Ákvæði um áheyrnarfulltrúa

Ákvæði um áheyrnarfulltrúa

HofudborgAðalfundur Samtaka sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu fór fram í Félagsgarði í Kjós í gær föstudag 20. nóvember. Á fundinum gerði Íbúahreyfingin grein fyrir tillögu um að samtökin innleiddu ákvæði um áheyrnarfulltrúa í samþykktir sínar sem tæki mið af 50. gr. sveitarstjórnarlaga.

Ný sveitarstjórnarlög tóku gildi í byrjun árs 2012. Í þeim lögum er nýtt ákvæði sem leyfir framboðum, sem ekki hafa fengið nægilegt magn atkvæða til að fá fulltrúa kjörinn í bæjarráð og aðrar nefndir, að tilnefnda áheyrnarfulltrúa með málfrelsi og tillögurétt en þó ekki atkvæðisrétt.

Frumvarp þess efnis að festa ákvæðið í lög var fyrst flutt af þingmönnum VG á 133. löggjafarþingi 2006-2007. Þeir sóttu sína fyrirmynd til Reykjavíkurborgar sem þáþegar hafði innleitt þetta verklag. Mosfellsbær innleiddi sama verklag 2006 og eftir því sem ég best veit var það Ragnheiður Ríkharðsdóttir þáverandi bæjarstjóri sem var svo framsýn að standa fyrir því.

Rökin sem þingmennirnir færðu fyrir frumvarpinu í upphafi voru að því væri ætlað að efla lýðræði í sveitarfélögum og gæta þess að framboðum væri ekki mismunað á grundvelli þess hvort þau væru í meirihlutasamstarfi eða ekki. Það gæti hæglega komið upp sú staða að lítið framboð ætti fulltrúa í öllum nefndum á meðan stærra framboð ætti engan fulltrúa. Í þessu fælist mismunun gagnvart kjósendum því það ætti ekki að skipta máli hvort listi sem þeir kjósa er í meirihlutasamstarfi eða ekki. Þessi hætta er raunveruleg á höfuðborgarsvæðinu í þeim sveitarfélögum sem ekki hafa innleitt ákvæðið til fulls.

Nú er það svo að Samtök sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu hafa ekki innleitt ákvæðið í sínar samþykktir. Og það er staðreynd að umrætt misrétti er fyrir hendi. Í nefndum á vettvangi SSH eru fulltrúar framboða sem ekki fengu nægilegt magn atkvæða til að ná inn manni. Þeir eiga sæti í nefndum SSH einungis af því að þeir eru í meirihlutasamstarfi. Einfaldasta leiðin til að að leiðrétta misréttið er að innleiða ákvæði um áheyrnarfulltrúa þannig að öll framboð sem eiga fulltrúa í sveitarstjórn geti tilnefnt fulltrúa.

Ég veit að það er mótstaða gegn tillögu minni á þessum vettvangi.  Stjórn SSH sér ekki ástæðu til innleiða ákvæðið. Mig langar samt að biðja fundargesti að hugleiða málið vel því í núverandi fyrirkomulagi felst lýðræðishalli. Framboðin eru jú öll jöfn fyrir lögum.

SSH er samstarfsvettvangur þar sem mótuð er stefna í veigamiklum málum eins og svæðisskipulagi. Ég er þeirrar skoðunar að í því felist mikil menntun fyrir sveitarstjórnarfólk að taka beinan þátt í þannig starfi. Að mínu viti snýst málið því ekki síst um jafnan rétt til upplýsinga og tel ég þann þátt ekki síður mikilvægan en að leiðrétta þann lýðræðishalla að framboð sem þó eiga fulltrúa í sveitarstjórn skuli ekki geta tekið þátt í samstarfi og stefnumótun á vettvangi SSH.

Af erindum frummælenda á fundinum mátti ráða að vonir standi til að efla samstarfið ennfrekar á næstu árum. Satt best að segja er erfitt að sjá að grundvöllur sé fyrir því á meðan  framboðum sem þó hafa hlotið kosningu í sveitarstjórn er gert að standa utan við starf samtakanna.

Atkvæðagreiðsla um tillöguna bíður næsta árs þar sem láðist að senda hana til bæjarstjórnarmanna á höfuðborgarsvæðinu með fundarboði.

**********

Tillaga M-lista Íbúahreyfingarinnar felur í sér breytingu á 6. gr. Samþykktar SSH og hljóðar svo:

“Framboð sem eiga fulltrúa í sveitarstjórn en ná því ekki að fá kjörinn fulltrúa í fulltrúaráð SSH eiga rétt til að tilnefna einn áheyrnarfulltrúa til setu á fundum fulltrúaráðs með tillögurétt og málfrelsi. Það sama gildir um nefndir á vegum samtakanna.”

Sigrún H Pálsdóttir

Vatnsvernd í landi Selholts

Vatnsvernd í landi Selholts

IMG_1997Ræða um vatnsvernd í landi Selholts á Mosfellsheiði í bæjarstjórn Mosfellsbæjar 18. nóvember 2015.

Þarna er verið breyta aðal- og deiliskipulagi og hluti af því svæði er vatnsverndarsvæði upp á Mosfellsheiði við Leirtjörn. Það er fyrirtækið Stórsaga sem á að fá þar leyfi til að reisa víkingaþorp með 15 byggingum. Áætlanir gera ráð fyrir mikilli umferð rútubíla og stóru malbikuðu bílastæði, auk annarrar starfsemi við tjörnina en athafnasvæðið er innan vatnsverndarsvæðis Mosfellinga í Laxnesdýjum. Sú starfsemi sem skipulagsbreytingin tekur til, á lögum skv., ekki heima á grannsvæði vatnsverndar. Hún á heldur ekki heima á fjarsvæði vatnsverndar en Laxnesdý eru í næsta nágrenni við Leirtjörn.
Íbúahreyfingin furðar sig á forgangsröðuninni sem hér birtist. Fyrst á að breyta aðalskipulagi sem leyfir starfsemi sem brýtur í bága við þær umhverfiskröfur sem gilda um vatnsverndarsvæði og leita síðan að nýju vatnsbóli fyrir Mosfellinga sem á að taka við af vatnsbólinu í Laxnesdýjum.
Eðlileg meðferð málsins hefði verið að taka enga áhættu, heldur finna fyrst vatnsbólið og gera síðan aðalskipulagsbreytingu sem tæki mið af niðurstöðum þeirra borana sem fyrirhugaðar eru, en ekki öfugt eins og nú er gert.

Rökin sem færð eru fyrir þessum breytingum nú koma frá verkfræðistofunni Vatnaskilum en verkfræðingar hennar halda því fram að hægt sé með smávægilegri tilfærslu á afrennsli yfirborðsvatns að flokka svæðið áfram sem fjarsvæði brunnsvæðisins í Laxnesdýjum (í stað grannsvæðis eins og vatnasvæðisnefnd sambands sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu lagði til og bæjarstjórn frestaði að tæki gildi í upphafi þessa kjörtímabils).
Ég sakna þess að þessi skýrsla skuli ekki hafa verið send til umsagnar til þess bærra aðila áður en vinna hófst við aðalskipulagsbreytinguna. Það hefði verið góð stjórnsýsla. Ég geri líka verulega athugasemd við að þetta stóra umhverfisverndarmál skuli ekki hafa verið borið undir umhverfisnefnd Mosfellsbæjar. Það finnst mér reyndar óforsvaranlegt.

Ræða á fundi bæjarstjórnar 18. nóvember 2015

Tillaga M-lista Íbúahreyfingarinnar
Bæjarfulltrúi Íbúahreyfingarinnar leggur til að bæjarstjórn fresti afgreiðslu á tillögu um breytingar á aðalskipulagi í landi Selholts þar til í ljós kemur hvort leit að nýju brunnsvæði, í stað brunnsvæðisins í Laxnesdýjum, skilar árangri. Eins og staðan er nú er um að ræða helsta vatnsverndarsvæði sveitarfélagsins og miklir hagsmunir í húfi fyrir landbúnaðarstarfsemi í Mosfellsdal og Mosfellinga alla til langrar framtíðar.
Íbúahreyfingin leggur einnig til að skýrsla verkfræðistofunnar Vatnaskila verði send til umsagnar hjá til þess bærum aðilum og stofnunum á sviði umhverfis- og heilbrigðismála. Auk þess verði fyrirliggjandi aðal- og deiliskipulagsbreyting borin undir umhverfisnefnd Mosfellsbæjar áður en hún kemur til afgreiðslu í bæjarstjórn.

Sigrún H Pálsdóttir

sigrunhpalsdottir@gmail.com

Fjárhagsáætlun 2016 til 2019

Fjárhagsáætlun 2016 til 2019

Nú er 1. umræðu um fjárhagsáætlun Mosfellsbæjar 2016-2019 lokið. Íbúahreyfingin hafði þetta fram að færa að því tilefni:

Forseti, ágætu bæjarfulltrúar og aðrir fundargestir
Mig langar að byrja á því að þakka Aldísi Stefánsdóttur sem er staðgengill bæjarstjóra fyrir greinargóða yfirferð á fjárhagsáætlun og  starfsmönnum fyrir þeirra hlutdeild í herlegheitunum en hún er ekki lítil.

Forsendur fjárhagsáætlunar – Gagnaöflun í aðdraganda 1. umræðu 

Þetta er í annað skiptið sem ég tek þátt í 1. umræðu um fjárhagsáætlun í þessari bæjarstjórn. Ég verð að viðurkenna að það fór svolítið um mig í fyrsta skiptið. Mér fannst ég ekki hafa næga yfirsýn og ákvað að bíða með allan tillöguflutning þar til bæjarráð væri búið að fara yfir helstu þætti í starfsemi sviða og stofnana með stjórnendum og starfsmönnum sveitarfélagsins. Sá háttur að heimsækja þessar stofnanir bæjarins er til fyrirmyndar og reyndist koma að miklu gagni fyrir mig sem bæjarfulltrúa.

Við erum nú að hefja 1. umræðu um fjárhagsáætlun og illu heilli eigum við þessar heimsóknir eftir. Reynslunni ríkari frá því í fyrra tel ég að heppilegra hefði verið að hefja ekki umræðuna fyrr en að loknum þessum heimsóknum.

Fyrir hönd Íbúahreyfingarinnar langar mig því að leggja til að hér eftir eigi bæjarráð þetta samtal við stjórnendur og starfsmenn áður en gengið er til 1. umræðu. Það væri líka mjög gagnlegt að nefndirnar fengju fjárhagsáætlunina til umsagnar fyrir 1. umræðu en ekki eftir að búið er að ljúka áætlunargerð, eins og nú er gert. Það að vera búinn að heimsækja stofnanir og bera fjárhagsáætlun undir fagnefndir áður en til 1. umræðu kemur telur Íbúahreyfingin líklegt til að skila bestu mögulegu fjárhagsáætluninni.

Íbúahreyfingin telur líka að bæjarstjórn þurfi að tileinka sér þau vinnubrögð að byggja ekki umræðu um fjárhagsáætlun á áætlunum einum, heldur fái bæjarráð og bæjarstjórn í hendur rauntölur, ásamt áætlunum fyrir komandi ár. Til að meta árangur þarf við 1. umræðu að vera ljóst að hve miklu leyti fjárhagsáætlun ársins hefur gengið eftir.

Einnig væri akkur í því að fá  starfsáætlanir, ásamt tölulegum forsendum fjárhagsáætlunar fyrirfram frá formönnum nefnda og framkvæmdastjórum sviða. Greinargerðir frá sviðunum þurfa líka að vera klárar öðruvísi er ekki raunhæft að hefja umræðuna.

Íbúahreyfingin hefur lengi látið sig dreyma um að íbúar fái meiri hlutdeild í gerð fjárhagsáætlunar. Það þyrfti því að funda með þeim áður en 1. umræða um fjárhagsáætlun fer fram.

Tillaga Íbúahreyfingarinnar snýst í raun um að auka gegnsæi í ákvarðanatöku með því að safna saman sem víðtækustu upplýsingum frá yfirstjórn, stofnunum, fagnefndum og íbúum áður en umræðan hefst.

Ég veit að vinna við fjárhagsáætlun er styttra á veg komin nú en oft áður vegna kjarasamninga o.fl. Þær breytingar á vinnuferlinu sem Íbúahreyfingin er að leggja til eru því verkefni næsta árs og jafnvel næstu ára.

Sjá tillögu 1 hér að neðan.

Fyrirhugaðar fjárfestingar

Samkvæmt fjárhagsáætlun ársins er Mosfellsbæ þröngur stakkur búinn. Rekstrarniðurstaða stefnir í að verða neikvæð, eins og raunin varð á þessu ári, þvert á áætlanir. Þegar kemur að liðnum fyrirhugaðar fjárfestingar er ekki mikið til skiptanna. Mestur hluti þess fjár fer í uppbyggingu skóla- og íþróttamannvirkja. Sá vandi er uppsafnaður og svigrúmið til fjárfestinga í öðru því næsta lítið. Þegar svo illa árar skiptir miklu hvernig forgangsröðun er háttað. Að mati Íbúahreyfingarinnar ættu verkefni sem styrkja grunnþjónustu við íbúa að vera fremst í röðinni þegar uppbyggingu skóla- og íþróttamannvirkja sleppir.

Við búum í sveitarfélagi sem kennir sig við heilsueflingu. Þegar fjárhagsáætlun er skoðuð fer lítið fyrir fjármunum í stígagerð. Fátt er þó meira heilsueflandi fyrir hinn almenna íbúa en hreyfing og því mikilvægt að þeir hafi gott aðgengi að stígum og að þeim sé vel við haldið.

Í Mosfellsbæ eru ýmis brýn verkefni sem lengi hafa setið á hakanum. Árum saman hefur göngustígurinn meðfram Varmánni verið í niðurníðslu. Stígurinn þarfnast varanlegra viðgerða og svo er um fleiri verkefni sem snerta almenna umhirðu opinna svæða í sveitarfélaginu s.s. að hefta útbreiðslu lúpínu og skógarkerfils sem er liður í sjálfbærri þróun vistkerfisins. Ég sé ekki að í þessari fjárhagsáætlun sé gert ráð fyrir neinum peningum í þessi verkefni sem þó þjóna miklum almannahagsmunum.

Það verður ekki betur séð en þeim litlu peningum sem til skiptanna eru (þegar skólum og íþróttamannvirkjum sleppir) sé ráðstafað í gæluverkefni og ber þar hæst golfið og ævintýragarður neðan Vesturlandsvegar.

Þessi verkefni eru tekin fram yfir gangfæra göngustíga og skátaheimili. Skátarnir eru gamalgróið félag hér í Mosfellsbæ sem rekið er á ársgrundvelli. Félagið vinnur ómetanlegt starf. Skátarnir hafa lengi verið á hrakhólum með húsnæði og því nær að taka byggingu skátaheimilis fram yfir golfhöll. Fá ungmenni stunda golf í Mosfellsbæ á ársgrundvelli. Stór hluti félaga í klúbbnum er utanbæjarfólk og fjárráða karlmenn. Skátaheimili ætti því að vera mun framar í goggunarröðinni.

Ég minntist á ævintýragarðurinn. Hann verður einn góðan veðurdag eflaust fallegur. Það er hins vegar ekki brýn þörf sem ræður þeim fjárútlátum og því telur Íbúahreyfingin að hér sé ekki um forgangsverkefni að ræða, heldur miklu frekar að verið sé að streða við að láta kosningaloforð VG ganga eftir, sama hvernig árar.

Gagnsætt fyrirkomulag styrkveitinga

Þegar farið er yfir fjárhagsáætlun sést að gert er ráð fyrir styrkveitingum hér og hvar í stjórnkerfinu. Þegar saman safnast geta þetta orðið álitlegar fjárhæðir. Það er skoðun Íbúahreyfingarinnar að setja þurfi styrkveitingar undir einn lið og búa þeim umgjörð sem tryggir öllum jafnan aðgang að styrktarfé. Algjört gagnsæi þarf að ríkja um hverja einustu styrkveitingu og ættu þær allar að fara í gegnum nefndirnar og upplýsingar um þær að birtast með skýrum hætti á vefsíðu bæjarins. Í sumum tilvikum er vísir að umgjörð en það er alls ekki alltaf. Eins og staðan er í dag er ekki nógu vel að þessu staðið og telur Íbúahreyfingin brýnt að bæta úr því.

Það hefur líka vakið athygli Íbúahreyfingarinnar að styrktarfé sviðanna er mismunandi eftir málaflokkum. Þess ber að geta að hér er ekki átt við þá lögbundnu þjónustu sem sveitarfélög veita, s.s. félagsþjónustu, heldur styrki sem veittir eru til samfélagsverkefna og koma sveitarfélaginu, samtökum í almannaþjónustu, íbúum og fyrirtækjum til góða.

Þegar fjárhagsáætlun er skoðuð fær fjölskyldusvið til dæmis einungis 300 þúsund kr. til ráðstöfunar, á meðan þróunar- og ferðamálanefnd og íþrótta- og tómstundanefnd hafa mun meira fé úr að spila. Til fjölskyldusviðs leita m.a. hjálparsamtök sem vinna í þágu almannaheilla og hlúa að fólki í neyð, s.s. samtök eins og Kvennaathvarfið sem þjónar konum og börnum sem þurfa að flýja heimili sín vegna ofbeldis.

Endurskoðun framlags til Kvennaathvarfs í tilefni samstarfs við lögreglustjóra

Til skamms tíma styrkti Mosfellsbær Kvennaathvarfið einungis um 50 þúsund kr. á ári. Sú upphæð var þó hækkuð upp í 100 þúsund kr. á þessu ári og hækkaði framlag Mosfellsbæjar til samtakanna því úr 5,5 kr.  í 11 kr. á íbúa. Á sama tíma greiðir Reykjavík 91 kr., Kópavogur 28 kr., Garðabær 26 kr. og Hafnarfjörður 26 kr. á íbúa. Eitt ríkasta sveitarfélag landsins, Seltjarnarnes er þó á svipuðu róli og Mosfellsbær nú.

Konur og börn úr Mosfellsbæ hafa dvalið langdvölum í Kvennaathvarfinu. Nú þegar Mosfellsbær hefur hafið samstarf við lögreglustjórann á höfuðborgarsvæðinu um aðgerðir gegn heimilisofbeldi gefst gott tilefni til að hækka styrkinn. Til að standa jafnfætis þeim sveitarfélögum sem hér hafa verið talin upp er hæfilegt að Mosfellsbær greiði kr. 243 þúsund árlega til athvarfsins og er það hér með lagt til.

Í það heila telur Íbúahreyfingin að auka þurfi upphæð styrktarfjár fjölskyldusviðs til muna, – eins og við lögðum til í fjölskyldunefnd fyrr á árinu og var vísað til fjárhagsáætlunar 2016.

Sjá tillögur 2 og 3 hér að neðan.

Styrkir til umhverfisverkefna útundan

Styrkjaumhverfi Mosfellsbæjar tekur ekki til umhverfisverndar og -fræðsluverkefna en þau þarf að skilgreina og leggur Íbúahreyfingin til að stofnaður verði sérstakur umhverfisverkefnasjóður á borð við listasjóð Mosfellsbæjar. Verkefni eins og skógrækt, uppgræðsla lands, hefting ágengra tegunda, endurheimt lífríkis og umhverfisfræðsla ættu skjól í þessum sjóði.

Sjá tillögu nr. 4.

Fyrirspurn um launakostnað á bæjarskrifstofu 

Eitt af því sem ég varð áskynja við skoðun fjárhagsáætlunar var hár launakostnaður á skrifstofum bæjarfélagsins og einstöku sviðum. Íbúahreyfingin hefur óskað eftir upplýsingum frá bæjarstjóra um fjölda stöðugilda og sundurliðun á launum eftir launabilum, s.s. laun undir 400 þúsund, laun á bilinu 400 og 600 þúsund og þar fram eftir götum. Það skal tekið fram að það er ekki verið að óska eftir persónugreinanlegum upplýsingum. Ég hef ekki enn fengið svar frá bæjarstjóra, Haraldi Sverrissyni, enda einungis 2 dagar síðan ég sendi fyrirspurnina. Ég hef því litlar forsendur til að tjá mig frekar um málið.

Skv. upplýsingum á vef Hagstofunnar eru yfirstjórnendur og starfsmenn sveitarfélaga á Íslandi lægst launaða starfsfólkið á atvinnumarkaði. (Innskot: Yfirstjórnendur þó ýfið hærri en aðrir starfsmenn). Það er hins vegar almenn sanngirniskrafa að jafnræðis sé gætt þeirra í milli og að laun æðstu stjórnenda séu í takt við laun annarra starfsmanna (Innskot: að teknu tilliti til menntunar og ábyrgðar). Verði sú niðurstaða að mikils ójafnræðis gæti í launakjörum þessara hópa hjá Mosfellsbæ telur Íbúahreyfingin brýnt að málið verði skoðað á milli 1. og 2. umræðu um fjárhagsáætlun Mosfellsbæjar 2016-2019.

Mosfellsbær er stór vinnustaður sem verður að sjá til þess að öllum starfsmönnum líði vel og þess sé gætt að enginn þurfi að búa við hungurmörk. Kjarasamningar eru framundan og vonast Íbúahreyfingin til að Mosfellsbær leggi sitt á vogarskálarnar í að leiðrétta þeirra kjör.

Ég vonast eftir efnislegri og góðri umræðu um tillögur Íbúahreyfingarinnar og læt þetta nægja í bili.  Ég hlakka til heimsóknanna framundan og vona að allir leggist á eitt við að gera fjárhagsáætlun 2016-2019 sem best úr garði.

Tillögur Íbúahreyfingarinnar við 1. umræðu fjárhagsáætlunar 2016-2019

1. Tillaga M-lista Íbúahreyfingarinnar um gagnaöflun í aðdraganda fyrri umræðu fjárhagsáætlunar

Bæjarfulltrúi Íbúahreyfingarinnar gerir að tillögu sinni að bæjarráð breyti vinnulagi við gerð fjárhagsáætlunar á þann veg að ráðið fundi með framkvæmdastjórum sviða og yfirmönnum stofnana áður en til fyrri umræða kemur í bæjarstjórn. Einnig óski bæjarráð eftir umsögnum frá fagnefndum og fundi með íbúum í aðdraganda fyrri umræðu.

Tilgangur tillögunnar er að gera umræðurnar markvissari og fjárhagsáætlunargerðina betri.

Sú hefð hefur ekki skapast hjá Mosfellsbæ að framkvæmdastjórar sviða skili bæjarráði starfsáætlunum í aðdraganda fjárhagsáætlunargerðar. Íbúahreyfingin telur það þó stuðla að innihaldsríkari umræðu og meira gagnsæi og leggur til að bæjarráð beiti sér fyrir því.

Vísað til fjárhagsáætlunar 2017

2. Tillaga M-lista Íbúahreyfingarinnar um hækkun framlags til Kvennaathvarfsins

Bæjarfulltrúi Íbúahreyfingarinnar leggur til að framlag Mosfellsbæjar til Kvennaathvarfsins verði kr. 243.000 á fjárhagsárinu 2016. Tilefnið er að efla aðgerðir gegn heimilisofbeldi sem jafnframt er liður í samstarfsverkefni sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu við lögreglustjóraembættið og hrundið var af stað í upphafi árs.

Vísað til síðari umræðu um fjárhagsáætlun 2016-2019

3. Tillaga M-lista Íbúahreyfingarinnar um að auka svigrúm fjölskyldusviðs og fjölskyldunefndar til styrkveitinga

Bæjarfulltrúi Íbúahreyfingarinnar leggur til að svigrúm fjölskyldusviðs og fjölskyldunefndar til styrkveitinga verði tvöfaldað á þessu ári og síðan stig af stigi næstu ár. Tilgangurinn er að styðja við bakið á hjálparsamtökum en sú staða er uppi í íslensku samfélagi að slík samtök sinna mikilvægri grunnþjónustu í þágu almannaheilla sem engin önnur stofnun hjá ríki og sveitarfélögum sér um.

Vísað til síðari umræðu um fjárhagsáætlun 2016-2019.

4. Tillaga M-lista Íbúahreyfingarinnar um stofnun umhverfisverkefnasjóðs

Bæjarfulltrúi Íbúahreyfingarinnar gerir að tillögu sinni að stofnaður verði umhverfisverkefnasjóður á borð við listasjóð Mosfellsbæjar. Verkefni eins og skógrækt, uppgræðsla lands, hefting ágengra tegunda, endurheimt lífríkis og umhverfisfræðsla ættu skjól í þessum sjóði.

Vísað til síðari umræðu um fjárhagsáætlun 2016-2019

Til upplýsingar

Á árunum 2013 og 2014 dvöldu samanlagt 11 konur úr Mosfellsbæ, ásamt 10 börnum sínum í Kvennaathvarfinu. Samanlagt dvöldu konur héðan í 310 daga á þessu tímabili (allt frá 4 dögum til 106 daga) og börnin í samanlagt 426 (líka frá fjórum dögum og upp í 106 daga).

Á þessum árum virðast 12 konur úr Mos hafa komið í viðtöl (auk þeirra sem dvöldu í athvarfinu). Samtals 55 viðtöl. Konurnar komu í allt frá 1 viðtali og upp í 22 á tímabilinu.

Yfirlýsing frá Íbúahreyfingunni

Yfirlýsing frá Íbúahreyfingunni

roundtable3 (2)Að gefnu tilefni vill Íbúahreyfingin koma því á framfæri að þann 13. maí 2014, þ.e. stuttu áður en kjósendur gengu að kjörborði í sveitarstjórnarkosningum,  sagði Jón Jósef Bjarnason, annar maður á lista framboðsins, sig frá öllu samstarfi við Íbúahreyfinguna í pósti sem hann sendi á stjórnarmennina Birtu Jóhannesdóttur og Þórð Björn Sigurðsson. Í póstinum segir: „samstarfi okkar er lokið […] næsti maður hlýtur að leysa mig af ef við náum 2 sætum“. Þessa ákvörðun ítrekaði Jón opinberlega í hádegisfréttum RÚV þann 20. maí. Í fréttinni kom fram að hann teldi sér „ekki sætt“ og ætlaði „ekki að taka þátt í starfinu á vettvangi bæjarstjórnar ef sú staða kæmi upp.“ Því miður var of seint að breyta framboðslista Íbúahreyfingarinnar þegar þessi staða varð ljós, en Íbúahreyfingin lét á það reyna með erindi til kjörstjórnar. (more…)

Ný stjórn Íbúahreyfingarinnar

Ný stjórn Íbúahreyfingarinnar

Á aðalfundi 26. maí kaus Íbúahreyfingin sér nýja stjórn og er hún skipuð eftirtöldum félögum:

Formaður: Birta Jóhannesdóttir
Gjaldkeri: Jón Sævar Jónsson
Meðstjórnandi: Hildur Margrétardóttir
Meðstjórnandi: Hjördís Bjartmars
Meðstjórnandi: Sigrún Guðmundsdóttir
Varamaður: Úrsúla Jünemann
Varamaður: Gunnlaugur Johnson

Stjórn mun skipta með sér verkum á fyrsta stjórnarfundi.

Aðalfundur Íbúahreyfingarinnar

Aðalfundur Íbúahreyfingarinnar

LýðræðiAðalfundur Íbúahreyfingarinnar verður haldinn í glerbúri Bókasafns Mosfellsbæjar í Kjarna þriðjudaginn 26. maí kl. 16.30 til 17.50.

Á dagskrá fundarins eru venjuleg aðalfundarstörf.

Pin It on Pinterest