Er við einhvern að sakast vegna fiskadauða í Varmá?

Er við einhvern að sakast vegna fiskadauða í Varmá?


Fiskadauði í Varmá verður á dagskrá fundar bæjarráðs Mosfellsbæjar á morgun 20. júlí. Það er því ekki úr vegi að gefa lesendum smá innsýn í það sem málshefjandi og bæjarfulltrúi Íbúahreyfingarinnar gerir ráð fyrir að ræða  á fundinum 🙂 :

Eins og fram kom í máli bæjarstjóra Mosfellsbæjar í tíufréttum RÚV 17. júlí er ekki við heilbrigðiseftirlitið eða starfsfólk Mosfellsbæjar að sakast vegna fiskadauða í Varmá. Þegar skýrslur og minnisblöð eru skoðaðar er það deginum ljósara að þeir hafa allir verið að vilja gerðir til að draga úr mengunarhættu og leysa þar með vandann. Hér nokkur dæmi:

1) Í skýrslu Heilbrigðiseftirlitsins um saurgerlamengun í Köldukvísl, Varmá og lækjum á vestursvæði frá 2011 segir:

“Æskilegt er að aðgerðaráætlun verði samin og samþykkt af heilbrigðisnefnd og Mosfellsbæ sem miðar að því að hreinsa árnar á sem styðstum tíma. Á sama tíma er mikilvægt að fræða almenning sem býr á svæðinu um ástand ánna á hverjum tíma því árnar endurspegla mjög vel álag sem mannleg starfsemi veldur í umhverfi sínu. Jafnframt að hvetja til ábyrgðar gagnvart umhverfi.”

2) Í minnisblaði Heilbrigðiseftirlitsins til umhverfisnefndar og bæjarráðs fyrrihluta árs 2014 segir:

“Heilbrigðisnefnd hvetur til þess að Mosfellsbær láti kortleggja þá staði sem æskilegt er að hreinsa ofanvatn frá íbúðar- og iðnaðarhverfum og að gerð verði langtímaáætlun um slíkar framkvæmdir með það markmiði að minnka óreglulega mengun í ám og lækjum. Heilbrigðisnefnd er reiðubúin til samstarfs um slíka vinnu. …

Heilbrigðiseftirlitið horfir sérstaklega til þess að núverandi ástand veldur áhættu þar sem ár og lækir eru leiksvæði barna og getur mengunin valdið þeim tjóni … . “

3) Framkvæmdastjóri umhverfissviðs tekur undir þessi sjónarmið og segir í minnisblaði frá 23.5.2014: 

“Í samræmi við ákvarðanir í bæjarráði frá árinu 2012 og 2013 er starfandi vinnuhópur umhverfissviðs og Heilbrigðiseftirlits sem hefur það verkefni að vinna að úrbótum vegna mengunar sem mælst hefur á undanförnum árum í nokkrum lækjum og við Hestaþinghól í Mosfellsbæ.”

“Lagt er til að útbúið verði fræðsluefni sem íbúar fái sent heim til sín. Þá verði unnin áætlun um útskiptingu rotþróa í hreinsivirki og unnar tillögur að hreinsun ofanvatns þar sem talin er þörf á því. Framangreint verði unnið af hálfu samstarfsnefndar Heilbrigðiseftirlits og umhverfissviðs sem nú þegar er að störfum og hafa látið þessi mál til sín taka með góðum árangri.”

4) Bæjarráð samþykkir þessar tillögur á fundi 26. maí 2014: 

“Samþykkt með þremur atkvæðum, í samræmi við minnisblað framkvæmdastjóra umhverfissviðs, að heimila að útbúið verði fræðsluefni sem íbúar fái sent heim til sín. Þá verði unnin áætlun um útskiptingu rotþróa í hreinsivirki og unnar tillögur að hreinsun ofanvatns þar sem talin er þörf á því. Framangreint verði unnið af hálfu samstarfsnefndar Heilbrigðiseftirlits og umhverfissviðs sem nú þegar er að störfum og hafa látið þessi mál til sín taka með góðum árangri.”

Eftir stendur spurningin um hvar hnífurinn stendur í kúnni? Af hverju var þessum framsæknu áætlunum ekki fylgt eftir?  Ósjálfrátt beinist athyglin að lýðræðislega kjörnum fulltrúum með bæjarstjóra í broddi fylkingar. Getur verið að verkstjórnin hafi brugðist?

Sigrún H Pálsdóttir, bæjarfulltrúi
S. 866 9376

Efnistaka í Seljadal á dagskrá í Mosfellsbæ enn á ný

Efnistaka í Seljadal á dagskrá í Mosfellsbæ enn á ný

Seljadalsnáma var einu sinni sem oftar til umræðu á fundi bæjarstjórnar Mosfellsbæjar í vikunni. Að þessu sinni var erindið að fá samþykki fyrir því að láta umhverfismeta námuna og svæðið þar í kring í þeim tilgangi að kanna fýsileika áframhaldandi efnistöku en hún hefur legið niðri frá því í fyrrasumar.
Til að gera langa sögu stutta hafnaði Íbúahreyfingin tillögu um nýtt umhverfismat. Ástæðan fyrir því er einföld. Íbúar  og sumarhúsaeigendur á svæðinu hafa í gegnum tíðina mátt þola mikið ónæði vegna grjótflutninga og óþægindi vegna ömurlegs ástands Hafravatnsvegar sem er ómalbikaður.
Hingað til hefur lítið borið á vilja hjá Mosfellsbæ til að beita sér fyrir vegabótum. Sveitarfélagið hefur bent á Vegagerðina sem veghaldara og í stað þess að styðja íbúa, sem margsinnis hafa kvartað yfir ástandinu, haldið því fram að íbúar eigi ekki lögvarða hagsmuni í málinu sem er rangt, skv. úrskurði Úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála frá árinu 2014 en þá kærðu íbúar þá “ákvörðun bæjarstjórnar Mosfellsbæjar að samþykkja veitingu framkvæmdaleyfis fyrir áframhaldandi efnistöku úr grjótnámu í Seljadal, … .” (Úrskurður UUA 118/2014)
Íbúar töpuðu málinu en í niðurstöðum úrskurðarnefndar segir engu að síður: “Kærendur ýmist eiga eða eru íbúar fasteigna sem standa flestar við Hafravatns- og Nesjavallaveg og fer meginþungi umferðar vörubifreiða vegna hinnar umdeildu efnistöku um þá vegi. Blasir því við að kærendur eiga lögvarða hagsmuni tengda hinni kærðu ákvörðun og skiptir ekki máli í því sambandi að efnistaka úr námunni hafi átt sér stað áður.”
Það vekur athygli að skilyrði um malbikun Hafravatnsvegar er heldur ekki að finna í samningum Mosfellsbæjar við framkvæmdaaðila. Það virðist því blasa við að sveitarfélagið hefur ekki gætt hagsmuna íbúa þegar leyfi fyrir efnistöku var veitt og ef marka má fullyrðingar um að íbúar eigi ekki aðild að málinu hefur áhugi verið af skornum skammti.
Í huga bæjarfulltrúa Íbúahreyfingarinnar er ljóst að það hlýtur ávallt að vera hlutverk sveitarfélags að verja hagsmuni og lífsgæði íbúa. Umhverfismat megnar ekki að tryggja það. Með því að samþykkja nýtt umhverfismat hefði Íbúahreyfingin verið að stíga skref í þá átt að hefja efnistöku á ný. Þar sem Mosfellsbær hefur hingað til ekki gætt hagsmuna íbúa í málinu var ekki annar kostur í stððunni en að hafna því.
Bæjarstjórn hefði verið í lófa lagið á fundinum sl. miðvikudag að skjalfesta að í þetta sinn væri ætlunin að sjá til þess að hagsmunir íbúa væru tryggðir. Það gerði hún hins vegar ekki og því er óvíst um framhaldið.
Á fundi bæjarráðs nr. 1309 bókaði fulltrúi Íbúahreyfingarinnar eftirfarandi:
“Bæjarfulltrúi Íbúahreyfingarinnar leggst gegn áframhaldandi efnistöku í Seljadalsnámu og þar af leiðir nýju umhverfismati. Enginn áhugi hefur verið fyrir því að viðhalda veginum milli Nesjavallavegar og Hafravatns þrátt fyrir óskir þar um en vegna þungaflutninga til og frá námunni hefur ástand hans verið afleitt og til stórfelldra óþæginda fyrir íbúa. Umhverfisúttektir hafa hingað til heldur ekki megnað að verja hagsmuni íbúa, hvorki hvað varðar áhrif þungaflutninganna, né önnur óþægindi sem af efnistökunni hljótast fyrir þá og er það ásamt áðurnefndu ástandi vegarins ástæðan fyrir því að Íbúahreyfingin telur ekki ástæðu til að fara út í þetta umfangsmikla verkefni.”
Úr jarðfræðilegri rannsókn Eflu sem umhverfissvið Mosfellsbæjar lét gera á námusvæðinu í Seljadal.
“Aðgengilegt efni á svæði (A) austan við núverandi námu er áætlað rúmlega 70.000 m3 , það geta verið allt að 150 – 180 þúsund tonn. Það er varlegt mat á svæðinu, sem líklega má auka um allt að 40.000 m3 . Þannig gæti heildarumfang þessa svæðis verið allt að 250.000 tonn, sem gæti jafngilt 5 – 8 ára notkun. …
Svæði (B) er 14.000 m2 en það hefur ekki verið rannsakað, þar sem ekki er vitað um berggerð þar undir né þá heldur þykkt á mögulegu vinnslulagi. En miðað er við fyrri reynslu af þykkt og útbreiðslu líkra bergeininga, þá gæti mögulegt kubbabergslag þar undir gefið af sér 120 – 200 þúsund m3 af vinnanlegu grjóti (>300.000 tonn).”
Myndin sýnir ástand Hafravatnsvegar að hausti.
Vegir ójöfnuðar eru margvíslegir

Vegir ójöfnuðar eru margvíslegir

Screen Shot 2017-05-30 at 10.26.39Fjöldi leiguíbúða á vegum sveitarfélaga er hvergi minni en í Mosfellsbæ að Garðabæ frátöldum. Varasjóður húsnæðismála og Velferðarráðuneytið hefur gefið út skýrslu um ástandið. Þar kemur fram að Mosfellsbær leigir út 0,31 íbúð á 100 íbúa. Til samanburðar eru íbúðirnar 1,99 í Reykjavík. Í skýrslunni eru margvíslegar upplýsingar og veitir hún góða innsýn í stöðuna hér. Mosfellsbær leigir, ásamt Garðabæ, Seltjarnarnesi og Hveragerði, fæstar íbúðir til efnaminni hópa. D-listi er við völd í öllum þessum sveitarfélögum og eru tölurnar sláandi.
Í umræðum um félagslegar íbúðir vísa fulltrúar D-lista í Mosfellsbæ gjarnan til þess að það sé stefnan að sveitarfélagið taki frekar íbúðir á leigu til að leigja út en byggja eða kaupa sjálft húsnæði. Gott og vel. Stefnan hefur þó hvergi leyst vandann því lítið sem ekkert framboð hefur verið á leiguhúsnæði á frjálsum markaði. Mosfellsbær hefur því lengi vel ekki getað tekið íbúðir á leigu til að svara þörfinni. Fyrrgreind stefna hefur því frekar verið skálkaskjól en úrræði fyrir íbúa í vanda en þeim fjölgaði til muna tímabundið í kjölfar Hrunsins.
Vegir ójöfnuðar eru margvíslegir og engu líkara en að fyrrgreind sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu nýti sér nálægðina við höfuðborgina og reyni með afar rýru framboði á félagslegu leiguhúsnæði að takmarka aðflutning og búsetu efnaminni. Þau lækka jafnvel útsvarið frekar en að bæta þessa oft tímabundnu þjónustu við íbúana. Afleiðingin er að íbúar sem þarfnast stuðnings þurfa að flytja annað og önnur sveitarfélög að greiða götu þeirra.
Í Mosfellsbæ hefur framboð á íbúðum á almennum markaði verið að glæðast og verður forvitnilegt að fylgjast með því hvaða áhrif það hefur á framboð á leiguíbúðum sveitarfélagsins. Þess má geta að nýverið tók Mosfellsbær 4 íbúðir á leigu til viðbótar þeim 30 sem fyrir eru þannig að hlutfall leiguíbúða er aðeins hærra en í skýrslunni. Íbúum hefur á sama tíma fjölgað og hefur það því lítil áhrif á tölfræðina.
Skýrslur sem fela í sér samanburð sem þennan eru mjög fræðandi fyrir sveitarstjórnarfulltrúa og aðra íbúa og ber að þakka Varasjóði húsnæðismála og Velferðarráðuneytinu fyrir að hafa lagt í þessa vinnu.

Hér er skýrslan.

Bæjarstjóri svarar gagnrýni með breyttum úthlutunarreglum

Bæjarstjóri svarar gagnrýni með breyttum úthlutunarreglum

Í morgun samþykkti bæjarráð Mosfellsbæjar erindi bæjarstjóra þess efnis að breyta reglum um úthlutun leigulóða. Það vekur athygli að ákvæði sem fjallar um að umsækjandi um lóð skuli sýna fram á að geta staðið undir áætlaðri fjárfestingu hefur verið breytt á þann veg að nú getur pólitískt skipað bæjarráð sett viðmið um skil fjármálaupplýsinga í hvert skipti sem það úthlutar lóð. Með því að breyta umræddu ákvæði er oddviti D-lista með stuðningi fulltrúa S-lista ekki einungis að treysta vald sitt, heldur líka að skjóta sér undan gagnrýni Íbúahreyfingarinnar vegna úthlutunar lóðar undir einkasjúkrahús fyrir erlenda auðkýfinga þar sem ekki var farið eftir reglunum.

Í núgildandi reglum um úthlutun lóða segir í grein 2.2.3:

“Einstaklingur sem umsækjandi um lóð skal leggja fram greiðslumat frá viðskiptabanka eða fjármálastofnun og skal greiðslumatið uppfylla þær kröfur er íbúðalánasjóður/ viðskiptabankarnir gera til lántakenda sinna, greiðslumatið skal bera það með sér að umsækjandi geti staðið undir þeirri fjárfestingu sem áætluð er og tilgreind í auglýsingu. Lögaðili sem umsækjandi um lóð skal leggja fram mat frá viðskiptabanka eða fjármálastofnun ásamt greinargerð umsækjanda sjálfs um að viðkomandi geti staðið undir þeirri fjárfestingu sem áætluð er og tilgreind í auglýsingu. “

Í nýju reglunum er þessu ákvæði breytt á eftirfarandi veg:

“Umsækjendur skulu geta sýnt fram á að þeir hafi fjárhagslega getu til að standa undir kostnaði við öflun lóðar og byggingu mannvirkja í samræmi við þau viðmið sem bæjarráð setur hverju sinni í úthlutnarskilmála.”

Með því að breyta lóðaúthlutunarreglunum er oddvitinn, eins og áður segir, ekki einungis að treysta vald sitt, heldur að skjóta sér undan gagnrýni. Íbúahreyfingin hefur ítrekað bent á að bæjarráð braut reglurnar þegar það úthlutaði skúffufyrirtæki í Hollandi lóð undir einkasjúkrahús fyrir erlenda auðkýfinga í júlí í fyrra. Reglurnar sem fara átti eftir kváðu á um að greiðslumat frá viðskiptabanka eða fjármálastofnun þyrfti að liggja fyrir þegar lóð væri úthlutað en ekki eftirá eins og raun varð á. Lóðarleigu- og kaupréttarsamningar voru þess í stað undirritaðir án nokkurra upplýsinga um fjárhagslegan bakgrunn Hendriks E. Middeldorps og Gunnars Ármannssonar og þeim veittur eins og hálfs árs frestur til að skila þeim en þess má geta að annar samningsaðilinn, Gunnar Ármannsson, hafi áður gert slíkan samning við Mosfellsbæ í nafni Primacare sem ekkert varð úr.

Skv. nýju reglunum er bæjarráði gefið svigrúm til að setja “viðmið” um fjármálaupplýsingar í útboðsskilmála “hverju sinni”. Í reynd verður það því þannig að tekin verður pólitísk ákvörðun um hvernig upplýsingum umsækjendur skuli skila í hvert skipti sem sótt er um tiltekna lóð. Ferlið er því orðið ógegnsætt og háð geðþóttaákvörðunum atkvæðisbærra fulltrúa D- og S-lista í bæjarráði.

Þess má geta að Úthlutunarreglur Mosfellsbæjar voru upphaflega settar í kjölfar gagnrýni frá félagsmálaráðuneytinu og Umboðsmanni alþingis í byrjun aldarinnar. Í þessari breytingu felst að mati Íbúahreyfingarinnar afturför til þess tíma.

Bókun M-lista Íbúahreyfingarinnar í bæjarráði 11. maí 2017
Bæjarfulltrúi Íbúahreyfingarinnar telur að breytingar á úthlutunarreglum frá 2011 gefi bæjarráði of mikið svigrúm til að úthluta lóðum eftir hentugleikum og auki ógagnsæi um úthlutun og mun því ekki greiða atkvæði með þeim.

Landsnet fundar um styrkingu Brennimelslínu í Mosfellsbæ

Landsnet fundar um styrkingu Brennimelslínu í Mosfellsbæ

Screen Shot 2017-01-19 at 12.19.43Hér á eftir fer gróf lýsing á því sem fram kom á fundi bæjaryfirvalda í Mosfellsbæ með Landsneti 18. janúar sl.
Landsnet hyggst auka flutningsgetu Brennimelslínu 1 og hafa fulltrúar fyrirtækisins nú kynnt hugmyndir sínar fyrir bæjaryfirvöldum. Fundurinn var liður í undirbúningi verkefnisins en línulagnir geta haft víðtæk áhrif á landslag og ásýnd svæða, virði lands, fuglalíf, vatnsból og annað lífríki. Náið samráð er því mikilvægt við þau sveitarfélög sem línan fer um.
Fyrirhuguð lína, Brennimelslína, mun liggja í um 40 m fjarlægð frá eldri og aflminni línu sem tekin verður niður og nefnist Brennimelslína 1. Möstur nýju línunnar eru allt að 4 m hærri en gömlu línunnar, auk þess sem haftið á möstrunum víkkar í allt að 36 m. Á móti kemur að möstrum fækkar þar sem vegalengd milli þeirra lengist. Flutningsgeta línunnar verður 400 kV í stað 220 kV áður. 
Brennimelslína mun liggja frá tengivirki við Lyklafell í landi Mosfellsbæjar, um Mosfellsheiði austan Grímannsfells, niður Kjósarskarð, yfir Hvalfjörð að Þyrli og þaðan að Brennimel í Hvalfirði þar sem hún tengist Sultartangalínu 3. Á sömu slóðum eru stóriðjufyrirtæki á Grundartanga.
Screen Shot 2017-01-19 at 12.22.40
Tilgangur verkefnisins er að sögn fulltrúa Landsnets að gera raforkukerfið á suðvesturhorninu afkastameira og tryggara. Einnig að tengja vestari hluta landsins betur við rafmagn.
Landsnet mun bera saman 3 valkosti:
A. Gömlu Brennimelslínuna sem liggur frá Geithálsi framhjá Hafravatni og þaðan áfram um Mosfellsheiði í Hvalfjörð en fyrirhugað er að taka þá línu niður ef nýja Brennimelslínan  (valkostur C) verður ofan á. Gamla línan er merkt með hvítum lit og liggur að stórum hluta samhliða rauðu línunni. Satt best að segja væri góður kostur fyrir Mosfellinga að losna við Geithálstengingu Brennimelslínu úr bæjarlandinu.
B. Jarðstrengur um Mosfellsbæ, Kjalarnes og Hvalfjörð. Blár litur.
C. Aflmeiri Brennimelslína sem lýst er hér að ofan. Rauður litur. Hún liggur ekki að Geithálsi.
Umræður á fundinum
Nú er ljóst að stóriðjufyrirtæki nota um 80% af því rafmagni sem framleitt er á Íslandi, heimilin um 6-10%. Fulltrúi Íbúahreyfingarinnar spurði því hvort fyrirhugað kísilver á Grundartanga kallaði á meiri flutningsgetu kerfisins, þ.e. þessa aukningu. Svarið var já og nei en einnig eitthvað á þá leið að þar sem jarðskjálftar eru tíðir væri líka nauðsynlegt að rafmagn gæti borist eftir fleiri en einni leið hvert svo sem það færi. Eins og sjá má á meðfylgjandi mynd mynda Sultartangalína 3, Búrfellslína 3 og Brennimelslína 1 hringekju, þ.e. ef Sultartangalína 3 dettur út fær suðvesturhornið og Vesturland rafmagn í gegnum Búrfellslínu 3 og Brennimelslínu eða öfugt.
Í ljósi þess hvað stóriðjan er stór notandi spurði Íbúahreyfingin einnig hver kostnaðarhlutdeild hennar væri í svo dýru verkefni. Það svar fékkst að hún greiðir fyrir rafmagn aðeins sem notandi, þ.e. stórnotandi en þeir greiða lægra verð en önnur fyrirtæki og heimili í landinu.
Fleiri fundir sveitarstjórnarfólks í Mosfellsbæ verða með Landsneti um Brennimelslínu. Einnig tengivirki við Lyklafell þar sem Brennimelslína, Búrfellslína 3 og Sandskeiðslína 2 (sem er hluti af Suðvesturlínu) mætast. Sá fundur er fyrirhugaður 31. janúar.
Gagnlegt væri að fá að vita hvað þið, Mosfellingar góðir, hafið um þessi mál að segja.
Tölvupóstur Íbúahreyfingarinnar er ibuahreyfingin@ibuahreyfingin.is
Sigrún H Pálsdóttir, bæjarfulltrúi
—————————
Hér til viðbótar ein mynd sem sýnir gömlu Brennimelslínu, valkost A, sem er hvítur  og nýju, valkost C, sem er rauður.
Valkostir A og C
Myndirnar eru í fylgigögnum Landnets.
Opinn fundur um Þingvallaveg – gróf samantekt

Opinn fundur um Þingvallaveg – gróf samantekt

Screen Shot 2017-01-16 at 19.42.05Umferðarhraði á Þingvallavegi í Mosfellsdal hefur lengi verið til umræðu í Mosfellsbæ. Íbúar í dalnum hafa verið uggandi og heitar umræður verið um hvernig draga megi úr umferðarhraða. Í dag, mánudaginn 16. janúar, hélt Mosfellsbær, opinn fund með íbúum um deiliskipulag vegarins sem  nú er í auglýsingu. Tillagan gengur út á að gera tvö hringtorg, eitt við Æsustaðaafleggjara og hitt við Helgadalsveg. Lega beggja hringtorga er umdeild og komu íbúar athugasemdum sínum á framfæri á fundinum.

Fulltrúi Íbúahreyfingarinnar gerði grófa samantekt á umræðum á fundinum og er öllum frjálst að bæta við hafi eitthvað gleymst sem mikilvægt er að komi fram.

Glósur opinn fundur um Þingvallaveg á Bókasafni Mosfellsbæjar kl. 17.00 mánudaginn 16. janúar 2017

Upphaf fundar, formaður skipulagsnefndar: 
Það er skoðun bæjarstjórnar að ástandið á Þingvallavegi í Mosfellsdal sé óásættanlegt. Vegagerðin er tilbúin til að bæta úr því. Engar hugmyndir eru uppi um tvíbreiðan veg. Málið snýst um öryggi. Haft hefur verið samband við hagsmunaaðila og vitað að það eru skiptar skoðanir.
28. janúar rennur út frestur til að skila inn athugasemdum. Mjög mikilvægt að þær berist á réttum tíma. Annars gerist ekkert. Senda á: olafurm@mos.is
Íbúi 1: Engin tenging við Gljúfrastein.  Mikilvægt að það sé ljóst segir Ragnheiður Ríkharðsdóttir.
Bryndís, formaður sk.nefndar: Verður leyst innan þess deiliskipulags sem gert verður í kringum Gljúfrastein. Möguleg aðkoma frá Helgadalsvegi.
Íbúi 2: Æsustaðaafleggjari mjög óheppilegur fyrir hringtorg. Virðist sem stuðst hafi verið við úrelt rammaskipulag. Stórt hús í veginum við Æsustaðaafleggjara. Komin stór bygging þar sem Björk var áður. Upphaflegar tillögur skynsamlegri en þeim hefur verið breytt.
Íbúi 3: Var það kirkjan sem breytti upphaflegum áætlunum? Er vilji hjá Mosfellsbæ til að breyta skipulaginu?
Bryndís, formaður sknefndar: Rétt að staðsetning var önnur á upphaflegum teikningum. Kirkjan var ósátt. Mos ekki á móti breytingum en umferðaröryggi í forgang.
Íbúi 3: Hver eru rök kirkjunnar? Vorum sátt við upphaflegar tillögur en allt í einu breyttist þetta. …
Íbúi 4: Þarf að færa hringtorgið upp fyrir brekkuna á heiðinni á móts við Grænuborg. Nægir ekki að hafa hringtorg fyrir neðan brekkuna. Mikill ökuhraði í brekkunni. Þarf að hægja á fyrr.
Íbúi 5: Umferð eykst til muna á Æsustaðavegi ef hringtorgið verður staðsett á afleggjaranum. Mikið af börnum býr við Æsustaðaveg og hætta samfara hringtorgi þarna.
Íbúi 6: Mikilvægt að setja undirgang eða brú yfir Þingvallaveg á þessum slóðum. Mikill samgangur í dalnum.
Íbúi 7: Er ekki ástæða til að færa Þingvallaveg annað? Verið að eyðileggja það sem íbúarnir í Mosfellsdal hafa varið árum í að byggja upp. Önnur leið fær. Vegstæði gamla Þingvallavegarins. 17 km leið þar sem fyrir er undirlag.
Bryndís, formaður sk.nefndar svarar því til að ekki sé verið að eyðileggja neitt. Bæjaryfirvöld séu að hugsa um öryggi vegfarenda.
Íbúi 8: Af hverju eru ekki allir tengdir hringtorgum. Ótal stútar/afleggjarar við veginn beggja vegna hringtorga. …
Sigrún Páls spyr af hverju vegakerfið í dalnum sé ekki skipulagt sem ein heild? Ekki ólíklegt að vegtengingar innansveitar eigi eftir að hafa áhrif á staðsetningu hringtorga. Því mikilvægt að skoða heildarmyndina. Óskynsamlegt að staðsetja hringtorgin án tillits til framtíðarskipulags. Íbúar líka uggandi um framhaldið.
Stútarnir líklegir til að stórauka slysahættu, sbr. slysið sem varð nýverið á Grindavíkurafleggjara við stútinn að Bláa lóninu.
Bryndís, formaður sk.nefndar: Vegagerðin telur að stútarnir auki ekki slysahættu. Það gæti tafið framkvæmdir að skipuleggja allar vegtengingar innansveitar. Ríður á að hefja framkvæmdir sem fyrst til að tryggja öryggi.
Að lokum! Er einhver á móti upphaflega skipulaginu spyr Bryndís?
Íbúar: Enginn andmæli. Allir sammála um að upphaflega skipulagið sé best, þ.e. hringtorg miðju vegar milli Æsustaðaafleggjara og Reykjahlíðarafleggjara.
Fundurinn var haldinn í bókasafninu og var hann fjölmennur. Fram koma að fulltrúar Vegagerðarinnar og kirkjunnar sáu sér ekki fært að mæta í dag. Annar fundur um sama efni verður haldinn á morgun 17. janúar og hafa fulltrúar kirkjunnar boðað komu sína á þann fund en kirkjan á land sem liggur að veginum í Mosfellsdal og er því hagsmunaaðili.
Sigrún P

Pin It on Pinterest