by ibuahreyfingin | 13 Sep, 2011 | Fréttir
Öll gögn í umsjón sveitarfélagsins, stofnanna þess, og fyrirtækja í eigu þess, að hluta eða öllu leiti skulu vera opin og aðgengileg almenningi án hindrana, nema brýnar ástæður séu til annars. Skilgreindar verða skýrar viðmiðunarreglur um hvað teljast gildar ástæður til hindrana með tilliti til persónuverndar, öryggissjónarmiða og annarra ríkari hagsmuna. Undantekningar skulu vera vel rökstuddar og skulu ekki hindra aðgang umfram nauðsyn. Við höfum einnig beitt okkur af alvöru fyrir gagnsæi launagreiðslna og flutt tillögur hjá Sambandi Ísl. Sveitarfélaga og í bæjarstjórn.
by ibuahreyfingin | 18 May, 2011 | Fréttir
Íbúahreyfingin í Mosfellsbæ boðar til opins fundar um gagnsæi og lýðræði í Listasalnum, Kjarna, Þverholti 2, miðvikudaginn 25. maí kl. 20.00 – 22.00
Dagskrá fundarins er eftirfarandi:
1. Leiðir til að styrkja og auka lýðræði í sveitarfélögum
Kristinn Már Ársælsson, heimspekingur, félagsfræðingur og stjórnarmaður í Lýðræðisfélaginu Öldu kynnir raunhæfar leiðir sem hafa reynst vel erlendis, t.d. við fjárhagsáætlunargerð sveitarfélaga, rekstur og stefnumótun skóla, löggæslu og annarra þátta.
2. Stefna og aðgerðir Íbúahreyfingarinnar í Mosfellsbæ í gagnsæis- og lýðræðismálum
Jón Jósef Bjarnason, bæjarfulltrúi Íbúahreyfingarinnar.
3. Kynning á Rel8 venslagrunni viðskiptalífsins
Kerfið sýnir m.a. hagsmunatengsl á myndrænan hátt og stuðlar að auknu gagnsæi í viðskiptalífinu
Jón Jósef Bjarnason, hönnuður Rel8 kerfisins
Eftir erindin gefst tími til umræðna.
Fundarstjóri: Kristín I. Pálsdóttir
Allir velkomnir!
Viðburðurinn á Facebook.com
ATH. Gengið er inn í Listasalinn á suð-vesturhorni Kjarna, hægra megin við snúningsdyrnar þar sem gengið er inn í bankann og upp á bæjarskrifstofurnar.
by ibuahreyfingin | 17 Feb, 2011 | Fréttir
Í byrjun febrúar 2011 barst bæjaryfirvöldum í Mosfellsbæ lögfræðiálit frá LEX sem sveitarfélagið lét gera vegna fyrirgrennslan Íbúahreyfingarinnar á lögmæti sjálfskuldarábyrgðar Mosfellsbæjar á láni Landsbanka til Helgafellsbygginga upp á 246 milljónir. Í innihaldi álitsins felst viðurkenning á því sjónarmiði sem Íbúahreyfingin hefur haldið á lofti, það er að umrædd sjálfskuldarábyrgð stangist á við sveitarstjórnarlög.
Í minnisblaði bæjarstjóra þar sem brugðist er við álitinu er því borið við að bæjaryfirvöld hafi talið að gerningar þeir sem til umfjöllunar eru í álitinu falli undir „daglegan rekstur“ bæjarfélagsins, en framkvæmdastjóri bæjarfélags má skv. sveitastjórnarlögum ábyrgjast fyrir hönd bæjarfélagsins slík minniháttar viðskipti. Íbúahreyfingin vísar þeirri túlkun á bug enda um mjög háa fjárhæð að ræða og viðskipti sem tæpast eiga sér hliðstæðu í bókhaldi bæjarfélagsins. Þá ber meðferð málsins þess merki að ekki hafi verið litið á afgreiðslu þess sem daglegan rekstur. Málið var afgreitt í bæjarráði og bæjarstjórn, sem varla er venja með daglegan rekstur sveitarfélagsins. Þá skrifar prókúruhafi bæjarins undir ábyrgðina með vísun í afgreiðslu 950. fundar bæjarráðs.
Þegar ráðist var í uppbyggingu íbúðahverfa samkvæmt „nýrri hugmyndafræði“ Sjálfstæðisflokksins um einkarekna samfélagsuppbyggingu var því heitið að enginn kostnaður félli á íbúa Mosfellsbæjar, eða eins og Haraldur Sverrisson, bæjarstjóri, orðaði það í blaðagrein haustið 2005:„Ljóst er að kostnaður við uppbyggingu leggst ekki á þá íbúa sem fyrir eru í bæjarfélaginu heldur stendur framkvæmdin sjálf undir þeim kostnaði. Þetta eru ánægjuleg tíðindi fyrir Mosfellinga.“
Undirritun sjálfskuldarábyrgðarinnar virðist því vera hvoru tveggja pólitískt skipbrot einkavæðingarstefnunnar og lögbrot. Í ljósi þess trúnaðarbrests sem orðinn er milli Mosfellinga og þeirra kjörnu fulltrúa sem ábyrgð bera á sjálfskuldarábyrgðinni fór Íbúahreyfingin fram á afsögn umræddra kjörinna fulltrúa á 552. fundi bæjarstjórnar í gær. Þá vill Íbúahreyfingin að málinu verði vísað til úrskurðar Innanríkisráðuneytisins.
Jón Jósef Bjarnason,
bæjarfulltrúi Íbúahreyfingarinnar í Mosfellsbæ
S: 897 9858
www.ibuahreyfingin.is
PS. Um Helgafellsbyggingar og Mosfellsbæ
Hjálagt er lögfræðiálit LEX.
by ibuahreyfingin | 17 Feb, 2011 | Fréttir
Jón Jósef Bjarnason, bæjarfulltrúi, bókaði eftirfarandi á fundi bæjarstjórnar Mosfellsbæjar 16. febrúar 2011 vegna umfjöllunar um sjálfskuldarábyrgðar bæjarins á láni til einkaaðila:
Bókun 1
Í námskeiðsefni Sambands Ísl. sveitarfélaga Hlutverk og ábyrgð sveitarstjórnarmanna eftir Önnu Guðrúnu Björnsdóttur, segir:
„Sveitarstjórnin er æðsta stjórnvald sveitarfélagsins. Sveitarstjórnarmaðurinn ber þar af leiðandi, sem fulltrúi í sveitarstjórn, hina endanlegu pólitísku ábyrgð á öllu sem gerist innan stjórnkerfis sveitarfélagsins, jafnvel þótt honum hafi ekki verið kunnugt um tiltekið mál. Sveitarstjórnarmaðurinn ber ábyrgð á ákvörðunum sem hann hefur átt þátt í að taka en það er líka hægt að draga hann til ábyrgðar ef hann hefur ekki brugðist við aðstæðum sem hann hefði átt að bregðast við.
Í lögfræðiáliti sem lögmannsstofan Lex vann fyrir Mosfellsbæ vegna þess máls sem hér er til umræðu segir:
„Fyrir liggur því að ábyrgð á lánveitingum til handa Helgafellsbyggingum hf. uppfyllti ekki skilyrði 6. mgr. 73. gr. sveitarstjórnarlaga enda var félagið hvorki í eigu sveitarfélagsins né í eigu annarra opinberra aðila á þeim tíma sem umræddir gerningar voru framkvæmdir.“
6. mgr. 73. gr. kveður á um að sveitarstjórnum sé óheimilt að ábyrgjast skuldir einkaaðila og um ákvæðið segir í áliti Lex að það „er talið fortakslaust og ófrávíkjanlegt þegar ábyrgðir sveitarfélaga eru veittar.“
Í ljósi þess sem að framan greinir fer Íbúahreyfingin fram á afsögn þeirra kjörnu fulltrúa sem ábyrgð bera á 246 milljóna sjálfskuldarábyrgð Mosfellsbæjar á láni til einkaaðila.
Íbúahreyfingin fer fram á að málinu verði vísað til úrskurðar Innanríkisráðuneytisins.
Þá leggur Íbúahreyfingin til að tekið verði til sérstakrar skoðunnar hvers vegna endurskoðendur gerðu engar athugasemdir á ársreikningum varðandi þessi meintu lögbrot fyrrverandi bæjarstjórnar. Draga verður faglega tortryggni endurskoðendanna í efa í ljósi þess að þeir telja sig ekki geta greint hvað teljist til daglegs reksturs, skv. umbeðnu áliti þeirra, en hér er um að ræða viðskipti sem eiga sér enga hliðstæðu í bókhaldi sveitarfélagsins.
Bókun 2
6. mgr. 73. Gr. Sveitarstjórnar hljóðar svona:
„Eigi má binda sveitarsjóð í ábyrgðir vegna skuldbindinga annarra aðila en stofnana sveitarfélagsins. Prókúruhafa sveitarsjóðs er þó heimilt fyrir hönd sveitarfélags að ábyrgjast með framsalsáritun greiðslu viðskiptaskjala sem sveitarfélagið hefur eignast á eðlilegan hátt í tengslum við daglegan rekstur þess.“
Í bréfi bæjarstjóra er því borið við að sjálfskuldarábyrgð bæjarins sé til komin vegna túlkunar á orðalaginu „daglegur rekstur“.
Í fyrsta lagi er álit Lex alveg skýrt að þessu leiti en þar segir:
„Þótt hugtakið „daglegur rekstur” sé ekki skilgreint sérstaklega í sveitarstjórnarlögunum, þá má með hliðsjón af venjulegri orðskýringu, öðrum ákvæðum laganna og með hliðsjón af eðli og umfangi starfseminnar, afmarka hugtakið við það sem getur talist eðlilegt í daglegum störfum framkvæmdastjóra, þ.e. þeim störfum sem hann kann að þurfa að framkvæma daglega. Alla jafna myndu þannig ráðstafanir sem eru óvenjulegar eða mikilsháttar ekki falla undir hinn daglega rekstur.“
Í öðru lagi er málsmeðferðin í sjálfri sér viðurkenning á því að ekki var litið á afgreiðslu málsins sem daglegan rekstur. Það var afgreitt í bæjarráði og bæjarstjórn, sem varla er venja með daglegan rekstur bæjarins, enda skrifar prókúruhafi bæjarins undir sjálfskuldarábyrgðina með vísun í afgreiðslu 950. fundar bæjarráðs.
Íbúahreyfingin lítur svo á að hagsmunagæsla fyrir íbúana geti aldrei falið í sér lögbrot.
by ibuahreyfingin | 15 Feb, 2011 | Fréttir
Íbúahreyfingin leggur áherslu á aukið íbúalýðræði og gegnsæa stjórnsýslu. Á þeim forsednum hefur Íbúahreyfingin í Mosfellsbæ starfað að því að fundir bæjarstjórnar verði hljóðritaðir og gerðir almenningi aðgengilegir.
Miðvikudaginn 16. febrúar stendur til að hljóðrita fund bæjarstjórnar af hálfu Mosfellsbæjar í fyrsta sinn og lýsir Íbúahreyfingin yfir ánægju með þá þróun.
Íbúahreyfingin væntir þess að upptökur af fundum bæjarstjórnar verði framvegis aðgengilegar á heimasíðu sveitarfélagsins.
Mosfellsbær 15.02.11
Jón Jósef Bjarnason,
bæjarfulltrúi Íbúahreyfingarinnar í Mosfellsbæ.
by ibuahreyfingin | 19 Oct, 2010 | Fréttir
Málefnafundir Íbúahreyfingarinnar eru öllum opnir og eru þeir haldnir í Brekkunni, Álafossvegi 27. Við erum búin að gera áætlun um fundi fram að jólum, með fyrirvara um breytingar.
Mánud. 1. nóv. kl. 18.00 Málefnafundur
Laugard. 13. nóv. 10-17 Vinnudagur Íbúahreyfingarinnar
Þriðud. 16. nóv. kl. 17.15 Málefnafundur
Mánud. 29. nóv. kl. 18.00 Málefnafundur
Þriðud. 14. des. kl. 17.15 Málefnafundur
Við hvetjum bæjarbúa til að mæta á fundina ekki síst ef eitthvað sem er til umfjöllunar hjá stjórnsýslunni brennur á fólki. Einnig minnum við á að bæjarstjórnarfundir eru haldnir annan hvern miðvikudag kl. 16.30 og eru öllum opnir.
Hægra megin á síðunni er kominn liðurinn Á döfinni og þar má í framtíðinni sjá dagskrá Íbúahreyfingarinnar.