Bókun vegna álits innanríkisráðuneytis

Fréttatilkynning

Á 597. fundi bæjarstjórnar Mosfellsbæjar var lagt fram álit innanríkisráðuneytisins þar sem fram kemur að ákvæði sveitarstjórnarlaga séu fortakslaus að því er varðar sjálfskuldarábyrgðir sveitarfélaga á skuldum einkaaðila. Svo virðist sem meirihluti bæjarstjórnar ætli að sitja við sitt heygarðshorn og í stað þess að virða niðurstöðuna halda þau á lofti því sjónarmiði að um „lögfræðilegan ágreining“ sé að ræða. Íbúahreyfingin lagði fram eftirfarandi bókun á fundinum:

„Nú er ljóst skv. innanríkisráðuneytinu að „sú ákvörðun Mosfellsbæjar að gangast í framsalsábyrgð vegna þriggja víxla útgefnum af Helgafellsbyggingum hf. … hafi ekki verið í samræmi við ákvæði 6. mgr. 73. gr. þágildandi sveitarstjórnarlaga nr. 45/1998“ og „mat ráðuneytisins að ákvörðun Mosfellsbæjar um að gangast í sjálfskuldarábyrgð vegna láns að upphæð kr. 246.000.000 sem NBI hf. veitti Helgafellsbyggingum hf. þann 24. september 2009“ hafi ennfremur verið ólögleg.
Þar með er aftur staðfest að þeir fulltrúar D-, S-, V- og B-lista sem sátu í bæjarstjórn á síðasta kjörtímabili brutu með samþykki sínu ákvæði sveitarstjórnarlaga. Ákvæðin eru sett til þess að gæta hagsmuna sveitarfélagsins, íbúa þess og sem vörn gegn spillingu.
Til viðbótar við lögbrotin var svo hagsmunum íbúa Mosfellsbæjar kastað fyrir róða með því að tryggja lánin á ófullnægjandi hátt.
Íbúahreyfingin átelur framgöngu bæjarstjóra í fréttum RÚV hinn 14. janúar s.l. þar sem hann varpar ábyrgð á umræddum gjörningi á embættismenn bæjarins. Bæjarstjórinn minnist ekki á lögfræðiálit sem Mosfellsbær sannarlega fékk frá Lex lögmannsstofu, sem er samhljóða úrskurði innanríkisráðuneytisins um fortaksleysi ákvæðanna sem brotið er gegn, en vísar í að „tvö lögfræðiálit séu með aðra niðurstöðu en ráðuneytið“. Það er langt til seilst að kalla tölvupóst frá endurskoðendum bæjarins lögfræðiálit enda kemur þar fram að þeir telji æskilegt að óska eftir áliti Sambands íslenskra sveitarfélaga. Hitt „álitið“ er svo “drög að punktum” frá Júris sem ekki er undirritað af lögfræðingum stofunnar.
Bæjarstjóri ber því einnig við að lögbrotin hafi verið „eina leið bæjarins á sínum tíma til að fá framgengt að fá þessa skuld greidda“. Það er ótrúverðugt og ekki boðlegt fyrir yfirvöld að brjóta lög, óháð því hvort talið sé að af því hljótist fjárhagslegur ávinningur. Slíkt kallast spilling.
Öll framganga meirihlutans í málinu hefur einkennst af ógagnsæi og leyndarhyggju og Íbúahreyfingin krefst afsagnar þeirra bæjarfulltrúa sem stóðu að þessum ólöglegu samningum þegar í stað.
Jón Jósef Bjarnason, fulltrúi Íbúahreyfingarinnar í Mosfellsbæ.“

Íbúahreyfingin bar einnig fram eftirfarandi tillögu:
„Tillaga íbúahreyfingarinnar.
Íbúahreyfingin leggur til að óháðir aðilar verði fengnir til þess að rannsaka viðskipti Mosfellsbæjar og Helgafellsbygginga ehf. Bæjarráði verði falið að útbúa nánari rannsóknarlýsingu.
Tillagan borin upp og felld með sex atkvæðum gegn einu atkvæði.“

Hér má sjá fundargerð fundarins.

Stuðningur við stjórnarskrármálið – Fréttatilkynning

Fólkið er of fyrirferðarmikið til að fallaÍbúahreyfingin í Mosfellsbæ lýsir fullum stuðningi við aðgerðir Dögunar, IMMI, Pírata, Radda fólksins, SaNS og Stjórnarskrárfélagsins í stjórnarskrármálinu:
„Við heitum á meiri hluta Alþingis að virða afdráttarlausan vilja kjósenda í stjórnarskrármálinu, eins og hann birtist í þjóðaratkvæðagreiðslunni 20. október síðastliðinn. Lýðræðisríki byggja á þeirri grundvallarforsendu að allt ríkisvald sé sprottið frá þjóðinni, það er þjóðin sem er fullvalda.
Þjóðin er stjórnarskrárgjafinn samkvæmt vestrænum lýðræðishugmyndum þótt núgildandi stjórnarskrá lýðveldisins endurspegli það ekki nægilega vel. Þjóðaratkvæðagreiðslur sem Alþingi boðar til eru ráðgefandi, en aðeins af lögformlegum ástæðum.
Niðurstaða slíkrar atkvæðagreiðslu er ávallt pólitískt og siðferðilega bindandi. Alþingi hefur enda aldrei gengið gegn vilja þjóðarinnar eins og hann birtist í þjóðaratkvæðagreiðslu.
Dagurinn sem það gerðist yrði svartur dagur í sögu Alþingis. Stjórnarskrárferlið, sem sett var af stað í kjölfar hrunsins, hefur vakið verðskuldaða athygli víða um lönd. Tugþúsundir Íslendinga hafa lagt sitt af mörkum.
Við nýja og endurskoðaða stjórnarskrá eru bundnar dýrmætar vonir um heilbrigðara samfélag, og það veltur á meiri hluta Alþingis hvort þær vonir megi rætast.
Vilji þjóðarinnar liggur fyrir óvenju skýr. Alþingi ber að virða þann vilja og láta hann ná fram að ganga.“
Íbúahreyfingin í Mosfellsbæ hvetur fólk til þess að mæta á kröfufundi um þetta mikilvæga málefni á Austurvelli næstu laugardaga.

Fréttatilkynning frá Íbúahreyfingunni í Mosfellsbæ

FrettatilkynningÁgæti viðtakandi.

Nokkrum dögum fyrir jól komst innanríkisráðuneytið að þeirri niðurstöðu að sú ákvörðun Mosfellsbæjar að gangast í ábyrgð vegna skulda Helgafellsbygginga hf. hafi ekki verið í samræmi við lög. Þetta kemur fram í meðfylgjandi áliti sem ráðuneytið hefur sent Mosfellsbæ um erindi sem ráðuneytinu barst frá Kristínu Pálsdóttur, íbúa í Mosfellsbæ. Erindi Kristínar, sem starfar með Íbúahreyfingunni í Mosfellsbæ, er dagsett í febrúar 2011 og hefur málsmeðferð ráðuneytisins því tekið hart nær tvö ár.

Niðurstaða ráðuneytisins er áfellisdómur yfir þeim vinnubrögðum sem kjörnir fulltrúar Mosfellinga hafa orðið uppvísir að í þessu máli en sumarið 2008 og haustið 2009 samþykktu fulltrúar allra flokka í bæjarstjórn umrædda gerninga Haraldar Sverrissonar, bæjarstjóra og oddvita Sjálfstæðisflokksins. Jón Jósef Bjarnason, bæjarfulltrúi Íbúahreyfingarinnar, hefur skilgreint gerningana sem skipulagt lögbrot til að til að fegra bókhald sveitarfélagsins fyrir síðustu kosningar og aðferð til að fela hugmyndafræðilegt gjaldþrot þeirrar stefnu einkavæðingar sem sveitarfélagið hrinti í framkvæmd við uppbyggingu íbúðahverfa.

Upp komst um málið fyrir tilstuðlan Íbúahreyfingarinnar sem fékk einn mann kjörinn í sveitarstjórnarkosningunum 2010. Fólk sem starfar með Íbúahreyfingunni tók eftir því þegar ársreikningur sveitarfélagsins fyrir árið 2009 lá fyrir að Mosfellsbær var í ábyrgð fyrir skuldum einkafyrirtækis. Það þótti undarlegt. Í beinu framhaldi tók fólk að velta fyrir sér hvort pottur væri brotinn. Nú er ljóst að svo er.

Nýfengin niðurstaða ráðuneytisins er í samræmi við niðurstöðu lögfræðiálits sem Mosfellsbær lét vinna árið 2011 eftir að ráðuneytið óskaði eftir skýringum sveitarfélagsins á sjálfskuldarábyrgðinni. Allt frá því lögfræðiálitið lá fyrir hafa kjörnir fulltrúar þeirra flokka sem ábyrgð bera á málinu verið á harðaflótta undan henni. Í stað þess að viðurkenna mistökin undanbragðalaust hefur klassísk samtryggð afneitun orðið ofan á.

Brátt reynir á kjörna fulltrúa í Mosfellsbæ á ný í þessu máli. Á mið vikudaginn verður málið tekið fyrir á bæjarstjórnarfundi. Hver verða viðbrögð bæjarfulltrúa? Mosfellingar eiga rétt á skýrum svörum. Með hvaða hætti mun bæjarstjórn bregðast við þeirri staðreynd að innanríkisráðuneytið hefur nú úrskurðað að gerningar sveitarfélagsins í Helgafellsbyggingamálinu hafi ekki verið í samræmi við lög? Ætla ráðamenn í Mosfellsbæ að reyna að sópa skítnum undir teppið eða ætla þeir að horfast í augu við misgjörðir sínar og axla ábyrgð? Hvort verður ofan á, auðmýkt eða forherðing?

Fyrir hönd Íbúahreyfingarinnar í Mosfellsbæ, Þórður Björn Sigurðsson, varabæjarfulltrúi

Hér má nálgast álit ráðuneytisins.

Svör Mosfellsbæjar um villidýrasafn

Bæjarstjórn vill stofna villidýrasafnÞann 4. október sendu fulltrúar Íbúahreyfingarinnar spurningar varðandi villidýrasafn til bæjarráðs Mosfellsbæjar. Í dag bárust eftirfarandi svör:

1. Hvaða skuldbindingu hefur undirritun viljayfirlýsingarinnar í för með sér fyrir Mosfellsbæ?
Engar aðrar en fram koma í viljayfirlýsingunni.

2. Var haft samráð við Náttúruminjasafn Íslands, sem er höfuðsafn á sviði náttúrufræða samkvæmt safnalögum nr. 106 frá 31. maí 2001, Safnaráð eða aðra sérfræðinga á sviði safnamála þegar ákvörðun var tekin um stofnun safnsins, og þá hverja?
Ekki hefur verið tekin ákvörðun um stofnun safns og því ekki haft samráð við neinn lögformlegan aðila vegna þess.

3. Er ætlunin að reka hér safn í skilningi safnalaga? Í 4. gr. þeirra segir m.a: „Safn er samkvæmt lögum þessum stofnun, opin almenningi, sem hefur það hlutverk að safna heimildum um manninn, sögu hans, umhverfi og náttúru landsins, standa vörð um þær, rannsaka, miðla upplýsingum og hafa þær til sýnis svo að þær megi nýtast til rannsókna, fræðslu og skemmtunar.“?
Ekki hefur verið tekin ákvörðun um stofnun safns og því ekki haft samráð við neinn lögformlegan aðila vegna þess. Ekki eru forsendur til að svara því hvort hér verði um safn í skilningi safnalaga eða einhvers konar sýningu. En það má þó nokkuð skýrt lesa út úr viljayfirlýsingunni að stefnt er að því að gefa almenning kost á að njóta væntanlegra náttúrugripa, sér til ánægju og fróðleiks. Það liggur þó á engan hátt fyrir á þessu stigi máls, hvernig verður best staðið að þessu.

4. Hafa verið gerðar áætlanir varðandi kostnað við uppbyggingu og rekstur safnsins og hefur markaður fyrir slíkt safn verið kannaður? Benda má á safn á líku sviði á Stokkseyri, sérstaða og rannsóknarhluti þess safns felst þó í byssusafni.
Ekki hafa verið gerðar áætlanir varðandi kostnað, en það er gert ráð fyrir að það verði hluti af fyrstu athugun á hugmyndinni.

5. Telur bæjarráð að stofnun safnsins samræmist drögum að menningarstefnu Mosfellsbæjar? Í drögunum er lögð áhersla á framsækni menningarstofnana, samráð við íbúa um viðhorf þeirra og óskir, og að menningarstofnanir stuðli að varðveislu menningararfleifðar í Mosfellsbæ.
Veldur hver á heldur, og að sjálfsögðu er það hugmynd Mosfellsbæjar að þessi hugmynd þróist yfir í að verða framsækið verkefni og verði þannig í fallegri hrynjandi með menningarstefnu Mosfellsbæjar. Benda má á að komi safnið eða sýningin til að þjóna yngstu aldurshópunum, þá er almennt talið innan ferðaþjónustu að vöntun sé á söfnum eða sýningum sem sniðin eru fyrir börn og ungmenni eða barnafjölskyldur. Umræður um verkefnið í nefndum bæjarins hefur enn ekki farið fram og ekki hefur verið ákveðið með hvaða hætti verkefni sem þetta verði gert að almenningseign, hvorki með umræðum eða könnunum. En ef vitnað er í menningarstefnu þá fellur safn eða sýning að ofangreindum toga einna helst undir eftirfarandi meginmarkmið: „Mosfellsbær leggi áherslu á að nýta menningu til tengsla og samskipta við umheiminn og leiti skapandi strauma til eflingar samfélagi og atvinnulífi.”

6. Uppfylla gripirnir sem rætt er um í viljayfirlýsingunni skilyrði siðareglna Alþjóðaráðs safna (ICOM)? Í siðareglunum eru t.d. ítarleg ákvæði um hvernig safngripa er aflað, fylgja t.d. einhver vottorð með gripunum, og þá hver?
Samkvæmt upplýsingum frá Kristjáni Vídalín liggja fyrir öll tilskilin vottorð með hverjum og einum grip, hvar þeirra er aflað og með hvaða hætti. En þetta er eitt af þeim atriðum sem skoðað verði af þeim fagaðilum sem meta með og fyrir okkur verkefnið.

7. Er fyrirhugað að þetta mál fái málefnalega og lýðræðislega meðferð í nefndum bæjarins?
Já – geri ekki ráð fyrir öðru, en þó er það mat undirritaðs að heppilegra sé að verkefnið sé lengra gengið fram, hlutverk Mosfellsbæjar skýrar o.s.frv. svo það veki ekki fleiri spurningar en það geti svarað. Því verður hins vegar ekki neitað að gagnlegt er að fá erindi af þessu tagi sem hér er verið að svara, frá nefndarmönnum á fræðslu- og menningarsviði, þar sem settar eru fram gagnlegar spurningar um eðli og tilgang verkefnisins. Sé þeim svarað hér á þessu stigi máls af einhverjum vanbúnaði, þá verður örugglega bætt um betur þegar málin fá umfjöllun í nefnd.

8. Hafa aðrir samningar eða skjöl önnur en viljayfirlýsingin verið undirrituð í tengslum við málið? Eru aðrir samningar við Kristján Vídalín Óskarsson eða félög honum tengd í ferli hjá Mosfellsbæ?
Ekkert annað plagg, skjöl eða samþykktir en lagðar hafa verið fram með viljayfirlýsingunni hafa verið lagðar fram, enda sést á svörum hér að framan, að verkefni þetta er enn hugmynd og ef þannig má að orði komast: enn í fæðingu.

Hér má sjá bréfið frá Mosfellsbæ í heild: VillidyrasafnSvarMosfellsbaear

Íbúahreyfingin krefst afsagnar stjórnar Eirar

Íbúahreyfingin í Mosfellsbæ krefst þess að stjórn Eirar axli ábyrgð á greiðsluþroti stofnunarinnar með því að víkja. Eir skuldar átta milljarða, þar af eiga heimilismenn tvo milljarða sem þeir hafa lagt inn sem búsetutryggingu. Þeir fjármunir kunna að glatast.
Í fjölmiðlum hefur komið fram að í stað þess að stöðva byggingaframkvæmdir í kjölfar hrunsins hafi stjórnendur Eirar tekið ákvörðun um að halda áfram með byggingu nýrra íbúða. Sú ákvörðun reyndist afdrifarík. Til að fjármagna framkvæmdirnar voru peningar íbúðarétthafa notaðir. Stjórnendur hafi þannig notað peninga frá heimilismönnum sem ódýr lán í stað þess að reyna að ávaxta féð. Treyst var á að þensla á fasteignamarkaði héldi áfram en þegar markaðurinn lamaðist syrti í álinn. Þá er formaður stjórnar Eirar sagður hafa vitað strax árið 2011 að stofnunin væri á leið í greiðsluþrot. Engu að síður hafi verið haldið áfram að gera samninga við nýja íbúa. Slíkt er merki um alvarlegan dómgreindarbrest. Rétt væri að vísa málinu til lögreglu.

Ljóst er að trúverðugleiki Eirar hefur beðið hnekki. Traust milli heimilsmanna, aðstandenda þeirra og stjórnar Eirar er brostið. Til að Eir megi öðlast nauðsynlegan trúverðugleika er afsögn sitjandi stjórnar óhjákvæmilegt fyrsta skref.

7.11.2012

Pin It on Pinterest