by ibuahreyfingin | 5 Sep, 2010 | Fréttir
Í megin áherslum Íbúahreyfingarinnar fyrir kosningar kemur fram að ráða eigi fólk í nefndir á faglegum forsendum. Í samræmi við það auglýsti Íbúahreyfingin eftir fagfólki í nefndarstörf og óhætt er að segja að viðtökurnar hafi farið fram úr björtustu vonum.
Greinilegt er að nóg er af hæfu fólki sem vill starfa fyrir sveitarfélagið sitt sem kemst ekki að vegna þess að það skortir tengsl við stjórnmálaflokk. Einnig er fólk á listanum sem hefur starfað með stjórnmálaflokkum en sér hér tækifæri til að taka þátt í þeim breytingum sem við í Íbúahreyfingunni, og greinilega stór hluti kjósenda, telur þörf á að gera í stjórnsýslunni.
Nú höfum við lokið við að raða niður í þau sæti sem Íbúahreyfingin mannar í nefndum Mosfellsbæjar og erum við afskaplega stolt og ánægð með þann lista sem við leggjum fram:
Fjölskyldunefnd
Áheyrnarfulltrúi; Kristbjörg Þórisdóttir sálfræðingur og varamaður Þórður Björn Sigurðsson, BA í mannfræði.
Fræðslunefnd
Aðalmaður; Ásgeir Eyþórsson kynningarstjóri Rásar 2. Ásgeir er með grunnskólakennarapróf. Varamaður; Kristín I. Pálsdóttir bókmenntafræðingur.
Íþrótta- og tómstundanefnd
Aðalmaður; Ólöf Kristín Sívertsen lýðheilsufræðingur og varamaður Richard Jónsson formaður Taekwondodeildar Aftureldingar og verkfræðingur.
Menningarmálanefnd
Aðalmaður; Sæunn Þorsteinsdóttir myndlistarkona og kennari. Varamaður Hildur Margrétardóttir myndlistarkona.
Skipulags- og byggingarnefnd
Áheyrnarfulltrúi; Jóhannes Bjarni Eðvarðsson húsasmiður og varamaður Sigurbjörn Svavarsson iðnrekstrarfræðingur.
Umhverfisnefnd
Áheyrnarfulltrúi; Sigrún Guðmundsdóttir umhverfisfræðingur og varamaður Jón Jóel Einarsson framkvæmdastjóri og kennari.
Þróunar- og ferðamálanefnd
Áheyrnarfulltrúi; Björk Ormarsdóttir ferðamálafræðingur og varamaður Sigurbjörn Svavarsson, iðnrekstrarfræðingur.
Hér er listi yfir fólk í nefndum með ítarlegra ferilágripi.
by ibuahreyfingin | 2 Sep, 2010 | Fréttir
Fulltrúum Íbúahreyfingarinnar barst svohlóðandi tölvupóstur frá Golfklúbbinum Kili í Mosfellsbæ:
,,From: Golfklúbburinn Kjölur [mailto:gkj@gkj.is]
Sent: 31. ágúst 2010 09:33
To: undisclosed-recipients:
Subject: Bæjarstjórnargolf á föstudaginn 3. sept. kl. 16:30
Sæl/sæll
Golfklúbburinn Kjölur býður til bæjarstjórnargolfs
föstudaginn 3. september n.k. kl. 16:30
Mæting í vélaskemmu Kjalar á Blikastaðanesi. Þar er áætlað að vera óhefðbundið 7 holu golfmót á nýjum holum vallarins 10., 11., 12., 15., 16., 17., og 18.
Að móti loknu verður boðið upp á léttar veitingar í golfskála.
Golfklúbburinn Kjölur vonast til að geta átt ánægjulega stund með bæjarfulltrúum, nefndarmönnum og starfsmönnum bæjarins og vonumst við til að sjá sem flesta boðsgesti föstudaginn 3. september n.k. kl. 16:30.
Vinsamlegast tilkynnið þátttöku á netfangið gkj@gkj.is eða í síma 566-7415 fyrir kl. 14 föstudaginn 3. september.
F.H. Golfklúbbsins Kjalar
Gunnar Páll Pálsson, formaður
Haukur Hafsteinsson, framkv.stj.”
***
Gunnar Páll Pálson, formaður golfklúbbsins, er bróðir Hafsteins Pálssonar sem er jafnframt bæjarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins í Mosfellsbæ. Haraldur Sverrisson, núverandi bæjarstjóri í Mosfellsbæ og bæjarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, var formaður golfklúbbsins frá 1996 – 2000.
Í aðdraganda prófkjörs sem Haraldur tók þátt í árið 2002 ritaði Hilmar Sigurðsson, félagi í golfklúbbnum, grein til stuðnings Haralds þar sem hann mærir Harald fyrir vel unnin störf í þágu klúbbsins: Í henni segir m.a.: ,,Með starfi sínu hefur Haraldur sýnt frábæra leiðtogahæfileika og aflað sér vinsælda meðal félaganna. Hann hefur jafnframt sýnt festu og áræðni í samningum við viðsemjendur klúbbsins, svo sem bæjarfélagið, golfsambandið og fleiri.”
http://www.mbl.is/mm/gagnasafn/grein.html?grein_id=650145
Í aðdraganda sveitarstjórnarkosninganna síðustu var nokkuð fjallað um samning sem Mosfellsbær gerði við golfklúbbinn um byggingu golfskála. Kristín Pálsdóttir ritaði í grein á Smugunni: ,,Það er ljóst að traust á stjórnmálamönnum er í lágmarki. Í Mosfellsbæ á að láta eins og ekkert hafi í skorist. Engin gagnrýnin opinber umræða hefur átt sér stað um góðærisárin og sömu menn verma efstu sæti lista flokkanna fjögurra og í síðustu kosningum. Hér á t.d., samkvæmt fjárhagsáætlun, að veita 132 milljónum í golfskála á næstu þremur árum, á meðan skólakerfið og fleiri grunnstofnanir mega sæta niðurskurði. Allir flokkar skrifuðu sameiginlega undir fjárhagsáætlun bæjarins og þannig axla flokkarnir í minnihluta ábyrgð á þessari og fleiri ákvörðunum með meirihlutanum.”
http://www.smugan.is/pistlar/adsendar-greinar/nr/3368
Skv. fjárhagsáætlun ársins 2010 á að setja 73 milljónir í íþróttamannvirki. Þar af fara 49 milljónir í ,,golfvöll” eins og stendur í áætluninni en réttara væri að tala um golfskála því það er það sem verið er að setja peningana í. Sjá bls. 9: http://mos.is/media/PDF/Fjarhagsaaetlun_2010_asamt_greinargerdum_samthykkt.pdf
Þegar þriggja ára áætlun er skoðuð má sjá að á árinu 2011 fara 35 mkr í ,,golfvöll” og 24 mkr. árin 2012 og 2013. Sjá bls. 7: http://mos.is/media/PDF/Thriggja_ara_aaetlun_2011_til_2013_til_utprentunar.pdf
Árgjaldið hjá golfklúbbnum er 70 þúsund: http://www.gkj.is/UmGKj/Gjaldskr%C3%A1/tabid/169/language/is-IS/Default.aspx
by ibuahreyfingin | 16 Aug, 2010 | Fréttir
Langar þig að hafa áhrif á gang mála í Mosfellsbæ?
Íbúahreyfingin í Mosfellsbæ leggur áherslu á að skipað verði í nefndir á faglegum forsendum. Því auglýsir Íbúahreyfingin eftir aðal-, vara- og áheyrnarfulltrúum í eftirtaldar nefndir:
Fjölskyldunefnd
Fræðslunefnd
Íþrótta- og tómstundanefnd
Menningarmálanefnd
Skipulags- og byggingarnefnd
Umhverfisnefnd og
Þróunar- og ferðamálanefnd
Íbúahreyfingin leitar eftir fólki sem hefur menntun, reynslu og/eða mikinn áhuga á málefnum þeirrar nefndar sem sótt er um starf í. Umsækjendur eru beðnir að senda inn rökstudda umsókn ásamt ferilskrá á netfangið ibuahreyfingin@ibuahreyfingin.is fyrir föstudaginn 27. ágúst 2010.
Íbúahreyfingin vill taka fram að það er engin hindrun að umsækjendur starfi, eða hafi starfað, með öðrum stjórnmálasamtökum. Íbúahreyfingin gerir þá kröfu til umsækjenda að þeir séu reiðubúnir að starfa af heilindum fyrir íbúa Mosfellsbæjar og aðhyllist áherslur Íbúahreyfingarinnar.
Nánari upplýsingar www.ibuahreyfingin.is eða hjá Kristínu í síma 893 9327.
by ibuahreyfingin | 1 Jul, 2010 | Fréttir
Á fundi 539. fundi bæjarstjórnar Mosfellsbæjar 30.06.2010 bannaði forseti bæjarstjórnar og oddviti VG áheyranda á vegum Íbúahreyfingarinnar í Mosfellsbæ að hljóðrita fundinn. Forsetinn sagðist ekki þurfa að rökstyðja þá ákvörðun sína en hljóðritun var leyfð á 538. fundi 16.06.2010.
Íbúahreyfingin í Mosfellsbæ var með á dagskrá fundarins að ræða pólitíska fréttatilkynningu sem samin var af VG og sjálfstæðismönnum eftir kosningar og send út í nafni bæjarins til allra fjölmiðla, allra starfsmanna Mosfellsbæjar auk fjölda íbúa, en þar voru hafðar uppi pólitískar yfirlýsingar og rangfærslur um afstöðu Íbúahreyfingarinnar til samstarfs. Fréttatilkynningin var send út af kynningarfulltrúa Mosfellsbæjar sem yfirlýsing frá bæjarfélaginu, en ekki hinu pólitísku flokkum, að beiðni Haraldar Sverrissonar bæjarstjóra sem jafnframt er oddviti sjálfstæðismanna í bæjarstjórn.
Íbúahreyfingin í Mosfellsbæ gerði athugasemd við að starfsmanni bæjarins væri falið að sinna pólitísku erindi stjórnmálaflokka og að ekki eru skýrar línur milli pólitísks flokkastarfs sitjandi meirihluta í bæjarstjórn og stjórnsýslunnar. Farið var fram á að send yrði út leiðrétting til þeirra fjölmiðla, íbúa og starfsmanna sem fengu hina pólitísku yfirlýsingu í hendur frá bænum, en við þeirri beiðni hefur ekki orðið.
Íbúahreyfingin í Mosfellsbæ harmar slík vinnubrögð og lýsir furðu sinni á þeirri órökstuddu ákvörðun forseta bæjarstjórnar að banna hljóðritun bæjarstjórnarfundar sem á að vera öllum bæjarbúum opinn og aðgengilegur.
Nánari upplýsingar veitir Ólafur Ragnarsson í síma 8965112.
by ibuahreyfingin | 28 Jun, 2010 | Fréttir
Þann 16. júní var haldinn fyrsti fundur nýrrar bæjarstjórnar í Mosfellsbæ. Íbúahreyfingin í Mosfellsbæ, sem nú er næst stærsta stjórnmálaaflið í bænum, gerðu að tillögu sinni að fylgt yrði mannauðsstefnu Mosfellsbæjar við ráðningu bæjarstjóra og að starfskjör hans yrðu einnig endurskoðuð. Þessi tillaga var felld af meirihluta Sjálfstæðismanna og Vinstri hreyfingarinnar, græns framboðs sem lögðu til að Haraldur Sverrisson yrði ráðinn bæjarstjóri.
Íbúahreyfingin lagði fram bókun sem hægt er að lesa í heild á heimasíðu Íbúahreyfingarinnar en þar er vísað í mannauðstefnuna en í henni segir: „Starfsmenn Mosfellsbæjar eru ráðnir á grundvelli reynslu, hæfni, menntunar og hæfileika til að takast á við starfið. Laus störf skulu auglýst á opinberum vettvangi og til að tryggja sanngirni og fagmennsku skulu allar ráðningar hjá Mosfellsbæ byggjast á samræmdu ráðningarferli. Kjör starfsmanna taka mið af kjarasamningum viðkomandi stéttarfélaga.“
Í bókuninni kemur einnig fram að: „Ætlun meirihlutans að ráða bæjarstjóra á pólitískum forsendum, án auglýsingar, gengur þvert gegn mannauðsstefnu Mosfellsbæjar. Það er slæmt fordæmi og vanvirðing við faglega stjórnsýslu.“
Ein af megin áherslum Íbúahreyfingarinnar fyrir kosningar var krafan um aukið gagnsæi og að „fundir nefnda, bæjarráðs og bæjarstjórnar verði sendir út á netinu og hljóðskrár aðgengilegar á netinu.“ Í samræmi við þessar áherslur réðst Íbúahreyfingin í þá nýbreytni að taka upp fund bæjarstjórnar og hefur nú birt hljóðskrár fundarins á heimasíðu sinni.
Nánari upplýsingar hjá Birtu Jóhannesdóttur, 865 6321, og Þórði B. Sigurðssyni, 862 2575.
by ibuahreyfingin | 22 Jun, 2010 | Fréttir
Íbúahreyfingin tók upp fyrsta fund bæjarstjórnar Mosfellsbæjar á nýhöfnu kjörtímabili, eftir að það hafði verið leyft með kosningu. Hér má hlusta á hljóðskrár fundarins.
1. – Kosning forseta bæjarstjóra, kosning 1. og 2. varaforseta bæjarstjórnar. Kosning í bæjarráð, kosning í ráð og nefndir sbr. bæjarmálasamþykkt.
Hlusta.
2. – Ráðning bæjarstjóra, bókanir M-lista, S-lista og D og V lista.
Hlusta.
3. – Endurskoðun á samþykkt um stjórn og fundarsköp bæjarstjórnar Mosfellsbæjar.
Hlusta.
4. – Heilbrigðiseftirlit Kjósarsvæðis fundargerð 3. fundar, Sorpa bs. fundargerð 274. fundar, 140. fundar, 141. fundar og fundar 142.
Hlusta.
5. – Varðandi fréttatilkynningu frá Mosfellsbæ, aukaliður að ósk Þórðar B. Sigurðssonar bæjarfulltrúa M-lista.
Hlusta.