by ibuahreyfingin | 24 Feb, 2011 | Greinar
Í tengslum við vinnu við fjárhagsáætlun 2011-2014 gerði Íbúahreyfingin athugasemd við að Mosfellsbær væri í sjálfskuldarábyrgð á láni til byggingafyrirtækis í einkaeigu upp á 246 milljónir kr. Tillaga Íbúahreyfingarinnar um að senda málið til Innanríkisráðuneytis var felld en samþykkt að leita álits lögmanns bæjarins og hefur það nú borist bæjaryfirvöldum. Niðurstaðan er einhlít, þ.e. það er að sjálfskuldarábyrgðin stangist á við sveitarstjórnarlög.
Þegar ráðist var í einkarekna samfélagsuppbyggingu í Mosfellsbæ var því heitið að enginn kostnaður félli á íbúa Mosfellsbæjar, eða eins og Haraldur Sverrisson orðaði það í greininni Ný hugmyndafræði um uppbyggingu íbúðahverfa haustið 2005: „Ljóst er að kostnaður við uppbyggingu leggst ekki á þá íbúa sem fyrir eru í bæjarfélaginu heldur stendur framkvæmdin sjálf undir þeim kostnaði. Þetta eru ánægjuleg tíðindi fyrir Mosfellinga.“
Þegar skrifað var upp á sjálfskuldarábyrgðina hinn 24. september 2009 var löngu ljóst að uppbyggingin í Helgafellslandinu hefði siglt í strand. Til marks um það er að í september 2008, fyrir Hrun, var farið að bjóða lóðirnar þar á á vaxtalausum lánum. Samkvæmt könnun Ara Skúlasonar hagfræðings á umfangi byggingarbólunnar var hlutfall byggingarmagns af fjölda íbúða í sveitarfélaginu 37,9% eða um 1000 lóðir og íbúðir á ýmsum stigum. Sama hlutfall var undir 20% í þeim sveitarfélögum sem komu næst á eftir. Samkvæmt upplýsingum í greinargerð með nýju aðalskipulagi er sveitarfélagið með lóðir og íbúðir sem uppfylla byggingarþörf næstu átta ára.
Í stað þess að viðurkenna skipbrotið sem einkavæðing skipulagsmála í sveitarfélaginu hafði í för með sér og láta einkafyrirtækið leysa sinn vanda, eins og einkafyrirtæki eiga að gera, var tekin sú ákvörðun, þvert á lög og pólitísk loforð, að ábyrgjast skuldir einkafyrirtækis. Það hefði væntanlega ekki verið þægilegt fyrir sitjandi meirihluta að fara inn í kosningar vorið 2010 ef bæjarbúar hefðu fengið réttar upplýsingar um afleiðingar hinnar „nýju hugmyndafræði“.
Í minnisblaði bæjarstjóra þar sem brugðist er við álitinu er því borið við að bæjaryfirvöld hafi talið að gerningar þeir sem til umfjöllunar eru í álitinu falli undir „daglegan rekstur“ bæjarfélagsins, en framkvæmdastjóri bæjarfélags má skv. sveitastjórnarlögum ábyrgjast fyrir hönd bæjarfélagsins slík minniháttar viðskipti. Íbúahreyfingin hefur vísað þeirri túlkun á bug enda um mjög háa fjárhæð að ræða og viðskipti sem tæpast eiga sér hliðstæðu í bókhaldi bæjarfélagsins. Þá ber meðferð málsins þess merki að ekki hafi verið litið á afgreiðslu þess sem daglegan rekstur. Málið var afgreitt í bæjarráði og bæjarstjórn, sem varla er venja með daglegan rekstur sveitarfélagsins. Þá skrifar prókúruhafi bæjarins undir ábyrgðina með vísun í afgreiðslu 950. fundar bæjarráðs.
Til að kóróna þann trúnaðarbrest sem málið er gagnvart íbúum Mosfellsbæjar var það meðhöndlað sem trúnaðarmál í stjórnkerfi Mosfellsbæjar þar til Íbúahreyfingin gekk í að afhjúpa það.
Undirritun sjálfskuldarábyrgðarinnar er hvoru tveggja pólitískt skipbrot einkavæðingarstefnunnar og væntanlega lögbrot. Það er ekki frambærilegt fyrir kjörna fulltrúa að segja: „Ég vissi ekki betur“ þar sem þeim ber skylda til samkvæmt sveitarstjórnarlögum að leita réttra upplýsinga.
Í ljósi þessa fór Íbúahreyfingin fram á afsögn þeirra kjörnu fulltrúa sem ábyrgð bera á sjálfskuldarábyrgðinni á síðasta fundi bæjarstjórnar. Tillagan var felld með 6 atkvæðum.
Kristín I. Pálsdóttir,
ritari Íbúahreyfingarinnar
Greinin birtist í Mosfellingi 24. febrúar 2011
by ibuahreyfingin | 28 Aug, 2010 | Greinar
Netið er öflugt tæki til að opna stjórnsýsluna og afnema þá leyndarhyggju sem hefur verið ríkjandi í íslenskum stjórnmálum. Netið opnar íbúum aðgang að stjórnsýslunni og ýmir hópar, t.d. fatlaðir, aldraðir og einstæðir foreldrar, sem áður áttu erfitt um vik að mæta á fundi og aðra viðburði geta nú mætt með því að sitja við tölvuna heima hjá sér. Það er ef ráðandi öflum sýnist svo.
Fyrir síðustu sveitarstjórnarkosningar lögðu öll framboð mikla áherslu á íbúalýðræði. Sjálfstæðismenn í Mosfellsbæ voru sjálfum sér samkvæmir og undir slagorðinu „Lýðræðisleg og styrk stjórn“ lögðu þeir áherslu á að stjórnsýsla bæjarins sé „skilvirk, gagnsæ og lýðræðisleg“. Þeir lofa einnig að þeir ætli „að móta lýðræðisstefnu og reglur um íbúakosningar“. Hér kemur fátt á óvart og augljóst á þessum áherslum að Sjálfstæðisflokkurinn hefur lítinn áhuga á að slaka á miðstýringunni sem ávallt hefur einkennt þennan foringjaholla stjórnmálaflokk. Sjálfstæðismenn ætla líka sjálfir að móta reglurnar, að því er virðist, án samráðs við íbúa.
Augljóst er að sínum augum lítur hver silfrið og í mínum huga gengur þessi hugmyndafræði mjög skammt í því að opna stjórnsýsluna og dreifa valdinu. En þær kröfur ganga nú ljósum logum um íslenskt samfélag.
Það kom því ekkert sérstaklega á óvart að Haraldur Sverrisson telji það „undantekningatilvik“ þegar Íbúahreyfingin fékk að hljóðrita fyrsta fund bæjarstjórnar þann 16.06.2010. Hljóðritunin er aðgengileg á www.ibuahreyfingin.is.
Það vakti hins vegar meiri undrun að forseti bæjarráðs hafnaði því á öðrum fundi bæjarstjórnar þann 30.06.2010 að fundurinn yrði hljóðritaður. Hann bætti svo um betur með því að lýsa því yfir að hann þyrfti ekki að rökstyðja ákvörðun sína. Það vill svo til að Forsetinn er fulltrúi Vinstri-Grænna í bæjarstjórn en í stefnuskrá þeirra stendur: „Við viljum koma í veg fyrir spillingu og hagsmunapólitík með opnum sveitarstjórnarfundum, öflugu samráði og aðgengi að öllum gögnum á netinu.“ (http://www.vg.is/stefna/malefni/)
Ég hef ekki heyrt nein rök fyrir þeirri ákvörðun að leyfa ekki hljóðupptökur á opnum fundum bæjarstjórnar, né detta mér nein haldbær rök í hug, svo ég spyr: Með hvaða rökum eru hljóðupptökurnar bannaðar?
Í öðru lagi sagði bæjarstjórinn í Fréttablaðinu 6. júlí síðastliðinn að til stæði að taka fundina upp og gera þá aðgengilega á netinu. Hvenær á að hrinda þessari einföldu og ódýru aðgerð í framkvæmd?
Kristín I. Pálsdóttir, íbúi í Mosfellsbæ
by ibuahreyfingin | 17 Jun, 2010 | Greinar
Við skoðun á ársreikningi Mosfellsbæjar 2009 kemur í ljós að sveitarfélagið hefur tekist á hendur sjálfskuldarábyrgð vegna 246 milljón króna láns sem Helgafellsbyggingar ehf. tóku á árinu 2009. Á móti sjálfskuldarábyrgðinni hefur sveitarfélagið tekið tryggingu í formi veða í tilteknum lóðum í Helgafellshverfi.
En hvernig gerðist það að Mosfellsbær varð ábyrgur fyrir skuldum einkafyrirtækis? Í svari bæjarstjóra við fyrirspurn undirritaðs kemur fram að í samræmi við samning milli Mosfellsbæjar og Helgafellsbygginga ehf. á félagið að greiða til Mosfellsbæjar fast gjald, 700 þúsund krónur, fyrir hverja skipulagða íbúðarlóð eða íbúð í fjölbýlishúsi. Þó varð að samkomulagi við fyrsta uppgjör félagsins til Mosfellsbæjar vegna seldra íbúða 2007 í Helgafellslandi sem fram fór sumarið 2008, að félagið greiddi upphæðina 240 milljónir króna með þremur víxlum. Sem baktryggingu fyrir greiðslu víxlanna var Mosfellsbæ sett að veði lóðir og fasteign Helgafellsbygginga ehf. Að mati Helgafellsbygginga ehf. var verðmæti veðanna á þessum tíma áætlað um 388 milljónir króna.
Til einföldunar mætti segja að til að geta staðið við umsamdar greiðslur til bæjarins hafi Helgafellsbygginar ehf. tekið lán sem bærinn gekkst í ábyrgð fyrir. Í staðinn tók bærinn veð í lóðum og fasteign Helgafellsbygginga.
Í ljósi þess hversu mikið verðfall hefur átt sér stað á fasteignamarkaði má velta fyrir sér hvort veðin standi undir umræddum lánum. Ekkert mat hefur farið fram á verðmæti veðanna frá því samningurinn var gerður á sínum tíma og mat á veðunum hefur aldrei verið unnið af óháðum aðila.
Að sama skapi verður vart hjá því komist að leiða hugann að því hvort sú nýja hugmyndafræði sem þáverandi formaður bæjarráðs og skipulags- og byggingarnefndar, Haraldur Sverrisson, kynnti til sögunnar í greininni „Uppbygging íbúðarhverfa ný hugmyndafræði í Mosfellsbæ“ sem birtist í Morgunblaðinu þann 7. maí 2006, hafi reynst jafn áhættulaus og fullyrt var:
„Með þessu móti er tryggt að fjármagn fylgir frá landeigendum til að standa undir uppbyggingu á nauðsynlegri þjónustu í hverfunum og sá kostnaður lendir ekki á íbúum sveitarfélagsins. Auk þess fríar bæjarfélagið sig þeirri miklu áhættu sem fylgir uppkaupum. […] Sú leið sem hér hefur verið kynnt um uppbyggingu íbúðahverfa í Mosfellsbæ hefur vakið mikla athygli. Ljóst er að hér er um nýja hugmyndafræði að ræða sem önnur sveitarfélög munu vafalaust nýta sér.“
Getur verið að fjárhagurinn sé ekki jafn traustur í Mosfellsbæ og sumir vilja meina?
Þórður Björn Sigurðsson
varabæjarfulltrúi Íbúahreyfingarinnar í Mosfellsbæ
by ibuahreyfingin | 28 May, 2010 | Greinar

Kæri íbúi, á laugardaginn hefur þú val, þú getur kosið Íbúahreyfinguna í Mosfellsbæ og tekið í taumana á alræði fjórflokksins sem á ekki erindi í bæjarmálin.
Styrmir Gunnarsson fyrrverandi ritsjóri Morgunblaðsins er í uppgjöri við fortíðina og byrjar bók sína svo: „Ég er búinn að fylgjast með þessu í 50 ár. Þetta er ógeðslegt þjóðfélag, þetta er allt ógeðslegt. Það eru engin prinsipp, það eru engar hugsjónir, það er ekki neitt. Það er bara tækifærismennska, valdabarátta.“
Það er okkar, íbúanna í Mosfellsbæ að koma í veg fyrir að sérhagsmunagæsla fái þrifist í bænum okkar. Íbúahreyfingin mun berjast fyrir gegnsæi og að vald bæjarbúa komi fram í beinu íbúalýðræði.
Íbúahreyfingin vill slíta pólitísk tengsl bæjarstjóra og bæjarstjórnarfulltrúa með ráðningu bæjarstjóra og skipa í nefndir á faglegum forsendum.
Tími aðhalds er framundan, tryggjum að sérhagsmunir hafi ekki áhrif á forgangsröðunina.
Nýtt Ísland hefst í heimabyggð, xM
Jón Jósef Bjarnason
by ibuahreyfingin | 21 May, 2010 | Fréttir, Greinar
Íbúahreyfingin í Mosfellsbæ er ákjósanlegur valkostur fyrir Mosfellinga í komandi kosningum. Íbúahreyfingin mun beita sér fyrir auknu íbúalýðræði og umræðu um málefni bæjarins. Til að mynda viljum við að tiltekinn hluti íbúa geti kallað fram íbúakosningu um einstök mál að undangenginni hlutlausri og faglegri kynningu. Ákvörðun um byggingu menningarhúss er gott dæmi um mál sem íbúar ættu að fá að kjósa um.
Íbúahreyfingin hyggst beita sér fyrir faglegri og gegnsærri stjórnsýslu. Við viljum að skipað verði í nefndir á faglegum forsendum og að virkar siðareglur fyrir kjörna fulltrúa verði viðhafnar.
Íbúahreyfingin í Mosfellsbæ boðar valddreifingu. Við viljum skilja á milli framkvæmdavalds (bæjarstjóra) og löggjafarvalds (kjörinna fulltrúa). Á þeim forsendum hugnast okkur að bæjarstjóri verði ráðinn á faglegum forsendum og á hóflegum kjörum fremur en að oddvitar lista séu bæjarstjóraefni. Að sama skapi þurfa skýrar reglur um verkaskiptingu milli kjörinna fulltrúa og embættismanna að vera til staðar. Íbúahreyfingin vill ekki að fulltrúar í bæjarstjórn sitji lengur en tvö kjörtímabil.
Íbúahreyfingin boðar ábyrga fjármálastefnu á erfiðum tímum þar sem áhersla á velferð allra íbúa og almannahag verði ávallt í forgangi.
Íbúahreyfingin leggur áherslu á lýðræðislegri Mosfellsbæ og skorar á bæjarbúa að gera slíkt hið sama í sveitarstjórnarkosningunum þann 29. maí næstkomandi.
Þórður Björn Sigurðsson,
íbúi í Mosfellsbæ,
skipar 2. sæti á lista Íbúahreyfingarinnar