Enn vantar gagnsæi í Mosfellsbæ

Íbúalýðræði og gagnsæi var áberandi stefna hjá öllum flokkum í síðustu sveitarstjórnarkosningum. Stjórnmálaflokkar í Mosfellsbæ voru þar engin undantekning. Fagnaði ég því mjög og var bjartsýn á framhaldið.
Í mínum huga fellst íbúalýðræði í því að íbúar komi beint að skipulagningu málefna, t.a.m. á vinnufundum og að hugmyndir af slíkum fundum séu svo notaðar til viðmiðunar þegar skipulagsferli fer af stað. Hér í bæ hefur það því miður alltof oft gerst að íbúafundir eru ekki haldnir fyrr en mál eru komin í óafturkræf ferli. Dæmi um þetta er fundur um skólamál sem haldinn var í vetur án þess að íbúar vissu að þegar væri búið að skrifa undir samning milli Mosfellsbæjar og Landsbanka um að reisa skóla í Helgafellshverfi.
Þetta gerir það að verkum að íbúum finnst öll sín vinna unnin fyrir gíg og áhugi þeirra á að starfa fyrir bæjarfélagið minnkar þar sem þeim finnst ekki á sig hlustað. Ég vil að við breytum þessu, að við nýtum hugmyndir bæjarbúa um hvað þeir leggja áherslu á.
Að sjálfsögðu þurfum við nýja skóla og betri aðstöðu til íþróttaiðkunar. Við þurfum að vera örugg um vatnið okkar og að umhverfið sé ómengað og huga þarf að eldri borgurum, öryrkjum og unga fólkinu, okkur öllum. Hvað eigum við af peningum og á hverju eigum við að byrja? Væri ekki dásamlegt ef allt væri uppi á borðum?
Nefndarfundir væru opnir svo við gætum fylgst með umræðum sem þar fara fram eða að við gætum að minnsta kosti lesið fundargerðir og fengið allar upplýsingar um umræðuna ásamt fylgigögnum. Ég er sannfærð um að það myndi veita bæjarfulltrúum aðhald í fjármálum og myndi bæta framkomu þeirra hvers við annan.
Við getum gert svo miklu betur ef viljinn er fyrir hendi.
Auðurinn er hjá íbúum bæjarins, berum virðingu fyrir skoðunum þeirra og þekkingu á bænum okkar.

Birta Jóhannesdóttir

Greinin birtist í Mosfellingi 22. maí 2014.

Leiruvogur – náttúruperla í bæjarlandi

Eitt af því sem gerir Mosfellsbæ að góðum dvalarstað er mikil náttúrufegurð. Þetta á sérstaklega við um Leiruvog sem er að hluta til í Mosfellsbæ og að hluta í landi Reykjavíkur. Vogurinn er á náttúruminjaskrá en æskilegt væri að friðlýsa hann með öllu. Í lýsingu Umhverfisstofnunar á svæðinu segir að þar sé að finna fjölbreyttustu sjávarfitjar í nágrenni Reykjavíkur, mikið fuglalíf og sjaldgæfar plöntur.
Sem útivistarsvæði hefur Leiruvogur verulegt fræðslugildi enda alþjóðlega mikilvægur viðkomustaður farfugla. Um 50 fuglategundir hafa verið skráðar og eru margar þeirra á válista. Ísland ber alþjóðlega ábyrgð á mörgum fuglategundum t.d. margæs og rauðbrystingi sem eru umferðarfuglar í voginum.
Leirurnar eru forðabúr fæðu fyrir fugla. Á köldum vetrum og snemma á vorin gegna þær sérstaklega mikilvægu hlutverki fyrir ýmsar fuglategundir til að lifa af.
Leiruvogur er vel staðsettur í bæjarlandinu, gott aðgengi að honum og fínir göngustígar. Nálægðin við sjóinn og frábært útsýni til Esjunnar og á fellin gefur svæðinu sérstakan blæ þannig að margir íbúar höfuðborgarsvæðisins nýta sér voginn til útivistar. Til að hvíla og njóta mætti þó setja upp fleiri bekki.
Af því að vogurinn er svo vel staðsettur er tilvalið að nýta hann til náttúru- og umhverfisfræðslu fyrir nemendur í leik-, grunn- og framhaldsskólum.Til að auka fræðsluhlutverk svæðisins hefur nú þegar verið reist fuglaskoðunarhús við Langatanga en gera mætti mun betur. Húsið þarf að vera opið almenningi og undir eftirliti bæjarstarfsmanna þannig að það nýtist sem skyldi. Tilvalið væri að útbúa fuglafræðslustíg með tilheyrandi skiltum og upplýsingum.
Fuglaskoðun er vaxandi grein í ferðamennsku. Á Íslandi mætast fuglategundir frá tveimur heimsálfum sem gera landið sérstaklega spennandi fyrir fuglaáhugafólk.
Til að svæðið haldi verndargildi sínu er mikilvægt að ganga vel um það og forðast frekari mannvirkjagerð.
Íbúahreyfingin leggur áherslu á að Leiruvogur verði friðlýstur og vonar að það gangi eftir á næsta kjörtímabili.

Úrsúla Jünemann

Vorkvöld við Leiruvoginn

Nú í vor lagði ég á hest og fór með franskan vin minn sem er í heimsókn á landinu til að sýna honum eina af útivistarparadísum okkar Mosfellinga, Leiruvoginn. Við riðum niður Mosfellsdalinn niður að hesthúsahverfinu í átt að Korpuósum í blíðskaparveðri. Náttúran skartaði sínu fegursta. Síðan var riðið í Gunnunes og litið yfir eyjarnar. Þar var áð og hlustað á hinn erlenda gest dást að fegurðinni. Úr Gunnunesi var riðið í Víðines og þaðan tekin stefna á Langatanga.
„En bíðum nú við! Hvað er þetta?“ spurði gesturinn. Mig setti hljóðan þegar ég leit á læk eigi svo fagran og illa lyktandi sem streymdi úr skólpröri miðja vegu á milli Víðiness og Langatanga. Var mér illa brugðið við þessa upplifun í miðri útivistarparadísinni og Fransmaðurinn leit til fjalla. Eftir þetta duttu nokkuð niður umræður um fegurð íslenskrar náttúru og umhverfisgæði og var slegið í fáka til að forða sér frá frekari skaða.
Þegar heim var komið hafði ég samband við vin minn sem vinnur hjá Mosfellsbæ og spurði hverju þetta sætti. Jú, hann kannaðist við málið og sagði að bæjarstjórn og umhverfisnefnd gerðu það líka. Nokkrar götur í Mosfellsbæ væru vitlaust tengdar við veitukerfið og ekki hefði verið ráðist í úrbætur á því.
Það skýtur óneitanlega skökku við að þar sem umhverfismál í Mosfellsbæ hafa verið í höndum Vinstri grænna undanfarin átta ár að metnaðurinn sé ekki meiri en þessar lýsingar úr Leiruvoginum, sem er á náttúruminjaskrá, segja til um.
Nú hafa Vinstri grænir verið í hjónabandi með Sjálfstæðiflokknum í átta ár og er demantshringurinn kominn á loft fyrir næstu fjögur. Öðru vísi mér áður brá þegar Tommi Lár, Fróði Jó, Jón Gunnar, Alla á Reykjalundi, Gísli Snorra og fleiri voru í forystu fyrir vinstrimenn í Mosfellsbæ. Í þá daga var málefnalegur ágreiningur á milli vinstri manna og Sjálfstæðisflokks. Í dag er því ekki fyrir að fara en hjónabandssælan alger.
Ég skora á alla vinstrimenn í Mosfellsbæ að segja skilið við hjónabandssælu Vinstri (?) grænna og Sjálfstæðisflokks.
Kjósum ekki vinstrimenn sem ganga bundnir Sjálfstæðisflokknum til kosninga, kjósum X-M. Gleðilegt sumar!
Rock on!

Jón Jóhannsson

Greinin birtist í Mosfellingi 22. maí 2014.

Fagmennska ráði för í atvinnumálum

Það hefur lengi loðað við Mosfellsbæ að hér eru fáir vinnustaðir og atvinnutækifæri. Fyrir bæjarsjóð er þetta erfið staða þar sem bærinn verður af skatttekjum sem hann ella hefði fengið, auk þess sem af því hlýst óhagræði fyrir íbúa að sækja vinnu í önnur sveitarfélög.
Um tólf ára skeið hafa Sjálfstæðisflokkurinn og Vinstri grænir (frá 2006) sýnt af sér alvarlegan dómgreindarbrest í atvinnumálum í Mosfellsbæ sem lýst hefur sér í því að fyrir kosningar hefur sá fyrrnefndi gripið til þess ráðs að lofa kjósendum tröllaukinni atvinnuuppbyggingu, s.s. hnjáliðaskiptasjúkrahúsi með 1000 manns í vinnu, gagnaveri sem ekki er hægt að reisa á suðvesturhorninu sökum brennisteinsmengunar frá jarðvarmavirkjunum, kirkju- og menningarhúsi í miðbænum sem kirkjan átti svo ekki fyrir, íþrótta- og skólamannvirkjum í einkaframkvæmd og heilu íbúðahverfunum sömuleiðis. Á kjörtímabilinu átti svo að stofna villidýrasafn.
Ekkert af þessu hefur gengið eftir og ýmist Mosfellsbær eða bankarnir þurft að yfirtaka skuldbindingar einkafyrirtækja sem orðið hafa gjaldþrota s.s. vegna sundlaugar við Lágafell, uppbyggingar í Helgafellslandi og víðar.
Er eitthvað vit í þessu? Varla.
Atvinnuuppbygging er alvarlegt mál því fyrirtæki geta skapað sveitarfélaginu miklar tekjur. Það er því óskiljanlegt að með þau sé farið af slíkri léttúð.
Það sem hér virðist á skorta er faglega unnin atvinnustefna sem þýðir að Mosfellsbær þarf að byrja á því að að setja á fót atvinnumálanefnd, eins og tíðkast í öðrum sveitarfélögum. Í öðru lagi þarf að fá fólk með reynslu og þekkingu á atvinnuuppbyggingu til að koma að stefnumótunarstarfi nefndarinnar og síðast en ekki síst að stofna til samráðs við fólk og starfandi fyrirtæki í Mosfellsbæ um frekari uppbyggingu atvinnulífs.
Við fyrstu sýn virðist rökrétt að hlúa betur að því sem fyrir er og vinna með og út frá því sem hér er til staðar nú þegar.
Íbúahreyfingin telur að aðeins þannig verði mótuð raunhæf atvinnustefna sem færir bæjarsjóði auknar tekjur og Mosfellingum lífsgæði til framtíðar.

Sigrún H Pálsdóttir

Greinin birtist í Mosfellingi 22. maí 2014.

Kjósendur eiga val

Sigrún H. Pálsdóttir, skipar 1. sæti á lista Íbúahreyfingarinnar.

Sigrún H. Pálsdóttir, skipar 1. sæti á lista Íbúahreyfingarinnar.

Reynslan hefur kennt okkur að loforð stjórnmálaflokka fyrir kosningar gefa litlar vísbendingar um efndir að þeim loknum. Það er því stefna Íbúahreyfingarinnar að lofa engu nema því að vinna af alúð og trúmennsku að lýðræðisumbótum og gegnsæi í stjórnsýslu og nefndarstarfi á komandi kjörtímabili. Við viljum hafa allt upp á borðum því það veitir valdhöfum aðhald sem aftur hefur mikil og jákvæð áhrif á það hvernig fjármunum sveitarfélagsins er ráðstafað.
Áherslur Íbúahreyfingarinnar eru því ekki loforðalisti heldur okkar sýn á verkefni sem stuðla að góðu samfélagi og við viljum vinna að í nánu samstarfi við íbúa.
Íbúahreyfingin gerir kröfu um gott siðferði í stjórnmálum og leggur áherslu á ábyrga fjármálastjórnun. Loftkastalar eru ekki á okkar verkefnalista, heldur raunhæfar aðgerðir sem nýtast þeim sem á þurfa að halda og þjóna hagsmunum samfélagsins. Góð menntun barnanna okkar, trygg afkoma heimilanna, félagslegt réttlæti, góð heilsa og öruggt umhverfi eru okkar leiðarljós. Okkar verkefni er að forgangsraða og tryggja jafnræði við úthlutun fjár.
Það eru gömul sannindi og ný að það er engum stjórnmálaöflum hollt að drottna of lengi því þannig tapast aðhaldið sem er áhrifamesta stjórntæki bæjarbúa. D-listi hefur ráðið lögum og lofum í Mosfellsbæ í tólf ár og tími til kominn að hann fái tækifæri til að endurnýja sig. Þótt ýmislegt hafi verið gott, hefur of margt farið úrskeiðis og efndir oft og tíðum reynst litlar.
Það er fyrir tilstuðlan Íbúahreyfingarinnar að nú má hlusta á hljóðritanir frá bæjarstjórnarfundum. Mörg mál í þágu lýðræðislegra vinnubragða hafa verið reifuð og unnin saman af minnihlutanum í nefndum og bæjarstjórn. Með eftirgangsmunum hefur minnihlutinn þurft að sækja lögvarinn rétt allra stjórnmálaflokka til að fá mál sett á dagskrá funda og í tvígang hefur þurft að hlutast til um málið í bæjarstjórn. Við sem höfum setið í minnihluta undanfarin ár höfum verið minnt á það hvað eftir annað hversu stutt á veg kominn Mosfellsbær er í að innleiða lýðræðislegt verklag og það þrátt fyrir að mótuð hafi verið lýðræðisstefna árið 2011. Í henni er skýrt tekið fram að fundargerðir eigi að vera „lýsandi fyrir efni fundarins og þær ákvarðanir sem þar eru teknar og afstöðu einstakra nefndarmanna í því skyni að tryggja gagnsæi í nefndarstörfum“.
Í stað þess að bregðast við ábendingum hefur meirihlutinn farið í vörn og jafnvel varið gamaldags vinnubrögð við ritun fundargerða hvað ofan í æ. Þetta er slæmt því gegnsæi í nefndarstörfum hefur ríkan lýðræðislegan tilgang, þ.e. „að virkja íbúa til þátttöku í málefnum og stefnumótun sveitarfélagsins og tryggja þannig aukna þátttöku þeirra í ákvarðanatöku og mótun nærumhverfisins.“, segir í lýðræðisstefnunni.
Eins og sést á þessu er stefnumótun eitt og raunveruleiki annað hjá þeim sem ráða í Mosfellsbæ. Það er í raun óskiljanlegt hvað þetta er erfið fæðing því samfélagið kallar á breytt vinnubrögð í pólitík.
Íbúahreyfingin vill að Mosfellsbær sé öðrum sveitarfélögum fyrirmynd í vandaðri og nútímalegri stjórnsýslu. Kjósendur eiga valið. Það er þeirra að sýna aðhaldið og tryggja að unnið sé í þeirra þágu.

Pin It on Pinterest