Framboðslisti Íbúahreyfingarinnar 2014

Sigrún H. Pálsdóttir leiðir lista Íbúahreyfingarinnar

1. sæti. Sigrún H. Pálsdóttir,  verkefnisstjóri og leiðsögumaður.

1. sæti. Sigrún H. Pálsdóttir, verkefnisstjóri og leiðsögumaður.

Íbúahreyfingin í Mosfellsbæ býður fram öðru sinni í sveitarstjórnarkosningunum í vor. Sigrún H. Pálsdóttir verkefnisstjóri leiðir listann og tekur hún við keflinu af Jóni Jósef Bjarnasyni upplýsingatækniráðgjafa sem nú skipar annað sætið. Í heiðurssæti er Ingimar Sveinsson fyrrverandi bóndi og kennari í hestafræðum við Landbúnaðarháskólann á Hvanneyri.
Íbúahreyfingin náði þeim glæsta árangri í síðustu kosningum að verða annað stærsta stjórnmálaaflið í Mosfellsbæ með 15,2% atkvæða og einn bæjarfulltrúa kjörinn.
Á kjörtímabilinu hefur Íbúahreyfingin unnið að lýðræðisvæðingu og gegnsæi í stjórnsýslunni og sinnt mikilvægu aðhaldshlutverki minnihlutavalds. Þar er enn verk að vinna og Sigrún hefur á kjörtímabilinu vakið athygli fyrir ötult starf í þágu umhverfismála og lýðræðislegra vinnubragða í stjórnsýslu og nefndarstarfi.
Opnir og lýðræðislegir stjórnarhættir eru mikið hagsmunamál fyrir íbúa að mati Íbúahreyfingarinnar því þeir stuðla að málefnalegri meðferð mála og réttlátari og hagkvæmari ráðstöfun fjár. Ráðandi öfl fá þannig aðhald og verða síður ofurseld þrýstingi sérhagsmunaaðila.
Uppbygging skólamannvirkja er þó stóra kosningamálið og mun Íbúahreyfingin leggja því lið eins og öðrum samfélagslega mikilvægum verkefnum.

Fullskipaður listi íbúahreyfingarinnar:

1. sæti. Sigrún H. Pálsdóttir, verkefnisstjóri og leiðsögumaður
2. sæti. Jón Jósef Bjarnason, ráðgjafi og hluthafi hjá IT ráðgjöf ehf.
3. sæti. Hildur Margrétardóttir, myndlistarkona og kennari
4. sæti. Jón Jóhannsson, glerlistamaður og garðyrkjubóndi
5. sæti. Birta Jóhannesdóttir, leiðsögumaður og klínískur tannsmiður
6. sæti. Þórður Björn Sigurðsson, mannfræðingur
7. sæti. Úrsúla Jünemann, kennari og leiðsögumaður
8. sæti. Jóhannes B. Eðvarðsson, húsasmíðameistari
9. sæti. Kristín I. Pálsdóttir, bókmenntafræðingur
10. sæti. Emil Pétursson, húsasmíðameistari
11. sæti. Alma Ósk Guðjónsdóttir, leikskólakennari
12. sæti. Páll Kristjánsdóttir, hnífasmiður
13. sæti. Sæunn Þorsteinsdóttir, myndlistarkona og verkstæðisstýra
14. sæti. Valdís Steinarrsdóttir, skyndihjálparkennari
15. sæti. Sigrún Guðmundsdóttir, umhverfis- og auðlindafræðingur
16. sæti. Soffía Alice Sigurðardóttir, leiðsögumaður og listakona
17. sæti. Ellen Ruth Ingimundardóttir, dýralæknir
18. sæti. Ingimar Sveinsson, fv. bóndi og kennari í hestafræðum

Fagmennsku í fyrirrúm í skólamálum

1. sæti. Sigrún H. Pálsdóttir,  verkefnisstjóri og leiðsögumaður.

1. sæti. Sigrún H. Pálsdóttir, verkefnisstjóri og leiðsögumaður.

Við vitum öll að besta veganesti barnanna okkar út í lífið er góð menntun. Góð menntun er hins vegar ekki sjálfgefin því hún þarf rétta umgjörð og skiptir þar miklu að ráðandi stjórnmálaöfl haldi vöku sinni og sjái til þess að húsnæði sé fyrir hendi og skapi aðstæður fyrir metnaðarfullt innra starf.

Nú blasir við að sitjandi bæjarstjórnarmeirihluta í Mosfellsbæ hefur látið hjá líða að reisa skólamannvirki í takt við áætlanir um fjölgun íbúa. Grunnskólarnir eru ofsetnir og ljóst að fyrirhyggjuleysi hefur verið alls ráðandi, sbr. þriggja ára fjárhagsáætlun 2013-2015 en þar er ekki gert ráð fyrir fé í uppbyggingu skóla. Stóra kosningamálið í Mosfellsbæ er því skólamannvirki.

Það er ekki spurning að þetta mál þarf að leysa en það kostar óheyrilega peninga. Skóli kostar 2,4 milljarða miðað við 450 nemendur, sem er ráðlögð stærð, og í Mosfellsbæ þarf að reisa tvo skóla til að anna eftirspurn.

Nú hefur bæjarstjórinn oft stært sig af því að efnahagur sveitarfélagsins sé góður miðað við mörg önnur sveitarfélög sem farið hafa yfir 150% viðmið Sambands íslenskra sveitarfélaga um skuldir af reglulegum tekjum. Í Mosfellsbæ eru skuldirnar um 130%, – eða hvað?

Á óskalista framboðanna fyrir þessar kosningar eru tveir skólar og eitt fjölnota íþróttahús. Þessi verkefni kosta varlega áætlað hátt í 6 milljarða eða álíka mikið og sem nemur áætluðum tekjum sveitarfélagsins fyrir rekstrarárið 2014.

Og hvað þýðir það fyrir framtíðarskuldastöðu Mosfellsbæjar? Svarið er einfalt. Á næsta kjörtímabili er fátt annað til ráða en að skuldir fari yfir framangreint viðmið Sambands íslenskra sveitarfélaga sem þýðir að Mosfellsbær verður í framtíðinni í flokki þeirra sveitarfélaga sem nú þegar hafa reist slík mannvirki og skulda yfir 150% af reglulegum tekjum.

Ljóst er að vandinn er uppsafnaður og áleitin sú spurning af hverju var ekki var unnið að uppbyggingunni jafnt og þétt. Nú hefur Sjálfstæðisflokkurinn verið við völd í 12 ár. Ætli það sé skýringin? Hefði meirihlutinn unnið eftir raunhæfum langtímaáætlunum hefðu skuldir vissulega verið hærri en í staðinn sætu Mosfellingar ekki uppi með hátt í 800 nemendur í hvorum skóla og þjónustu við börnin sem komin er langt yfir þolmörk, sbr. stærð bekkja, skort á aðstöðu í frístundaseli og minnkandi þjónustu við börn með hegðunar- og námsvanda.

Það lítur beinlínis út fyrir að hagsmunum grunnskólabarna hafi hér verið fórnað fyrir sæmilega vel útlítandi rekstrarreikning. Fjárútlátin framundan eru þó af þeirri stærðargráðu að skuldir Mosfellsbæjar geta vart talist minni en þeirra sveitarfélaga sem farið hafa yfir 150% viðmiðið.

Það voru foreldrar sem vöktu athygli á því hvert stefndi og kröfðust þess að fá að vera með í ráðum. Í kjölfarið upphófst samráðsferli þar sem láðist að geta þess að Mosfellsbær gerði fyrir ári samning við Landsbankann um að reisa skóla í Helgafellshverfi. Allt tal um samráð um staðsetningu skóla á austursvæði virðist því hjómið eitt.

Svona vinnubrögð og samskiptahættir við íbúa eru ekki boðlegir. Framundan er það vandasama verkefni að fjármagna uppbyggingu skólamannavirkja og ákveða staðsetningu þeirra. Það verður að vinna málið faglega og í samstarfi foreldra og skóla og mun Íbúahreyfingin svo sannarlega ekki láta sitt eftir liggja þegar kemur að því á næsta kjörtímabili.

 Sigrún H. Pálsdóttir leiðir lista Íbúahreyfingarinnar

Greinin birtist í Mosfellingi 8. maí 2014

 

Innanbæjarvagn

8. sæti. Jóhannes B. Eðvarðsson, húsasmíðameistari

8. sæti. Jóhannes B. Eðvarðsson, húsasmíðameistari

Innanbæjarsamgöngur í Mosfellsbæ eru okkur í Íbúahreyfingunni mjög hugleikin og höfum við áhuga á að vinna að úrbótum á þeim.

Á opnum fundi skipulagsnefndar hinn 18. mars á þessu ári þar sem fjallað var um almenningssamgöngur spurði ég Einar Kristjánsson sviðstjóri skipulagssviðs Strætó bs. hvort að hann teldi að stærð og aðstæður væru orðnar þannig í Mosfellsbæ að koma þyrfti upp innanbæjarstrætó. Hann taldi svo vera. Í kjölfar þess lagði ég fram eftirfarandi tillögu í skipulagsnefnd sem fer með málefni strætó.

Fulltrúi íbúahreyfingarinnar leggur til að skipulagsnefnd óski eftir því að bæjarstjórn fái Strætó bs. til að gera leiðarkerfi fyrir innanbæjarvagn í Mosfellsbæ og kostnaðargreini.

Tillagan var samþykkt í nefndinni og jafnframt lagði formaður til að framkvæmdastjóra umhverfissviðs yrði falið, í samvinnu við Strætó bs., að koma með tillögur að framtíðarlausnum í almenningssamgöngum fyrir Mosfellsbæ sem gætu verið grunnur að samgöngustefnu sveitarfélagsins.

Vonandi tekur bæjarstjórn vel í þetta mál. Þó að það sé ljóst að kostnaður við innanbæjarvagn sé töluverður megum ekki gleyma því að á móti minnkar  annar kostnaður. Með þessu fyrirkomulagi þyrfti Mosfellsbær heldur ekki lengur að reka sérstakan skólavagn.

Innanbæjarvagn myndi gera almenningssamgöngur að betri kosti fyrir fleiri Mosfellinga þar sem betri  tenging fengist við vagnana sem fara til Reykjavíkur svo að ekki sé talað um jákvæð umhverfisáhrif. Minna slit verður á götum bæjarins vegna  þess að foreldrar þurfa ekki að skutla börnum sínum í tómstundir, umferð minnkar og þar með slysahætta, álag og kostnaður skutlforeldra og þar með aukast lífsgæði barnanna. Svo að fátt gott sé nefnt.

Jóhannes B. Eðvarðsson fulltrúi Íbúahreyfingarinnar í skipulagsnefnd

Greinin birtist í Mosfellingi 8. maí 2014.

Taktu við keflinu!

Taktu við keflinui!

Langar þig að hafa áhrif á samfélagið án þess að skrá þig
í hefðbundinn stjórnmálaflokk?
Íbúahreyfingin er óháð íbúaframboð sem bauð fyrst fram í síðustu sveitarstjórnarkosningum og varð upp úr því, annað stærsta stjórnmálaaflið í Mosfellsbæ. Jón Jósef Bjarnason hefur verið fulltrúi Íbúahreyfingarinnar í bæjarstjórn á yfirstandandi kjörtímabili. Nú er komið að endurnýjun og auglýsum við hér með eftir Mosfellingum til þátttöku í framboði okkar í vor.
Megináhersluatriði Íbúahreyfingarinnar eru gagnsæi opinberrar stjórnsýslu og íbúalýðræði.
Íbúahreyfingin hefur verið virkt aðhald gagnvart meirihluta bæjarstjórnar á kjörtímabilinu.
– Við teljum það mikilvægt hlutverk!
Ef þú vilt hafa áhrif á samfélagið án þess að skrá þig í hefðbundinn stjórnmálaflokk þá hafðu samband
við Jón Jósef í síma 897 9858 eða í netfangið: ibuahreyfingin@ibuahreyfingin.is.

Pin It on Pinterest