by admin42 | 27 Nov, 2014 | Fréttir
Tillögur Íbúahreyfingarinnar í tengslum við fjárhagsáætlun 2015-2018. Íbúahreyfingin hefur nú lagt fram tillögur í bæjarráði að verkefnum sem hreyfingin telur brýnt að ráðast í eða hefja undirbúning að á næsta fjárhagsári 2015. Af nægu er að taka en að þessu sinni lúta verkefnin að því að styrkja innviði sveitarfélagsins, s.s. að uppbyggingu samgöngu-, skóla- og íþróttamannvirkja, bættri aðstöðu til almenningsíþrótta og um leið heilsueflingar, almennri umhirðu á útisvæðum í bæjarfélaginu og náttúruvernd.
Allar tillögurnar taka mið af áður fram komnum óskum íbúa og starfsmanna sveitarfélagsins. Sumar voru samþykktar í nefndum og ráðum á síðasta kjörtímabili en hafa einhverra hluta vegna ekki komið til framkvæmda. Allt eru þetta brýn verkefni sem væri til mikils sóma fyrir sveitarfélagið að ráðast í. Tillögunum hefur verið vísað til umfjöllunar í bæjarstjórn Mosfellsbæjar 3. desember nk.
Tillögurnar eru í 6 liðum og hljóma svo:
1. Mötuneyti við Varmárskóla
Bygging mötuneytis og kaup á kælibúnaði – 2 ár
a. Reist verði viðbygging fyrir mötuneyti við efri deild Varmárskóla. Undirbúningur og teikningar verði unnar á fjárhagsárinu 2015 og hafist handa við bygginguna árið 2016. Mötuneyti sem annað gæti 7-800 nemendum hæfi rekstur að hausti 2016. Hönnun hússins taki mið af þeim varanlegu byggingum sem eru við skólann. Þar sem útsýni er einstakt (sérstaklega frá vestari enda skólans) mætti hugsa sér að viðbyggingin væri að miklum hluta úr gleri. Sú útfærsla fæli einnig í sér sparnað.
Þessa tillögu mætti útvíkka með fleiri þarfir í huga en mikil hörgull er á viðunandi húsnæði fyrir mynd- og verkmenntagreinar og lúðrasveit, – svo eitthvað sé nefnt.
b. Keyptur verði kælir fyrir matvæli í mötuneyti Varmárskóla í byrjun árs 2015 til viðbótar við þá útigeymslu sem nú er verið að endurbyggja. Um er að ræða kælibúnað fyrir innra rými. Að sögn starfsmanna leiðir aðstöðuleysið til mikillar sóunar á matvælum.
Verkefnið er liður í að bæta aðstöðu nemenda skólans og starfsfólks mötuneytisins.
2. Íþróttamannvirki í Mosfellsbæ
Langtímaáætlun um uppbyggingu íþróttamannvirkja í takt við íbúafjölgun – ½ ár
Ráðast þyrfti í það brýna verkefni á fjárhagsárinu 2015 að gera langtímaáætlun um uppbyggingu íþróttamannvirkja í Mosfellsbæ þar sem tekið er mið af áætlaðri fjölgun íbúa en hún er sögð verða um 10% á næstu fjórum árum.
Verkefnið er í þágu betri yfirsýnar í fjármálum sveitarfélagsins á komandi árum.
3. Almenningsíþróttir á útisvæðum
Æfingatæki og bekkir á göngu- og hjólaleiðum – 6 ár
Hafist verði handa við að bæta aðstöðu til almenningsíþrótta, sem ekki krefjast greiðslu félagsgjalda, með því að koma fyrir bekkjum og æfingatækjum á vinsælum göngu-, hlaupa- og hjólaleiðum.
Verkefnið er í þágu almennrar heilsueflingar.
4. Göngu- og hjólastígar
Tenging göngu- og hjólastíga við biðskýli strætó – 3 ár
Hafist verði handa við að hanna og leggja göngu- og hjólastíg frá (1) Reykjum í Reykjahverfi að endastöð strætó við Reykjaveg og (2) frá Reykjalundi að stíg í útjaðri iðnaðarhverfis á Teigum.
Í verkefninu felst nauðsynleg samgöngubót.
5. Fráveita
Leit að uppsprettum saurgerlamengunar í ám, sjó og vötnum – 1 ár
Gerð verði gangskör að því brýna lýðheilsuverkefni að leita uppi uppsprettur saurgerlamengunar í ám, sjó og vötnum í Mosfellsbæ. Beina þarf sjónum sérstaklega að rangtengingum frárennslis frá íbúðarhúsum og atvinnustarfsemi austan Vesturlandsvegar og í Töngum. Einnig verði girt fyrir að affallsvatns frá atvinnustarfsemi renni í ræsi og þaðan óhreinsað í viðtaka.
Þar sem þekking er fyrir hendi á því hvert mengunin berst er brýnt að hefja markvissa leit að því hvar hún á upptök sín á árinu 2015.
Verkefnið er liður í að skapa heilnæmt umhverfi og stuðla að framgangi sjálfbærrar þróunar í Mosfellsbæ.
6. Umhirða á útisvæðum og náttúruvernd
a. Eyðing ágengra framandi plantna – 10 ár
Hafist verði handa í byrjun sumars 2015 við að eyða ágengum framandi tegundum s.s. lúpínu, skógarkerfli og fleiri plöntum sem draga úr líffræðilegri fjölbreytni í náttúru Mosfellsbæjar. Árbakkar njóti forgangs þar sem fallvötn eiga stóran þátt í útbreiðslunni.
Um er að ræða langtímaverkefni sem nauðsynlegt er að fá íbúa í bænum og nágrannasveitarfélög til að taka þátt í.
Skurður á lúpínu gæti hentað unglingum í vinnuskóla Mosfellsbæjar og skátunum.
Verkefnið er liður í að vernda líffræðilegan fjölbreytileika.
b. Bakkaviðgerðir og umhirða stíga við Varmá – 5 ár
Viðgerðir hefjist á syðri bakka Varmár frá Reykjalundarvegi að Blómvangi á fjárhagsárinu 2015. Samhliða verði malarstígurinn meðfram ánni lagfærður með efni sem hæfir ljósum grágrýtisgrunninum í og við ána.
Um er að ræða fyrsti áfanga fimm ára verkefnis sem tekur til Varmársvæðisins frá friðlýstum ósum að Húsadal. Vinna þarf verkið í samráði við sérfræðinga í bakkaviðgerðum á Veiðimálastofnun.
Verkefnið er liður í bættri umhirðu náttúrusvæða í Mosfellsbæ.
c. Náttúruverndaráætlun – 1/2 ár
Hafin verði vinna við gerð náttúruverndaráætlunar fyrir Mosfellsbæ sem verði hluti af svæðis- og aðalskipulagi. Áætlunin er liður í að efla umhverfisvitund í tengslum við skipulag og framkvæmdir og stuðla þannig að því að áætlanir og umgengni taki mið af gæðum náttúru og sé í anda sjálfbærrar þróunar.
Þungamiðjan í verkefninu er að kortleggja lífríki og náttúrufar í Mosfellsbæ, s.s. búsvæði fugla- og fiska, gróður, landslag, votlendi, jarðhitasvæði, uppsprettur ferskvatns o.fl. Einnig að semja reglur um umgengni framkvæmdaaðila á náttúrusvæðum og fá til þess leiðsögn til þess bærrar stofnunar.
Umhverfisnefnd hefði umsjón með verkefninu og spurning hvort hægt væri að útvista verkefninu til nemenda í umhverfis- og náttúrufræðum í FaMos, LbhÍ eða HÍ.
Verkefnið er liður í að bæta skipulagsgerð og umgengni við náttúruperlur sveitarfélagsins.
d. Umhverfisfræðsla – 2 ár
1. Á fjárhagsárinu 2015 verði hafist handa við undirbúning fræðsluskilta um fuglalíf, leirur og fjörugróður á gönguleiðinni meðfram Leiruvogi. Undirbúningsvinna sérfræðinga færi fram á fjárhagsárinu 2015, hönnun og uppsetning vorið 2016.
2. Fræðslukvöld um náttúru og dýralíf að vori og hausti væru einnig tilvalin leið til að efla umhverfisvitund.
Verkefnið er liður í að bæta umhverfisvitund og auka ánægju íbúa og annarra vegfarenda af útivist í Mosfellsbæ.
e. Vöktun friðlýstra svæða – langtímaverkefni
Ráðast þyrfti í reglubundna vöktun friðlýstra svæða í Mosfellsbæ. Einnig þarf að bæta aðgengi og umhirðu þeirra. Dæmi: Tungufoss og Álafoss.
Verkefnið er í þágu náttúruverndar og góðrar umhirðu.
by admin42 | 19 Nov, 2014 | Greinar

Lýðræðis- og jafnaðarstefna Samfylkingarinnar í Mosfellsbæ fór fyrir lítið í dag þegar fulltrúar flokksins í bæjarstjórn greiddu atkvæði með tillögu sjálfstæðismanna og vinstri grænna um að hafna ósk Íbúahreyfingarinnar um að tilnefna fulltrúa í nefnd sem ætlað er að endurskoða deiliskipulag 4. áfanga Helgafellslands. Þess ber að geta að skipuð hefur verið nefnd sem í eru fulltrúar allra hinna framboðanna, þ.e. D-, S- og V-lista.
Þetta er í annað sinn á þessu kjörtímabili sem Íbúahreyfingin er sniðgengin þegar kemur að skipun í vinnuhóp á vegum Mosfellsbæjar. Í fyrra tilfellinu var það þegar skipaður var starfshópur á vegum menningarmálanefndar um bæjarhátíðina Í túninu heima. Íbúahreyfingin óskaði eftir því að fá að taka þátt í því starfi með þeim afleiðingum að meirihlutinn ákvað að blása starfhópurinn af.
Undirrituð hafði á orði í dag að í ljós væri að koma ákveðið munstur ójafnræðis þegar kæmi að skipan í starfshópa. Í tvígang hefði Íbúahreyfingin verið sniðgengin sem vekti upp spurningar um hvort ekki væri ástæða til að bæjarstjórn skoðaði nánar verkefnið Vinátta sem kynnt var fyrir bæjarráði á leikskólanum Hlíð í síðustu viku.
Ljóst er að mismunun stríðir gegn fagmennsku og góðum stjórnarháttum á vettvangi bæjarmála. Það er mikilvægt að framboðin hafi öll góða yfirsýn og hún er fengin með því að þau taki þátt í endurskoðun sem þessari frá upphafi. Oftar en ekki fá kjörnir fulltrúar enga aðkomu að málum fyrr en þau eru komin á lokastig sem þýðir að þeir fá engu breytt, sbr. breytingar á skipuriti Mosfellbæjar nýverið.
Íbúahreyfingin hefur mikið fram að færa í skipulagsmálum og finnst aumt að fulltrúar D-, S- og V-lista skuli sameinast um að útiloka hana frá þátttöku.
Tillaga M-lista Íbúahreyfingarinnar á fundi bæjarstjórnar 19. nóvember
Fulltrúi M-lista gerir að tillögu sinni að Íbúahreyfingin fái að tilnefna fulltrúa í vinnuhóp um endurskoðun á deiliskipulagi IV. áfanga Helgafellshverfis. Í vinnuhóp skipulagsnefndar eru fulltrúar allra annarra framboða í bæjarstjórn Mosfellsbæjar og því eðlileg krafa að jafnræðis sé gætt. Fulltrúi Íbúahreyfingarinnar í skipulagsnefnd er reyndur arkitekt og hann því góður liðsauki fyrir þetta vandasama verkefni.
Tillagan felld með átta atkvæðum gegn einu.
Bókun M-lista Íbúahreyfingarinnar
Fulltrúi M-lista mótmælir harðlega því misrétti sem í því felst að halda fulltrúa Íbúahreyfingarinnar fyrir utan vinnuhóp um endurskoðun á deiliskipulagi 4. áfanga Helgafellslands.
Íbúahreyfingin er eina framboðið sem ekki á fulltrúa í nefndinni. Engin málefnalega rök eru fyrir þessu ójafnræði.
Sigrún Pálsdóttir
by admin42 | 14 Nov, 2014 | Greinar

Íbúahreyfingin lagði nýverið fram tillögu í bæjarráði um að gera íbúum kleift að taka þátt í gerð fjárhagsáætlunar. Tillagan hlaut jákvæðar undirtektir og sem fyrsta skref ætlar bæjarstjóri að ríða á vaðið og halda kynningarfund með íbúum um fjárhagsáætlun 2015. Í vor er síðan stefnt að víðtækara samráði við íbúa þegar vinna við fjárhagsáætlun 2016 fer af stað.
Tilhugsunin um að taka þátt í fjárhagsáætlunargerð kann að hljóma fráhrindandi fyrir marga en þegar betur er að gáð eru það samt peningarnir sem ráða úrslitum um í hvaða verkefni er ráðist. Að taka þátt í fjárhagsáætlunargerð er því einhver tryggasta leið íbúa til áhrifa.
Þekkt dæmi um þátttöku íbúa í fjárhagsáætlunargerð er frá Brasilíu. Í bæ einum höfðu nýlega farið fram kosningar og segir sagan að bæjarstjórinn hafi staðið ráðþrota gagnvart fátækt sem var mikil í bænum. Hann ákvað því við gerð fjárhagsáætlunar að kalla íbúa að borðinu til að fá frá þeim hugmyndir um hvernig best væri að takast á við vandann. Íbúar reyndust afar úrræðagóðir og fylgdu því fleiri borgir í kjölfarið. Það sem vekur athygli í þessu máli er hvað bæjarstjórinn sýndi íbúum mikið traust. Hann gaf sig ekki út fyrir að geta leyst málið einn síns liðs eins og venjan er í pólitík. Þetta aðdáunarverða uppátæki hefur síðan hlotið hljómgrunn um víða veröld og meira að segja haft áhrif hér á Íslandi.
Segja má að í þessum anda sé fyrirkomulag sem Reykjavíkurborg tók upp á síðasta kjörtímabili en það felur í sér að hverfasamtök fá til ráðstöfunar ákveðna fjárhæð til verkefna sem íbúar leggja til og forgangsraða eftir vægi.
Þessi útfærsla á íbúalýðræði er þess virði að skoða nánar. Á umræddum fundi gerði Íbúahreyfingin því að tillögu sinni að bæjarráð kannaði hvort ekki væri grundvöllur fyrir áþekku fyrirkomulagi hér og var því vel tekið.
En sveitarstjórnir hafa fleiri leiðir til að hvetja íbúa sína til þátttöku í mótun samfélagsins. Ein af þeim er að styðja við bakið á sjálfsprottnu starfi einstaklinga og félagasamtaka með styrkjum. Innan Evrópusambandsins hafa styrkveitingar skilað árangri en til þess þarf auðvitað regluverk sem gerir öllum jafn hátt undir höfði og ýtir undir farsæla þróun á öllum sviðum samfélagsins. Á Íslandi hafa augu fólks verið að opnast fyrir þeim möguleika að stuðla að nýsköpun með markvissum styrkveitingum. Hér í Mosfellsbæ hefur Íbúahreyfingin lagt til að fyrirkomulag styrkveitinga verði endurskoðað og betrumbætt og er nú verið að vinna úttekt á styrkjaumhverfinu.
Að lokum er vert að rifja upp þau alkunnu sannindi að forsenda þess að íbúar geti tekið þátt í umræðum um málefni bæjarfélagsins er að þeir fái greinargóðar upplýsingar um þau mál sem verið er að vinna í á vettvangi bæjarmála. Ritun fundargerða og vefur sveitarfélagsins hefur í því sambandi sætt gagnrýni. Undirrituð gerði tilraun til fá tillögu samþykkta um að bæta ritun fundargerða á síðasta kjörtímabili en fyrirstaðan var mikil. Á þessu kjörtímabili hefur málið oftsinnis komið til umræðu og mun gera þar til úr verður bætt. Eða er ekki svo að þolinmæðin þrautir vinnur allar?
Sigrún Pálsdóttir
bæjarfulltrúi Íbúahreyfingarinnar
by admin42 | 24 Oct, 2014 | Greinar
Þessa dagana eru starfsmenn Mosfellsbæjar í óða önn að ljúka við drög að fjárhagsáætlun en hún segir til um í hvaða verkefni tekjum bæjarsjóðs og skattpeningum íbúa verður varið á næsta fjárhagsári. Kjörnir fulltrúar í nefndum og ráðum hafa enn ekki fengið að skoða herlegheitin en það stendur til að kynna þau í lok mánaðar. Annatími er því framundan hjá pólitíkusum í Mosfellsbæ.
Íbúahreyfingin hefur haft ýmislegt við framkvæmdina á þessu árlega verkefni að athuga og telur að lýðræðislegra væri að fastanefndir hefðu stefnumarkandi hlutverki að gegna og kæmu að vali á verkefnum strax í upphafi vinnunnar en ekki þegar að því er að mestu lokið eins og nú er.
Fjárhagsáætlun er unnin í umboði bæjarráðs og samkvæmt ákvæði í samþykkt um stjórn Mosfellsbæjar um verkefni ráðsins, gr. 31, hafa embættismenn tillögurétt við gerð hennar. Fastanefndir hafa samkvæmt sömu samþykkt þó aðeins umsagnarrétt um drögin.
Þegar málið er skoðað er þetta eina samþykkt um stjórn sveitarfélags á höfuðborgar-svæðinu sem hefur að geyma ákvæði þar sem lýðræðislega kjörnir fulltrúar eru settir skör lægra en embættismenn þegar kemur að því að hafa áhrif á hvernig fjármunum sveitarfélags er ráðstafað. Hverju það sætir er í raun stjórnsýslulegt rannsóknarefni. Líklegasta skýringin er þó sú að bæjarfulltrúar þess meirihluta sem stóð
að samþykktinni hafi verið að útvíkka sitt vald umfram það sem þeim bar á kostnað fastanefndanna því eins og málum er háttað er bæjarstjóri, og oddviti meirihlutans, yfirmaður starfsliðs sveitarfélagsins og lýtur það hans stjórn en það gera fastanefndirnar ekki.
Í sveitarfélögum á Norðurlöndum er löng hefð fyrir vel skipulagðri og öflugri stjórnsýslu þar sem kjörnir fulltrúar sinna stefnumörkun og eftirliti með stjórnsýslunni en koma ekki að daglegum rekstri og ákvörðunum en þannig er því háttað þar sem stjórnsýsla er veik og mörk óljós á milli stjórnsýslu og kjörinna fulltrúa. Á Íslandi þykir jafnvel sjálfsagt að æðsti yfirmaður stjórnsýslunnar sé jafnframt kjörinn fulltrúi sem á þá að hafa eftirlit með sjálfum sér. Álíka starfshættir áttu stóran þátt í Hruninu. Hér er því komið næsta stjórnsýslulega úrlausnarefnið, að þessu sinni samstarfsverkefni milli löggjafans og sveitarfélaganna.
Það þarf varla að taka fram að öflug stjórnsýsla sem setur fram tillögur við gerð fjárhagsáætlunar er mikilvæg hverju sveitarfélagi en það að fastanefndir hafi lítið sem ekkert um verkefnavalið að segja er hins vegar umhugsunarefni í samfélagi sem kennir sig við lýðræði.
Íslensk stjórnmál einkennast oftar en ekki af meirihlutaræði. Við þannig aðstæður mega sjónarmið minnihlutans sín lítils. Við í Íbúahreyfingunni segjum að stjórnmál eigi að snúast um málefni en ekki flokka og fylkingar. Vinnan framundan í fjárlagagerðinni verður prófsteinn á hvort verður ofan á.
Sigrún Pálsdóttir, bæjarfulltrúi Íbúahreyfingarinnar