Mosfellsbær rekinn með tapi þrjú ár í röð og safnar skuldum – tillaga að mótvægisaðgerð

Eftirfarandi grein birtist á bloggi Þórðar Bjarnar Sigurðssonar. Hér er birtur fyrri hluti greinarinnar en greinina má lesa í heild á bloggi Þórðar:

Sjálfstæðisflokkurinn hefur verið við völd í Mosfellsbæ frá árinu 2002. Á kjörtímabilinu 2002 – 2006 var flokkurinn með fjóra menn af sjö í bæjarstjórn. Á kjörtímabilinu 2006 – 2010 voru sjálfstæðismenn þrír í bæjarstjórn og mynduðu meirihluta með fulltrúa VG. Í síðustu kosningum fékk flokkurinn aftur hreinan meirihluta, fjóra fulltrúa kjörna sem mynda nú aukinn meirihluta með fullrúa VG. Flokkurinn hefur því ráðið lögum og lofum í bænum hart nær áratug.

Þegar upplýsingar um fjármál bæjarins eru teknar til skoðunar á þessu tímabili birtist okkur saga af sveitarfélagi sem reisti sér hurðarás um öxl í hinu svokallaða góðæri. Tíðaranda þar sem nýfrjáls hugmyndafræði Sjálfstæðisflokksins náði flugi samkvæmt reikningum sveitarfélagins fyrir árin 2004 – 2007. Þá var mikill hagnaður af rekstinum og viðsnúningur frá taprekstri áranna 2002 og 2003. Hins vegar kom á daginn haustið 2008 að flugferðin sem flokkurinn og hugmyndafræðilegir meðreiðarsveinar hans stýrðu var feigðarflan að hætti Íkarusar. Brotlendingin eftir því. Harkaleg og efnahagskerfi heillar þjóðar rústir einar.

Sjá greinina í heild sinn hér: http://tbs.blog.is/blog/tbs/entry/1174114/

Opinn fundur um lýðræði og gagnsæi

Lýðræði - GagnsæiÍbúahreyfingin í Mosfellsbæ boðar til opins fundar um gagnsæi og lýðræði í Listasalnum, Kjarna, Þverholti 2, miðvikudaginn 25. maí kl. 20.00 – 22.00

Dagskrá fundarins er eftirfarandi:

1. Leiðir til að styrkja og auka lýðræði í sveitarfélögum
Kristinn Már Ársælsson, heimspekingur, félagsfræðingur og stjórnarmaður í Lýðræðisfélaginu Öldu kynnir raunhæfar leiðir sem hafa reynst vel erlendis, t.d. við fjárhagsáætlunargerð sveitarfélaga, rekstur og stefnumótun skóla, löggæslu og annarra þátta.

2. Stefna og aðgerðir Íbúahreyfingarinnar í Mosfellsbæ í gagnsæis- og lýðræðismálum
Jón Jósef Bjarnason, bæjarfulltrúi Íbúahreyfingarinnar.

3. Kynning á Rel8 venslagrunni viðskiptalífsins
Kerfið sýnir m.a. hagsmunatengsl á myndrænan hátt og stuðlar að auknu gagnsæi í viðskiptalífinu
Jón Jósef Bjarnason, hönnuður Rel8 kerfisins

Eftir erindin gefst tími til umræðna.

Fundarstjóri: Kristín I. Pálsdóttir

Allir velkomnir!

Viðburðurinn á Facebook.com

ATH. Gengið er inn í Listasalinn á suð-vesturhorni Kjarna, hægra megin við snúningsdyrnar þar sem gengið er inn í bankann og upp á bæjarskrifstofurnar.

Hagsmunagæsla meirihlutans. Fyrir hverja?

Grein eftir Kristínu I. PálsdótturÍ síðasta Mosfellingi birtist grein eftir undirritaða um meinta ólöglega sjálfskuldarábyrgð Mosfellsbæjar á láni til Helgafellsbygginga og á sömu síðu var grein frá meirihluta í bæjarstjórn um sama mál þar sem ákveðins misskilnings virðist gæta.
Íbúahreyfingin, sem dró umrædd viðskipti fram í dagsljósið, er ekki að gagnrýna meðhöndlun á viðskiptapappírum heldur þá staðreynd að Mosfellsbær er í sjálfskuldarábyrgð á 246 milljón króna láni einkafyrirtækis, Helgafellsbygginga. Í grein sinni nefna bæjarfulltrúarnir aldrei orðið sem skiptir hér öllu máli: SJÁLFSKULDARÁBYRGÐ. Sjálfskuldarábyrgð er samkvæmt skilgreiningu skuld sem ábyrgðaraðili ábyrgist sem væri hún hans eigin eða svokölluð óskipt ábyrgð, in solidum.
Samkvæmt sveitarstjórnarlögum er sjálfskuldarábyrgð sveitarfélaga á skuldum einkaaðila bönnuð með öllu. Um þetta ákvæði segir í áliti lögmannstofunnar Lex, á umræddri sjálfskuldarábyrgð, að ákvæði laganna sé „talið fortakslaust og ófrávíkjanlegt“. Það eru sem sagt engar undantekningar eða svigrúm til túlkunar varðandi ákvæðið. Sú túlkun meirihluta bæjarstjórnar að starfsemi verktakafyrirtækis falli undir „daglegan rekstur“ bæjarfélags er því frekar langsótt.
Þegar skrifað var undir sjálfskuldarábyrgðina var framlengt samkomulag bæjarins við Helgafellsbyggingar en í því er fjallað um hin „tryggu veð“ sem bærinn segist hafa fyrir skuldinni sem „jafngilda skuld landeigenda við bæjarfélagið“, eins og segir í greininni. Þegar samkomulagið er skoðað er ljóst að Helgafellsbyggingar hafa lagt fram einhliða verðmat á veðunum; húseignin að Brekkulandi 1 er metin á 50 milljónir og tvær fjölbýlishúsalóðir metnar á 169 milljónir hvor. Alls 388 milljónir.
Samkvæmt fasteignamati er Brekkuland 1 metið á 33,5 milljónir. Málið vandast heldur þegar mat á umræddum lóðum að Gerplustræti 1-5 og 2-4 er skoðað. Til að fá samanburð skoðaði ég sambærilega eign í hverfinu, Gerplustræti 25-27. Þar eru 24 íbúðir á lóð sem er jafn stór hinum veðsettu lóðum, um 4000m2, fasteignamat þeirrar lóðar er rúmar 53 milljónir. Heildarverðmæti veðanna er því ekki meira en 140 milljónir ef miðað er við fasteignamat. Mesta offramboð lóða sem um getur á landinu er í Mosfellsbæ svo að markaðsvirðið er væntanlegra lægra.
Til að flækja málið enn frekar hafa lóðirnar í Gerplustræti verið skráð eign Mosfellsbæjar síðan árið 2007 og þar sem byggingarréttur er ekki veðhæfur er þar varla um hæft veð að ræða.
Varðandi þátt endurskoðenda Mosfellsbæjar hefur Íbúahreyfingin lagt til „að tekið verði til sérstakrar skoðunar hvers vegna endurskoðendur gerðu engar athugasemdir á ársreikningum varðandi þessi meintu lögbrot fyrrverandi bæjarstjórnar. Draga verður faglega tortryggni endurskoðendanna í efa í ljósi þess að þeir telja sig ekki geta greint hvað teljist til daglegs reksturs, skv. umbeðnu áliti þeirra, en hér er um að ræða viðskipti sem eiga sér enga hliðstæðu í bókhaldi sveitarfélagsins.“
Miðað við hversu leynilega hefur verið farið með málið innan stjórnsýslunnar og þá staðreynd að meirihlutinn hefur tvisvar fellt tillögu Íbúahreyfingarinnar um að fá mat þar til bærra yfirvalda, þ.e. Innanríkisráðuneytisins, á lögmæti téðra gerninga er erfitt að taka undir þá útskýringu að hagsmunir almennings hafi stjórnað för. Líklegra er að hagsmunir meirihlutans í aðdraganda kosninga hafi verið teknir fram yfir.
Íbúahreyfingin lítur svo á að lögbrot geti aldrei flokkast sem hagsmunagæsla fyrir almenning.

Kristín I. Pálsdóttir,
ritari Íbúahreyfingarinnar

Greinin birtist í Mosfellingi 17. mars 2011

Tengdar greinar og annað efni:
Dýrkeypt hugmyndafræði
Birtist í Mosfellingi í febrúar 2011
Frétt á Smugan.is í febrúar 2011
Mosfellsbær í ábyrgð fyrir skuldum einkafyrirtækis Birtist í Mosfellingi í júní 2010
Saga viðskipta Mosfellsbæjar við Helgafellsbyggingar

Gagnsæi launa og samningsumboð.

Íbúahreyfingin hefur reynt að vekja athygli á ógagnsæi gagnvart launafólki, en upplýsingar um afdrif töluverðs hluta launa þess er vísvitandi haldið frá því beinlínis til þess að blekkja og koma í veg fyrir aðhald og gagnrýni.

Af þessum gjöldum má nefna greiðslur í atvinnutryggingasjóð, mótframlag í lífeyrissjóð og greiðslur í fjöldann allan af sjóðum stéttarfélaga. Í flestum nágrannalöndum okkar er þjónusta þessara sjóða á hendi ríkisins, einstaklingar greiða fyrir þjónustuna með tekjuskatti sínum. Stéttarfélög þar taka þá gjarnan þátt í að fara fram á betri samfélagsþjónustu og veita ríkisvaldinu eðlilegt aðhald ólíkt því að keppa við ríkið um samfélagsþjónustu og umsýslu sjóða.

Óhagræði þess að reka tugi sjóða með sama hlutverk hlýtur að vera öllum augljóst, en það er e.t.v. ekki öllum ljóst að launafólk hefur ekkert tækifæri til þess að fylgjast með greiðslum og veita nauðsynlegt aðhald því þessi gjöld eru þeim hulin. Svo vel tekst til í þessum feluleik að launafólk heldur jafnvel að það sé að fá “styrk” frá stéttarfélagi sínu þegar það fær úthlutað úr þessum sjóðum.

Mótframlag í lífeyrissjóð og greiðslur í tryggingasjóð veita launafólki réttindi sem það getur ekki haft eftirlit með vegna þess að það fær engar upplýsingar um þau, aðilar vinnumarkaðar og ríkið vilja kalla þessar greiðslur launatengd gjöld, jú, vissulega eru þetta launatengd gjöld en með sama hætti og önnur lífeyrissjóðsgjöld og annar tekjuskattur. Þau veita engin réttindi til launagreiðenda eða stéttarfélaga sem standast eignarréttarákvæði stjórnarskrár.

Þessi meðhöndlun gerir samanburð á beinum sköttum við önnur lönd þýðingarlausa og í því er blekkingin m.a. fólgin, að blekkja launafólk til þess að halda að skattheimta hér sé minni en hún í rauninni er.

Íbúahreyfingin hefur lagt fram tillögur bæði í bæjarstjórn og á vettvangi Sambands Íslenskra Sveitarfélaga til þess að laga þetta ástand en þær tillögur hafa verið felldar, það er enn stór hópur sem vill halda í ógagnsæi og blekkingar. Í bæjarstjórn hafa þessum tillögum verið hafnað af fulltrúum fjórflokksins gegn atkvæði Íbúahreyfingarinnar.

Íbúahreyfingin hefur ekki viljað veita Sambandi Íslenskra Sveitarfélaga samningsumboð án fyrirvara á grundvelli laga sem brjóta ákvæði stjórnarskrárinnar (t.d. Lög nr. 94/1986).

Þau skilyrði sem Íbúahreyfingin vill setja fyrir samningsumboð eru:

a. Að ekki verði samið við stéttarfélög um áframhaldandi beinar greiðslur til þeirra sem ekki komi fram á launaseðli launafólks. Hér er átt við allar greiðslur hverju nafni sem þær nefnast.

b. Að mótframlag í lífeyrissjóði verði eftirleiðis tilgreint á launaseðlum launafólks.

c. Að Samband íslenskra sveitarfélaga virði 74. grein stjórnarskrár og semji við þau félög sem óska eftir samningum en þröngvi launafólki ekki til þess að tilheyra ákveðnu félagi.

d.. Að ekki sé samið við stéttarfélög þar sem lýðræði og gagnsæi gagnvart launafólki er ekki virt, enda geta stjórnir slíkra félaga vart talist fulltrúar umbjóðenda sinna.

e.. Auk þess leggur bæjarstjórn Mosfellsbæjar til að samninganefnd komi því inn í samninga að greiðslur í atvinnutryggingasjóð verði meðhöndlaðar á sama hátt og annar tekjuskattur á launþega á launaseðli launafólks í stað þess að fela skattheimtuna og gera launafólki ókleift að fylgjast með sköttum sínum, réttindum og öðrum greiðslum.

Tillögu þessa efnis felldu allir bæjarfulltrúar fjórflokksins gegn atkvæði Íbúahreyfingarinnar.

Íbúahreyfingin stendur öllum íbúum Mosfellsbæjar opin, við hvetjum fólk til þess að taka þátt í starfinu.

Jón Jósef Bjarnason,
bæjarfulltrúi Íbúahreyfingarinnar, jonb@ibuahreyfingin.is,

Greinin birtist í Mosfellingi 17. mars 2011Grein eftir Jón Jósep Bjarnason

Gagnsæi sveitarfélaga

Íbúahreyfinginn hefur verið mjög virk í bæjarmálum frá því hún hlaut kosningu fyrir rúmu ári síðan. Þó hún láti sér öll mál varða, hefur hún sérstaklega beitt sér fyrir gagnsæi en við í Íbúahreyfingunni teljum að gagnsæi sé forsenda þess að íbúarnir hafi möguleika til aukinna áhrifa og valda. Sú barátta heldur áfram þar til málum verður þannig fyrir komið að þau samrýmast tillögu okkar um gagnsæi sveitarfélaga, en við höfum flutt eftirfarandi tillögu í bæjarstjórn.

“Bæjarstjórn Mosfellsbæjar ályktar að öll gögn í umsjón sveitarfélagsins, stofnanna þess og fyrirtækja í eigu hans að hluta eða öllu leiti skulu hér eftir vera opin og aðgengileg almenningi án hindrana, nema brýnar ástæður séu til annars. Skilgreindar verða skýrar viðmiðunarreglur um hvað teljast ástæður til hindrana með tilliti til persónuverndar, öryggissjónarmiða og annara ríkari hagsmuna. Undantekningar skulu vera vel rökstuddar og skal ekki hindra aðgang meira en til að mæta þeim rökum. Mosfellsbær, stofnanir hans og fyrirtæki í hans eigu að hluta eða öllu leiti skulu þegar eins fljótt og auðið er birta skrá yfir þau gögn og gagnasöfn sem þær ráða yfir og gera gögn þeirra aðgengileg á því formi sem þau eru nú á. Jafnframt skal skrá gagnasöfn sem ekki er opnaður aðgangur að, tilgreina efnistök þeirra, ástæður fyrir hindrunum á aðgengi og hvenær þeim hindrunum verði aflétt. Til lengri tíma skal leitast við að gera gögnin aðgengileg á stöðluðu, tölvutæku formi sem tekur tillit til allra þátta sem kveðið er á um í skilgreiningu opinna gagna. Mosfellsbær og stofnanir hans skulu einnig gera úttekt á því hvort starfsemi þeirra gefi ástæðu til að safna sérstaklega gögnum umfram það sem þegar er gert í þeim tilgangi að auka gagnsæi á starfsemi sína eða á samfélagið almennt.”
Sambærileg tillaga var flutt af Íbúahreyfingunni á þingi Sambands Íslenskra Sveitarfélaga á Akureyri í haust, þingið vísaði málinu til lýðræðisnefndar.
Bæjarstjórn Mosfellsbæjar vísaði málinu til lýðræðisnefndar en þrátt fyrir ítrekaðar óskir fulltrúa Íbúahreyfingarinnar, hefur tillagan ekki verið tekin á dagskrá þar.
Tillagan felur í sér kúvendingu á aðgangi að upplýsingum sveitarfélagsins, þ.e. Í stað þess að allt sé lokað nema það sem sérstaklega hefur verið opnað almenningi, er allt opið nema sérstaklega sé lokað og þá fylgi rök s.s. persónuverndarsjónarmið, en við teljum ekki að viðskiptahagsmunir nægi til gagnaleyndar þar sem farið er með opinbert fé.
Við hvetjum íbúa Mosfellsbæjar til þess að taka þátt í starfi Íbúahreyfingarinnar, breytingar koma ekki af sjálfum sér.

Jón Jósef Bjarnason,
bæjarfulltrúi Íbúahreyfingarinnar,
jonb@ibuahreyfingin.is

Greinin birtist í Mosfellingi 24. febrúar 2011

Pin It on Pinterest