Að forgangsraða

Úrsúla Jünemann skipar 7. sæti á lista Íbúahreyfingarinnar.

Úrsúla Jünemann skipar 7. sæti á lista Íbúahreyfingarinnar.

Hildur Margrétardóttir skipar 3. sæti á lista Íbúahreyfingarinnar.

Hildur Margrétardóttir skipar 3. sæti á lista Íbúahreyfingarinnar.

Mosfellsbær er fallegur bær í örum vexti. Meðalaldur íbúa er frekar lágur og barnafjölskyldur virðast sækja hingað. Hér er gott og fjölbreytt umhverfi, þokkaleg þjónusta og öflug félags- og tómstundastarfsemi.
Nú er stutt í kosningar. Þeim flokkum sem bjóða fram hættir að lofa upp í ermina á sér. Svo mun koma tómarúm á eftir og enginn kannast við að hafa verið með fagurgala og fegrunartal í aðdraganda kosninganna.
Sjálfstæðisflokkurinn hefur verið allsráðandi í þrjú kjörtímabil. Á þeim tíma hefur margt gerst og hrunið hefur sjálfsagt sett strik í reikninginn á mörgum sviðum. Þrjú nýbyggingahverfi voru skipulögð á sínum tíma en kapp var meira en forsjá og stórhugurinn allsráðandi. Menn vildu helst – og vilja enn – selja dýrar lóðir undir stór einbýlishús sem fáir hafa efni á. Hvar eru litlu íbúðirnar á viðráðanlegu verði? Hvar er gott framboð á leiguhúsnæði í Mosfellsbænum?
Með ört vaxandi íbúafjölda hafa grunnskólarnir stækkað um of og eru orðnir að hálfgerðum „skrímslum“. Kennt og leiðbeint er í öllum skúmaskotum, á göngunum og í myglusæknum kjöllurum. Mötuneytisaðstæðurnar eru ófullnægjandi, þar er hvorki friður né næði til að borða og hávaðinn þannig að starfsmenn eru sumir með heyrnarhlífar. Heilsueflandi samfélag?
Með þeirri stefnu að hafa skóla án aðgreiningar fáum við nemendur í grunnskólana sem hafa mjög mismunandi getu og þarfir. Eitt barn með hegðunarörðugleika getur sett alla kennslu í fullskipuðum bekk í uppnám. Til þess að hvert barn fái kennslu við sitt hæfi þarf að vera tækifæri til að kenna í ólíkum og misstórum hópum. Þetta krefst meira rýmis, aukins mannskaps og fleiri sérfræðinga í skólana. Og þetta kostar!
Grunnskólamálin í Mosfellsbænum eru svona 10 árum á eftir í þróun. Fyrir löngu hefði átt að byrja á byggingu nýs grunnskóla en yfirvöld hafa sofið á verðinum. Skólamálin þurfa að vera í fyrsta sæti þegar kemur að fjárhagsáætlun, allt of lengi hefur verið sparað í þeim flokki. Allt hjal um gæluverkefni þarf að setja til hliðar. Það þarf að forgangsraða rétt. Hugmyndin um fjölnota íþróttahús sem nú er talað um í aðdraganda kosninganna er góð og gild og spennandi. En á meðan skólamálunum er ekki betur sinnt verða svona framkvæmdir að bíða.

Greinin birtist í blaði Íbúahreyfingarinnar 21. maí 2014

Skipulag geri ráð fyrir fötlun

Sigrún H. Pálsdóttir, skipar 1. sæti á lista Íbúahreyfingarinnar.

Sigrún H. Pálsdóttir, skipar 1. sæti á lista Íbúahreyfingarinnar.

Íbúahreyfingin leggur áherslu á að fatlaðir einstaklingar fái alla þá samfélagsþjónustu sem þeir þurfa til að lifa mannsæmandi, sjálfstæðu og áhyggjulausu lífi. Fatlaðir eiga ekki að þurfa að upplifa þjónustu við sig sem ölmusu heldur á skipulag og innviðir samfélagsins að vera með þeim hætti að fatlaðir séu ekki stöðugt áminntir um fötlun sína. Samfélagið á einfaldlega að tryggja fötluðum jöfn tækifæri og fulla samfélagsþátttöku á við aðra.
Íbúahreyfingin vill leita samráðs við fatlaða um þau mál sem á þeim brenna. Galdurinn í pólitík Íbúahreyfingarinnar er yfirhöfuð samráð. Í þessum málaflokki er það sérstaklega brýnt þar sem fötlun er margvísleg og þarfirnar einstaklingsbundnar. Íbúahreyfingin mun leggja sitt af mörkum til að Samningur SÞ um réttindi fatlaðs fólks verði fullgiltur og úrræði í málefnum fatlaðra löguð að honum.
Mikil vakning hefur orðið í samfélaginu um almenn samskipti við fatlaða og er það ekki síst að þakka öflugri baráttu notenda þjónustunnar sem barist hafa fyrir auknu sjálfsforræði. Við í Íbúahreyfingunni teljum brýnt að vinna gegn fordómum í garð fatlaðra og munum leggja áherslu á það í okkar stjórnmálastarfi.

Greinin birtist í blaði Íbúahreyfingarinnar 21. maí 2014.

Hvernig Mosfellsbæ vilt þú?

Sigrún Guðmundsdóttir skipar 15. særi á lista Íbúahreyfingarinnar.

Sigrún Guðmundsdóttir skipar 15. sæti á lista Íbúahreyfingarinnar.

Í síðustu sveitarstjórnarkosningum vorum við Mosfellingar heppnir. Hér buðu sig fram vaskir bæjarbúar sem vildu sjá lýðræðislegri og opnari stjórnun bæjarins og auka þannig möguleika á góðu, sanngjörnu samfélagi. Já,við vorum verulega heppin, forystufólk Íbúahreyfingarinnar gerði það sem þau lofuðu. Þau spurðu óþægilegra spurninga, komu með fínar tillögur um hin ýmsu þjóðþrifamál og gerðu pólitíkina skemmtilega inn á milli, t.d. með tillögu sinni um píkusafn og — haldið ykkur fast — þau héldu þetta út allt kjörtímabilið! Það er meira en ég get sagt. Ég hélt út þrjú ár af fjórum í umhverfisnefnd fyrir Íbúahreyfinguna.
Ég var ekki í Íbúahreyfingunni en skömmu eftir kosningar auglýstu forsvarsmenn hennar eftir fagfólki í nefndarstörf, þ.e. bæjarbúum með þekkingu á viðkomandi nefndarsviði. Þessi nýbreytni hreyfingarinnar er snjöll og gerir miklar framfarir mögulegar. Mig þyrsti í umbætur í umhverfismálum til hagsbóta fyrir fólkið í sveitinni minni og fólkið sem tekur við af okkur — því tilhögun umhverfismála hefur iðulega áhrif til framtíðar — svo ég sló til. Margsannað er að lýðræði er besta form stjórnunar samfélaga sem fundist hefur fram til þessa og verður best þegar sem flestir taka þátt við mótun stefnu og útfærslu þeirrar þjónustu sem þeir eiga rétt á. Jafnframt er mikilvægt að fagfólk komi að ákvörðunum svo tryggja megi gæði og langtímahagsmuni bæjarins.
Skemmst er frá því að segja að fagleg nálgun og umbótatillögur um mikilvæg málefni áttu ekki upp á pallborðið í umhverfisnefnd. T.d. var greinargerð, sem tók talsverðan tíma að vinna og innihélt álit starfandi sérfræðinga á viðkomandi sviði, um framtíðar aðalskipulag ekki vel tekið og þurfti að sæta lagi til að hún næði fram til næsta stjórnstigs. Því miður sýnir reynsla mín að umhverfisnefnd er/var helst ætlað að vera smá „almannatengsla-stassjón“ (umhverfisverðlaun, opnunarviðburðir o.s.frv.) og örlítill grænþvottur (t.d.umsagnir til bæjarstjórnar um takmarkaða þætti umhverfismálanna). Henni er ekki ætlað að hafa áhrif á stefnumótun eða þróa umhverfismálarekstur. Svona málefnavinnsla er auðvitað óskynsamleg, ólýðræðisleg og óhagkvæm. Þessi vinna reyndi meira á þolrifin en nokkur önnur sem ég hef innt af hendi.
Tíminn er auðlind, náttúran er lífsnauðsynleg auðlind og gríðarlega mikilvægt að hún sé nýtt á sjálfbæran hátt.
Elsku grannar. Það skiptir máli hvernig bænum er stjórnað, hvernig farið er með náttúruna, börnin í skólunum, göturnar þurfa að vera góðar, menning og listir eru nauðsyn, fjármunum þarf að vera vel varið og svo má lengi halda áfram. Mikilvægt er að breyta pólitík bæjarins úr klíkufélagi í mann- og umhverfisvæn stjórnmál. Eflaust sárnar einhverjum þessi lýsing mín. Auðvitað eru ekki allir í klíkunni og ég hef ekki innsýn í pólitíkina nema að hluta. En aukið lýðræði er fær leið til að gera bæinn betri. Skoðið stöðu málefna sem ykkur eru mikilvæg (t.d. má hlusta á bæjarstjórnarfundi). Hvaða markmið skal setja? Eru álitlegir stjórnendur til staðar? Ef ekki er nauðsynlegt að ganga sjálfur í málin. Gerum bæinn okkar betri og búum í haginn fyrir komandi kynslóðir. Íbúahreyfingin er besta leiðin til þess.

Greinin birtist í blaði Íbúahreyfingarinnar 21. maí 2014.

Knattspyrnuhús

Jóhannes B. Eðvarðsson, skipar 8. sæti á lista Íbúahreyfingarinnar.

Jóhannes B. Eðvarðsson, skipar 8. sæti á lista Íbúahreyfingarinnar.

Ert þú fylgjandi byggingu fjölnota íþróttahúss í Mosfellsbæ?
Þetta er ein af þeim spurningum sem DV spyr frambjóðendur í Mosfellsbæ í sínum kosningaleik. Enginn frambjóðandi hefur þorað að svara þessari spurningu neitandi þar sem mikill áhugi virðist vera fyrir slíkri byggingu í bænum. Það er því ekki líklegt til vinsælda að vera á móti því. Mig langar hins vegar að svara spurningunni á eftirfarandi hátt.
Í fyrsta lagi held ég held að við ættum að fara að kalla húsið sínu rétta nafni og kalla það knattspyrnuhús. Jú, að sjálfsögðu væri gaman að hafa knattspyrnuhús í Mosfellsbæ. Ég er mikill aðdáandi hinnar göfugu íþróttar knattspyrnu og stundaði hana sjálfur á mínum yngri árum við ömurlegar aðstæður á malarvöllum, víðsvegar á höfuðborgarsvæðinu, oftast í rigningu og stormi. Ég er enn með kalblett á litlu tá hægri fótar eftir leik við Fylki þar sem boltinn hvarf í einni hviðunni og fannst ekki fyrr en eftir hálftíma. Það voru nefnilega ekki aukaboltar til staðar í þá daga, ónei.
Sem sagt ég er fylgjandi byggingu knattspyrnuhúss.
En hvað kostar slíkt hús? Fullbúið knattspyrnuhús í fullri stærð kostar ekki minna en einn milljarð. Og þar stendur hnífurinn í frúnni, eins og Dabbi vinur minn sagði alltaf. Skuldastaða Mosfellsbæjar er þannig að bærinn skuldar 130% af tekjum og samkvæmt lögum má hann ekki skulda yfir 150%.
Nú þegar er búið að samþykkja byggingu tveggja nýrra grunnskóla sem munu kosta 4,6 milljarða samtals. Sveitarfélagið er því komið með miklar fjárhagsskuldbindingar sem almennt er samstaða um að séu nauðslegar.
Staðreyndin er því sú að það eru ekki miklar líkur á því að við höfum efni á að reisa knattspyrnuhús á næstu árum þó svo að mikill áhugi sé fyrir því að fá slíkt hús í bæjarfélagið. Nema að við viljum komast undir væng eftirlitsnefndar með fjármálum sveitarfélaga.
Ég vil því benda þeim stjórnmálamönnum sem tala hvað hæst um byggingu knattspyrnuhúss á að það er ekki fallega gert að búa til væntingar sem augljóst er að ekki verður hægt að standa við.
Að lokum vil ég benda á að árið sem knattspyrnuhúsið á Akranesi var tekið í notkun féll ÍA úr efstu deild og árangur þeirra hefur verið með versta móti síðan. Í þessu sambandi er gott að hafa í huga að það er innihaldið sem skiptir mestu en ekki umgjörðin.

Greinin birtist í blaði Íbúahreyfingarinnar 21. maí 2014.

Er löglegt að féfletta gamalmenni?

Ingimar Sveinsson fyrrum bóndi á Egilsstöðum og kennari við Bændaskólann á Hvanneyri skipar heiðurssæti á lista Íbúahreyfingarinnar í Mosfellsbæ

Ingimar Sveinsson fyrrum bóndi á Egilsstöðum og kennari við Bændaskólann á Hvanneyri skipar heiðurssæti á lista Íbúahreyfingarinnar í Mosfellsbæ

Íbúahreyfingin í Mosfellsbæ sem býður fram M lista í komandi bæjarstjórnarkosningum hyggst beita sér í málefnum aldraðra, m.a. málefnum Eirar. Mér hefur í framhaldi af því verið boðið að taka þátt í því verkefni og heiðurssætið á framboðslistanum sem ég hefi þegið.
Í febrúar 2011 seldum við hjónin einbýlishús okkar á Hvanneyri og fluttumst til Mosfellsbæjar og keyptum svokallaðan „búseturétt“ að Eirhömrum í Mosfellsbæ. Við vorum komin á þann aldur að ég taldi skynsamlegt að tryggja okkur dvalarstað sem hentaði okkur í ellinni og taldi Eir fýsilegan og öruggan kost. Þessi svokallaði „búseturéttur“ á Eir var kynntur þannig: Þú kaupir íbúðina eða búseturéttinn og munurinn samanborið við venjuleg íbúðarkaup er að þú mátt ekki selja hana eða leigja til annarra. Á móti skuldbindur Eir sig til að kaupa íbúðina við brottflutning eða andlát. Búseturéttarhafa er óheimilt að veðsetja búseturétt sinn eða önnur réttindi samkvæmt samningnum. Íbúarnir greiða auk þess húsgjöld rúmar 40 000 kr. á mánuði til Eirar. Einnig fasteignagjöld, tryggingar og rafmagn eins og um eignaríbúð sé að ræða. Greitt er aukalega fyrir sérþjónustu svo sem fyrir mat og þrif á íbúð ef þess er þörf. Ég vil taka fram að á Eir í Mosfellsbæ er ágætt að búa, gott starfsfólk og þjónusta ef á þarf að halda.  (more…)

Pin It on Pinterest