by admin42 | 21 May, 2018 | Fréttir
Mosfellsbær er fallegt samfélag með vinalegu fólki. Við konan mín fluttum í bæinn fyrir áramót með börnin okkar, Eric þriggja ára og Leiu fimm ára. Leikskólinn sem þau eru á er einn sá besti sem við höfum kynnst og grunnskólinn sem þau munu sækja virkar mjög traustvekjandi. Ég vona að börnin fái að njóta þess tómstundastarfs sem í boði er þegar fram líða stundir, en umfram allt vil ég að þeim líði vel.
En það eru blikur á lofti.
Ég hef áhyggjur af þróun skólamála í Mosfellsbæ þrátt fyrir stutta búsetu í bænum. Ég horfi á hverfi rísa þar sem tvöhundruð börn búa og er þeim ætlað að sækja skóla í öðru hverfi sem þegar er yfirsetinn. Önnur hverfi eru einnig í byggingu þar sem upphaflega var gert ráð fyrir 52 íbúðum en er samkvæmt deiliskipulagi er búið að hækka þá tölu í 212 íbúðir. Ekki er fyrirsjáanlegt í hvaða skóla börnin í því hverfi eiga að fara. Þessu hef ég áhyggjur af.
Það sem heillaði okkur fjölskylduna við bæinn var hugmyndin um heilnæmt og heilsusamlegt samfélag fyrir fjölskyldu okkar. Nánd við náttúru, barnvænt umhverfi og ásýnd bæjarins hafði áhrif á val okkar. Nú viljum hvergi annarsstaðar búa en ég hef áhyggjur. Þörfin fyrir nýtt húsnæði má ekki ganga á gæði skólaumhverfisins og upplifun barna okkar. Við megum ekki gefa eftir í skipulags- og skólamálum þó að við séum undir pressu að fjölga íbúðum í Mosfellsbæ.
Það eru blikur á lofti um að líðan barna og ungmenna fari versnandi og það sem kom okkur á óvart hvað einelti virðist vera algengt. Það er mikilvægt að við sýnum gott fordæmi og ráðumst saman í að vinna bug á þessum vanda fyrir börnin, unga fólkið og bæinn okkar. Hluti af þessu er að huga að samhliða uppbyggingu hverfa séu leikskólar og grunnskólar til staðar sem taki við nýjum nemendum. Skólarnir þurfa að vera vel mannaðir og hver skóli að hafa íþrótta- og tónlistaraðstöðu. Umfram allt verðum við að passa að börnunum okkar líði vel í skólanum sínum og heildræn samvinna sé milli fagaðila í málefnum skólabarna.
Mín framtíðarsýn fyrir bæinn er einföld. Ég vil heilnæmt og heilsusamlegt umhverfi fyrir börnin og að Mosfellsbær verði skipulagður af sérfræðingum í samstarfi við bæjarbúa. Taka þarf tillit til allra þátta sem eru nauðsynlegir hverju samfélagi, eins og skóla í nýjum hverfum.
Mosfellsbær á að vera með gagnsæja stjórnsýslu sem nýtir þátttöku bæjarbúa sem vegvísi til framtíðar. Með gegnsæi, fagmennsku og íbúaþátttöku að leiðarljósi verður bæjarfélagið okkar betra. Við sköpum vettvang fyrir einstaklinga og hópa til að taka þátt í umræðum um málefni Mosfellsbæjar. Við sýnum fordæmi hvernig við komum saman og leysum úr málum. Það væri gott veganesti fyrir unga fólkið okkar. Það væri mér heiður að fá að taka þátt í því starfi fyrir börnin okkar, nýja vini og nágranna. Framtíðin er í Mosfellsbæ.
Friðfinnur Finnbjörnsson er í 3. sæti Í-lista Íbúðahreyfingarinnar og Pírata í Mosfellsbæ. Greinin birtist í Mosfellingi 17. maí 2018.
by admin42 | 20 May, 2018 | Fréttir
Eitt af verkefnunum framundan er að takast á við húsnæðisvanda tekjulægri hópa í Mosfellsbæ. Á undanförnum árum hefur íbúðaverð og leiga hækkað langt umfram launahækkanir og neyðarástand skapast sem bitnar hvað harðast á þeim sem hafa minnstar og lágar meðaltekjur.
Sveitarfélög eru í lykilstöðu til að hafa áhrif til lækkunar á húsnæðisverði. Þau hafa skipulagsvaldið og ber lagaleg skylda til að sjá þeim efnaminnstu fyrir húsnæði. Undir stjórn D- og V-lista hefur Mosfellsbær sýnt litla fyrirhyggju þegar kemur að því að ráða bót á þessum vanda og beita sér fyrir lækkun íbúða- og leiguverðs.
Félagslegt húsnæði í lágmarki
Samkvæmt könnun Velferðarráðuneytisins frá árinu 2016 er framboð á félagslegu húsnæði misjafnt eftir sveitarfélögum. Samt er það verkefni lögbundið. Mosfellsbær kom illa út úr könnuninni og er framboðið hér með því lægsta sem gerist. Orsökin er sú að meirihluti D- og V-lista hefur fylgt þeirri stefnu að byggja hvorki né kaupa íbúðir.
Frá árinu 2002 hefur Mosfellsbær keypt eina félagslega íbúð til viðbótar við þær þrjátíu sem fyrir voru. Viðkvæðið hefur verið að taka frekar íbúðir á leigu með tilliti til fjölskyldustærðar. Sú stefna heldur þó ekki vatni í sveitarfélagi þar sem framboð á leiguhúsnæði hefur nánast ekki verið neitt þar til nú. Í dag er leigumarkaðurinn að glæðast og nýlega tók Mosfellsbær á leigu þrjár félagslegar íbúðir til viðbótar. Reyndar leysir það ekki málið því leiguverð stóru leigufélaganna er himinhátt og þau misjafnlega viljug til að leigja sveitarfélögum íbúðir í félagslegum tilgangi. Eina úrræðið er því að kaupa húsnæði eða setja kvaðir í skipulag um að byggjendur fjölbýlishúsa geri ráð fyrir svo og svo mörgum íbúðum fyrir tekjulægri hópa.
Unga fólkið og tekjulægstu 25%-in
Á Norðurlöndum er almennt miðað við að íbúar greiði ekki meira en 25% af launum sínum eftir skatta í húsnæðiskostnað. Á Íslandi er þetta hlutfall 50% samkvæmt upplýsingum Íbúðalánasjóðs. Margir búa því við lítið húsnæðisöryggi og eiga í erfiðleikum með að standa í skilum. Í þessum hópi er mest af ungu fólki, eftirlaunaþegum og námsmönnum.
Sveitarfélög hafa ýmsar leiðir til að hafa áhrif á verðþróun á húsnæðismarkaði. Mosfellsbær á reyndar ekki mikið af skipulögðu landi innan byggðarmarka en með örlítið meiri fyrirhyggju í kjölfar hrunsins hefði verið hægt að hafa áhrif þegar stór hluti byggingarlands varð eign bankastofnana. Það er umhugsunarefni af hverju Mosfellsbær nýtti ekki þetta tækifæri. Helgafellsland, Leirvogstunga, Lágafellsland og Blikastaðaland voru og eru að stórum hluta í eigu skilanefnda, banka og sparisjóða.
En hvað hefði sveitarfélagið getað gert?
Í fyrsta lagi að semja um kaup á landi og gera heildarendurskoðun á fyrirliggjandi skipulagi. Í kjölfarið setja kvaðir í skipulag. Í öðru lagi semja við byggingar- og leigufélög sem ekki eru hagnaðardrifin. Samkvæmt lögum um almennar íbúðir frá 2016 hafa Íbúðalánasjóður og sveitarfélögin heimild til að niðurgreiða húsnæði fyrir tekjulægri hópa um samtals 30% með svokölluðu stofnframlagi til byggingaraðila.
Nú er lag Mosfellingur góður til að rjúfa kyrrstöðu í húsnæðismálum ungs fólks og tekjulægri hópa. Með því að setja X við Í á kjördag kjósið þið stjórnmálaafl sem starfar af festu og heiðarleika fyrir alla.
Sigrún H. Pálsdóttir er oddviti Í-lista íbúahreyfingar og Pírata. Grein birtist í Mosfellingi 17. maí 2018
by admin42 | 19 May, 2018 | Fréttir
Lýðræði byggir á þátttöku almennings í ákvörðunum er hann varðar. Í lýðræðissamfélagi á valdið sér uppsprettu hjá fólkinu. Í menntastefnu fyrir öll skólastig frá 2011 er lögð áhersla á að borgarar taki lýðræðislega afstöðu til álitaefna, frá siðferðislegum áherslum til ákvarðana um mótun samfélagsins og ráði þannig í sameiningu öllum meiriháttar málum sínum. Í beinu lýðræði eru haldin regluleg íbúaþing um helstu málefni bæjarfélagsins, þar sem íbúar upplifa að þeir geti haft raunverulega aðkomu að ákvarðanatöku og að hlustað sé á það sem þeir hafa fram að færa. Lykilatriði er að íbúar finni að það sem þeir leggja til skipti máli. Að loknum fundum eru málefnin tekin saman og íbúum gert fært að fylgjast með framvindu mála.
Lýðræðið á undir högg að sækja
Í Mosfellsbæ hefur sú stjórnmálamenning skapast að niðurlægja pólitíska keppinauta. Bæjarstjóri hefur gengið svo langt að setja hömlur á upplýsingagjöf til löglega kjörinna bæjarfulltrúa með því að mæla svo fyrir að allar upplýsingar um ákveðna þætti stjórnsýslunnar sé einungis hægt að sækja í gegnum hann sjálfan. Slík vinnubrögð á ekki að líða. Aðgengi að upplýsingum er ein af grundvallarforsendum lýðræðislegs samfélags.
Í-listinn leggur áherslu á að stjórnmálamenn hlusti á íbúana og ræði allar hliðar mála, hvaðan sem hugmyndirnar koma. Að ákvarðanir séu teknar í samráði og með málamiðlunum þar sem á þarf að halda. Við viljum setja hámarkstíma á setu bæjarfulltrúa í embætti, sem mætti vera tvö til þrjú kjörtímabil. Þannig er mögulegt að koma í veg fyrir að óæskilegar venjur og hagsmunatengsl nái að festa sig í sessi og að endurnýjun verði í öllum flokkum. Við viljum að ópólitískur bæjarstjóri verði ráðinn til að stuðla að meiri fa gmennsku og gæta að velferð allra Mosfellinga.
Kjósum gegnsæi og fagmennsku
Í-listinn hvetur til þess að skipulag og fjárhagsáætlanir séu gerðar á ábyrgan og gegnsæjan hátt. Íbúahreyfingin hefur hvatt til opins bókhalds á yfirstandandi kjörtímabili líkt og Píratar hafa unnið að hjá Reykjavíkurborg. Í-listinn fagnar því að bókhald Mosfellbæjar verði loks opið öllum. Aðhald er mikilvægt svo traust og ábyrg fjármálastjórnun eigi sér stað.
Íbúahreyfingin hefur unnið að því gera störf bæjarstjórnar gegnsæ svo sú vinna sé sýnileg borgurum. Að upptökur séu til af fundum og að auðvelt sé að nálgast þær. Nefndarfundir Mosfellsbæjar eru í dag ekki opnir og því verður að breyta. Þegar trúnaður þarf að ríkja um viðkvæm málefni samkvæmt persónuverndarlögum má gera undantekningar, en aðrar upplýsingar eiga að vera aðgengilegar. Fundargerðir allra funda bæjarfélagsins eru mjög stuttar og í þær vantar ítarefni eins og hvernig atkvæði falla. Upptökur af fundum bæjarstjórnar eiga að vera merktar dagskrárliðum og þannig gerðar aðgengilegar á vefsíðu. Í-listinn mun berjast fyrir því að bæta þessa annmarka á vinnubrögðum bæjarstjórnar.
Þann 26. maí næstkomandi þurfa frambjóðendur að endurnýja umboð sitt. Þegar sömu öfl eru við völd of lengi er hætt við stöðnun. Við á Í-lista Íbúahreyfingarinnar og Pírata hvetjum alla bæjarbúa til að horfa langt fram á veginn og hugsa um tækifæri komandi kynslóða.Veljum traust, heiðarleika og gagnsæi
Kristín Vala Ragnarsdóttir er í 2. sæti á Í-lista Íbúahreyfingarinnar og Pírata í Mosfellsbæ. Grein birtist fyrst í Mosfellingi, 17. maí 2018.
by admin42 | 16 May, 2018 | Fréttir
Íbúahreyfingin og Píratar lýsa yfir óánægju með að hafa ekki fengið fyrirliggjandi upplýsingar um ástand mannvirkja í Íþróttamiðstöðinni að Varmá.
Á íbúafundi Aftureldingar í Hlégarði í gær var dregin upp dökk mynd af ástandi mannvirkja félagsins og aðstöðu og aðbúnaði félaga. Yfirstjórn Aftureldingar var berorð og ljóst er að mælirinn er fullur!
Ástandið er verra en bæjarfulltrúi Íbúahreyfingarinnar var upplýstur um. Fundurinn í gær staðfestir þá skoðun okkar að stjórnsýsla Mosfellsbæjar sé ómarkviss og að ráðast þurfi í meiriháttar breytingar á stjórnarháttum í Mosfellsbæ. Það er ólíðandi að upplýsingar um alvarleika þessa máls skuli ekki hafa skilað sér inn á borð kjörinna fulltrúa, þrátt fyrir að framkvæmdastjóri Aftureldingar og yfirstjórn hafi ítrekað fundað með bæjarstjóra og embættismönnum.
Öll mál sem varða hagsmuni Mosfellinga og félaga sem starfa hér í þeirra þágu á að ræða opinskátt í nefndum og ráðum sveitarfélagsins. Öðruvísi geta kjörnir fulltrúar ekki starfað markvisst, brugðist við og gripið til aðgerða. Það hefur sjaldan verið augljósara en á fundinum í gær hve upplýsingagjöf innan stjórnkerfis Mosfellsbæjar er ábótavant. Í þessu tilviki hefur fjárhagsleg afkoma Aftureldingar skaðast og íþróttaiðkendur beðið heilsutjón á meðan beðið er eftir aðgerðum.
Íbúahreyfingin og Píratar leggja áherslu á að ráðinn verði ópólitískur bæjarstjóri á næsta kjörtímabili sem tengir starfsmenn bæjarins og kjörna fulltrúa á faglegan hátt svo stjórnkerfi Mosfellsbæjar þjóni íbúum betur. Markmiðið er að tryggja að hagsmunir og velferð Mosfellinga séu höfð að leiðarljósi í allri stjórnsýslu. Upplýsingum sé miðlað og reglum framfylgt svo kjörnir fulltrúar nái að sinna hlutverki sínu gagnvart íbúum sveitarfélagins.
Ungmennafélagið Afturelding er stærsti félagslegi vettvangur barna- og foreldrastarfs í Mosfellsbæ og skylda okkar að standa vörð um það.
by admin42 | 11 May, 2018 | Fréttir
Erindi Íbúahreyfingarinnar um kosningaáróður Sjálfstæðisflokksins á bæjarskrifstofum var tekið fyrir í bæjarráði föstudaginn 11. maí sem tillaga 7. 201802082 – Sveitarstjórnarkosningar 2018.
Fyrir hönd Íbúahreyfingarinnar óskaði Sigrún Pálsdóttir eftir umfjöllun um auglýsingar framboða við bæjarskrifstofur Mosfellsbæjar. Tillaga Íbúahreyfingarinnar (sjá hér að neðan) snérist um að fulltrúar D-lista fjarlægðu kosningaáróður sinn úr gluggum Kjarnans og af vegg við innganginn að bæjarskrifstofunni:
,,Kjarni er opinber bygging sem hýsir bæjarskrifstofur Mosfellsbæjar, fundarsali bæjarstjórnar og bæjarráðs, auk annarra fagnefnda, Bókasafn Mosfellsbæjar, Listasal Mosfellsbæjar og Heilsugæslu Mosfellsbæjar. Í húsinu fundar einnig yfirkjörstjórn Mosfellsbæjar. Á Íslandi, eins og í öðrum lýðræðisríkjum, er grundvallarregla að hengja ekki upp kosningaráróður á og í opinberum byggingum. Íbúar í Mosfellsbæ eiga rétt á því að þeim sé hlíft við slíkum áróðri þegar þeir koma í erindagjörðum á bæjarskrifstofu sína. Íbúahreyfingin hvatti Sjálfstæðisflokkinn til að virða þá meginreglu að merkja framboði sínu ekki húsið sem í hugum Mosfellinga er ráðhús bæjarins.’’
Tillaga Íbúahreyfingarinnar var felld með 2 atkvæðum D-lista. S-listi sat hjá en bókaði samt kvörtun. Fulltrúi V-lista tók undir með D-lista enda eru þau með kosningaskrifstofu í sama húsi.
Markmið Íbúahreyfingarinnar með tillögunni var að vekja athygli á kosningaáróðri framboðsauglýsinga á Kjarnanum sem hýsir bæjarskrifstofur Mosfellsbæjar, Bókasafn Mosfellsbæjar, Listasal Mosfellsbæjar og Heilsugæslu Mosfellsbæjar auk þess fundar yfirkjörstjórn Mosfellsbæjar einnig í húsinu. D-listinn er í meirihluta og stýrir Mosfellsbæ úr bæjarskrifstofum Kjarnans.
Við í Íbúahreyfingunni og Pírötum teljum að jafnræði eigi að ríka og það að tillagan hafi verið felld veki upp alvarlegar spurningar um siðferði í stjórnmálum. D-listinn réttlætir merkingar sínar utan á húsi Kjarnans með að þetta hefur verið gert áður sem við teljum ekki vera grunn fyrir að gera það aftur. Annað áhugavert við þetta mál er að S-listinn sat hjá í atkvæðagreiðslunni en bókaði samt kvörtun vegna framboðsmerkinga á húsi Kjarnans og taldi merkingar óviðunandi í kvörtun sinni. Það vekur undrun að S-listinn getur ekki staðið með sér og kosið eftir eigin sannfæringu.
Öflugt aðhald hefur einkennt starf Íbúahreyfingarinnar í bæjarstjórn Mosfellsbæjar og ljóst er að þörf er á því áfram. Íbúahreyfingin og Pírtar fylgja eftir áherslum sínum af festu og heiðarleika og því verður engin breyting á!
by admin42 | 6 May, 2018 | Fréttir
Íbúahreyfingin og Píratar bjóða fram sameiginlegan lista í komandi sveitarstjórnarkosningum í Mosfellsbæ, undir listabókstafnum Í.
Stjórnmálahreyfingarnar tvær eiga margt sameiginlegt en báðar leggja áherslu á opna, gagnsæja og heilbrigða stjórnmálamenningu til að styrkja lýðræðið og efla borgara til að hafa áhrif á samfélagið. Það er mikilvægt að hafa kjark til að fylgja áherslum sínum eftir og Íbúahreyfingin hefur sýnt það í verki og því fagna Píratar.
Í Mosfellsbæ eru fjölmargar áskoranir framundan á sviði félagsþjónustu, menningarstarfsemi, skipulagsvinnu, útivistar- og umhverfismála. Eitt brýnasta verkefnið er þó án efa að aflétta neyðarástandi í húsnæðismálum ungs fólks og þeirra efnaminni í Mosfellsbæ.
Á sameiginlegum lista er fjölbreyttur hópur Mosfellinga með skýra sýn á verkefnin framundan. Með umboði kjósenda í kosningunum 26. maí munum við halda áfram öflugu starfi Íbúahreyfingarinnar, nú með liðsstyrk Pírata.
Framboðslisti Íbúahreyfingarinnar og Pírata
- Sigrún H. Pálsdóttir, bæjarfulltrúi og leiðsögumaður
- Kristín Vala Ragnarsdóttir, jarðfræðingur og háskólakennari
- Friðfinnur Finnbjörnsson, lagerstarfsmaður
- Nanna Vilhelmsdóttir, háskólanemi og áhugaleikkona
- Benedikt Erlingsson, leikstjóri
- Úrsúla Jünemann, kennari
- Gunnlaugur Johnson, arkitekt
- Marta Sveinbjörnsdóttir, mannfræðinemi
- Jón Jóhannsson, garðyrkjubóndi
- Sigrún Guðmundsdóttir, umhverfisfræðingur
- Birta Jóhannesdóttir, leiðsögumaður
- Emil Pétursson, húsasmíðameistari og leikmyndasmiður
- Hildur Margrétardóttir, myndlistarkona og Waldorfkennari
- Sigurður G. Tómasson, útvarpsmaður
- Páll Kristjánsson, hnífasmiður
- Eiríkur Heiðar Nilsson, hugbúnaðarfræðingur
- Sæunn Þorsteinsdóttir, myndlistarkona
- Kristín I. Pálsdóttir, verkefnisstjóri