Náttúruvernd er okkar hjartans mál

Náttúruvernd er okkar hjartans mál

Náttúruvernd er eitt mikilvægasta málefni mannkynsins nú og í framtíðinni. Okkur ber að hlúa að vistkerfum jarðar og sjá til þess að þau virki áfram okkur í hag. Án heilbrigðra vistkerfa þrífst ekkert líf á jörðinni. Til að vernda náttúrugæði er nauðsynlegt að þekkja vel lögmál náttúrunnar.

En hvað er náttúra? Hún er það sem þróaðist á jörðinni án tilstilli mannsins og er í sífelldri þróun. Það er ekkert lokastig til í náttúrunni. Náttúran er allt í kringum okkur, hún vex, dafnar og deyr. Hún er lífið. Hún er síbreytileg og þróast á eigin forsendum. Hún er sjálfbær. Hún getur verið ofurviðkvæm en einnig alveg ótrúlega seig og hörð af sér. Náttúran er flókið samspil allra lífvera, lofts, vatns, jarðvegs og bergs. Lífverurnar eru allt frá því að vera örverur sem sjást ekki með berum augum til stórra og voldugra lífvera á borð við spendýr og fíla.

Án heilbrigðra og vel starfandi vist- kerfa lifum við ekki af. En mennirnir hafa alltaf haft tilhneigingu til að breyta og „bæta“ náttúruna svo að hún þjóni okkur sem best. Þannig höfum við af fávisku eða skammtímagróðahyggju gegnum tíðina eyðilagt það sem okkur er lífsnauðsynlegt og við gerum enn. Í landi Mosfellsbæjar eigum við talsvert eftir af dýrmætum náttúrusvæðum. Við höfum aðgang að lágreistum fjöllum, skóglendi, ám, vötnum og dásamlegri strandlengju. Sum svæðin eru í mikilli hættu og sem dæmi má nefna þau mýrlendi sem enn standa óhögguð. En sérstaklega verður mér hugsað til Varmár sem verður reglulega fyrir mengunarslysum. Fyrirbyggjandi náttúruvernd mun borga sig margfalt í framtíðinni. Uppbygging náttúrusvæða sem hafa hnignað og orðið fyrir alvarlegum skemmdum er mjög kostnaðarsöm og tekur langan tíma. Leyfum náttúrunni að njóta vafans og pössum hana vel þannig að hún geti áfram veitt okkur þá þjónustu sem við þurfum.

Stefna Í-lista í náttúruverndarmálum er að:

  • Auka framlög til náttúruverndar.
  • Kortleggja bæjarlandið með tilliti til náttúrugæða.
  • Vakta svæðin sem við viljum vernda reglulega og skrá allar breytingar þannig að hægt sé að grípa inn í tæka tíð og fyrirbyggja alvarlegt tjón.
  • Hugsa langt fram í tímann í skipulagsmálunum þannig að unnt sé að byggja upp útivistarsvæði til frambúðar og leyfa skóglendunum að vaxa og dafna.
  • Móta stefnu um fræðslu í umhverfis- og náttúruverndarmálum og fá sem flesta til að hafa vistvænan lífstíl.
  • Auka umhverfismennt í skólum með útikennslu, góðu kennsluefni og vel menntuðum kennurum, því þar er lagður grunnurinn.
Í-listinn vinnur fyrir íbúa!

Í-listinn vinnur fyrir íbúa!

Íbúahreyfingin býður nú fram í þriðja sinn í Mosfellsbæ, að þessu sinni með liðsstyrk Pírata undir listabókstafnum Í. 

Fyrir kosningarnar 2014 gekk Sigrún H. Pálsdóttir til liðs við Íbúahreyfinguna og hefur hún staðið í ströngu á kjörtímabilinu, veitt meirihlutanum öflugt aðhald og lagt áherslu á að rjúfa kyrrstöðu sem ríkt hefur í málaflokkum sem skipta miklu fyrir Mosfellinga.

Gegnsæi og vinnubrögð

Lýðræðisleg vinnubrögð og vönduð stjórn- sýsla hafa verið eitt helsta baráttumál Íbúahreyfingarinnar. Á kjörtímabilinu sem er að líða höfum við ítrekað hvatt til þess að fagnefndirnar fái málefni sem þær varða inn á borð til sín. Á því hafa verið vanhöld. Til dæmis vakti Íbúahreyfingin athygli á því að ekki var gert ráð fyrir íþróttaaðstöðu í Helgafellsskóla í upphaflegri þarfagreiningu og fór fram á að íþrótta- og tómstundanefnd fengi að fjalla um málið. Vegna þrýstings var íþróttahúsi bætt inn á uppdrátt en meirihluti Sjálfstæðisflokksins og Vinstri grænna er enn á báðum áttum um hvort byggja skuli húsið. Íbúahreyfingin og Píratar vilja sjá íþróttahúsið rísa.

Við gerð fjárhagsáætlunar 2015 lagði Íbúa- hreyfingin til að gerð yrði langtímaáætlun um uppbyggingu íþróttamannvirkja í Mosfellsbæ en Sjálfstæðisflokkurinn og Vinstri græn vísuðu tillögunni frá. Einnig hefur Íbúahreyfingin ítrekað lagt til að bæjarráð, íbúar og fagnefndir komi með beinum hætti að gerð fjárhagsáætlunar og fái að hafa meiri áhrif á mótun nærumhverfisins. Íbúahreyfingin studdi því Okkar Mosó með ráðum og dáð. Það munu Íbúahreyfingin og Píratar gera áfram.

Lóðaúthlutanir

Íbúahreyfingin hefur ítrekaði óskað eftir því að betur sé staðið að auglýsingu lóða og útboðum á þeim hjá Mosfellsbæ. Í þágu gegnsæis höfum við lagt ríka áherslu á að lóðir sveitarfélagsins skuli ekki seldar sjóðum og skúffufyrirtækjum með óljóst eignarhald. Í-listi telur að um fasteignaviðskipti opinberra aðila eigi að ríkja gegnsæi og munum við beita okkur af afli fyrir því.

Skipulagsvaldið tekið alvarlega

Íbúahreyfingin hefur ennfremur hvatt meirihluta Sjálfstæðisflokks og Vinstri grænna til að taka það hlutverk sitt alvarlega að sveitarfélagið sé handhafi skipulagsvalds. Skipulag hefur endurtekið verið lagað að kröfum byggingaraðila, byggingarmagn margfaldað og gæði húsnæðis gefin eftir. Heildarsýn og samfélagslegir hagsmunir er það sem skipulag og uppbygging eiga að snúast um og fyrir það standa Íbúahreyfingin og Píratar.

Skógrækt, náttúra og fræðsla

Í-listinn vill veg skógræktar sem mestan og hefur Íbúahreyfingin lagt til að gert sé skógræktarskipulag fyrir Mosfellsbæ. Einnig að gerður verði þjónustusamningur við skógræktarfélagið um rekstur útivistarsvæðisins í Hamrahlíðarskógi. Uppeldi skiptir máli í skógrækt sem öðru. Þess vegna vill Í-listinn styðja við bakið á þeim aðilum sem bjóða upp á umhverfisfræðslu fyrir börn og fullorðna á sviði skógræktar. Hjartans mál Í-listans er náttúruvernd. Liður í henni er fræðsla. Að tillögu Íbúahreyfingarinnar hafa verið sett upp fræðsluskilti um fuglalíf á nokkrum stöðum við Leirvoginn.

Skólar og tónlist

Málefni tónlistarskólans hafa verið Íbúahreyfingunni hugleikin á kjörtímabilinu og við lagt áherslu á að fjölga kennurum og bætta aðstöðu til tónlistarkennslu í skólum. Lúðrasveitin fellur þar undir. Íbúahreyfingin og Píratar sjá fyrir sér byggingu menningarhúss með sal til tónleikahalds en þangað til verði Hlégarður nýttur sem félags- og menningarmiðstöð Mosfellinga. Íbúahreyfingin hefur stutt kjarabaráttu kennara og kallað eftir því að hlustað sé eftir sjónarmiðum þeirra. Í-listinn leggur áherslu á bætt starfsumhverfi kennara, sérfræðiaðstoð og þjónustu við börn með sérþarfir í leik- og grunnskólum. Íbúahreyfingin hefur talað fyrir því að skólayfirvöld taki mark á áhyggjum foreldra skólabarna í Mosfellsbæ. Á kjörtímabilinu lögðum við til að bæjarráð fengi árlega afhenta skýrslu um einelti í skólum og á vinnustöðum sveitarfélags- ins. Íbúðahreyfingin hefur einnig talað fyrir lækkun leikskólagjalda og Í-listinn vill gera enn betur í því í framtíðinni.

Hækkun fjárhagsaðstoðar

Íbúahreyfingin lætur sé annt um þá sem minna mega sín og hefur ítrekað borið upp tillögur um að fjárhagsaðstoð verði hækk- uð. Tekin hafa verið hænuskref í þá átt. Upphæðin er þó svo lág að fólk getur ekki framfleytt sér. Úr því vilja Íbúahreyfingin og Píratar bæta.

Húsnæði fyrir unga og efnaminni

Í húsnæðismálum hefur Íbúahreyfingin látið til sín taka og lagði til að þak yrði sett á leiguverð í væntanlegum leiguíbúðum við Þverholt. Við því var ekki orðið. Íbúahreyfingin hefur talað fyrir samningum við byggingarsamvinnu- og íbúðafélög sem starfa án hagnaðarmarkmiða, og lagt til að Mosfellsbær úthluti lóðum til að byggja leiguheimili til að lækka húsnæðis- verð. Íbúahreyfingin og Píratar vilja að mótuð verði stefna um að byggja íbúðir á viðráðanlegu verði, bæði til leigu og kaupa í Mosfellsbæ. Íbúahreyfingunni og Pírötum þykir mál til komið að rjúfa kyrrstöðu í mikilvægum málaflokk- um í Mosfellsbæ og erum við er tilbúin til að ganga í það verk af heiðarleika og festu eftir kosningar.

Umhverfið, náttúran og skógrækt

Umhverfið, náttúran og skógrækt

Umhverfisvernd og náttúruvernd eru ekki sama hugtakið. Umhverfið er allt það sem er umhverfis okkur, bæði manngert og náttúrulegt. Náttúran hins vegar hefur sín eigin lögmál, óháð mönnum. Þannig að þegar við tölum um náttúruvernd þá þýðir það að vernda svæði sem eru mest upprunaleg og urðu til án afskipta manna. Slík svæði eru orðin fágæt því í gegnum tímans tönn höfum við alltaf viljað breyta, bæta og nýta. Mýrlendi til dæmis hafa þótt einskis virði og voru þurrkuð upp í stórum stíl með skurðgreftri. Fuglategundir sem lifðu þar þurftu að finna önnur vistsvæði. En slíkur hugsunarháttur er sem betur fer að breytast. Nú vitum við að mýrarnar geyma kolefnisforða sem fer ekki út í andrúmsloftið á meðan þær haldast blautar. Við uppþornun losna gróðurhúsalofttegundir sem hafa áhrif á hlýnun jarðar og þar með á framtíðarhorfur okkar allra hér á jörðu. Mýrar okkar í Mosfellssveit eru búsvæði margra fuglategunda og eru náttúruleg vistkerfi sem ber að vernda samkvæmt lögum.

Skóglendi er einnig verðmætt. Víkingunum sem settust að hér á landi tókst að eyða að mestu náttúrulegum birkiskógi sem fyrirfannst við landnám. Í byrjun 20. aldar voru einungis örfá skógar- og kjarrsvæði. En á rúmlega 100 árum hefur nær gerst kraftaverk. Menn byrjuðu að rækta skóg og friða birkikjarr fyrir sauðfjárbeit þannig að skógurinn sótti aftur á. Náttúran er sterk og nær sér fljótt á strik þegar hún fær að vera í friði. Í dag eru flestir á einu máli um að skóglendi geri okkur gott og veiti margskonar vistfræðilega þjónustu: Binda kolefni, jafna vatnsrennsli og draga þar með úr flóðum, veita skjól, hvetja til útivistar og vellíðunar, framleiða næringar- og byggingarefni og margt fleira.

Hér í Mosfellsbænum hafa áhugasamir íbúar ræktað skóg í rúmlega 60 ár í sjálfboðavinnu. Þrátt fyrir að flestir skógar í bæjarlandinu séu manngerðir komast þeir sumstaðar mjög nálægt því að vera upprunaleg náttúra. Eldri skógarsvæðin þar sem trén eru farin að mynda fræ gætu þroskast og dreift sér á eigin forsendum ef það er leyft. En hér í þessu manngerða umhverfi viljum við auðvitað stýra því hvernig skógurinn vex, hvar hann vex og hvernig hann á að líta út.

Skógrækt í þéttbýli þarf að skipuleggja vel og vandlega. Sum svæði ættu að vera áfram opin og leyfa útsýni á fjöll, vötn og sjó. En annarsstaðar viljum við skjól og tækifæri til hreyfingar og leikja. Og varla er til betra svæði en skóglendi til að fullnægja þessum þörfum. Okkar elstu skógarsvæði draga að fjölmenni og búið er að opna fallegar leiðir með grisjun og stígagerð. Hægt væri að gera enn betur með því að búa til einföld leiktæki og hlaupabrautir úr því efni sem fellur til í skóginum til að hvetja til hollrar og skemmtilegrar hreyfingar. En þetta kostar vinnu og fjármagn. Vonandi er að næsta bæjarstjórn – hvernig sem hún verður skipuð –  hlúi að og styrki skógræktina með myndarlegum framlögum.

Úrsúla Jünemann er í 6. sæti á Í-lista Íbúahreyfingarinnar og Pírata

Framtíðin er í Mosfellsbæ

Framtíðin er í Mosfellsbæ

Mosfellsbær er fallegt samfélag með vinalegu fólki. Við konan mín fluttum í bæinn fyrir áramót með börnin okkar, Eric  þriggja ára og Leiu fimm ára. Leikskólinn sem þau eru á er einn sá besti sem við höfum kynnst og grunnskólinn sem þau munu sækja virkar mjög traustvekjandi. Ég vona að börnin fái að njóta þess tómstundastarfs sem í boði er þegar fram líða stundir, en umfram allt vil ég að þeim líði vel.

En það eru blikur á lofti.

Ég hef áhyggjur af þróun skólamála í Mosfellsbæ þrátt fyrir stutta búsetu í bænum. Ég horfi á hverfi rísa  þar sem tvöhundruð börn búa og er þeim ætlað að sækja skóla í öðru hverfi sem þegar er yfirsetinn. Önnur hverfi eru einnig í byggingu þar sem upphaflega var gert ráð fyrir 52 íbúðum en er samkvæmt deiliskipulagi er búið að hækka þá tölu í 212 íbúðir. Ekki er fyrirsjáanlegt í hvaða skóla börnin í því hverfi eiga að fara. Þessu hef ég áhyggjur af.

Það sem heillaði okkur fjölskylduna við bæinn var hugmyndin um heilnæmt og heilsusamlegt samfélag fyrir fjölskyldu okkar. Nánd við náttúru, barnvænt umhverfi og ásýnd bæjarins hafði áhrif á val okkar. Nú viljum hvergi annarsstaðar búa en ég hef áhyggjur. Þörfin fyrir nýtt húsnæði má ekki ganga á gæði skólaumhverfisins og upplifun barna okkar. Við megum ekki gefa eftir í skipulags- og skólamálum þó að við séum undir pressu að fjölga íbúðum í Mosfellsbæ.

Það eru blikur á lofti um að líðan barna og ungmenna fari versnandi og það sem kom okkur á óvart hvað einelti virðist vera algengt. Það er mikilvægt að við sýnum gott fordæmi og ráðumst saman í að vinna bug á þessum vanda fyrir börnin, unga fólkið og bæinn okkar. Hluti af þessu er að huga að samhliða uppbyggingu hverfa séu leikskólar og grunnskólar til staðar sem taki við nýjum nemendum. Skólarnir þurfa að vera vel mannaðir og hver skóli að hafa íþrótta- og tónlistaraðstöðu. Umfram allt verðum við að passa að börnunum okkar líði vel í skólanum sínum og heildræn samvinna sé milli fagaðila í málefnum skólabarna.

Mín framtíðarsýn fyrir bæinn er einföld. Ég vil heilnæmt og heilsusamlegt umhverfi fyrir börnin og að Mosfellsbær verði skipulagður af sérfræðingum í samstarfi við bæjarbúa. Taka þarf tillit til allra þátta sem eru nauðsynlegir hverju samfélagi, eins og skóla í nýjum hverfum.

Mosfellsbær á að vera með gagnsæja stjórnsýslu sem nýtir þátttöku bæjarbúa sem vegvísi til framtíðar. Með gegnsæi, fagmennsku og íbúaþátttöku að leiðarljósi verður bæjarfélagið okkar betra. Við sköpum vettvang fyrir einstaklinga og hópa til að taka þátt í umræðum um málefni Mosfellsbæjar. Við sýnum fordæmi hvernig við komum saman og leysum úr málum. Það væri gott veganesti fyrir unga fólkið okkar. Það væri mér heiður að fá að taka þátt í því starfi fyrir börnin okkar, nýja vini og nágranna. Framtíðin er í Mosfellsbæ.

Friðfinnur Finnbjörnsson er í 3. sæti Í-lista Íbúðahreyfingarinnar og Pírata í Mosfellsbæ. Greinin birtist í Mosfellingi 17. maí 2018.

Geta allir búið í Mosfellsbæ?

Geta allir búið í Mosfellsbæ?

Eitt af verkefnunum framundan er að takast á við húsnæðisvanda tekjulægri hópa í Mosfellsbæ. Á undanförnum árum hefur íbúðaverð og leiga hækkað langt umfram launahækkanir og neyðarástand skapast sem bitnar hvað harðast á þeim sem hafa minnstar og lágar meðaltekjur.

Sveitarfélög eru í lykilstöðu til að hafa áhrif til lækkunar á húsnæðisverði. Þau hafa skipulagsvaldið og ber lagaleg skylda til að sjá þeim efnaminnstu fyrir húsnæði. Undir stjórn D- og V-lista hefur Mosfellsbær sýnt litla fyrirhyggju þegar kemur að því að ráða bót á þessum vanda og beita sér fyrir lækkun íbúða- og leiguverðs.

Félagslegt húsnæði í lágmarki

Samkvæmt könnun Velferðarráðuneytisins frá árinu 2016 er framboð á félagslegu húsnæði misjafnt eftir sveitarfélögum. Samt er það verkefni lögbundið. Mosfellsbær kom illa út úr könnuninni og er framboðið hér með því lægsta sem gerist. Orsökin er sú að meirihluti D- og V-lista hefur fylgt þeirri stefnu að byggja hvorki né kaupa íbúðir.

Frá árinu 2002 hefur Mosfellsbær keypt eina félagslega íbúð til viðbótar við þær þrjátíu sem fyrir voru. Viðkvæðið hefur verið að taka frekar íbúðir á leigu með tilliti til fjölskyldustærðar. Sú stefna heldur þó ekki vatni í sveitarfélagi þar sem framboð á leiguhúsnæði hefur nánast ekki verið neitt þar til nú. Í dag er leigumarkaðurinn að glæðast og nýlega tók  Mosfellsbær á leigu þrjár félagslegar íbúðir til viðbótar. Reyndar leysir það ekki málið því leiguverð stóru leigufélaganna er himinhátt og þau misjafnlega viljug til að leigja sveitarfélögum íbúðir í félagslegum tilgangi. Eina úrræðið er því að kaupa húsnæði eða setja kvaðir í skipulag um að byggjendur fjölbýlishúsa geri ráð fyrir svo og svo mörgum íbúðum fyrir tekjulægri hópa.

Unga fólkið og tekjulægstu 25%-in

Á Norðurlöndum er almennt miðað við að íbúar greiði ekki meira en 25% af launum sínum eftir skatta í húsnæðiskostnað. Á Íslandi er þetta hlutfall 50% samkvæmt upplýsingum Íbúðalánasjóðs. Margir búa því við lítið húsnæðisöryggi og eiga í erfiðleikum með að standa í skilum. Í þessum hópi er mest af ungu fólki, eftirlaunaþegum og námsmönnum.

Sveitarfélög hafa ýmsar leiðir til að hafa áhrif á verðþróun á húsnæðismarkaði. Mosfellsbær á reyndar ekki mikið af skipulögðu landi innan byggðarmarka en með örlítið meiri fyrirhyggju í kjölfar hrunsins hefði verið hægt að hafa áhrif þegar stór hluti byggingarlands varð eign bankastofnana. Það er umhugsunarefni af hverju Mosfellsbær nýtti ekki þetta tækifæri. Helgafellsland, Leirvogstunga, Lágafellsland og Blikastaðaland voru og eru að stórum hluta í eigu skilanefnda, banka og sparisjóða.

En hvað hefði sveitarfélagið getað gert?

Í fyrsta lagi að semja um kaup á landi og gera heildarendurskoðun á fyrirliggjandi skipulagi. Í kjölfarið setja kvaðir í skipulag. Í öðru lagi semja við byggingar- og leigufélög sem ekki eru hagnaðardrifin. Samkvæmt lögum um almennar íbúðir frá 2016 hafa Íbúðalánasjóður og sveitarfélögin heimild til að niðurgreiða húsnæði fyrir tekjulægri hópa um samtals 30% með svokölluðu stofnframlagi til byggingaraðila.

Nú er lag Mosfellingur góður til að rjúfa kyrrstöðu í húsnæðismálum ungs fólks og tekjulægri hópa. Með því að setja X við Í á kjördag kjósið þið stjórnmálaafl sem starfar af festu og heiðarleika fyrir alla.

Sigrún H. Pálsdóttir er oddviti Í-lista íbúahreyfingar og Pírata. Grein birtist í Mosfellingi 17. maí 2018

Pin It on Pinterest