Til hamingju með daginn Mosfellingar!

Til hamingju með daginn Mosfellingar!

Í dag fjölgar íbúum í Mosfellsbæ um tíu. Nýju íbúarnir eru flóttamenn og koma þeir frá Kenía þar sem þeir hafa lifað sem flóttamenn frá Úganda við erfiðar aðstæður í þrjú ár. Það voru fulltrúar Rauða krossins og starfsmenn Mosfellsbæjar sem tóku á móti þeim í Keflavík í morgun.

Á kynningarfundi í Mosfellsbæ um daginn sagði fulltrúi Rauða krossins að hér hjá okkur fengi flóttafólkið loksins tækifæri til að halda áfram með líf sitt. Þau hafi verið í biðstöðu árum saman og ættu enga ósk heitari en að hætta að vera flóttafólk, fara að vinna, mennta sig og lifa lífinu eins og við á eðlilegan hátt, óhrædd og ótrufluð. Við og þau búum svo vel að þau eru enskumælandi þannig að tjáskipti verða auðveld. Fljótlega fara yngstu nýbúarnir svo að tala íslensku og innan tíðar verður íslenska kannski orðin þeirra annað tungumál. 🙂 Einnig er hægt að ímynda sér að krökkunum í Varmárskóla þyki ekki verra að fá að heyra sögur af ljónum, tígrisdýrum, górilluöpum, sebrahestum frá fyrstu hendi.

Það góða við að vera kvótaflóttamaður á Íslandi er að þú færð aðstoð frá ríki og sveitarfélögum við að koma undir þig fótunum. Öllum býðst t.d. húsnæði og að fara á námskeið í íslensku. Velferðarráðuneytið stendur straum af þeim kostnaði sem til fellur fyrsta árið og ef þörf krefur tilteknum útgjöldum annað áriið líka. Vinnumálastofnun og félagsþjónusta Mosfellsbæjar hjálpa fólkimu svo við atvinnuleit og unga fólkið fær skólavist og hjálp stuðningsfulltrúa innan hans til að byrja með.

Eflaust er margt sem á eftir að koma fólkinu og krökkunum spánskt fyrir sjónir á Íslandi. Veðráttan er eflaust númer 1 á þeim lista. Verðlagið á án efa eftir að koma þeim á óvart. Líka hvað við Íslendingar erum góðu vön. Hér fær fólk alls konar þjónustu sem flóttafólkið á ekki að venjast í sínu heimalandi. Hér býðst börnum t.d. ókeypis grunnskólamenntun sem ekki er raunin í Úganda því þar var skólakerfið einkavætt fyrir margt löngu.

Flóttafólkið er frábær viðbót við fjölmenninguna í Mosfellsbæ og ekki úr vegi að stefna að fjölmenningarhátíð þegar daginn fer að lengja.

Sigrún H Pálsdóttir, bæjarfulltrúi

Íbúahreyfingin vill fjölga bæjarfulltrúum í Mosfellsbæ

Íbúahreyfingin vill fjölga bæjarfulltrúum í Mosfellsbæ

Tillaga um fjölgun bæjarfulltrúa úr 9 í 11 var á dagskrá bæjarráðs á fimmtudag 15. mars. Á síðasta ári fjölgaði íbúum í Mosfellsbæ um ein 8% og nálgast íbúafjöldinn nú ellefu þúsund. Lög gera ráð fyrir að í bæjarfélögum með yfir tíuþúsund íbúa sé fjöldi bæjarfulltrúa 11-15. Fjölgun bæjarfulltrúa snýst um að efla lýðræðið og er það markmið tillögunnar og reyndar laganna líka.
Fundum bæjarstjórnar er streymt á Youtube og þeir sem vilja hlusta á umræður miðvikudaginn 21. mars kl. 16.30 finna fundinn þar en hann er nr. 713.

En hér erindið:

Undirrituð óskar fyrir hönd Íbúahreyfingarinnar eftir umræðu í bæjarráði um fjölgun bæjarfulltrúa. Íbúar Mosfellsbæjar eru að nálgast 11.000 og gefur stórstíg fjölgun síðustu ára tilefni til að ákveða hvort ekki sé rétt að fjölga bæjarfulltrúum  í upphafi næsta kjörtímabils 2018 til 2022 til samræmis við það sem gert er ráð fyrir í lögum. Í byrjun þessa kjörtímabils var bæjarfulltrúum fjölgað í 9. Svigrúmið var þó ekki fullnýtt, sbr. tillögu hér að neðan.

Sveitarstjórnarstigið er lýðræðislegur vettvangur og er kjörnum fulltrúum í sveitarstjórnum ætlað að endurspegla vilja íbúa. Af fjölgun íbúa leiðir því fjölgun bæjarfulltrúa og um leið styrking lýðræðis.

Tillagan sem óskast rædd er eftirfarandi:

Bæjarfulltrúi Íbúahreyfingarinnar leggur til að bæjarfulltrúum verði fjölgað í 11 frá og með sveitarstjórnarkosningum 2018. Heimild í lögum um fjölgun sveitarstjórnarfulltrúa hefur ekki verið nýtt til fulls en skv. 11. sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011 er sveitarfélögum með 2.000 til 9.999 íbúa heimilt að hafa allt að 11 sveitarstjórnarfulltrúa. Sveitarfélögum með fleiri en 10.000 íbúa er heimilt að hafa 11-15 sveitarstjórnarfulltrúa.

Tillaga Íbúahreyfingarinnar  “er í samræmi við þá lýðræðislegu hugsun sem býr að baki sveitarstjórnarstiginu og reglum um kosningar til sveitarstjórna að sveitarstjórnarfulltrúar séu fulltrúar íbúa sveitarfélagsins og geti þar með á virkan hátt endurspeglað vilja íbúanna.”

Sigrún H Pálsdóttir
bæjarfulltrúi
S. 866 9376

Vald er vandmeðfarin auðlind

Vald er vandmeðfarin auðlind

Nýlega fékk undirrituð tölvupóst frá undirmanni bæjarstjóra Mosfellsbæjar með ýmsum ávirðingum sem ýmist voru órökstuddar eða beinlínis rangar. Mátti skilja á póstinum að starfsfólk hefði óljósar hugmyndir um hvort því bæri yfirhöfuð skylda til að aðstoða kjörna fulltrúa við gagnaöflun vegna funda o.fl. Þeir væru allir af vilja gerðir en vissu nú ekki hvernig þeir ættu að snúa sér.

Það er mat kjörinna fulltrúa í Íbúahreyfingunni að Haraldur Sverrisson bæjarstjóri eigi stóran þátt í því að svo er komið að stjórnsýslan hikar við að veita upplýsingar og sinna erindum kjörinna fulltrúa án hans milligöngu. Á kjörtímabilinu hefur hann gert skýlausa kröfu um að blanda sér í samskipti kjörinna fulltrúa og stjórnsýslu, eins og póstsamskipti við starfsfólk staðfesta. Í lýðræðissamfélagi hlýtur það að orka tvímælis að pólitískur bæjarstjóri hafi ávallt slíka milligöngu enda byði það heim hættunni á að bæjarstjóri út frá pólitískum hagsmunum freistist til að tefja mál og takmarka upplýsingagjöf.

Það verður seint sagt um bæjarstjórann og félaga hans í Sjálfstæðisflokknum og Vinstri grænum að þeir hafi látið sér annt um góð samskipti kjörinna fulltrúa við stjórnsýslu. Fund eftir fund hafa þau stigið í pontu á opnum fundum bæjarstjórnar og látið að því liggja að í tillögum Íbúahreyfingarinnar um umbætur í hinum og þessum málaflokkum felist gagnrýni á störf starfsmanna. Þetta hefur verið mjög ógeðfellt og til þess fallið að spilla samskiptum við starfsmenn. Á tímabili kvað svo rammt að þessu að fulltrúar Samfylkingarinnar sáu sig knúna til að taka sérstaklega fram að í tillögum þeirra fælist ekki gagnrýni á starfsfólk.

Það er ekki að ófyrirsynju að Íbúahreyfingin lætur sig stjórnarhætti í Mosfellsbæ varða. Hér er eitthvað mikið að. Bæjarstjóri Haraldur Sverrisson herðir sífellt tökin og ef fram heldur sem horfir er stutt í að í Mosfellsbæ líði lýðræðið undir lok.

Á fundi bæjarráðs í morgun bar undirrituð upp tillögu sem bæjarstjóri vildi hafna og forseti bæjarstjórnar vísa frá. Lyktir urðu svo þær að afgreiðslu var frestað. Tilgangur tillögunnar var og er að skýra hlutverk stjórnsýslunnar gagnvart kjörnum fulltrúum. Ekki vegna þess að við teljum að stjórnsýslunni sé ekki kunnugt um hlutverk sitt, heldur til að skýra þessi réttindi kjörinna fulltrúa fyrir bæjarstjóranum og félögum hans.

Tillaga Íbúahreyfingarinnar hljóðar svo: 

Bæjarráð felur bæjarstjóra að gera starfsmönnum grein fyrir hlutverki þeirra gagnvart kjörnum fulltrúum með hliðsjón af sveitarstjórnarlögum, stjórnsýslulögum, upplýsingalögum og samþykkt um stjórn Mosfellsbæjar.

Kjörnir fulltrúar eiga allt sitt undir lipri þjónustu starfsmanna og góðu aðgengi að gögnum í vörslu bæjarins. Skv. lögum á það að vera hluti af daglegum störfum stjórnsýslunnar að þjóna kjörnum fulltrúum með því að afhenda þeim skjöl úr gagnasöfnum, afla gagna og greina upplýsingar sem auðvelda þeim að taka ákvarðanir, undirbúa fundi og sinna eftirlits- og stefnumótunarhlutverki sínu í sveitarstjórn.

Skv. 20. gr. samþykktar um stjórn Mosfellsbæjar á aðgangur kjörinna fulltrúa að stofnunum og fyrirtækjum Mosfellsbæjar í tengslum við upplýsingaöflun að vera óhindraður hvenær sem er á opnunartíma. Feli óskir kjörinna fulltrúa í sér mikið vinnuframlag starfsmanna hafa beiðnir að sjálfsögðu farið í gengum bæjarstjóra sem er framkvæmdastjóri bæjarins. Á þessu hefur þó verið sú undantekning að kjörnir fulltrúar snúa sér beint til formanna nefnda, sviðsstjóra og fulltrúa þeirra þegar um er að ræða óskir um mál á dagskrá og öflun, greiningu og samantekt á upplýsingum.

Bæjarfulltrúi Íbúahreyfingarinnar telur að núgildandi fyrirkomulag sé ágætt eins og það er og sér ekki ástæðu til að bæjarstjóri hafi frekari milligöngu um samskipti kjörinna fulltrúa í nefndum við stjórnsýslu en hefð er fyrir. Það má jafnvel færa rök fyrir því að milliganga bæjarstjóra stangist á við það markmið upplýsingalaga að auðvelda aðgengi að upplýsingum í opinberri stjórnsýslu. Undirbúningstími fyrir fundi er oft naumur og breyting til þess fallin að tefja og jafnvel takmarka aðgang kjörinna fulltrúa að upplýsingum.

Vald er vandmeðfarin auðlind. Bæjarfulltrúar eru allir jafnir fyrir lögum og eiga rétt á sömu þjónustu. Það er mikilvægt að á því leiki enginn vafi.

Sigrún H Pálsdóttir, bæjarfulltrúi Íbúahreyfingarinnar
S. 866 9376

Viðbót til frekari skýringar 9. apríl 2018.

Skv. frétt á visir.is svaraði Umboðsmaður Alþingis nýverið kvörtun tveggja bankaráðsmanna yfir nýjum starfsreglum Seðlabankans sem þeir telja að takmarki svigrúm ráðsins til að gegna lögbundnu eftirlitshlutverki sínu.

Svar umboðsmanns alþingis styrkir það álit bæjarfulltrúa Íbúahreyfingarinnar að ekki standist skoðun að bæjarstjóri Mosfellsbæjar hafi milligöngu um upplýsingaöflun bæjarfulltrúa innan stjórnsýslunnar.

“Í fyrsta lagi var í kvörtuninni gerð athugasemd við þá lagatúlkun Seðlabankans að bankaráðið gæti ekki kallað eftir upplýsingum frá starfsmönnum bankans, milliliðalaust, nema með samþykki og aðkomu seðlabankastjóra.”

Í bréfi umboðsmanns Alþingis er umrætt eftirlitshlutverk bankaráðs tíundað og tekið fram að ganga verði út frá því að ráðið „geti kallað eftir hverjum þeim upplýsingum og skýringum um starfsemi bankans sem það telur þörf á til að rækja lögbundið hlutverk sitt“.

http://www.visir.is/g/2018180409715

Laun bæjarfulltrúa og stjórnenda hjá Mosfellsbæ – Fyrirspurn

Laun bæjarfulltrúa og stjórnenda hjá Mosfellsbæ – Fyrirspurn

Það er tímans tákn að upplýsingar um greiðslur úr opinberum sjóðum skuli vera aðgengilegar almenningi. Launakjör stjórnmálamanna og stjórnsýslu eru þar á meðal. Mikið er rætt um nauðsyn þess að efla trú almennings á stjórnmálum og stofnunum þessa lands. Væri ekki skref í rétta átt að láta þessar upplýsingar í té? Upplýsingalög taka reyndar af allan vafa um að þessar upplýsingar skuli veita þeim sem eftir þeim óska. Íbúahreyfingin ákvað að láta á það reyna og hefur sent Mosfellsbæ eftirfarandi fyrirspurn:

Undirrituð óskar eftir upplýsingum um útgjöld bæjarsjóðs vegna greiðslna til bæjarfulltrúa og varamanna þeirra og helstu yfirmanna stjórnsýslu Mosfellsbæjar. Með greiðslum er átt við föst mánaðarlaun og aðra kostnaðarliði. Markmiðið er að fá tölur til samanburðar og upplýsingar um útgjöld bæjarsjóðs.

1) Launakjör bæjarfulltrúa

Óskað er eftir sundurliðuðum upplýsingum um launakjör hvers bæjarfulltrúa og varamanna sem taka þeirra sæti. Átt er við föst mánaðarlaun vegna setu í bæjarstjórn, bæjarráði, nefndum og formennsku í nefndum. Þá er og óskað upplýsinga um fastar og breytilegar greiðslur til einstakra bæjarfulltrúa í formi bílastyrkja, endurgreidds bifreiðakostnaðar, endurgreidds útlagðs kostnaðar, síma- og netkostnaðar og laun varamanna vegna fundasetu í bæjarstjórn og bæjarráði. 

2) Launakjör framkvæmdastjóra sviða, yfirmanna og lykilstarfsmanna

Auk þess er óskað eftir sundurliðuðum upplýsingum um launakjör einstöku framkvæmdastjóra sviða og föst laun yfirmanna og lykilstarfsmanna á bæjarskrifstofu, ásamt upplýsingum um fasta og breytilega yfirvinnu, bílastyrki, endurgreiddan bifreiðakostnað, endurgreiddan útlagðan kostnað og síma- og netkostnað.

3) Launakjör bæjarstjóra

Einnig er óskað eftir upplýsingum um mánaðarlaun bæjarstjóra og greiðslur sem hann fær þar fyrir utan fyrir setu í nefndum, kostnað vegna fastrar og breytilegrar yfirvinnu, bílastyrks, endurgreiddan reksturskostnað bifreiðar, ferðakostnað, kostnað vegna risnu og vegna síma- og netkostnaðar.

4) Greiðslur vegna starfslokasamninga

Auk þess er óskað eftir upplýsingum um kostnað Mosfellsbæjar vegna biðlauna og/eða starfslokasamninga við einstaka framkvæmdastjóra, yfirmenn og lykilstarfsmenn á fjárhagsárunum 2016 og 2017.

Tímabilin sem óskað er upplýsinga fyrir eru fjárhagsárið 2016 og fjárhagsárið 2017. Til skýringar skal tekið fram að auk bæjarfulltrúa og varamanna þeirra, er með tilvísun til helstu yfirmanna átt við framkvæmdastjóra fjölskyldu-, fræðslu- og umhverfissviðs, forstöðumenn þjónustu- og samskiptadeildar, mannauðsdeildar og fjármáladeildar, auk lögmanns bæjarins, byggingarfulltrúa, skipulagsfulltrúa og umhverfisstjóra.

Með kveðju,
f.h. Íbúahreyfingarinnar
Sigrún H Pálsdóttir, bæjarfulltrúi
S. 866 9376

Framtíð Hlégarðs í Mosfellsbæ – Hugleiðingar

Framtíð Hlégarðs í Mosfellsbæ – Hugleiðingar

Málefni Hlégarðs eru nú til umræðu í menningarmálanefnd Mosfellsbæjar. Framtíð hússins er óviss en niðurstaða mikilvæg því hún hefur þýðingu fyrir svarið við þeirri spurningu hvort Mosfellsbær er úthverfi frá Reykjavík í félagslegu og menningarlegu tilliti eða bæjarfélag með sterka sjálfsímynd.

Um langt skeið hefur húsið verið leigt út til einkaaðila sem samið hafa um reksturinn við bæinn. Einn slíkur samningur er nú að renna sitt skeið og mál margra að rétt sé að endurskoða hann, áður en lengra er haldið, með það að leiðarljósi að efla félagslegan þátt starfseminnar og auka framboð og um leið fjölbreytni viðburða. Sú staðreynd að Hlégarður er eina samkomuhús Mosfellinga leggur bæjaryfirvöldum ríkar skyldur á herðar.

Félagsheimilið Hlégarður var byggt um miðja síðustu öld. Nú er 21. öldin gengin í garð og félagslegar forsendur allt aðrar. Sú spurning vaknar hvort yfirhöfuð sé þörf fyrir samkomuhús í Mosfellsbæ. Til þess að varpa ljósi á það er vert að skoða upphafið og rekja sig þaðan til dagsins í dag.

Upp úr 1900 urðu miklar breytingar á búsetu fólks á Íslandi. Þéttbýli tók að myndast og úr þeim jarðvegi spruttu m.a. ungmennafélög sem þurftu þak yfir höfuðið.  Í loftinu lá krafa um að blása lífi í íslenskt menningarlíf. Lítil samkomuhús litu dagsins ljós en eftir því sem leið á öldina fjölgaði stærri félagsheimilum á borð við Hlégarð. Framan af hýstu þessi hús nánast allt félags- og menningarlíf á Íslandi en með tilkomu íþróttamiðstöðva, tónlistarhúsa, leikhúsa, danshúsa, skátaheimila, félagsmiðstöðva eldri borgara og húsnæðis fyrir ýmsa aðra félagsstarfsemi dró úr eftirspurninni. Samkeppnin við kvikmyndahúsin og sjónvarpið hafði líka sín áhrif.

Í upphafi voru samkomuhús samstarfsverkefni félagssamtaka og hreppa. Um miðja öldina lagði ríkið svo sitt lóð á vogarskálarnar með stofnun félagsheimilasjóðs. Sameiginlegur rekstur og bygging samkomuhúsanna tengdi fólkið saman og það sem meira var íbúana og stjórnvaldið. Samkomustaðirnir urðu þannig sameiningartákn. Öflugt félagsstarf styrkti ímynd hreppanna og gaf fólkinu tilfinningu fyrir því að það væri hluti af sterkri liðsheild. Með því að efla félagsstarfið sendu hrepparnir jafnframt frá sér þau skilaboð að búseta þar væri eftirsóknarverð, að sveitin væri sjálfum sér nóg, ekki eftirbátur annarra.

Viðfangsefni bæjarins núna er að skera úr um hvort bæjarfélagið fullnægi þessum þörfum. Hvort það skilgreini sig sem bæjarfélag eða úthverfi, hvort félagsheildin Mosfellsbær sé sjálfri sér nóg? Mælikvarðinn á það eru innviðirnir, ekki síst félags- og menningarlegir.

Ljóst er að skapandi greinar gætu haft mikil not fyrir Hlégarð. Ungmenni, eldri borgarar, íbúasamtök og önnur félagssamtök sömuleiðis. Húsið var byggt til að hýsa leiksýningar, tónlistarflutning, dansleiki og félagsstarf hverskonar. Forsendan fyrir gróskumiklu starfi þessara hópa er að þeir eigi sér afdrep þar sem fólk getur mælt sér mót, æft sig, talað saman og troðið upp í til þess gerðu umhverfi. Á samfélagslegu gildi þess að njóta í sameiningu líðandi stundar „í hléi fyrir mesta vindinum” leikur enginn vafi.

Íbúahreyfingin hefur viðrað þá hugmynd að kalla áhugasama íbúa, félagssamtök og fagfólk til skrafs og ráðagerða um framtíð Hlégarðs. Allir hefðu gagn af því.

Hildur Margrétardóttir, fulltrúi Íbúahreyfingarinnar í menningarmálanefnd og Sigrún H. Pálsdóttir, bæjarfulltrúi 

Greinin birtist í Mosfellingi 1. febrúar 2018.

Hér fróðleg ritgerð um Hlégarð: Möguleikar Hlégarðs sem frístundahús fyrir Mosfellinga eftir Elvu Björgu Pálsdóttur.

Hér önnur: Háborgir hreppa. Félagsheimili og samkomuhús á 20. öld. Fornleifafræðileg greining á almenningsbyggingum á Íslandi eftir Gylfa Björn Helgason.

Pin It on Pinterest