Hver ber ábyrgð á einelti?

Ýma tröllastelpa er aðalpersónan í bók sem fjallar um einelti og er samin í því skyni að berjast gegn því. Bókinni hefur verið dreift í skóla landsins í 10 ár og Olweusar-verkefnið og Regnbogabörn, sem bæði berjast gegn einelti, hafa tekið þátt í dreifingu og notkun bókarinnar.
Dóttir mín kom með gripinn heim þar sem bókinni var dreift í 1. bekk grunnskóla þegar hún hóf nám árið 2008. Ég kvartaði þá yfir því að bókin væri afleitt efni til að fræða börn um einelti því að í henni eru staðalímyndir, um stráka og stelpur og það hverjir lagðir eru í einelti, gagnrýnislaust bornar á borð. Það kom mér því mjög á óvart þegar ég komst að því að ennþá væri verið að dreifa bókinni í skóla landsins í fyrra og í haust.
Það er ekki lítið sem hún Ýma tröllastelpa þarf að takast á við. Ekki er nóg með að hún sé af tröllaættum, og þar af leiðandi stærri og stórgerðari en allir aðrir, hún er líka með kartöflunef, rautt hár, skakkar tennur, með bumbu og svo á hún bara allt of lítil og rifin föt og engan skófatnað. Ofan á allt þetta bætist að hún borðar meira að segja öðruvísi mat en aðrir krakkar. Það má því segja að hún hafi flest það til að bera sem ekki fellur að staðalímynd hinnar fullkomnu stúlku.
Einelti er ein tegund ofbeldis og á undanförnum árum hefur umræða um ofbeldi breyst mjög mikið í samfélaginu. Það er reyndar ekki langt síðan skýringa á ofbeldi var leitað í hegðun og útliti fórnarlamba ofbeldis. Í dag, hins vegar, hélt ég að það væru alkunn sannindi að skýringa og ábyrgðar á ofbeldi ætti að leita hjá þeim sem beita ofbeldinu, gerendum, en ekki hjá þolendum þess.
Í bókinni um Ýmu tröllastelpu er öll áherslan á fórnarlömb ofbeldisins. Ýma er allt öðruvísi en allir aðrir og strákurinn sem lagður er í einelti í sögunni er lítill gleraugnaglámur, Krissi. Allir gerendurnir eru „eðlilegir“, þeir skera sig ekki úr hópnum. Hins vegar eru það fórnarlömbin sem eru í raun gerð ábyrg fyrir eineltinu og allur fókus bókarinnar er á þeim. Gerendurnir eru hins vegar ekki nefndir með nafni.
Einelti er vandmeðfarið vandamál sem misvel gengur að ráða við. Það hjálpar varla mikið til þegar ekki er vandað betur til fræðsluefnis um málefnið en raun ber vitni. Grundvallarforsenda í baráttu gegn einelti hlýtur að vera sú að allir aðilar átti sig á því að það er gerandinn en ekki þolandinn sem ber ábyrgð á eineltinu og að skýringa á einelti ber ekki að leita í fari eða útliti þess sem lagður er í einelti.
Þessi orð eru rituð í tilefni af því að ég rakst á auglýsingu um það að skólastjórafélagið er að fara að halda ráðstefnu um einelti nú í lok september. Ég tel að það hljóti að vera umhugsunarefni fyrir þá sem þar þinga af hverju þessu efni hefur verið dreift í skóla landsins í 10 ár.

Kristín Pálsdóttir, varafulltrúi í fræðslunefnd Mosfellsbæjar.

Aðalfundur Íbúahreyfingarinnar

Aðalfundur Íbúahreyfingarinnar verður haldinn í Brekkunni, Álafossvegi 27, þriðjudaginn 25. september kl. 17.30.

Á dagskrá eru venjuleg aðalfundarstörf.

Allir eru velkomnir á aðalfundinn!

Mosfellingum allar bjargir bannaðar gegn spilltri klíku – Fréttatilkynning

Á bæjarráðsfundi nýverið ákvað bæjarráð að veita bæjarstjóra leyfi til þess að ganga til samninga við Landsbanka Íslands vegna kröfu hans um lúkningu á sjálfskuldarábyrgð bæjarfélagsins á skuldabréfi Helgafellsbygginga ehf.

Sjálfskuldarábyrgðin er ólögleg samkvæmt sveitarstjórnarlögum, en skuldabréfið var gefið út vegna vangoldinna víxla Helgafellsbygginga ehf., viðtaka sveitarfélagsins á víxlunum var einnig ólögleg samkvæmt sveitarstjórnarlögum. Þær lagagreinar sem banna viðskipti af þessu tagi eru settar til að sporna gegn spillingu og til varnar íbúum sveitarfélaga.

Samkvæmt sveitarstjórnarlögum er bæjarráði óheimilt að fullafgreiða mál sem varðar framsal eigna og réttinda sveitarfélagsins, enda er bæjarráð skipað 3 mönnum með atkvæðisrétt og fundir þess lokaðir almenningi á meðan bæjarstjórnarfundir eru opnir almenningi og skipað sjö fulltrúum með atkvæðisrétt. Ákvæðin sem takmarka vald bæjarráðs með þessum hætti eru sett til þess að sporna gegn spillingu og til varnar íbúum sveitarfélaga. Bæjarráð hafði atkvæðisrétt af fjórum bæjarfulltrúum, málfrelsi af tveimur eða þeim sem ekki sitja í bæjarráði og kom í veg fyrir að fundarefnið væri rætt á opnum fundi eins og lög kveða á um.

Málsmeðferðin var kærð af bæjarfulltrúa Íbúahreyfingarinnar til Innanríkisráðuneytisins sem vísaði málinu frá á grundvelli þess að bæjarfulltrúi væri ekki aðili að málinu; það varði ekki réttindi hans og skyldur. Hverjir ætli séu aðilar að málsmeðferðinni að mati Innanríkisráðuneytisins ef ekki bæjarfulltrúar?

Niðurstöðu ráðuneytisins verður vísað til Umboðsmanns Alþingis.

Jón Jósef Bjarnason
Íbúahreyfingin í Mosfellsbæ

Fréttatilkynning frá Íbúahreyfingunni í Mosfellsbæ vegna Helgafellsbyggingamálsins

Í gær samþykkti bæjarráð Mosfellsbæjar með þremur samhljóða atkvæðum að heimila bæjarstjóra að ganga frá samningi við Landsbankann um uppgjör ábyrgðar bæjarins á láni Helgafellsbygginga ehf. Fulltrúi Íbúahreyfingarinnar, Jón Jósef Bjarnason, sem nú hefur stöðu áheyrnarfulltrúa í bæjarráði, lagði fram svohljóðandi bókun við afgreiðslu málsins:

„Með fullnaðarafgreiðslu á samkomulagi sem samþykkt var að fela bæjarstóra að ganga frá við Landsbankann er brotin 58. grein og 35 gr. sveitarstjórnarlaga, þar kemur fram að bæjarráð hafi ekki heimild til fullnaðarafgreiðslu þrátt fyrir afgreiðslu bæjarstjórnar um að veita bæjarráði fullnaðarafgreiðslurétt.

Tillaga um að fresta málinu þar sem gögn vantaði, var felld, en íbúahreyfingin benti á að nauðsynleg gögn vantar með málinu og gögn sem fylgdu voru send seinna en fundarboðið.
Íbúahreyfingin telur bæjarstjóra brjóta 55. gr. 6.kafla 3.mgr. sveitarstjórnarlaga.

Dagskrárliðurinn ber nafnið “uppgjör lóða”, en fjallar um innheimtu Landsbankans vegna sjálfskuldarábyrgðar, tillaga um að setja lýsandi titil var felld.

Bæjarráð er með gjörningnum að afhenda lóðir gegn ólögmætri sjálfskuldarábyrgð. Hagsmunum Mosfellsbæjar væri best borgið með því að fara eftir lögfræðiáliti lögfræðings bæjarins og gangast ekki við sjálfskuldarábyrgðinni.

Íbúahreyfingin mun kanna hvaða leiðir eru færar til þess að verja hagsmuni Mosfellsbæjar í þessu máli.“

Þann 6. júní bárust svör frá Mosfellsbæ við fyrirspurn Jóns Jósefs um stöðu málsins. Í svari bæjarins kom fram að bærinn vissi ekki betur en að lánið væri í vanskilum. Mosfellsbær lét þó hjá líða í framhaldi að upplýsa Jón Jósef um innheimtubréf Landsbankans sem dagsett er 8. júní fyrr en á fundi bæjarráðs í gær. Því er ljóst að hægt hefði verið að fjalla um málið á fundi bæjarráðs þann 14. júní, eða á fundi bæjarstjórnar þann 20. júní, hvar Jón Jósef hefði haft atkvæðisrétt við afgreiðslu þess. Svo virðist sem bæjaryfirvöld séu að skipuleggja sig framhjá allri mótstöðu við málið og haldi upplýsingum almenningi og kjörunum fulltrúum. Ef Jón Jósef hefði haft atkvæði á fundi bæjarráðs í gær hefði það nægt til að fella málið samkvæmt 35. gr. sveitarstjórnarlaga. En greinin felur bæjarráði heimild til fullnaðarákvörðun mála sé eigi ágreiningur innan ráðsins um ákvörðunina.

Í gær hafði Þórður Björn Sigurðsson, varabæjarfulltrúi Íbúahreyfingarinnar samband við bankastjóra Landsbankans og upplýsti hann um að stórlega mætti draga í efa að Mosfellsbæ væri stætt á að undirrita þau drög að uppgjöri sem lögð voru fyrir bæjarráð í gær því þau stangist á við niðurstöður minnisblaðs sem Mosfellsbær lét lögfræðistofuna LEX vinna um málið.

Þar sem uppgjörsdrögin voru lögð fram sem trúnaðarmál fór varabæjarfulltrúi Íbúahreyfingarinnar fram á það við bæjarstjóra í gær að trúnaði yrði nú þegar aflétt af skjalinu en efni skjalsins á fullt erindi við almenning.

Svo virðist sem bæjaryfirvöld séu að skipuleggja sig framhjá allri mótstöðu við málið og haldi upplýsingum frá almenningi og kjörunum fulltrúum. Einnig að umboðsmaður Alþingis hafi vísað málinu frá sér þegar til hans var leitað vegna tafa á afgreiðslu málsins af hálfu Innanríkisráðuneytisins á þeim grundvelli að íbúinn hefði ekki aðild að málinu.

Virðingarfyllst,
f.h. Íbúahreyfingarinnar í Mosfellsbæ
Þórður Björn Sigurðsson

Nánari upplýsingar veitir: Jón Jósef Bjarnason, bæjarfulltrúi í síma 897 9858

Mosfellingur, þú skuldar!

Ársreikningur Mosfellsbæjar fyrir árið 2011 hefur nú verið lagður fram. Í ljósi þess að Mosfellsbær er eitt þeirra sveitarfélaga sem eftirlitsnefnd um fjármál sveitarfélaga hefur haft umfjöllunar vegna bágrar fjárhagsstöðu er ekki óeðlilegt að bæjarbúar gefi málinu gaum. Við skoðun ársreikningsins kemur í ljós að Mosfellsbær stenst nú þau skilyrði sem eftirlitsnefndin leggur til grundvallar:

Eins og getur að líta munar þó ekki miklu. Og þó að um sé að ræða jávæða þróun segir það hvorki alla söguna né gefur tilefni til að lýsa því yfir að Mosfellsbær sé kominn fyrir vind.
Varðandi skuldahlutfallið þá aukast bæði tekjur og skuldir milli ára. Tekjur árið 2010 voru um 4,5 ma.kr. en árið 2011 voru þær um 5,6 ma.kr. og höfðu hækkað um 1,1 ma.kr. milli ára. Munar þar mestu um nýjan tekjustofn: tæplega 600 m.kr. framlag úr jöfnunarsjóði vegna yfirfærslu á málefnum fatlaðra til sveitarfélagsinsins. Eðli málsins samkvæmt rennur framlag jöfnunarsjóðsins til reksturs málaflokksins en ekki til annarra verkefna, svo sem niðurgreiðslu skulda. Þannig mætti reikna út að ef ekki væri fyrir þennan nýja tekjustofn mældust skuldir Mosfellsbæjar enn yfir viðmiðunarmörkum.
Skuldir bæjarins jukust annars um tæplega 300 m.kr. frá fyrra ári og eru nú um 8,4 ma.kr. Í þeirri tölu er ekki gert ráð fyrir 240 m.kr. sjálfskuldaábyrgð Mosfellsbæjar vegna Helgafellsbygginga ehf. sem lögfræðistofan LEX vill meina að sé ólögleg. Íbúar Mosfellsbæjar voru 8.642 í upphafi ársins 2011. Það gerir því um 970 þúsund krónur á hvern Mosfelling eða tæpar 4 milljónir á hverja 4 manna fjölskyldu.


Eins og sjá má á ofangreindri mynd halda skuldir per í búa áfram að aukast eins og þær hafa gert frá árinu 2007. Á neðangreindri mynd má svo sjá að vaxtakostnaður fer vaxandi á nýjan leik eftir að hafa farið lækkandi tvö ár í röð.


Í raun mætti segja að sá árangur sem náðist við rekstur Mosfellsbæjar á árinu 2011 renni óskiptur til lánadrottna því vaxtakostnaður ársins, 580 m.kr., er nánanst á pari við rekstrarafganginn fyrir fjármagnsliði, 560 m.kr..

Greinin birtist í Mosfellingi 26. apríl 2012.

Pin It on Pinterest