Athugasemd við frétt

xm_mjuktÍ hádegisfréttum RÚV þann 20. maí var sagt frá brotthvarfi Jóns Jósefs Bjarnasonar af lista Íbúahreyfingarinnar. Við sendum eftirfarandi athugasemd við fréttina:

Ágæta fréttastofa.

Í hádegisfréttum RÚV í dag var sagt frá því að óskum fyrrum frambjóðanda Íbúahreyfingarinnar í Mosfellsbæ, Jóns Jósefs Bjarnasonar um að vera tekinn af lista hefði ekki verið sinnt.  Hið rétta er að Jón skrifaði undir yfirlýsingu um framboð hinn 8. maí og var framboðslistum svo skilað inn til kjörstjórnar hinn 10. maí eins og lög gera ráð fyrir. Ósk Jóns um að hætta við að taka sæti á lista kom fram hinn 14. maí. Kjörstjórn hafnaði óskum Íbúahreyfingarinnar um að taka Jón af listanum þar sem lög gera því miður ekki ráð fyrir slíkum breytingum eftir að framboðsfrestur rennur út.

Okkur þykir eftirsjá af Jóni en virðum að sjálfsögðu óskir hans um að hverfa af vettvangi stjórnmálanna.  Íbúahreyfingin hefur eftir sem áður yfir að búa samhentum hópi fólks sem óskar eftir umboði til að efla samfélag sitt og vinna að hagsmunum íbúa Mosfellsbæjar að höfðu auknu samráði við þá.

Okkar helstu áherslur fyrir komandi kosningar eru þær sömu og áður hefur verið og aðal áherslan er á að vinna að auknu gagnsæi stjórnsýslunnar og lýðræðisumbætur í sveitarstjórninni. Um aðrar áherslur okkar í komandi kosningum má lesa í blaði Íbúahreyfingarinnar sem borið verður í hús fyrir helgi og hægt er að nálgast á á netinu: http:ibuahreyfingin.is/wp-content/uploads/2014/05/ibuablad_fin_rett_rod.pdf.

Með virðingu og vinsemd,

Birta Jóhannesdóttir, formaður Íbúahreyfingarinnar

Hello world!

Welcome to WordPress. This is your first post. Edit or delete it, then start blogging!

Framboðslisti Íbúahreyfingarinnar 2014

Sigrún H. Pálsdóttir leiðir lista Íbúahreyfingarinnar

1. sæti. Sigrún H. Pálsdóttir,  verkefnisstjóri og leiðsögumaður.

1. sæti. Sigrún H. Pálsdóttir, verkefnisstjóri og leiðsögumaður.

Íbúahreyfingin í Mosfellsbæ býður fram öðru sinni í sveitarstjórnarkosningunum í vor. Sigrún H. Pálsdóttir verkefnisstjóri leiðir listann og tekur hún við keflinu af Jóni Jósef Bjarnasyni upplýsingatækniráðgjafa sem nú skipar annað sætið. Í heiðurssæti er Ingimar Sveinsson fyrrverandi bóndi og kennari í hestafræðum við Landbúnaðarháskólann á Hvanneyri.
Íbúahreyfingin náði þeim glæsta árangri í síðustu kosningum að verða annað stærsta stjórnmálaaflið í Mosfellsbæ með 15,2% atkvæða og einn bæjarfulltrúa kjörinn.
Á kjörtímabilinu hefur Íbúahreyfingin unnið að lýðræðisvæðingu og gegnsæi í stjórnsýslunni og sinnt mikilvægu aðhaldshlutverki minnihlutavalds. Þar er enn verk að vinna og Sigrún hefur á kjörtímabilinu vakið athygli fyrir ötult starf í þágu umhverfismála og lýðræðislegra vinnubragða í stjórnsýslu og nefndarstarfi.
Opnir og lýðræðislegir stjórnarhættir eru mikið hagsmunamál fyrir íbúa að mati Íbúahreyfingarinnar því þeir stuðla að málefnalegri meðferð mála og réttlátari og hagkvæmari ráðstöfun fjár. Ráðandi öfl fá þannig aðhald og verða síður ofurseld þrýstingi sérhagsmunaaðila.
Uppbygging skólamannvirkja er þó stóra kosningamálið og mun Íbúahreyfingin leggja því lið eins og öðrum samfélagslega mikilvægum verkefnum.

Fullskipaður listi íbúahreyfingarinnar:

1. sæti. Sigrún H. Pálsdóttir, verkefnisstjóri og leiðsögumaður
2. sæti. Jón Jósef Bjarnason, ráðgjafi og hluthafi hjá IT ráðgjöf ehf.
3. sæti. Hildur Margrétardóttir, myndlistarkona og kennari
4. sæti. Jón Jóhannsson, glerlistamaður og garðyrkjubóndi
5. sæti. Birta Jóhannesdóttir, leiðsögumaður og klínískur tannsmiður
6. sæti. Þórður Björn Sigurðsson, mannfræðingur
7. sæti. Úrsúla Jünemann, kennari og leiðsögumaður
8. sæti. Jóhannes B. Eðvarðsson, húsasmíðameistari
9. sæti. Kristín I. Pálsdóttir, bókmenntafræðingur
10. sæti. Emil Pétursson, húsasmíðameistari
11. sæti. Alma Ósk Guðjónsdóttir, leikskólakennari
12. sæti. Páll Kristjánsdóttir, hnífasmiður
13. sæti. Sæunn Þorsteinsdóttir, myndlistarkona og verkstæðisstýra
14. sæti. Valdís Steinarrsdóttir, skyndihjálparkennari
15. sæti. Sigrún Guðmundsdóttir, umhverfis- og auðlindafræðingur
16. sæti. Soffía Alice Sigurðardóttir, leiðsögumaður og listakona
17. sæti. Ellen Ruth Ingimundardóttir, dýralæknir
18. sæti. Ingimar Sveinsson, fv. bóndi og kennari í hestafræðum

Fagmennsku í fyrirrúm í skólamálum

1. sæti. Sigrún H. Pálsdóttir,  verkefnisstjóri og leiðsögumaður.

1. sæti. Sigrún H. Pálsdóttir, verkefnisstjóri og leiðsögumaður.

Við vitum öll að besta veganesti barnanna okkar út í lífið er góð menntun. Góð menntun er hins vegar ekki sjálfgefin því hún þarf rétta umgjörð og skiptir þar miklu að ráðandi stjórnmálaöfl haldi vöku sinni og sjái til þess að húsnæði sé fyrir hendi og skapi aðstæður fyrir metnaðarfullt innra starf.

Nú blasir við að sitjandi bæjarstjórnarmeirihluta í Mosfellsbæ hefur látið hjá líða að reisa skólamannvirki í takt við áætlanir um fjölgun íbúa. Grunnskólarnir eru ofsetnir og ljóst að fyrirhyggjuleysi hefur verið alls ráðandi, sbr. þriggja ára fjárhagsáætlun 2013-2015 en þar er ekki gert ráð fyrir fé í uppbyggingu skóla. Stóra kosningamálið í Mosfellsbæ er því skólamannvirki.

Það er ekki spurning að þetta mál þarf að leysa en það kostar óheyrilega peninga. Skóli kostar 2,4 milljarða miðað við 450 nemendur, sem er ráðlögð stærð, og í Mosfellsbæ þarf að reisa tvo skóla til að anna eftirspurn.

Nú hefur bæjarstjórinn oft stært sig af því að efnahagur sveitarfélagsins sé góður miðað við mörg önnur sveitarfélög sem farið hafa yfir 150% viðmið Sambands íslenskra sveitarfélaga um skuldir af reglulegum tekjum. Í Mosfellsbæ eru skuldirnar um 130%, – eða hvað?

Á óskalista framboðanna fyrir þessar kosningar eru tveir skólar og eitt fjölnota íþróttahús. Þessi verkefni kosta varlega áætlað hátt í 6 milljarða eða álíka mikið og sem nemur áætluðum tekjum sveitarfélagsins fyrir rekstrarárið 2014.

Og hvað þýðir það fyrir framtíðarskuldastöðu Mosfellsbæjar? Svarið er einfalt. Á næsta kjörtímabili er fátt annað til ráða en að skuldir fari yfir framangreint viðmið Sambands íslenskra sveitarfélaga sem þýðir að Mosfellsbær verður í framtíðinni í flokki þeirra sveitarfélaga sem nú þegar hafa reist slík mannvirki og skulda yfir 150% af reglulegum tekjum.

Ljóst er að vandinn er uppsafnaður og áleitin sú spurning af hverju var ekki var unnið að uppbyggingunni jafnt og þétt. Nú hefur Sjálfstæðisflokkurinn verið við völd í 12 ár. Ætli það sé skýringin? Hefði meirihlutinn unnið eftir raunhæfum langtímaáætlunum hefðu skuldir vissulega verið hærri en í staðinn sætu Mosfellingar ekki uppi með hátt í 800 nemendur í hvorum skóla og þjónustu við börnin sem komin er langt yfir þolmörk, sbr. stærð bekkja, skort á aðstöðu í frístundaseli og minnkandi þjónustu við börn með hegðunar- og námsvanda.

Það lítur beinlínis út fyrir að hagsmunum grunnskólabarna hafi hér verið fórnað fyrir sæmilega vel útlítandi rekstrarreikning. Fjárútlátin framundan eru þó af þeirri stærðargráðu að skuldir Mosfellsbæjar geta vart talist minni en þeirra sveitarfélaga sem farið hafa yfir 150% viðmiðið.

Það voru foreldrar sem vöktu athygli á því hvert stefndi og kröfðust þess að fá að vera með í ráðum. Í kjölfarið upphófst samráðsferli þar sem láðist að geta þess að Mosfellsbær gerði fyrir ári samning við Landsbankann um að reisa skóla í Helgafellshverfi. Allt tal um samráð um staðsetningu skóla á austursvæði virðist því hjómið eitt.

Svona vinnubrögð og samskiptahættir við íbúa eru ekki boðlegir. Framundan er það vandasama verkefni að fjármagna uppbyggingu skólamannavirkja og ákveða staðsetningu þeirra. Það verður að vinna málið faglega og í samstarfi foreldra og skóla og mun Íbúahreyfingin svo sannarlega ekki láta sitt eftir liggja þegar kemur að því á næsta kjörtímabili.

 Sigrún H. Pálsdóttir leiðir lista Íbúahreyfingarinnar

Greinin birtist í Mosfellingi 8. maí 2014

 

Pin It on Pinterest