by admin42 | 28 Dec, 2016 | Fréttir
Aðalfundur Samtaka sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu (SSH) samþykkti á föstudag, 2. desember, tillögu Íbúahreyfingarinnar í Mosfellsbæ um að breyta 6. gr. samþykkta samtakanna á þann veg að öllum framboðum sem náð hafa kjöri í sveitarstjórnum á höfuðborgarsvæðinu verði framvegis heimilt að tilnefna áheyrnarfulltrúa með tillögurrétt og málfrelsi á fundum fulltrúaráðs samtakanna.
Framboð sem ekki hafa hlotið nægilegt magn atkvæða til að tilnefna aðalfulltrúa í ráðið hafa hingað til staðið utan við þennan mikilvæga samstarfsvettvangi sveitarfélaganna. Undanskilin frá þeirri reglu hafa þó verið þau framboð sem eiga aðild að meirihlutasamstarfi.
Fyrirmynd að tillögu um áheyrnarfulltrúa sótti Íbúahreyfingin í 50. gr. nýrra sveitarstjórnarlaga nr. 138 frá árinu 2011 en þar er kveðið á um að framboðum sem náð hafa kjöri skuli vera heimilt að tilnefna áheyrnarfulltrúa í bæjar- og borgarráð og ef sveitarstjórn leyfir aðrar fastanefndir. Öll sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu heimila áheyrnarfulltrúa í bæjar- og borgarráði og öll heimila þau áheyrnarfulltrúa í fastanefndum nema Garðabær. Samtökum sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu ber ekki að starfa samkvæmt lögunum en með því að samþykkja tillögu Íbúahreyfingarinnar eru þau þó að lýsa yfir vilja til að starfa í þeirra anda.
Reykjavíkurborg átti frumkvæði að því að taka upp ákvæði um áheyrnarfulltrúa í upphafi aldarinnar. Fleiri sveitarfélög fylgdu á eftir s.s. Mosfellsbær. Fyrsta tilraun til að koma ákvæðinu í lög var gerð af þingmönnum Vinstri grænna á 133. löggjafarþingi 2006 til 2007. Hún heppnaðist svo 2011.
Rökin sem þingmennirnir færðu fyrir frumvarpinu voru að því væri ætlað að efla lýðræði og gæta þess að framboðum væri ekki mismunað á grundvelli þess hvort þau væru í meirihlutasamstarfi eða ekki. Hæglega gæti komið upp sú staða að lítið framboð ætti fulltrúa í öllum nefndum en stærra framboð ætti þar engan fulltrúa. Í þessu fælist mismunun gagnvart kjósendum því það ætti ekki að skipta máli hvort listinn sem þeir kjósa er í meirihlutasamstarfi eða ekki. (Sjá http://www.althingi.is/altext/133/s/0288.html).
Það sem vakir fyrir Íbúahreyfingunni er að tryggja kjörnum fulltrúum á höfuðborgarsvæðinu jafnan aðgang að því málefnastarfi sem fram fer á vettvangi Samtaka sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu; veita þeim jöfn tækifæri til að koma skoðunum sínum á framfæri og nýta málfrelsið og tillöguréttinn sem þeim eru tryggð í sveitarstjórnarlögum, sbr. 26. og 27 gr.
En það er fleira sem skiptir máli. Jafn réttur til upplýsinga er ekki síður mikilvægur. Íbúahreyfingin telur málefnastarf vera uppsprettu lærdóms sem sérhver stjórnmálahreyfing sem á fulltrúa í sveitarstjórn ætti að hafa beinan aðgang að.
Í upphafi var hugmyndin að tillaga um áheyrnarfulltrúa næði til svæðisskipulagsins. Niðurstaða aðalfundar nú var að samþykkja ákvæði um áheyrnarfulltrúa í fulltrúaráði. Svæðisskipulagið bíður því betri tíma.
Sigrún H Pálsdóttir
bæjarfulltrúi Íbúahreyfingarinnar
S. 866 9376
Netfang: sigrunhpalsdottir@gmail.com og ibuahreyfingin@ibuahreyfing.is
P.s. mynd. Tölur um íbúafjölda eru úreltar en hér má sjá umdæmi Samtaka sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu. Íbúafjöldi nú er um 217 þúsund af 338 þúsundum á landsvísu, þ.e. um 2/3 hlutar landsmanna.
by admin42 | 21 Dec, 2016 | Fréttir
Fulltrúi Íbúahreyfingarinnar gerði heiti máls í fundarboði að umræðuefni á fundi bæjarstjórnar í dag, 21. desember en nafn erindis skiptir miklu þegar kemur að því að rekja mál og kynna sér í fundargerðum Mosfellsbæjar. Ef ekki er valið rétt heiti er nær ógerningur að leita þau uppi.
Í fundargerð dagsins í dag var mál sem bar heitið: Krikahverfi, deiliskipulagsbreytingar 2012. Það sem stóð hins vegar til að ræða voru athugasemdir sem íbúar í Krikahverfi gerðu við tillögur að deiliskipulagsbreytingum í hverfinu á því herrans ári 2016 og svör Mosfellsbæjar við þeim. Eins og sjá má er titill málsins þannig að engum dytti í hug að leita að því undir heiti máls sem felur í sér ártalið 2012.
Það var formaður skipulagsnefndar, Bryndís Haraldsdóttir, sem tók að sér að svara. Málið væri auðleyst. Fólk ætti bara að slá inn leitarorðið Krikahverfi. En hvað gerist þá? Undirrituð gerði tilraun á ytri vef Mosfellsbæjar og valdi 2 nefndir, þ.e. bæjarstjórn og bæjarráð. Undir bæjarstjórn fannst ekkert og undir bæjarráð nokkur gömul mál og ekkert frá árinu 2016.
Nú stærir Mosfellsbær sig af því að hafa mótað lýðræðisstefnu. En brjóta þessar tálmanir á leit að upplýsingum ekki í bága við hana? Sé lýðræðisstefnan skoðuð kemur í ljós ar þar er gerð krafa um gegnsæi í stjórnsýslu sem felst m.a. í góðu aðgengi íbúa að upplýsingum um þau mál sem eru til umræðu í nefndum og ráðum. Í stefnunni er meira að segja kveðið á um að fundargerðir skuli vera lýsandi fyrir efni funda en því er öðru nær í Mosfellsbæ og svo hefur lengi verið.
Auðvitað er til fyrirmyndar að móta lýðræðisstefnu en hún þarf að vera virk því annars er hún einskis nýt. Fulltrúar Íbúahreyfingarinnar hafa margsinnis bent á að endurskoða þurfi hvernig mál er fram sett í fundargerðum bæjarins en í stað þess bara að ganga í málið velur D- listi að safna liði í vörn og verja vond vinnubrögð með kjafti og klóm, eins og gerðist á fundinum í dag.
Íbúar mega sem sagt áfram una því að geta ekki með einföldum hætti kynnt sér þau mál sem eru á döfinni á vettvangi bæjarmála í Mosfellsbæ. Lýðræðisstefnan verður því áfram lítið annað en hjómið eitt.
Sigrún H Pálsdóttir
by admin42 | 7 Dec, 2016 | Fréttir
2. umræða um fjárhagsáætlun 7. desember 2017
Eins og bæjarstjóri hefur rakið er margt jákvætt í fjárhagsáætlun Mosfellsbæjar 2017. Ýmis þörf verkefni hafa einnig fengið brautargengi milli umræðna. Þar á meðal eru nokkrar tillögur Íbúahreyfingarinnar og þökkum við meirihlutanum fyrir það.
Sýnileiki verkefna í fjárhagsáætlun
Íbúahreyfingin gerði fjárframlög til náttúruverndar að sérstöku umræðuefni við fyrstu umræðu um fjárhagsáætlun 9. nóvember. Tildrög þess voru að nánast ómögulegt er að greina hve miklu fé Mosfellsbær ver í verkefni sem heyra undir þann málaflokk. Bókhaldslykilinn náttúruvernd eða ígildi hans er hvergi að finna í fjárhagsáætlun og ekki er heldur hægt að greina slík verkefni undir öðrum skyldum bókhaldslyklum. Við hljótum að geta verið sammála um að gegnsæi sé besta leiðin til að mæla afköst í hverjum málaflokki fyrir sig og gildir það um náttúruvernd eins og aðra bókhaldsliði.
Til að auka gegnsæi í náttúruverndarmálum telur Íbúahreyfingin mikilvægt að framvegis verði gerð grein fyrir ráðstöfun fjár í þágu náttúruverndar í fjárhagsáætlun Mosfellsbæjar og verður tillaga þess efnis lögð fram á næsta fjárhagsári.
Nefndum sveitarfélagsins er ætlað að vinna umsagnir um fjárhagsáætlun. Samkvæmt samþykkt umhverfisnefndar á nefndin að “hafa umsjón og eftirlit með náttúruvernd, skógrækt og landgræðslu skv. náttúruverndarlögum og lögum um landgræðslu”. Ennfremur “að fara yfir tillögur forstöðumanna að fjárhagsáætlun hvers árs hvað varðar þá liði sem falla undir verksvið nefndarinnar og gæta þess í ákvörðunum sínum að halda áætlanir þegar að framkvæmdum kemur.” Ég spyr: Hvernig á umhverfisnefnd að sinna því hlutverki þegar upplýsingar um náttúruverndarverkefni umhverfissviðs vantar í fjárhagsáætlun? Fjallað var um fjárhagsáætlun á fundi umhverfisnefndar 17. nóvember. Ég mæli eindregið með að bæjarfulltrúar skoði fylgigögnin sem þar voru til kynningar. Ef meta ætti hver staða náttúruverndar er í Mosfellsbæ á grundvelli þeirra mætti ætla að málaflokkurinn væri munaðarlaus.
Í þessu samhengi er vert að benda á að athugasemdir Íbúahreyfingarinnar eru tæknilegs eðlis og lúta að gegnsæi og framsetningu verkefna í fjárhagsáætlun sem hvorutveggja skiptir verulegu máli þegar kemur að því að útdeila fé.
Það að ekki skuli vera hægt að lesa það út úr fjárhagsáætlun hvaða verkefni verið er að vinna í þágu náttúruverndar þýðir þó ekki að Mosfellsbær sitji alfarið auðum höndum í umhverfismálum.
Verkefni í þágu náttúruverndar
Í fylgiskjali sem nefnist ‘jarðvegsskipti og gatnagerð í fjárhagsáætlun 2017’ og bæjarstjóri kynnti í bæjarráði 13. október sl. er gert ráð fyrir 8 milljónum kr. í viðhald og endurbætur á göngustíg meðfram Varmá en áin og bakkar hennar er á náttúruminjaskrá. Framkvæmdir á svæðinu þurfa að vera í samræmi við náttúruverndarlög og eru þær að hluta unnar í þeim tilgangi að vernda ána og bakkana, auk þess að viðhalda og endurbæta göngustíginn. Þetta verkefni heyrir samt undir gatnagerð í fjárhagsáætlun.
Íbúahreyfingin hefur lagt til að unnin verði leiðbeinandi handbók um framkvæmdir á verndarsvæðum. Fordæmalaus uppbygging er framundan í Mosfellsbæ og mikilvægt að náttúra Mosfellinga haldi verndar- og verðgildi sínu. Þess vegna þessi tillaga. Umhverfissvið hefur tekið vel í hafa og vonandi á hún eftir að hafa bætandi áhrif. Verkefnið lætur lítið yfir sér en leggur samt grunn að því að framkvæmdaaðilar átti sig á hvaða verðmæti þeir eru með í höndunum.
Fleiri verkefni s.s. aðgerðir til að draga úr ört vaxandi útbreiðslu lúpínu og skógarkerfils og kortlagning gróðurþekju- og jarðvegsrofs á vatnsverndarsvæðum og á vatnasviði fallvatna í Mosfellsbæ eru meðal þess sem Íbúahreyfingin hefur lagt til að ráðist verði í á næsta fjárhagsári.
Einnig meiri kynningu og bætt aðgengi að friðlýstum svæðum og gerð fræðsluefnis til að vekja athygli á náttúruvernd. Umhverfissvið gaf út mjög vandaðan bækling í þágu vatnsverndar á árinu og mikilvægt að halda áfram á sömu braut og dreifa til íbúa. Í ljósi þess að Mosfellsbær hefur hug á því að byggja upp ferðaþjónustu og selja lóðir undir hótel er heldur ekki seinna vænna að huga að frekari stígagerð s.s. í kringum Úlfarsfell.
Verkefni á sviði félagsþjónustu
Á sviði félagsþjónustu lagði Íbúahreyfingin til að svigrúm fjölskyldusviðs til veita styrki til hjálparsamtaka eins og Kvennaathvarfsins og Stígamóta yrði aukið annað árið í röð og er sú tillaga nú hluti af fjárhagsáætlun. Mosfellsbær er í samstarfi við Lögreglustjóraembættið á höfuðborgarsvæðinu um aðgerðir gegn heimilisofbeldi. Verkefnið nefnist Saman gegn ofbeldi og eru sveitarfélögin háð þjónustu samtakanna í því verkefni. Háskóli Íslands hefur gert úttekt á því í nokkrum sveitarfélögum og hefur það reynst vel. Þess vegna aukið framlag.
Íbúahreyfingin óskaði líka eftir að breyting á reglum um fjárhagsaðstoð yrði gerð afturkræf en hún fól í sér að fjárhagsaðstoð til ‘einstaklinga sem búa með öðrum en foreldrum’ var lækkuð úr 75% í 50%. Mótrök fjölskyldusviðs eru að tilgangurinn með lækkuninni sé að gera öllum jafn hátt undir höfði. Það eru góð og gild rök en þegar til þess er litið að fjárhagsaðstoðin er langt undir neysluviðmiði Velferðarráðuneytisins finnst Íbúahreyfingunni ekki réttmætt að lækka framlagið til þessa hóps. Betur færi á því að hækka fjárhagsaðstoð til jafns við Reykjavíkurborg, þ.e. að 100% aðstoð í Mosfellsbæ fari úr 162 þúsund kr. á mánuði í 181 þúsund kr. en það mál mun bíða umræðu næsta fjárhagsári.
Verkefni á sviði fræðslumála
Á sviði fræðslumála lagði Íbúahreyfingin til að tekjuviðmið niðurgreiðslu á leikskólagjöldum yrði hækkað. Fræðslusvið lagði síðan til mjög góða útfærslu á þeirri tillögu sem leiðir til umtalsverðrar lækkunar á leikskólagjöldum fyrir tekjuminni foreldra og er Íbúahreyfing mjög sátt við það. Tillaga fræðslusviðs gerir ráð fyrir að leikskólagjöld lækki að meðaltali um 15,5%. Lækkunin ætti því að skipta máli fyrir tekjuminni greiðendur en hún er orðin hluti af fjárhagsáætlun.
Aðgæslu þörf
Það eru bjartir tímar framundan í Mosfellsbæ og mikil uppbygging í kortunum. Sjaldan hefur samt verið jafn rík þörf á því að við séum meðvituð um hvert stefnir og að við sjáum til þess að mál þróist á þann veg sem Mosfellingar vilja. Bæjarbúar þurfa að vera með í ráðum og bæjarstjórn sömuleiðis að gæta hagsmuna þeirra í nútíð og framtíð.
Íbúahreyfingin gerði náttúruvernd að sérstöku umræðuefni í umræðum um fjárhagsáætlun þessa árs. Það á sínar ástæður. Við þurfum einfaldlega að gera allt sem í okkar valdi stendur til að vernda náttúru sveitarfélagsins fyrir ágangi á tímum uppbyggingar.
Að lokum þessi viðbótartillaga við 2. umræðu fjárhagsáætlunar:
Tillaga M-lista Íbúahreyfingarinnar um meiri sýnileika náttúruverndarverkefna í fjárhagsáætlun
Bæjarfulltrúi Íbúahreyfingarinnar gerir að tillögu sinni að fjármálastjóra og umhverfissviði verði falið að endurskoða í sameiningu framsetningu á náttúruverndarverkefnum í fjárhagsáætlun Mosfellsbæjar og þá sér í lagi bókhaldslyklana sem notaðir eru til að skilgreina útgjaldaliðina. Tilgangurinn er að gera áætlunina gegnsærri og tryggja að þessi mikilvægi þáttur í starfsemi umhverfissviðs og umhverfisnefndar týnist ekki.
Sigrún H Pálsdóttir
by admin42 | 3 Dec, 2016 | Fréttir
Tillaga íbúahreyfingarinnar um að framvegis verði framboðum í sveitarstjórnum á höfuðborgarsvæðinu heimilt að tilnefnda áheyrnarfulltrúa í fulltrúaráð Samtaka sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu (SSH) var samþykkt á aðalfundi SSH í gær. Mikið pólitískt starf fer fram í nafni sveitarfélaganna innan samtakanna sem voru stofnuð sem samstarfsvettvangur um skipulag í Hlégarði í Mosfellssveit árið 1976. Íbúahreyfingin telur eðlilegt og í anda löggjafans (50. gr. sveitarstjórnarlaga) að framboð sem hlotið hafa kosningu í sveitarstjórn hafi öll beinan og jafnan aðgang að málefnastarfi, í þessu tilviki þessum mikilvæga samstarfsvettvangi sveitarstjórnanna.
Tillagan var samþykkt með miklum meirihluta atkvæða. Haraldur Sverrisson bæjarstjóri í Mosfellsbæ lýsti yfir stuðningi við hana á fundinum og má segja að það hafi verið óvæntur glaðningum.
Rökin sem bæjarfulltrúi Íbúahreyfingarinnar, Sigrún H Pálsdóttir, færði fyrir tillögunni voru þessi: “Tillaga Íbúahreyfingarinnar gengur út á að sjöttu grein samþykkta Samtaka sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu verði breytt á þann veg að framvegis verði framboðum sem náð hafa kjöri í sveitarstjórn heimilt að tilnefna áheyrnarfulltrúa í fulltrúaráð SSH.
Tillagan sækir fyrirmynd sína í 50. gr. sveitarstjórnarlaga sem heimilar framboðum, sem ekki hafa fengið nægilegt magn atkvæða til að fá fulltrúa kjörinn í bæjarráð og aðrar nefndir, að tilnefnda áheyrnarfulltrúa með málfrelsi og tillögurétt en þó ekki atkvæðisrétt. Tilgangurinn með ákvæðinu er að veita öllum framboðum sem ná inn manni í sveitarstjórn jafnan aðgang að því starfi sem fram fer á vettvangi sveitarstjórna, þ.e. jöfn tækifæri til að koma skoðunum sínum á framfæri, nýta málfrelsið og tillöguréttinn. Framboðin eru jú að því leyti öll jöfn fyrir lögum.
Tillagan sem nú liggur fyrir aðalfundi SSH snýst því um að veita öllum framboðum sem náð hafa kosningu jafnan aðgang að málefnastarfinu og þar með efla lýðræðið, eins og segir í greinargerð með frumvarpinu.
Öll sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu heimila áheyrnarfulltrúa í bæjarráði. Öll nema eitt (Garðabær) heimila áheyrnarfulltrúa í nefndum. SSH er því eftirbátur flestra aðildarfélaga sinna í því að nýta sér þau tæki sem löggjafinn hefur hannað til að þróa starfsaðferðir sínar í lýðræðisátt.
En tillagan snýst líka um jafnan rétt til upplýsinga. Sá þáttur er ekki síður mikilvægur. Og síðast en ekki síst jafnan rétt kjósenda, því eins og staðan er í dag, fer það ekki alltaf eftir magni atkvæða hvort framboð fá fulltrúa kjörinn í nefndir og ráð, heldur hvort þau eiga aðild að meirihlutasamstarfi. Samkvæmt því hafa atkvæði því mismunandi vægi. Löggjafinn hefur þróað tæki til að jafna það með ákvæði um áheyrnarfulltrúa. Með því að samþykkja breytingatillöguna taka Samtök sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu því af allan vafa um það að þau séu lýðræðislegur vettvangur og það er ekki lítið.”
Hér er aðeins um gleðilegt hænuskref í lýðræðisátt að ræða því ákvæðið á aðeins við um fulltrúaráð SSH, þ.e. ekki svæðisskipulagsnefnd og byggðasamlögin.
Breyting á 6. gr. um fulltrúaráð:
Óbreyttur texti: Eingöngu aðalmenn í sveitarstjórn eru kjörgengir í fulltrúaráðið. Fulltrúar sveitarfélaganna sem skipaðir eru samkvæmt framangreindu hafa atkvæðisrétt á fundum fulltrúaráðsins.
Viðbótin: Framboði sem á kjörinn fulltrúa í sveitarstjórn en á ekki kjörinn fulltrúa í fulltrúaráðinu skv. framangreindu er þó heimilt að tilnefna einn fulltrúa til setu í fulltrúaráðinu með málfrelsi og tillögurétt.
Sigrún H Pálsdóttir
by admin42 | 10 Sep, 2016 | Fréttir
Beiðni verktakafyrirtækis um “Samstarf um þróun og uppbyggingu lóða við Sunnukrika 3-9” var á dagskrá fundar bæjarráðs 8. september sl. Afgreiðslunni var frestað þar sem fleiri hafa sýnt lóðunum áhuga. Fulltrúi Íbúahreyfingarinnar kynnti samt afstöðu sína til málsins og óskaði jafnframt eftir upplýsingum um hvernig Mosfellsbær hefur staðið að því að auglýsa lóðirnar.
Samráð við íbúa og hugmyndavinna
Til að gera langa sögu stutta er afstaða Íbúahreyfingarinnar sú að réttast sé að Mosfellsbær efni til íbúafundar áður en bæjarráð tekur afstöðu til hugmynda verktakanna um nýtingu lóðanna en þær tilheyra miðbænum. Í kjölfarið yrði efnt til hugmyndasamkeppni meðal arkitekta um þróun svæðisins. Hlutverk Mosfellsbæjar yrði síðan að efna til útboðs á grundvelli vinningstillögunnar.
Þessi nálgun er öfug á við þá sem rædd var á bæjarráðsfundi 8. september en henni er ætlað að tryggja fagmennsku; velta hverjum steini áður en ákvörðun er tekin. Þetta er nú einu sinni miðbærinn okkar.
Ástæða þess að Íbúahreyfingin leggur til að þessi leið verði farin er að hugmyndir eru uppi um að gera Sunnukrikann að ferðaþjónustusvæði en það hefur ekki verið inn í myndinni fyrr en nú og þarfnast umræðu í bæjarfélaginu. Að mati Íbúahreyfingarinnar er ekki nóg að fyrir liggi sú skilgreining í skipulagi að Sunnukriki sé atvinnu- og þjónustusvæði. Ferðaþjónusta með hótelrekstri svo nær skóla og íbúabyggð er eitthvað sem þarf að ræða. Það má vel vera að þær tillögur sem uppi eru séu góðar en vöndum til verka og höfum íbúa með í ráðum.
Söluverð lóða þarfnast endurmats
Önnur ástæða er sú að byggingarmarkaðurinn er að glæðast og því ávinningur af því fyrir bæjarsjóð að auglýsa lóðirnar að nýju og selja á markaðsvirði en ekki með þeim afslætti sem Mosfellsbær freistaðist til að bjóða upp á þegar byggingariðnaðurinn var í sem mestri lægð árið 2012. Í ljósi breyttra aðstæðna á markaði og hækkandi lóðaverðs á höfuðborgarsvæðinu telur Íbúahreyfingin ekki lengur verjandi að selja lóðirnar með afslætti á forsendum efnahagshruns.
En það er annar vinkill á þessu máli. Mosfellingar eru ekki í neinu tímahraki. Í framtíðinni eiga lóðirnar eftir að hækka í verði enda fyrirsjáanlegur skortur á lóðum á höfuðborgarsvæðinu, sbr. spár um fólksfjölgun.
Lóðirnar þurfa betri auglýsingu
Á fundi bæjarráðs óskaði Íbúahreyfingin eftir upplýsingum um hvort og hvernig lóðirnar hafa verið auglýstar. Ef marka má leitarvélar samtímans hafa þær hlotið litla almenna kynningu, nema helst innanbæjar, frá því að Mosfellsbær efndi til blaðamannafundar til að auglýsa lækkun lóðaverðs í lok árs 2012 og auglýsingaritinu, Möguleikar í Mosfellsbæ, var dreift með Morgunblaðinu vorið 2013.
Í stuttu máli felur tillaga Íbúahreyfingarinnar í sér að lóðir við Sunnukrika 3-9 verði auglýstar að nýju á markaðsvirði að undangengnu samráði við íbúa og fagfólk um þróun byggðar.
Sigrún H Pálsdóttir, bæjarfulltrúi
Hægt er að skoða tillögur um þróun og uppbyggingu lóða í Sunnukrika á vef Mosfellsbæjar undir fundargerð bæjarráðs nr. 1272: Vefur Mosfellsbæjar
by admin42 | 25 Aug, 2016 | Fréttir
Einkasjúkrahús var aftur til umræðu á fundi bæjarráðs Mosfellsbæjar í dag. Á fundi bæjarstjórnar 17. ágúst sl. hafði fulltrúi Íbúahreyfingarinnar gagnrýnt ákvörðun fulltrúa D- og S-lista í bæjarráði um að úthluta huldumönnum lóð undir sjúkrahúsið án þess að afla nauðsynlegra upplýsinga um getu þeirra og hæfi til að ráða við slíkt verkefni. Frá athugasemdum Íbúahreyfingarinnar var greint í öllum helstu fjölmiðlum landsins. Nú virðist sem fulltrúar S-lista hafi séð að sér og tillaga þeirra þess efnis að “ábyrgur aðili s.s. endurskoðandi bæjarins” verði fenginn til að kanna stöðu og fjárfestingasögu þeirra aðila sem hyggjast standa fyrir byggingu einkasjúkrahúss og hótels í Mosfellsbæ var tekin fyrir á fundinum í morgun.
Bæjarstjóri hefur núþegar undirritað samninginn og telur Íbúahreyfingin að skaðinn sé því skeður, eins og fram kemur í eftirfarandi bókun:
“Bæjarfulltrúi Íbúahreyfingarinnar furðar sig á að fulltrúi S-lista skuli á fundi bæjarráðs 21. júlí hafa gefið samþykki sitt fyrir úthlutun lóðar undir einkasjúkrahús í Mosfellsbæ, án þess að fyrir ráðinu lægi áreiðanleikakönnun á hæfi og fjárhagslegum burðum umsækjenda. Tillaga um að kanna stöðu þeirra og fjárfestingarsögu nú er of seint fram komin þar sem bæjarstjóri hefur núþegar gengið frá samningi um úthlutun lóðanna.
Íbúahreyfingin telur að skaðinn sé núþegar skeður og eðlilegasta framhald þessa máls að bæjarráð taki vinnubrögð sín við úthlutun lóða sveitarfélagsins til skoðunar.”