvæmt fyrir spillingu og hagsmunatengslum.
Það hlýtur því að vera eðlileg krafa kjósenda nú fyrir kosningar að sveitarstjórnarmenn skili hreinskilnu uppgjöri á hagsmunatengslum sínum. Þetta á ekki síst við í þeim sveitarfélögum sem fóru offari í uppbyggingu hverfa sem nú standa sem hálfkláraðir minnisvarðar um oflæti góðærisins svokallaða.”
Af þessu tilefni vill Íbúahreyfingin í Mosfellsbæ upplýsa að framboðið er rekið fyrir eigin reikning frambjóðenda og aðstandenda og mun bókhald framboðsins verða gert opinbert um leið og það liggur fyrir, lögum samkvæmt. Nú þegar 4 dagar eru til kosninga er heildarkostnaður framboðsins innan við kr. 100.000,-
Eins vilja frambjóðendur Íbúahreyfingarinnar í Mosfellsbæ koma eftirfarandi hagsmunaskráningu á framfæri.
Jón Jósef Bjarnason
Launað starf: Ráðgjafi hjá IT ráðgjöf ehf.
Stjórnarseta: Sæti í stjórn IT ráðgjafar ehf.
Hlutabréfaeign: 50% hlutafjár í IT ráðgjöf
Eignir aðrar en íbúðarhúsnæði: Engar
Þórður Björn Sigurðsson
Launað starf: Störf fyrir Hreyfinguna á Alþingi
Stjórnarseta: Sæti í varastjórn Hagsmunasamtaka heimilanna
Hlutabréfaeign: Engin
Eignir aðrar en íbúðarhúsnæði: Engar
Birta Jóhannesdóttir
Launað starf: Klínískur Tannsmiður
Stjórnarseta: Í varastjórn Víghóls, íbúasamtaka í Mosfellsdal
Hlutabréfaeign: Engin
Eignir aðrar en íbúðarhúsnæði: Engar
Hildur Margrétardóttir
Launað starf: Kennari, Reykjavíkurborg
Stjórnarseta: Sæti í stjórn Álafossbrekkunnar ehf.
Hlutabréfaeign: Hlutur í Álafossbrekkunni ehf.
Eignir aðrar en íbúðarhúsnæði: Engar
Guðlaugur Hrafn Ólafsson
Launað starf: Öryggisvörður á Alþingi
Stjórnarseta: Engin
Hlutabréfaeign: Engin
Eignir aðrar en íbúðarhúsnæði: Engar
Soffía Alice Sigurðardóttir
Launað starf: Leiðsögumaður
Stjórnarseta: Engin
Hlutabréfaeign: Ekkert
Eignir aðrar en íbúðarhúsnæði: Sumarbústaður
Annað: Ekkert
Guðbjörg Pétursdóttir
Launað starf: Hjúkrunarstjóri á Reykjalundi
Stjórnarseta: Sæti í stjórn fagdeildar lungnahjúkrunarfræðinga.
Hlutabréfaeign: Engin
Eignir aðrar en íbúðarhúsnæði: Engar
Annað: Ekkert
by ibuahreyfingin | 24 May, 2010 | Fréttir
Ekki verður af framboðsfundi sem Íbúahreyfingin hefur boðað til í Listasalnum í Kjarna, miðvikudagskvöldið 26. maí nk.
Fyrirhugaður er sameiginlegur framboðsfundur í Hlégarði fimmtudagskvöldið 27. maí nk.
by ibuahreyfingin | 21 May, 2010 | Fréttir
Íbúahreyfingin boðar til framboðsfundar miðvikudagskvöldið 26. maí kl. 20.00 – 22.00. Fundurinn verður haldinn í Listasalnum í Kjarna.
Gert er ráð fyrir framsögu frá hverju framboði. 5 mínútur hámark. Í framhaldi fari fram umræður og opnað fyrir spurningar frá fundargestum. Fundarstjóri verður Ævar Örn Jósepsson.
by ibuahreyfingin | 21 May, 2010 | Fréttir
Kæru íbúar.
Öll höfum við fylgst með því sem hefur verið að gerast í þjóðfélaginu undanfarið með undrun og óbragð í munninum. Var þetta virkilega svona og er þetta virkilega svona enn? Hvað getum við gert til þess að breyta þessu?
Fyrir mér er ein af megin ástæðunum fyrir undangenginni atburðarás, sérhagsmunagæsla stjórnmálaflokka. Stjórnmálamanna sem með gjörðum eða aðgerðaleysi hafa unnið gegn almannahagsmunum til þess að verja sérhagsmuni lítilla hópa. Það hefur komið í ljós að stjórnvöld sögðu ósatt um óumflýjanlegt hrun bankanna, sem þau sjálf eiga stóra sök á. Þessi ósannindi hafa orsakað eignatjón hjá almenningi sem vart verður metið nema í þúsundum milljarða króna en þeir sem höfðu upplýsingarnar gátu lagfært sína stöðu. Í kjölfar bankahrunsins horfum við svo uppá að eigendur fyrirtækja sem höfðu keyrt þau í þrot fá að halda þeim en skuldir felldar niður, skattastefnu sem dýpkar kreppuna engar lýðræðisumbætur, ekkert stjórnlagaþing, enn er ráðið og skipað í mikilvægar samninganefndir eftir flokkskírteinum án þess að huga að hæfni.
það hefur ekkert breyst!
Ég get ekki hugsað mér að styðja neinn af þeim flokkum sem höfðu boðað lista til bæjarstjórnar í Mosfellsbæ vegna tengsla þeirra við landsmálaflokka. Ég er í raun öskureiður út í þá og merki að svo er um fleiri. Mig langar að kjósa venjulega Mosfellinga í bæjarstjórn. Fólk sem hefur pólitískan landsmálaflokk hvergi í forgangsröðinni hjá sér, en um það var ekkert val. Þetta var í raun kveikjan að Íbúahreyfingunni í Mosfellsbæ. Margt af fólkinu á listum landsmálaflokkana er vænsta fólk sem ég mundi treysta fullkomlega til þess að þjóna bæjarbúum vel, en fyrir mér eru stjórnmálaflokkarnir sem það kýs að bjóða sig fram í óyfirstíganlegur þröskuldur fyrir mitt atkvæði.
En eru flokkarnir ekki að breytast?
Ég sé engar augljósar breytingar aðrar en breytta orðræðu. Við lestur umsagnar sem fulltrúar allra flokka í bæjarstjórn Mosfellsbæjar skrifaðu undir um persónukjör og má sjá hér http://www.althingi.is/pdf/umsogn.php4?lthing=138&malnr=102&dbnr=138&nefnd=a , er nokkuð ljóst að þeir ætla ekki að opna á vald fólksins. Íbúahreyfingin í Mosfellsbæ vill að íbúarnir fái að kjósa um þau mál sem þeir óska eftir að kjósa um. Í stærri málum sem ætla má að skipti íbúana verulegu máli ætti sjálfgefið að vera íbúakosning. Ég tel það hvorki flókið né kostnaðarsamt að setja upp rafrænt kerfi sem gæfi öllum íbúum kost á að nýta sér þetta vald. Mosfellsbær gæti verið öðrum sveitarfélögum fyrirmynd að þessu leiti. Sum mál tækju eflaust lengri tíma, stjórnsýslan yrði að vera mun opnari og gagnsærri, en er ekki krókur betri en kelda og höfum við ekki lært lexíuna um að rasa ekki um ráð fram af því sem gerst hefur undanfarið?
Við hjá Íbúahreyfingunni í Mosfellsbæ viljum aðskilja framkvæmdavaldið frá bæjarstjórninni að svo miklu leiti sem hægt er. Við viljum því ráða faglegan bæjarstjóra, við teljum öruggt að til þess þurfi hvorki samning um ofurlaun né dýran starfslokasamning, þess hefur aldrei þurft. Þetta er stjórnunarstarf eins og hvert annað og mikið af hæfu fólki sem getur sinnt því vel.
Íbúahreyfingin í Mosfellsbæ gefur kjósendum Mosfellsbæjar val um að kjósa venjulega Mosfellinga sem hafa engra hagsmuna að gæta í landsmálaflokkum en vill gagnsæja stjórnsýslu og aukið lýðræði.
Jón Jósef Bjarnason
íbúi í Mosfellsbæ,
skipar 1. sæti á lista Íbúahreyfingarinnar
by ibuahreyfingin | 21 May, 2010 | Fréttir, Greinar
Íbúahreyfingin í Mosfellsbæ er ákjósanlegur valkostur fyrir Mosfellinga í komandi kosningum. Íbúahreyfingin mun beita sér fyrir auknu íbúalýðræði og umræðu um málefni bæjarins. Til að mynda viljum við að tiltekinn hluti íbúa geti kallað fram íbúakosningu um einstök mál að undangenginni hlutlausri og faglegri kynningu. Ákvörðun um byggingu menningarhúss er gott dæmi um mál sem íbúar ættu að fá að kjósa um.
Íbúahreyfingin hyggst beita sér fyrir faglegri og gegnsærri stjórnsýslu. Við viljum að skipað verði í nefndir á faglegum forsendum og að virkar siðareglur fyrir kjörna fulltrúa verði viðhafnar.
Íbúahreyfingin í Mosfellsbæ boðar valddreifingu. Við viljum skilja á milli framkvæmdavalds (bæjarstjóra) og löggjafarvalds (kjörinna fulltrúa). Á þeim forsendum hugnast okkur að bæjarstjóri verði ráðinn á faglegum forsendum og á hóflegum kjörum fremur en að oddvitar lista séu bæjarstjóraefni. Að sama skapi þurfa skýrar reglur um verkaskiptingu milli kjörinna fulltrúa og embættismanna að vera til staðar. Íbúahreyfingin vill ekki að fulltrúar í bæjarstjórn sitji lengur en tvö kjörtímabil.
Íbúahreyfingin boðar ábyrga fjármálastefnu á erfiðum tímum þar sem áhersla á velferð allra íbúa og almannahag verði ávallt í forgangi.
Íbúahreyfingin leggur áherslu á lýðræðislegri Mosfellsbæ og skorar á bæjarbúa að gera slíkt hið sama í sveitarstjórnarkosningunum þann 29. maí næstkomandi.
Þórður Björn Sigurðsson,
íbúi í Mosfellsbæ,
skipar 2. sæti á lista Íbúahreyfingarinnar