(Ó)gagnsæi í Mosfellsbæ

Það er áberandi nú fyrir kosningar í Mosfellsbæ að mikill áhugi hefur gripið um sig hjá öllum stjórnmálaflokkunum um að auka íbúalýðræðivog gagnsæi. En hvað er átt við með gagnsæi?

Samkvæmt skilningi okkar fellst gagnsæi í því að gögn sem liggja á bak við ákvarðanir í stjórnsýslunni séu opinber. Hjálmar Gíslason hjá DataMarket orðar þetta svona: „Gögn í eigu opinberra aðila eiga að vera opin nema ríkari hagsmunir leiði til annars“.

Gagnsæi er mjög mikilvægt til að borgararnir átti sig á því hvernig ákvarðanir eru teknar og einnig er það nauðsynlegt sem aðhald gagnvart stjórnvöldum.

Sem frambjóðendur í nýju framboði töldum við okkur þurfa að kynna okkur ýmis mál til þess að geta fjallað um þau á opinberum vettavangi. Í sveitarfélagi eins og Mosfellsbæ liggur beint við að fara á heimasíðu bæjarins, www.mos.is, til að skoða hvaða gögn eru þar aðgengileg. Við höfðum hugsað okkur að kynna okkur fjölda mála með því að lesa fundargerðir nefnda og sviða. Það reyndist ekki auðvelt.

Í fundargerðum kemur oft fyrir að aðeins dagskrá fundarins er skráð en ekki um hvað var rætt og engin tilvísun í gögn tengd efninu. Ef svo heppilega vill til að eitthvað er skráð þá er það oft illskiljanlegt sbr:

„Skipulags og byggingarnefnd Mosfellsbæjar – 227

Haldinn í Þverholti fundarherbergi bæjarráðs, 15.04.2008 og hófst hann kl. 07:00.
200804058 Mosfelldalur, staða í aðalskipulagi

Lögð fram minnisblöð bæjarritara og skipulagsfulltrúa varðandi skilgreiningu byggðar í Mosfellsdal. Starfsmönnum falið að vinna frekar að málinu í samræmi við umræður á fundinum.“

Hér vakna upp margar spurningar eins og: Hvaða „staða í aðalskipulagi“? Hvað stóð á minnisblöðum bæjarritara og skipulagsfulltrúa? Hvaða starfsmönnum var falið hvað? Um hvað s­nerus­t umræðurnar?

Fundargerðir ættu að vera lýsandi um málefnin og ákvarðanir sem teknar eru nema í þeim tilfellum þar sem fjallað er um persónuleg mál. Í opinni stjórnsýslu bæjarins ættu allar niðurstöður og gögn sem fylgja umræðum að liggja fyrir á sömu síðu.

Annað sem okkur langaði að kynna okkur voru launagreiðslur til bæjarfulltrúa og þeirra sem starfa í nefndum og ráðum. Á heimasíðunni er ekki að finna neinar upplýsingar um þau mál. Eins er með styrki og aðrar fjárveitingar til félagasamtaka. Þær ættu að vera öllum, sem vilja kynna sér, aðgengilegar.

Í stuttu máli má segja að við komumst fljótt að því að lítið var upp úr krafsinu að hafa á heimasíðu bæjarins sem þó er nýlega tekin í notkun. Bæði er erfitt að rata um síðuna og þegar maður finnur það sem leitað er að eru upplýsingarnar mjög ófullnægjandi.

Annað mikilvægt atriði varðandi gagnsæi er að þau gögn sem gerð eru aðgengileg séu sett fram á skýran og greinargóðan hátt. Það er augljóst, eftir okkar tilraunir til að nýta okkur gagnsæi í stjórnsýslu Mosfellsbæjar, að bærinn fær ekki háa einkunn. Feluleikur virðist vera meira lýsandi fyrir það sem í boði er en gagnsæi. Af hverju stafar það? Hafa kjörnir fulltrúar meirihlutans eitthvað að fela?

Til að lýðræðisleg og opin umræða geti átt sér stað þarf almenningur að hafa aðgang að réttum og læsilegum gögnum. Við viljum tryggja að gegnsæi og rekjanleiki mála verði tryggður. Við viljum taka upp raunverulega opna stjórnsýslu því það er almannahagur. Við viljum líka stuðla að opinniv umræðu því stjórnsýslan og stjórnmálamennirnirv eiga ekki að hafa neitt að fela fyrir fólkinu sem kaus það til þjónustu.

Birta Jóhannesdóttir & Soffía Alice Sigurðardóttir

Tími aðhalds er framundan

Kæri íbúi, á laugardaginn hefur þú val, þú getur kosið Íbúahreyfinguna í Mosfellsbæ og tekið í taumana á alræði fjórflokksins sem á ekki erindi í bæjarmálin.

Styrmir Gunnarsson fyrrverandi ritsjóri Morgunblaðsins er í uppgjöri við fortíðina og byrjar bók sína svo: „Ég er búinn að fylgjast með þessu í 50 ár. Þetta er ógeðslegt þjóðfélag, þetta er allt ógeðslegt. Það eru engin prinsipp, það eru engar hugsjónir, það er ekki neitt. Það er bara tækifærismennska, valdabarátta.“

Það er okkar, íbúanna í Mosfellsbæ að koma í veg fyrir að sérhagsmunagæsla fái þrifist í bænum okkar. Íbúahreyfingin mun berjast fyrir gegnsæi og að vald bæjarbúa komi fram í beinu íbúalýðræði.

Íbúahreyfingin vill slíta pólitísk tengsl bæjarstjóra og bæjarstjórnarfulltrúa með ráðningu bæjarstjóra og skipa í nefndir á faglegum forsendum.

Tími aðhalds er framundan, tryggjum að sérhagsmunir hafi ekki áhrif á forgangsröðunina.

Nýtt Ísland hefst í heimabyggð, xM

Jón Jósef Bjarnason

Ræða Þórðar Björns Sigurðssonar í Hlégarði í kvöld

Fundarstjóri, ágætir íbúar.

Íbúahreyfingin í Mosfellsbæ býður nú fram í fyrsta sinn.  Þó að saga Íbúahreyfingarinnar sé ekki löng má segja að aðdragandinn að stofnun hennar eigi sér djúpar rætur.

Þær aðstæður sem nú ríkja í samfélaginu mynduðust ekki á einni nóttu.  Mosfellingar, líkt og þjóðin öll, þurfa nú að takasta á við afleiðingar hrunsins og tilvistarkreppu þeirra afla sem ábyrgð á því bera.  Kosningarnar á laugardaginn eru liður í því uppgjöri.

Rætur Íbúahreyfingarinnar liggja í þeirri sannfæringu að meira af því sama sé íbúum óboðlegt.  Að breytinga á kerfinu sem nú er fallið um sjálft sig sé þörf.  Ekki dugar að endurreisa það gamla með fúnum spýtum.

Á fjögurra ára fresti er lýðræðið virkt.  Þá fáum við íbúarnir náðasamlegast að kjósa um hverjum við felum umboð okkar til að sýsla með sameiginlega sjóði og ýmis völd því samfara.  Málið er brýnt og það er eftir þó nokkru er að slægjast, líkt og dæmin hafa sannað.

Þess vegna fara gömlu góðu flokkarnir í sparifötin fyrir kosningar, dikta upp slagorð, grilla pylsur og bjóða börnunum okkar í hoppikastala.  Síðan hrósa þeir sér af því sem þeir hafa gert vel eða gagnrýna það sem hinir hafa ekki gert nógu vel.

Um eigin mistök tala flokkarnir helst ekki.  Allavega ef þeir komast hjá því og það þykir heldur ekki snjallt að hrósa öðrum flokkum, nema menn séu að stíga í vænginn við þá til að kaupa sér aðgang að völdum í framtíðinni.

Verst af öllu þykir flokkunum að þurfa að svara opinberlega erfiðum spurningum frá íbúum og fjölmiðlum.

Svo er kosið.  Stjórnmálamennirnir skipta kannski um hlutverk, kannski ekki – en leikritið heldur áfram.

Ég hef stundum líkt þessu við lestarferð þar sem atkvæðaseðillinn er miði.  Því miður stoppar lestin ekki fyrr en eftir fjögur ár og þá er hún kannski komin eitthvað allt annað en þú ætlaðir að fara.

Langar okkur að hafa þetta svona áfram eða ætlum við að breyta þessu?

Inntakið í áherslum Íbúahreyfingarinnar felst í lýðræðisumbótum, fagmennsku og réttlæti.

Við viljum að kosningar fari fram um einstök mál óski 10% kosningabærra íbúa eftir því, eða tveir fulltrúar í bæjarstjórn.  Það þarf ekki að fjölyrða um hversu gríðarlega mikið aðhald umrætt fyrirkomulag myndi veita kjörnum fulltrúum.  Þá gætu íbúar tekið málin í sínar hendur þegar íbúar telja ástæðu til.  Stoppað lestina á miðri leið og breytt um stefnu.

Við gætum til að mynda kosið um skipulagsmál, stærri fjárveitingar og fleira.

Viljum við sameiginlegt menningarhús og kirkju?  Og ef svo er, hvar viljum við staðsetja mannvirkið?

Viljum við setja 132 milljónir í byggingu í golfskála á næstu þrem árum á sama tíma og verið er að skera niður grunnþjónustu eða viljum við breytta forgansröðun?

Viljum við að sveitarfélagið beiti sér fyrir því að auðlindir innan bæjarmarka verði aftur á sameiginlegu forræði Mosfellinga áður en aðilar á borð við Magma Energy banka upp á?

Íbúahreyfingin í Mosfellsbæ hefur ekki svör á reiðum höndum við þessum spurningum.  Hún er hinsvegar farvegur til breytinga á forsendum íbúanna sjálfra.  Því þegar stórt er spurt er lýðræði svarið.

Íbúahreyfingin boðar aukna valddreifingu.  Við viljum skilja á milli bæjarstjóra og kjörinna fulltrúa með faglegri ráðningu bæjarstjóra á hóflegum kjörum.

Nefndir á vegum bæjarins ættu að vera faglega skipaðar.  Þannig verði best stuðlað að viðunandi afgreiðslu mála í stað þess að flokkspólitískt þras taki völdin, eins og stundum vill gerast.

Við teljum að kjörnir fulltrúar eigi ekki að sitja lengur en tvö kjörtímabil.  Þannig verði eðlileg endurnýjun tryggð og stuðlað gegn því að vald safnist fyrir á fáar hendur til lengri tíma.

Fjölmargir horfa fram á mjög erfiða tíma næstu misserin.  Samkvæmt nýlegri skýrslu Seðlabankans eru tæplega 40% heimila landsins tæknilega gjaldþrota.  Afleiðingar þessa eru að fólk getur ekki selt eignir sínar og er bundið átthagafjötrum.  Um 65% ungra heimila eru í þessari stöðu.

Ennfremur kemur fram í skýrslunni að eitt af hverjum fjórum heimilum í landinu þarf á frekari aðstoð að halda en nú þegar hefur verið veitt.  Gróflega áætlað gerir það um 500 fjölskyldur í Mosfellsbæ en tæplega 400 Mosfellingar eru á atvinnuleysiskrá.

Framhjá þessari staðreynd getum við ekki litið.  Íbúahreyfingin vill huga sérstaklega að stöðu atvinnuleitenda og tekjulægri hópa með áherslu á menntun og velferð barna.  Við megum aldrei sætta okkur við að börn líði skort eða upplifi mismunun vegna fátæktar.

Mosfellsbær ætti að beita sér formlega í baráttunni við skuldavanda heimila og fyrirtækja.  Þar er um risavaxið hagsmunamál að ræða fyrir sveitarfélagið í heild sinni.

Góðir fundarmenn.

Það er mikilvægt að við tökum ábyrgð á lýðræðislegri framtíð Mosfellsbæjar.

Fyrir 2500 árum varaði heimspekingurinn Plató við því að refsingin við því að taka ekki þátt í stjórnmálum væri að vera stjórnað af verra fólki en manni sjálfum.

Höfum það í huga á laugardaginn. Því þegar við kjósum Íbúahreyfinguna erum við að kjósa með okkur sjálfum.  X-M.

Íbúalýðræði hafnað í Mosfellsbæ

Í kvöld var haldinn framboðsfundur í Hlégarði í Mosfellsbæ.  Til stóð að halda fundinn með nokkuð nýstárlegu fundarfyrikomulagi, það er að loknum framsöguræðum gæfist bæjarbúum tækifæri til spurninga og viðræðna við frambjóðendur við borð framboðanna í sölum Hlégarðs.

Vegna nokkurrar óánægju meðal íbúa með boðað fundarfyrirkomulag ákvað Birta Jóhannesdóttir, frambjóðandi Íbúahreyfingarinnar, að bera upp svo hljóðandi tillögu:

„Dagskrártillaga á framboðsfundi í Hlégarði 27. maí 2009.

Tillagan hljóðar svo:  Að lokinni seinni umferð framsöguerinda fulltrúa framboðanna verði opnað fyrir spurningar til framsögumanna úr sal undir stjórn fundarstjóra.  Öllum framboðum verði gefið færi á að bregðast við hverri spurningu.  Fyrirhugaður dagskrárliður um spurningar og svör á framboðabásum falli niður.

Flutningsmaður óskar eftir því að fundarstjóri beri tillöguna upp nú þegar og einfaldur meirihluti viðstaddra ráði.

Rökstuðningur:  Í aðdraganda sveitarstjórnarkosninganna 2010 er öllum framboðum tíðrætt um íbúalýðræði.  Nú eru íbúar saman komnir til að ræða málin og standi vilji meirihluta viðstaddra íbúa til breytts fundarfyrirkomulags ber að verða við því.“

Því miður fór svo fyrir tillögunni að fundarstjóri neitaði að bera hana undir fundinn vegna andmæla fulltrúa annara framboða.  Af þessu fæst ekki annað ráðið en að lýðræðisást þeirra sé fyrst og fremst í orði en ekki á borði.

Framboðsfundur í Mosfellsbæ

Framboðin til bæjarstjórnarkosninganna í Mosfellsbæ boða til sameiginlegs framboðsfundar með íbúum bæjarins.

Fundurinn verður haldinn í Hlégarði fimmtudaginn 27. maí og hefst kl. 20:00.

Að loknum framsöguræðum gefst bæjarbúum tækifæri til spurninga og viðræðna við frambjóðendur við borð framboðanna í sölum Hlégarðs.

Fundinum lýkur kl. 22:00

Íbúahreyfingin í Mosfellsbæ hvetur íbúa til að fjölmenna.

Pin It on Pinterest