Ung vinstri græn álykta um píkusafn

Ung vinstri græn sem héldu landsfund um helgina ályktuðu með hugmynd Íbúahreyfingarinnar um píkusafn. Við þökkum stuðninginn!
„vi. Píkusafn í Mosfellsbæ!
Landsfundur Ungra vinstri grænna, haldinn í Borgarfirði 5. – 7. október 2012, tekur undir hugmynd Íbúahreyfingarinnar í Mosfellsbæ um að opna Píkusafn í sveitarfélaginu í stað villidýrasafns. Landsfundur skorar á Karl Tómasson, bæjarstjórnarfulltrúa Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs í sveitarfélaginu, að beita sér fyrir opnun safnsins í bæjarstórn þar sem hann situr í meirihluta. Bygging Píkusafns stuðlar að opnari umræðu og aukinni fræðslu í samfélaginu. Einnig mun Píkusafnið örva atvinnumarkaðinn í sveitarfélaginu og hita upp í safnamenningu landsins. Safnið mun enn fremur fullnægja þörfum íbúa fyrir ríkara menningarlíf í byggðinni og bleyta vel í þurri menningarsnauð Mosfellsbæjar. Aukinheldur mun safnið koma sem skemmtilegt mótvægi við Reðursafnið í Reykjavík.“

Erindi til bæjarráðs Mosfellsbæjar varðandi villidýrasafn

Mosfellsbæ 4. Október 2012

Erindi til bæjarráðs Mosfellsbæjar.
Einnig sent á aðila sem eru í eða sitja fundi fræðslunefndar, menningarmálanefndar og þróunar- og ferðamálanefndar til upplýsingar.

Á hátíðarbæjarstjórnarfundi hinn 9. ágúst 2012 var samþykkt að Mosfellsbær gangi til samstarfs við Kristján Vídalín Óskarsson um stofnun villidýrasafns. Þar sem engin umræða átti sér stað í nefndum og ráðum bæjarins áður en að ákvörðuninni kom er mörgum spurningum enn ósvarað um tilurð og fyrirhugaðan rekstrargrundvöll safnsins. Til þess að varpa ljósi á málið óska undirritaðar eftir svörum bæjarráðs við eftirfarandi spurningum:
1. Hvaða skuldbindingu hefur undirritun viljayfirlýsingarinnar í för með sér fyrir Mosfellsbæ?
2. Var haft samráð við Náttúruminjasafn Íslands, sem er höfuðsafn á sviði náttúrufræða samkvæmt safnalögum nr. 106 frá 31. maí 2001, Safnaráð eða aðra sérfræðinga á sviði safnamála þegar ákvörðun var tekin um stofnun safnsins, og þá hverja?
3. Er ætlunin að reka hér safn í skilningi safnalaga? Í 4. gr. þeirra segir m.a: „Safn er samkvæmt lögum þessum stofnun, opin almenningi, sem hefur það hlutverk að safna heimildum um manninn, sögu hans, umhverfi og náttúru landsins, standa vörð um þær, rannsaka, miðla upplýsingum og hafa þær til sýnis svo að þær megi nýtast til rannsókna, fræðslu og skemmtunar.“?
4. Hafa verið gerðar áætlanir varðandi kostnað við uppbyggingu og rekstur safnsins og hefur markaður fyrir slíkt safn verið kannaður? Benda má á safn á líku sviði á Stokkseyri, sérstaða og rannsóknarhluti þess safns felst þó í byssusafni.
5. Telur bæjarráð að stofnun safnsins samræmist drögum að menningarstefnu Mosfellsbæjar? Í drögunum er lögð áhersla á framsækni menningarstofnana, samráð við íbúa um viðhorf þeirra og óskir, og að menningarstofnanir stuðli að varðveislu menningararfleifðar í Mosfellsbæ.
6. Uppfylla gripirnir sem rætt er um í viljayfirlýsingunni skilyrði siðareglna Alþjóðaráðs safna (ICOM)? Í siðareglunum eru t.d. ítarleg ákvæði um hvernig safngripa er aflað, fylgja t.d. einhver vottorð með gripunum, og þá hver?
7. Er fyrirhugað að þetta mál fái málefnalega og lýðræðislega meðferð í nefndum bæjarins?
8. Hafa aðrir samningar eða skjöl önnur en viljayfirlýsingin verið undirrituð í tengslum við málið? Eru aðrir samningar við Kristján Vídalín Óskarsson eða félög honum tengd í ferli hjá Mosfellsbæ?

Virðingarfyllst,

Birta Jóhannesdóttir, þróunar- og ferðamálanefnd
Hildur Margrétardóttir, varaáheyrnarfulltrúi menningarmálanefnd
Kristín I. Pálsdóttir, varafulltrúi í ferða- og þróunarmálanefnd og varaáheyrnarfulltrúi í fræðslunefnd
Sæunn Þorsteinsdóttir, áheyrnarfulltrúi í fræðslunefnd og menningarmálanefnd

Pin It on Pinterest