by admin42 | 28 Feb, 2018 | Fréttir
Það er tímans tákn að upplýsingar um greiðslur úr opinberum sjóðum skuli vera aðgengilegar almenningi. Launakjör stjórnmálamanna og stjórnsýslu eru þar á meðal. Mikið er rætt um nauðsyn þess að efla trú almennings á stjórnmálum og stofnunum þessa lands. Væri ekki skref í rétta átt að láta þessar upplýsingar í té? Upplýsingalög taka reyndar af allan vafa um að þessar upplýsingar skuli veita þeim sem eftir þeim óska. Íbúahreyfingin ákvað að láta á það reyna og hefur sent Mosfellsbæ eftirfarandi fyrirspurn:
Undirrituð óskar eftir upplýsingum um útgjöld bæjarsjóðs vegna greiðslna til bæjarfulltrúa og varamanna þeirra og helstu yfirmanna stjórnsýslu Mosfellsbæjar. Með greiðslum er átt við föst mánaðarlaun og aðra kostnaðarliði. Markmiðið er að fá tölur til samanburðar og upplýsingar um útgjöld bæjarsjóðs.
1) Launakjör bæjarfulltrúa
Óskað er eftir sundurliðuðum upplýsingum um launakjör hvers bæjarfulltrúa og varamanna sem taka þeirra sæti. Átt er við föst mánaðarlaun vegna setu í bæjarstjórn, bæjarráði, nefndum og formennsku í nefndum. Þá er og óskað upplýsinga um fastar og breytilegar greiðslur til einstakra bæjarfulltrúa í formi bílastyrkja, endurgreidds bifreiðakostnaðar, endurgreidds útlagðs kostnaðar, síma- og netkostnaðar og laun varamanna vegna fundasetu í bæjarstjórn og bæjarráði.
2) Launakjör framkvæmdastjóra sviða, yfirmanna og lykilstarfsmanna
Auk þess er óskað eftir sundurliðuðum upplýsingum um launakjör einstöku framkvæmdastjóra sviða og föst laun yfirmanna og lykilstarfsmanna á bæjarskrifstofu, ásamt upplýsingum um fasta og breytilega yfirvinnu, bílastyrki, endurgreiddan bifreiðakostnað, endurgreiddan útlagðan kostnað og síma- og netkostnað.
3) Launakjör bæjarstjóra
Einnig er óskað eftir upplýsingum um mánaðarlaun bæjarstjóra og greiðslur sem hann fær þar fyrir utan fyrir setu í nefndum, kostnað vegna fastrar og breytilegrar yfirvinnu, bílastyrks, endurgreiddan reksturskostnað bifreiðar, ferðakostnað, kostnað vegna risnu og vegna síma- og netkostnaðar.
4) Greiðslur vegna starfslokasamninga
Auk þess er óskað eftir upplýsingum um kostnað Mosfellsbæjar vegna biðlauna og/eða starfslokasamninga við einstaka framkvæmdastjóra, yfirmenn og lykilstarfsmenn á fjárhagsárunum 2016 og 2017.
Tímabilin sem óskað er upplýsinga fyrir eru fjárhagsárið 2016 og fjárhagsárið 2017. Til skýringar skal tekið fram að auk bæjarfulltrúa og varamanna þeirra, er með tilvísun til helstu yfirmanna átt við framkvæmdastjóra fjölskyldu-, fræðslu- og umhverfissviðs, forstöðumenn þjónustu- og samskiptadeildar, mannauðsdeildar og fjármáladeildar, auk lögmanns bæjarins, byggingarfulltrúa, skipulagsfulltrúa og umhverfisstjóra.
Með kveðju,
f.h. Íbúahreyfingarinnar
Sigrún H Pálsdóttir, bæjarfulltrúi
S. 866 9376
by admin42 | 3 Feb, 2018 | Fréttir
Málefni Hlégarðs eru nú til umræðu í menningarmálanefnd Mosfellsbæjar. Framtíð hússins er óviss en niðurstaða mikilvæg því hún hefur þýðingu fyrir svarið við þeirri spurningu hvort Mosfellsbær er úthverfi frá Reykjavík í félagslegu og menningarlegu tilliti eða bæjarfélag með sterka sjálfsímynd.
Um langt skeið hefur húsið verið leigt út til einkaaðila sem samið hafa um reksturinn við bæinn. Einn slíkur samningur er nú að renna sitt skeið og mál margra að rétt sé að endurskoða hann, áður en lengra er haldið, með það að leiðarljósi að efla félagslegan þátt starfseminnar og auka framboð og um leið fjölbreytni viðburða. Sú staðreynd að Hlégarður er eina samkomuhús Mosfellinga leggur bæjaryfirvöldum ríkar skyldur á herðar.
Félagsheimilið Hlégarður var byggt um miðja síðustu öld. Nú er 21. öldin gengin í garð og félagslegar forsendur allt aðrar. Sú spurning vaknar hvort yfirhöfuð sé þörf fyrir samkomuhús í Mosfellsbæ. Til þess að varpa ljósi á það er vert að skoða upphafið og rekja sig þaðan til dagsins í dag.
Upp úr 1900 urðu miklar breytingar á búsetu fólks á Íslandi. Þéttbýli tók að myndast og úr þeim jarðvegi spruttu m.a. ungmennafélög sem þurftu þak yfir höfuðið. Í loftinu lá krafa um að blása lífi í íslenskt menningarlíf. Lítil samkomuhús litu dagsins ljós en eftir því sem leið á öldina fjölgaði stærri félagsheimilum á borð við Hlégarð. Framan af hýstu þessi hús nánast allt félags- og menningarlíf á Íslandi en með tilkomu íþróttamiðstöðva, tónlistarhúsa, leikhúsa, danshúsa, skátaheimila, félagsmiðstöðva eldri borgara og húsnæðis fyrir ýmsa aðra félagsstarfsemi dró úr eftirspurninni. Samkeppnin við kvikmyndahúsin og sjónvarpið hafði líka sín áhrif.
Í upphafi voru samkomuhús samstarfsverkefni félagssamtaka og hreppa. Um miðja öldina lagði ríkið svo sitt lóð á vogarskálarnar með stofnun félagsheimilasjóðs. Sameiginlegur rekstur og bygging samkomuhúsanna tengdi fólkið saman og það sem meira var íbúana og stjórnvaldið. Samkomustaðirnir urðu þannig sameiningartákn. Öflugt félagsstarf styrkti ímynd hreppanna og gaf fólkinu tilfinningu fyrir því að það væri hluti af sterkri liðsheild. Með því að efla félagsstarfið sendu hrepparnir jafnframt frá sér þau skilaboð að búseta þar væri eftirsóknarverð, að sveitin væri sjálfum sér nóg, ekki eftirbátur annarra.
Viðfangsefni bæjarins núna er að skera úr um hvort bæjarfélagið fullnægi þessum þörfum. Hvort það skilgreini sig sem bæjarfélag eða úthverfi, hvort félagsheildin Mosfellsbær sé sjálfri sér nóg? Mælikvarðinn á það eru innviðirnir, ekki síst félags- og menningarlegir.
Ljóst er að skapandi greinar gætu haft mikil not fyrir Hlégarð. Ungmenni, eldri borgarar, íbúasamtök og önnur félagssamtök sömuleiðis. Húsið var byggt til að hýsa leiksýningar, tónlistarflutning, dansleiki og félagsstarf hverskonar. Forsendan fyrir gróskumiklu starfi þessara hópa er að þeir eigi sér afdrep þar sem fólk getur mælt sér mót, æft sig, talað saman og troðið upp í til þess gerðu umhverfi. Á samfélagslegu gildi þess að njóta í sameiningu líðandi stundar „í hléi fyrir mesta vindinum” leikur enginn vafi.
Íbúahreyfingin hefur viðrað þá hugmynd að kalla áhugasama íbúa, félagssamtök og fagfólk til skrafs og ráðagerða um framtíð Hlégarðs. Allir hefðu gagn af því.
Hildur Margrétardóttir, fulltrúi Íbúahreyfingarinnar í menningarmálanefnd og Sigrún H. Pálsdóttir, bæjarfulltrúi
Greinin birtist í Mosfellingi 1. febrúar 2018.
Hér fróðleg ritgerð um Hlégarð: Möguleikar Hlégarðs sem frístundahús fyrir Mosfellinga eftir Elvu Björgu Pálsdóttur.
Hér önnur: Háborgir hreppa. Félagsheimili og samkomuhús á 20. öld. Fornleifafræðileg greining á almenningsbyggingum á Íslandi eftir Gylfa Björn Helgason.